Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 6. maí 2021

5/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2021, fimmtudaginn 6. maí var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 11.30.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Guðvarður Már sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 4. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a.    Ársreikningur Háskóla Íslands 2020, sbr. fund ráðsins 15. apríl sl.
Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðum ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2020. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum.
– Rektor falið að undirrita ársreikning Háskóla Íslands 2020 fyrir hönd Háskólans.

b.    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-mars 2021.
Jenný Bára fór yfir framlagt yfirlit um rekstur Háskóla Íslands tímabilið janúar-mars 2021. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna. Fram kom að rekstur Háskóla Íslands er í jafnvægi.

Jenný Bára vék af fundi.

c.    Sumarstörf nemenda.
Inn á fundinn kom Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs og gerði grein fyrir átaki stjórnvalda til að fjölga sumarstörfum fyrir nemendur hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Háskóli Íslands tekur þátt í verkefninu í samstarfi við Vinnumálastofnun og hefur skólanum verið úthlutað 195 sumarstörfum. Vinnumálastofnun leggur til meiri hluta launakostnaðar. Rektor bar upp tillögu um að hverju sumarstarfi fylgi miðlægur stuðningur að fjárhæð 50.000 kr. Þar sem talsvert fleiri umsóknir bárust um ráðningu sumarstarfsfólks en úthlutað var er ennfremur lagt til að allir sem óskuðu eftir að ráða sumarstarfsfólk fái heimild til að ráða einn sumarstarfsmann og þeim sem óskuðu eftir að ráða fleiri en einn verði heimilað að ráða fleira starfsfólk, en þá þurfi viðkomandi starfseining/verkefni/deild að bera helming launakostnaðar og hinn helmingurinn verði greiddur með miðlægum stuðningi.
– Samþykkt einróma.

Ragnhildur vék af fundi.

d.    Fasteignafélag Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 4. mars. Staða mála.
Rektor greindi frá stöðu mála varðandi undirbúning að stofnun fasteignafélags Háskóla Íslands. Málið var rætt.

e.    Hótel Saga.
Guðmundur skýrði frá stöðu mála varðandi viðræður um möguleg kaup á Hótel Sögu. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Guðmundur vék af fundi.

3.    Drög stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026 (HÍ26), sbr. starfsáætlun háskólaráðs og fundi ráðsins 5. nóvember sl., 3. desember sl., og 4. mars sl.
Inn á fundinn komu fulltrúar í stýrihópi stefnumótunar Háskóla Íslands, þau Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, formaður, Magnús Þór Torfason, dósent, Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent, Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, og Andrea G. Dofradóttir, verkefnisstjóri stefnuinnleiðingar. Steinunn gerði grein fyrir stöðu stefnumótunarstarfsins, niðurstöðum samráðs og verkefnastofnum. Málið var rætt og svöruðu Steinunn og aðrir fulltrúar í stýrihópnum spurningum ráðsmanna. Áformað er að lokadrög stefnunnar verði rædd á háskólaþingi 25. maí nk. og lögð fram til afgreiðslu í háskólaráði 3. júní nk.

Steinunn, Magnús Þór, Ragnhildur og Andrea viku af fundi.

4.    Tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör heiðursdoktors.
Fyrir fundinum lá tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör heiðursdoktors, umsögn heiðursdoktorsnefndar og greinargerð deildarforseta um samþykkt tillögunnar af hálfu deildar og stjórnar Hugvísindasviðs. Rektor gerði grein fyrir málinu.
– Tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör heiðursdoktors samþykkt einróma. Guðvarður Már tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

5.    Erindi um endurskipun prófdómara á miðbiksprófi, sem tekið var 19.-23. júní 2017.
Inn á fundinn kom Víðir Smári Petersen, lektor og formaður kærunefndar í málefnum nemenda, og Erla Guðrún Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Víðir Smári gerði grein fyrir framlögðu áliti kærunefndar nr. 2020/5 um erindi frá nemanda um endurskipun prófdómara á miðbiksprófi sem tekið var 19.-23. júní 2017. Málið var rætt og svaraði Víðir Smári spurningum ráðsmanna.

Víðir Smári vék af fundi.

Erla Guðrún gerði grein fyrir tillögu að úrskurði háskólaráðs um erindið. Málið var rætt og svöruðu rektor og Erla Guðrún spurningum.
– Samþykkt samhljóða, en fulltrúar nemenda sátu hjá.

Erla Guðrún vék af fundi.

Fundarhlé.

6.    Samtal við alþjóðlegan sérfræðingahóp vegna ytra mats á Háskóla Íslands skv. rammaáætlun Gæðaráðs háskóla (QEF2), sbr. starfsáætlun háskólaráðs:
a.    Undirbúningur.

    Inn á fundinn kom Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri, og ræddi fyrirhugað samtal fulltrúa í háskólaráði við ytri matshóp vegna stofnanaúttektar á Háskóla Íslands. Að því búnu vék hún af fundi.

b.    Samtal.
    Inn á fundinn komu fulltrúar í ytri matshópnum, þau Susan Hunter, President Emerita, University of Maine, BNA, formaður, Abbe Brown, Dean for Student Support, University of Aberdeen, Skotlandi, Bjarki Þór Grönfeldt, doktorsnemi í sálfræði við University of Kent, Bretlandi, Fulltrúi LÍS, Dorte Salskov-Iversen, Head of Department of Management, Society and Communication, Copenhagen Business School, Danmörku, Philip Nolan, President, Maynooth University, Írlandi, og Sijbolt Noorda, President, Magna Charta Observatory, Bologna, Ítalíu, og ræddu við háskólaráð sem hluta af ytra mati á Háskóla Íslands.

7.    Bókfærð mál.
a.    Breyting á 31., 38., 40. og 41. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 (varðar dómnefndir fræðasviða um laus akademísk störf o.fl., tilvísanir á milli reglna og niðurfelling verklagsreglna).
– Samþykkt.

b.    Upplýsingaöryggisstefna ásamt starfsreglum upplýsingaöryggis-nefndar.
– Samþykkt.

c.    Stofnun og bygging Norðurslóðaseturs í Reykjavík.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins.
b.    Hornsteinn lagður að Húsi íslenskunnar.
c.    Þrjú ár í röð á lista háskóla sem hafa mest samfélagsáhrif.
d.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 29. apríl 2021.
e.    Vísindamenn Háskóla Íslands hljóta viðurkenningar á árlegri uppskeruhátíð vísinda á Landspítala.
f.    Samtök evrópskra háskóla (EUA) 20 ára, viðtöl og kynning.
g.    „Fræði og framkvæmd“, grein rektors í Fréttablaðinu 27. apríl 2021.
h.    Viljayfirlýsing um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.
i.    Upplýsingafundur rektors, dags. 6. maí 2021.
j.    Kynning á stöðu jafnlaunavottunar við Háskóla Íslands og niðurstöður launagreiningar (frá mín. 49.25).
k.   Ársskýrsla Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2020.
l.    Drög dagskrár háskólaþings 25. maí 2021.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 14.30.