Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 1. október 2020

11/2020

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2020, fimmtudaginn 1. október var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýstu þau Ásthildur, Einar og Ólafur Pétur sig vanhæf til að taka þátt í afgreislu liðar 9d á dagskrá fundarins. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021.
Jenný Bára fór yfir helstu atriði í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2021 með höfuðáherslu á málaflokk frumvarpsins er lítur að háskólum, en frumvarpið var birt að morgni 1. október. Fram kom að ekki liggur fyrir skipting fjár innan einstakra málaflokka.

b.    Rekstraryfirlit fyrstu átta mánaða ársins.
Jenný Bára fór yfir framlagt yfirlit um rekstur Háskóla Íslands fyrstu átta mánuði ársins 2020. Fram kom m.a. að reksturinn er í góðu jafnvægi. Málið var rætt.

Jenný Bára vék af fundi.

c.    Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 10. september sl.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, prófessor, og gerði hann ásamt rektor grein fyrir stöðu mála og viðræðum við fulltrúa fjármálaráðuneytisins um verðmat og flokkun eignasafns Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu rektor og Daði Már spurningum ráðsmanna. Áfram verður unnið að málinu undir forystu rektors á sömu forsendum og áður, sbr. bókun háskólaráðs á síðasta fundi. Stefnt er að því að afgreiða málið á næsta fundi.

Daði Már vék af fundi.

3.    Uppgjör stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021 og undirbúningur nýrrar stefnu fyrir 2021-2026, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Rektor fór yfir uppgjör HÍ21, stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021, og verklag og tímaáætlun við mótun nýrrar heildarstefnu fyrir tímabilið 2021-2026. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

4.    Greining á stöðu Háskóla Íslands á alþjóðlegum matslistum háskóla, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Inn á fundinn kom Baldvin Zarioh, deildarstjóri á vísinda- og nýsköpunarsviði, og gerði grein fyrir mælikvörðum og viðmiðum við röðun háskóla á alþjóðlegum matslistum og stöðu Háskóla Íslands í heild og á einstökum fagsviðum á þeim. Málið var rætt.

Baldvin vék af fundi.

5.    Áhrif COVID-19 á starf Háskóla Íslands.
a.    Staða mála innan Háskóla Íslands.

Rektor fór yfir stöðu mála varðandi viðbrögð Háskóla Íslands við COVID-19 faraldrinum.
b.    Sjónarmið nemenda.
Isabel Alejandra Díaz gerði grein fyrir sjónarmiðum nemenda varðandi áhrif COVID-19 á nám og aðstæður nemenda.

6.    Framtíðarskipan samgöngu- og bílastæðamála á háskólasvæðinu, sbr. fund háskólaráðs 6. febrúar sl. og starfsáætlun ráðsins. Staða mála/tillögur starfshóps.
Inn á fundinn komu Sigríður Sigurðardóttir, fráfarandi sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu. Sigríður fór yfir stöðu mála varðandi framtíðarskipan samgöngu- og bílastæðamála á háskólasvæðinu, m.a. með hliðsjón af drögum að tillögum starfshóps og framkomnum umsögnum um þær. Málið var rætt og svöruðu Sigríður og Guðmundur spurningum ráðsmanna. Áfram verður unnið að málinu og útfærslu þess og mun það koma aftur til kasta ráðsins síðar í vetur.

Sigríður og Guðmundur viku af fundi.

7.    Erindi vegna skrásetningargjalds ásamt drögum að niðurstöðu háskólaráðs.
Inn á fundinn kom Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og fór yfir erindi nemanda vegna skrásetningargjalds og drög að ákvörðun háskólaráðs um það. Málið var rætt og svaraði Björn Atli spurningum.
– Samþykkt með átta atkvæðum að rektor svari erindinu f.h. háskólaráðs í samræmi við framlögð drög, en einn sat hjá og tveir voru á móti.

Fulltrúar nemenda lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Undirritaðar sjá sér ekki fært að kjósa með því að hafna erindi stúdents við Háskóla Íslands, um að fá úr því skorið hvort skrásetningargjöld við Háskóla Íslands séu réttmæt og rúmist innan ramma laganna, eftir að hafa kynnt sér lagagrundvöll erindisins. Teljum við að tilefni sé til að endurskoða kostnaðarliði skrásetningargjaldsins.

Innheimta þjónustugjalda í formi skrásetningargjalda skv. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla er m.a. bundin þeim skilyrðum að þjónustan sem rukkað er fyrir má ekki teljast til kostnaðar við kennslu og rannsóknarstarfsemi. Við teljum að 1., 4., 6., 9. og 10. töluliðir viðauka B við reglur nr. 244/2014 um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl. og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds, fari í bága við 2. mgr., 24. gr. laga um opinbera háskóla.

Við teljum umræðuna um skrásetningargjöldin villandi þar sem þeim er m.a. ætlað að standa straum af kostnaði við próftöku nemenda og minnir það helst á skólagjöld. Vegna þessa fögnum við því að skrásetningargjaldið sé í starfsáætlun háskólaráðs og að umræða um það muni eiga sér stað. Sú umræða er réttmæt en skrásetningargjöldin draga úr jöfnu aðgengi fólks til náms. Um er að ræða gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir stúdenta enda hefur gjaldið árleg áhrif á stúdent sem sækir sér menntun við Háskóla Íslands.
Jessý Jónsdóttir
Isabel Alejandra Diaz“

Björn Atli vék af fundi.

8.    Starfsemi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., sbr. starfsáætlun háskólaráðs, ásamt erindi frá stjórn VHÍ.
Inn á fundinn komu þeir Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasvið og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. (VHÍ), og Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri VHÍ, og gerðu grein fyrir málefnum VHÍ. Málið var rætt.

Fyrir fundinum lá jafnframt erindi frá stjórn VHÍ um staðfestingu á tveimur uppfærðum samningum ásamt viðauka. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.

9.    Bókfærð mál.
a.    Starfsáætlun háskólaráðs 2020-2021, sbr. fund ráðsins 10. september sl.

– Samþykkt.

b.    Breyting á 7. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Endurskoðunarnefnd verði ein af starfsnefndum háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.

c.    Starfsreglur endurskoðunarnefndar háskólaráðs og breyting á erindisbréfi innri endurskoðanda.
– Samþykkt.

d.    Skipun endurskoðunarnefndar háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt. Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson og Ólafur Pétur Pálsson tóku ekki þátt í afgreiðslu málsins.

e.    Breyting á starfsreglum háskólaráðs.
– Samþykkt.

f.    Starfsreglur hæfnisnefnda til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu forseta fræðasviða Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

g.    Breyting á umsóknarfresti um rannsóknamisseri kennara.
– Samþykkt.

h.    Öryggisstefna Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

i.    Skipan öryggisnefndar Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

j.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Fjöldatakmörkun í klíníska lyfjafræði, þrír nemendur teknir inn háskólaárið 2020-2021.
– Samþykkt.

10.    Mál til fróðleiks.
a.    Stjórn Rannsóknasjóðs Össurar og Ottobock.
b.    Námsstjórn meistaranáms í talmeinafræði.
c.    Hugvísindaþing 2020.
d.    Ný staða við Háskóla Íslands í minningu skálda í Vesturheimi.
e.    Háskóli Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands í samstarf á Breiðdalsvík.
f.     Nýtt rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík.
g.    Erlendum nemum á eigin vegum fjölgar í Háskóla Íslands.
h.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 30. september 2020.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.30.