Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 1. nóvember 2018

10/2018

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2018, fimmtudaginn 1. nóvember 2018 var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Davíð Freyr Jónsson (varamaður fyrir Siv Friðleifsdóttur), Guðrún Geirsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ragna Árnadóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Ólafur Pétur Pálsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Valdimar Víðisson boðaði forföll og varamaður hans einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði og forseti Félagsvísindasviðs, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Þriggja ára áætlun um starfsemi og rekstur og ársáætlun, sbr. bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis 3. október sl. [sbr. fjárlaga- og áætlanagerð ríkissjóðs].
Rektor og Jenný Bára gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Ekki voru gerðar athugasemdir við áætlunina, en hún kemur aftur fyrir ráðið á næstu fundum þess.

b)    Tillaga að mannaflaáætlun Háskóla Íslands, sbr. fyrri fundi ráðsins.
Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar að mannaflaáætlun fyrir Háskóla Íslands. Rektor og Daði Már gerðu grein fyrir tillögunni og var hún rædd ítarlega. Í tillögunni er m.a. gert ráð fyrir að fyrsta árið verði notað til að móta viðmið og verklag um innleiðingu mannaflaáætlunarinnar.
– Samþykkt einróma.

Daði Már og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Skipulag háskólasvæðisins, sbr. fund ráðsins 13. september sl., þ.m.t. málefni stúdentagarða, sbr. fund ráðsins 7. júní sl. Staða mála.
Inn á fundinn kom Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Rektor gerði ítarlega grein fyrir aðdraganda og stöðu málsins.

Inn á fundinn kom Kristján Garðarsson arkitekt og lýsti hugmynd teiknistofunnar Andrúms að mögulegri útfærslu á byggingu stúdentagarðs á lóðinni við Gamla garð. Málið var rætt ítarlega og svaraði Kristján spurningum fulltrúa í háskólaráði. Í umræðunni kom fram ánægja með framkomna hugmynd og fyrir liggur að hún verður kynnt á næstunni fyrir stúdentum, á háskólaþingi og víðar.

Kristján vék af fundi.

– Málið verður áfram á dagskrá á næsta fundi háskólaráðs og verður unnið að því á vettvangi framkvæmda- og tæknisviðs á milli funda. Leitast verður við að hraða vinnunni eins og kostur er.

Fulltrúar stúdenta lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Það er sjálfsögð krafa að stúdentar hafi kost á að búa í öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði á háskólasvæðinu. Það er ein besta leiðin til þess að bæta andlega líðan stúdenta og hefur fjölmarga jákvæða kosti í för með sér og með því viðheldur skólinn samkeppnishæfni sinni. Háskólinn í Reykjavík hefur nú tekið skóflustungu að 400 stúdentaíbúðum sem rísa munu við HR, vilji Háskóli Íslands ekki verða eftirbátur annarra verður hann gefa í.

Akademískir starfsmenn árið 2017 við Háskóla Íslands voru 656 (miðað við ársverk), fjöldi stúdenta á biðlista Félagsstofnunar stúdenta voru í haust öllu fleiri eða 729. Fólk býr ekki á biðlistum og fréttir af stúdentum sem gista þurfa á tjaldsvæðum, göngum skólans eða leita á náðir prófessora um húsnæði eru þyngri en tárum taki.

Í samkomulagi sem Háskóli Íslands undirritaði við Reykjavíkurborg í byrjun árs 2016 skuldbatt skólinn sig til þess að nýta lóðina við Gamla-Garð undir stúdentaíbúðir. Háskólinn verður að standa við það samkomulag og gefa Félagsstofnun stúdenta raunhæfan möguleika á að byggja þar líkt og hann hefur lofað.

Þeir stúdentar sem sitja hér frammi á meðan við ræðum þetta mál hafa skýra kröfu. Krafan er sú að við í dag setjum fram tímalínu vegna byggingar við Gamla Garð og að niðurstaða af hálfu Háskólans um endanlegt deiliskipulag liggi fyrir í síðasta lagi um áramót. Deiliskipulag sem gefur FS raunhæfan möguleika á að hefja þar byggingu.

Stúdentar hafa sýnt þessu máli mikla þolinmæði. Við í háskólaráði verðum að sigla þessu máli í höfn sem fyrst og við verðum því fjalla um málið á næsta fundi ráðsins í desember.“

Sigríður vék af fundi.

4.    Tillaga eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda um umgjörð meistaranáms, sbr. fund ráðsins 7. júní sl.
Guðmundur R. Jónsson, formaður eftirfylgninefndar, gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma. Kennslusviði og Miðstöð framhaldsnáms falið að fylgja málinu eftir.

Guðmundur R. vék af fundi.

5.    Erindi frá doktorsnema.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Björn Atli gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um erindið og tillögu að afgreiðslu háskólaráðs. Málið var rætt og svöruðu þau Björn Atli og Guðbjörg Linda spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt samhljóða að vísa málinu frá og jafnramt að leiðbeina doktorsnemanum um kæruleiðir. Benedikt Traustason sat hjá við afgreiðslu málsins.

Guðbjörg Linda og Björn Atli viku af fundi.

6.    Kynning á starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs. Inga Þórsdóttir, forseti fræðasviðsins.
Inn á fundinn kom Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Inga spurningum ráðsmanna.

7.    Bókfærð mál.
a)    Stefna Háskóla Íslands um gæði náms og kennslu, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.

b)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs að stofnun nýrrar námsleiðar í ljósmóðurfræði ásamt viðeigandi breytingum á reglum.
– Samþykkt.

c)    Skipun formanns kærunefndar í málefnum nemenda ad-hoc.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Dagskrá 22. háskólaþings 7. nóvember 2018.
b)    Fulltrúi Háskóla Íslands í nefnd forsætisráðherra um framtíðarstarfsemi á Hrafnseyri og fyrirkomulag hennar, sbr. bréf. dags 17. október sl. Guðmundur Hálfdanarson er tilnefndur af hálfu Háskóla Íslands.
c)    Svar rektors Háskóla Íslands og forstjóra Landspítala, dags. 23. október sl. við bréfi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, dags. 2. október sl.
d)    Glærur frá opnum fundi rektors með starfsfólki 17. október sl.
e)    Fyrsta skóflustungan að nýjum meðferðarkjarna Landspítala.
f)    Háskóli Íslands annað árið í röð í hópi 300 bestu á sviði félagsvísinda.
g)    Stór styrkur til fötlunarfræðinnar.
h)    Nýtt rannsóknasetur sveitarstjórnarmála á Laugarvatni.
i)    Ný fundaröð Menntavísindasviðs, Lærum með leiðtogum.
j)    Dagskrá Þjóðarspegilsins 26. október 2018.
k)    Ný fundaröð rektors, Nýsköpun. Hagnýtum hugvitið.
l)    Bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna beiðni um lagabreytingu.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.05.