Skip to main content
3. september 2020

Erlendum nemum á eigin vegum fjölgar í Háskóla Íslands

Yfir sjöhundruð nemendur með erlent ríkisfang hefja nám við Háskóla Íslands í haust, þar af 174 skiptinemar og 543 á eigin vegum. Skiptinemum fækkar töluvert milli ára en nemum á eigin vegum fjölgar hins vegar. 

Í vor stefndi í umtalsverða fjölgun skiptinema en vegna COVID-19-faraldursins ákváðu margir erlendir samstarfsskólar að senda ekki nemendur í skiptinám þetta haustið. Auk þess hafði óvissa um þróun faraldursins víða um heim áhrif á ákvörðun sumra skiptinema að halda til Íslands. Þannig voru alls 264 nemendur tilnefndir í skiptinám við HÍ en 174 skiluðu sér. Erlendum nemum á eigin vegum hefur hins vegar ekki fækkað á milli ára heldur þvert á móti fjölgað. Þeir voru 517 í fyrra en 543 í ár.

Móttaka erlendra nema með breyttu sniði
Kynningardagar fyrir erlenda nýnema voru haldnir dagana 27. og 28. ágúst. Dagskráin var blanda af viðburðum á háskólasvæðinu og viðburðum á rafrænu formi. Á kynningarfundum sviða gátu nemendur valið milli þess að mæta á staðinn eða fylgst með streymi að heiman. Fulltrúar frá Skrifstofu alþjóðasamskipta og alþjóðafulltrúi SHÍ mættu á sviðsfundina og buðu nemendur velkomna.

Náms- og starfsráðgjöf bauð upp á námskeiðið The Keys to Success at the University of Iceland þar sem nemendur fá leiðbeiningar um hvernig vænlegast sé að ná árangri í námi við Háskólann og njóta dvalarinnar á Íslandi. Þá gátu áhugasamir nemendur tekið þátt í örnámskeiði í íslensku, Icelandic in 90 minutes. Að þessu sinni voru námskeiðin haldin í gegnum Zoom og tókst vel til við að virkja nemendur til þátttöku.

Til þess að auðvelda nemendum að aðlagast íslenskri menningu og samfélagi fengum við Villa Neto til að taka saman skemmtilegt myndband þar sem hann fer yfir nokkur sérkenni Íslendinga.
Þá skipulagði Alþjóðanefnd SHÍ viðburð þar sem erlendir nemar hittu mentorana sína sem leiddu hópana um háskólasvæðið og stýrðu leikjum. 

Ný upplýsingagátt var sett upp á vef skólans þar sem m.a. má finna dagskrá kynningardaganna, upplýsingar um viðburði, ávarp rektors og alla helstu þjónustu í boði. 

Myndir frá kynningardögunum

Háskólatorg
Icelandic in 90 minutes
Keys to Success
Fundir sviða
Fundir sviða