Þóra Ellen og samstarfsmenn hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin | Háskóli Íslands Skip to main content
30. janúar 2019

Þóra Ellen og samstarfsmenn hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin

""

Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í plöntuvistfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlýtur ásamt þeim Herði Kristinssyni og Jóni Baldri Hlíðberg Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018 fyrir bókina Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær.

Tilnefnt er til verðlaunanna í þremur flokkum, í flokki barna- og ungmennabóka, fræðibóka og rita almenns efnis og fagurbókmennta, og eru fimm bækur tilnefndar í hverjum flokki. Þóra Ellen og samstarfsmenn hennar urðu hlutskörpust í flokki fræðibóka og rita almenns efnis.

Bókin Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar er yfirgripsmesta rit sem út hefur komið um íslenskar plöntur en það er Vaka - Helgafell sem gefur út. Í ritinu eru öllum 467 æðplöntutegundum íslensku flórunnar lýst í máli og myndum auk þess sem fjallað er ítarlega um byggingu, lífsferla og þróun plantna. Segir á heimasíðu Forlagsins að verkið byggist á áratuga vinnu höfunda sem eru meðal fremstu sérfræðinga landsins. 

Þess má geta að Flóra Íslands er einnig tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis 2018 sem veitt verður síðar á þessu ári. 

Þóra Ellen Þórhallsdóttir