Skip to main content
21. apríl 2021

Þrjú ár í röð á lista háskóla sem hafa mest samfélagsáhrif

Þrjú ár í röð á lista háskóla sem hafa mest samfélagsáhrif - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er þriðja árið í röð á lista yfir þá háskóla sem hafa mest samfélagsleg og efnhagsleg áhrif út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þetta sýnir glænýr listi tímaritsins Times Higher Education.

Listinn nefnist University Impact Rankings og byggist á mati tímaritsins á því hvernig háskólar uppfylla tiltekna mælikvarða sem snerta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif um allan heim og framlag til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og hafa þann tilgang að leiða þjóðir heims í átt að sjálfbærari lifnaðarháttum. Markmiðin snerta m.a. fátækt, fæðuöryggi og hungur, heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, aðgengi að vatni og orku, ábyrga neyslu og framleiðslu, aðgerðir í loftslagsmálum, verndun úthafanna og sjálfbæra nýtingu vistkerfa.

Listi Times Higher Education tekur mið af öllum 17 markmiðunum og fær hver skóli einkunn fyrir frammistöðu sína í tengslum við hvert og eitt heimsmarkmið. Heildarröðun háskólanna byggist svo á frammistöðu þeirra á sviði þriggja heimsmarkmiða þar sem hver háskóli stendur sterkastur að vígi auk frammistöðu á markmiði 17, Samvinnu um markmiðin. 

Háskóli Íslands er talinn standa fremst í markmiðum sem snerta heilsu og vellíðan, nýsköpun og uppbyggingu og ábyrga neyslu og framleiðslu. Samanlagt er Háskóli Islands í sæti 301-400 á lista Times Higher Education en hann nær til alls 1.115 háskólastofnana um allan heim.

University Impact Rankings er ólíkur öðrum þekktum listum yfir fremstu háskóla heims að því leyti að þar er ekki bara horft til rannsókna, kennslu og áhrifa í alþjóðlegu vísindasamfélagi heldur áhrifa á nærsamfélag og alþjóðasamfélag. Sem þjóðarskóli leggur Háskóli Íslands mikla áherslu á að áhrif hans séu sem mest á íslenskt samfélag og styðji það í að takast á við helstu áskoranir samtímans. Um leið hefur vaxandi alþjóðlegt samstarf skólans stuðlað að því að tækifæri hafa skapast til áhrifa víðar í heiminum.

„Það er mjög ánægjulegt að Háskóli Íslands sé þriðja árið í röð á lista yfir þá háskóla í heiminum sem hafa mest samfélagsleg áhrif. Háskólastarfið byggist að stórum hluta á því að hafa góð áhrif á nærsamfélagið og við leitum stöðugt leiða til að bæta okkur og auka þau áhrif. Við tökum enn fremur þátt í Aurora-bandalagi öflugra evrópskra háskóla þar sem áherslan er líka á samfélagsleg áhrif og loftslags- og sjálfbærnimál skipa jafnframt mikilvægan sess í því samstarfi. Við væntum þess að halda áfram að láta gott af okkur leiða á þeim vettvangi íslensku samfélagi til góða,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.  

Yfirlit yfir áhrifamestu háskóla heims samkvæmt University Impact Rankings er að finna á vefsíðu Times Higher Education.

háskólasvæðið