Skip to main content
5. maí 2021

Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt til Háskóla Íslands

Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt til Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands mun taka við verkefnum sem snúa að nýsköpunar- og frumkvöðlamennt ungs fólks og hafa hingað til verið á könnu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þetta var staðfest með viljayfirlýsingu sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúar Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar undirrituðu á dögunum. 

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum mun Nýsköpunarmiðstöð Íslands hætta starfsemi þann 1. júlí en stjórnvöld leggja áherslu á að styðja m.a. áfram verkefni sem snerta nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í leik-, grunn- og framhaldsskólum og starfsþróun kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt sem miðstöðin hefur hingað til sinnt. Verkefnin sem um ræðir eru:

  • Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 
  • Samsýning framhaldsskólanna 
  • Ungir frumkvöðlar – nýsköpunarkeppni í framhaldsskólum, í samstarfi við Junior Achievement og fleiri aðila
  • Gerð námsefnis fyrir nemendur og kennara á sviði nýsköpunar og frumkvöðlamenntar

Þessi verkefnin verða flutt á Menntavísindasvið Háskóla Íslands ásamt einu stöðugildi og mun Eyjólfur Brynjar Eyjólfsson, sem sinnt hefur verkefnunum hjá Nýsköpunarmiðstöð, taka til starfa á Menntavísindasviði fljótlega. Á Menntavísindasviði er mikil reynsla af samstarfi við fyrri skólastig á ýmsum sviðum og býður sviðið upp á framhaldsnám fyrir kennara sem vilja efla þekkingu sína á nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Þá stendur Háskólinn nú þegar að fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að örva sköpunarþrótt ungs fólks, eins og Vísindasmiðjunni, LEGO-hönnunarkeppninni, Ungum vísindamönnum og hefur auk þess verið öflugur bakhjarl og þátttakandi í samstarfsverkefnum eins og Menntamaskínunni og Nýsköpunarkeppni grunnskólanna.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður gerður sérstakur samningur milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins annars vegar og Háskóla Íslands hins vegar um verkefnin. Gert er ráð fyrir að hann sé til þriggja ára en á tímabilinu hyggjast aðilar ræða um framhald verkefnanna og kostun þeirra til framtíðar.

Það voru þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs skólans, og Sigríður Ingvarsdóttir, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem undirrituðu viljayfirlýsinguna í Hátíðasal Háskóla Íslands á dögunum.

Fulltrúar þeirra aðila sem undirrituðu viljayfirlýsinguna á dögunum. Frá vinstri: Sigríður Ingvarsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Lilja D. Alfreðsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Kolbrún Þ. Pálsdóttir. MYYND/Kristinn Ingvarsson