Forseti og menntamálaráðherra lögðu hornstein að Húsi íslenskunnar | Háskóli Íslands Skip to main content
21. apríl 2021

Forseti og menntamálaráðherra lögðu hornstein að Húsi íslenskunnar

Forseti og menntamálaráðherra lögðu hornstein að Húsi íslenskunnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hornsteinn var lagður að Húsi íslenskunnar síðdegis í dag, síðasta vetrardag. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra lögðu í sameiningu hornstein í vegg þess sem verða mun bókasafn Stofnunar Árna Magnússsonar í íslenskum fræðum.

Hornsteinninn inniheldur meðal annars teikningar hússins, Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða, tvö þeirra handrita sem komu til landsins fyrir 50 árum, að þessu sinni rafræn eintök á USB-kubbi.

Jón Atli Benediktsson háskólarektor og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, tóku á móti gestum og stýrðu athöfninni. 

Í stuttu ávarpi sagði Lilja D. Alfreðsdóttir 0mennta- og menningarmálaráðherra meðal annars: „Dagurinn varpar vonargeisla langt inn í framtíðina og eykur kjark og þrautseigju enda síðasti dagur vetrar.“ Lilja vék svo að samningaviðræðum við Dani um heimkomu fleiri handrita. „Það er markmið okkar að fá fleiri handrit hingað heim til sýningar, ýmist til lengri eða skemmri tíma svo almenningur fái notið þeirra íslensku gersema. Ég er vongóð um að góð niðurstaða náist og opnunarsýningin hér haustið 2022 verði ógleymanleg öllum sem hana sjá.“

Guðni Th. Jóhannesson forseti segir: „Þetta er gleðidagur. Fyrir hálfri öld fengum við handritin heim og nú fögnum við nýrri byggingu sem mun hýsa þau. Þessi sagnaarfur er okkar og mannkyns alls. Gætum hans vel og miðlum honum líka eftir bestu getu.“

Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og skáld, flutti við þetta tækifæri kvæði sem hann orti sérstaklega fyrir viðburðinn. Í kvæðinu fjallar Bergsveinn um tengsl sagnaarfs Íslendinga við söguna og nútímann og fagnar þeirri umgjörð sem nú er risin um hann á Melunum.

Að lokinni athöfninni bauðst gestum að skoða húsið í fylgd arkitekta þess.

Stefnt er að því að Hús íslenskunnar verði afhent eigendum sínum sumarið 2022 og verði tekið í notkun af Háskóla Íslands og Árnastofnun árið 2023. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingunni, en ÍSTAK hf. er aðalverktaki hússins.

Fleiri myndir frá athöfninni

 Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra lögðu í sameiningu hornstein í vegg þess sem verða mun bókasafn Stofnunar Árna Magnússsonar í íslenskum fræðum.