Skip to main content
20. janúar 2019

Koma með hakkaþonmenninguna inn í háskólana

""

Þrír nemendur í iðnaðarverkfræði og tölvunarfræði við Háskóla Íslands, þær Fríða Snædís Jóhannesdóttir, Kristjana Björk Barðdal og Sara Björk Másdóttir, standa fyrir hakkaþoninu Reboot Hack á Háskólatorgi helgina 2.-3. febrúar næstkomandi en það er fyrsta hakkaþonið hér á landi sem er haldið innan alþjóðlegu mótaraðarinnar Major League Hacking. Um 30 erlendir þátttakendur hafa skráð sig til leiks.

Þær stöllur segja hakkaþon vera nokkurs konar uppfinningamaraþon eða hálfgerða blöndu af forritunarkeppni og nýsköpunarkeppni þar sem þátttakendur fá rými til þess að læra, hanna, byggja og skapa. Tveir til fimm þátttakendur eru í hverju liði í keppninni og hafa liðin sólarhring til að skapa eitthvað nýtt frá grunni, t.d. forrit, app eða annars konar veflausn. Þetta er fyrsta hakkaþonið hér á landi sem er skipulagt af nemendum fyrir nemendur.

Vilja skapa ríkari hakkaþonmenningu á Íslandi

Hugmyndin kviknaði hjá Söru Björk en hún fékk tækifæri til þess síðasta vor að fylgjast með framkvæmd á nemendadrifna hakkaþoninu Copenhacks í höfuðstöðvum Microsoft í Danmörku. „Þar kynntist ég félaginu Major League Hacking (MLH) og hakkaþonmenningunni sem er til staðar í háskólasamfélögum í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar. Út frá því kviknaði áhugi að halda nemendadrifið hakkaþon á Íslandi,“ segir Sara Björk en hún var í fimm manna liði nemenda frá Háskóla Íslands sem sigraði í hakkaþoni á ráðstefnunni Startup Iceland í Hörpu í fyrravor. 

Teymið fullmótaðist með aðkomu Fríðu og Kristjönu Bjarkar í maí 2018 en þær leituðu til Háskóla Íslands um samstarf um viðburðinn. Þegar Verkfræði- og náttúruvísindasvið skólans hafi boðið fram húsnæði og ýmsan annan stuðning við verkefnið hafi það farið af stað fyrir alvöru og umsóknarferlið hjá MLH hófst. „Við höfum saman þróað hugmyndina algjörlega frá grunni og í kjölfarið skapað vörumerkið og viðburðinn Reboot Hack,“ segir Sara Björk.

Kristjana bætir við að helsti hvatinn að viðburðinum sé sá að þær vilji styrkja og skapa ríkari hakkaþonmenningu á Íslandi „og í leiðinni skilgreina það sem tól fyrir framúrskarandi nemendur á öllum fræðasviðum til þess að skapa eitthvað frá grunni. Hingað til hefur hakkaþonmenningin átt heima inni í fyrirtækjum og hjá stofnunum og ekki sérstaklega komið til móts við nemendur. Við viljum skapa þetta á okkar heimavelli þannig að Reboot Hack verði alltaf óháð og með hagsmuni nemenda í forgrunni,“ segir Kristjana. Hún undirstrikar að allar lausnir eða hugmyndir og tækni sem verði sköpuð á Reboot Hack verði eign þátttakenda. „En við munum bjóða liðum upp á áframhaldandi samskipti við áhugasöm fyrirtæki ef áhugi er á því,“ segir Kristjana enn fremur. 

Reboot Hack fer fram dagana 2. og 3. febrúar á Háskólatorgi og er opið háskólanemum alls staðar að úr heiminum. MYND/Kristinn Ingvarsson

Hluti af Major League Hacking
Sem fyrr segir er keppnin hluti af alþjóðlegu hakkaþonmótaröðinni Major League Hacking sem farið hefur fram víða um heim í vetur. Reboot Hack er því opin bæði innlendum og erlendum nemendum en þær stöllur eiga von á um hundrað þátttakendum og nú þegar hafa um 30 erlendir nemar skráð sig til leiks. „Við erum mjög stoltar af því að vera fyrsta íslenska hakkaþonið sem er hluti af mótaröð Major League Hacking. Útsendari frá MLH verður á viðburðinum til þess að leggja okkur til lið og vera til staðar fyrir alla þátttakendur. Hann kemur líka með vélbúnað sem MLH skaffar fyrir Reboot Hack sem liðin geta notað í lausnum sínum,“ segir Fríða. 

Sara Björk bætir við að bakhjarlar keppninnar leggi til tækni og áskoranir og veiti jafnframt sérstök verðlaun yrir bestu lausnina sem snerti þá tækni og áskorun. Auk þess verða veitt verðlaun fyrir 1. -3. sæti í keppninni. „Við munum segja betur frá verðlaununum þegar nær dregur en við getum með stolti kynnt að partur af verðlaunum fyrir fyrsta sætið eru miðar fyrir alla í vinningsliðinu á ráðstefnudag UTmessunar sem fer fram föstudaginn 8.febrúar, vikuna eftir Reboot Hack,“ segir hún.

Vilja gera Reboot Hack að árlegum viðburði
Aðspurð segir Kristjana drauminn að gera Reboot Hack að árlegum viðburði innan Háskólans og jafnvel í samstarfi við aðra háskóla. „Við erum að skoða hvort hægt sé að búa til námskeið innan Háskólans sem gengur út á viðburðarstjórnun tengda nýsköpun og framkvæmd viðburðarins Reboot Hack,“ segir hún enn fremur.

Þótt keppninni ljúki formlega 3. febrúar lýkur störfum þremenninganna ekki þá. „Meðal samstarfsaðila okkar er félagið Ský sem skipuleggur UTmessuna í Hörpu. Aðstandendur messunnar hafa boðið okkur að kynna hakkaþonið í Kaldalóni á opna degi UTmessunar 9. febrúar. Þar munum við segja frá viðburðinum og fá valda samstarfsaðila og mögulega vinningsliðið til þess að koma með okkkur,“ segir Fríða.

Þær stöllur hvetja nemendur Háskóla Íslands af öllum fræðasviðum til að kynna sér og taka þátt í keppninni því hún henti öllum þeim sem hafi áhuga á nýsköpun og frumkvöðlastarfi.  Skráning í keppnina fer fram á heimasíðu hennar.

Það má einnig fylgjast með fréttum af Reboot Hack á Facebook-viðburði keppninnar

Fríða Snædís Jóhannesdóttir, Kristjana Björk Barðdal og Sara Björk Másdóttir