Tóku skóflustungu að meðferðarkjarna Landspítala | Háskóli Íslands Skip to main content
15. október 2018

Tóku skóflustungu að meðferðarkjarna Landspítala

""

Fulltrúar úr hópi nemenda Háskóla Íslands, rektor skólans og forseti Heilbrigðisvísindasviðs voru meðal þeirra sem tóku fyrstu skóflustunguna að nýju þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut í blíðskaparveðri laugardaginn 13. október. 

Um er að ræða stærstu bygginguna sem rísa mun í Landspítalaþorpinu nýja, svokallaðan meðferðarkjarna sem gegna mun lykilhlutverki í starfseminni og verða starfs- og námsvettvangur fjölmargra starfsmanna og stúdenta Háskólans. Meðferðarkjarninn verður á sex hæðum auk tveggja hæða kjallara en hann er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss. Húsnæðið verður tengt öðrum starfseiningum Landspítala og einnig Læknagarði Háskóla Íslands en viðbygging við Læknagarð fyrir starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands mun rísa á næstu árum.

„Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Dagurinn í dag markar tímamót í heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Nýtt sjúkrahús mun gerbylta allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki síst fyrir sjúklinga, starfsmenn og aðstandendur,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við þetta tilefni.

Fjöldi manns tók þátt í skóflustungunni, þar á meðal ráðherrar, fulltrúar stofnana og hagsmunasamtaka og ýmissa félaga. Í þeirra hópi voru þau Þórdís Þorkelsdóttir, formaður félags læknanema við Háskóla Íslands, Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ásta María Ásgrímsdóttir, formaður félags hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands.

Við sama tækifæri var skrifað undir samning við verktakafyrirtækið ÍAV um jarðvegsvinnu vegna hins nýja meðferðarkjarna og voru þeir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, vottar að undirskrifti samningsins. Í stuttri ræðu við þetta tilefni benti rektor m.a. á að uppbyggingin skipti Háskóla Íslands miklu máli enda væri Landspítalinn í raun stærsta kennslustofa Háskólans. Margir nemendur sæktu þangað leiðsögn og vinnu í námi sínu auk þess sem fjölmargir starfsmenn á Heilbrigðisvísindasviði skólans störfuðu líka við Landspítala. Sagði hann uppbygginguna á svæðinu einnig skipta miklu máli fyrir samstarf stofnanna tveggja í rannsóknum og þróun nýrrar þekkingar í líf- og heilbrigðisvísindum sem aftur skilaði sér í betri heilbrigðisþjónustu fyrir þjóðina alla. 

Áætlað er að meðferðarkjarninn verði tekinn í notkun árið 2024. Aðalhönnuður hans er Corpus3 hópurinn en Spital-hópurinn sér um gatna-, veitna- og lóðahönnun.

Sprengivinna hafin á framkvæmdasvæðinu
Sprengivinna vegna nýs meðferðarkjarna hefst 15. október og verður aðeins sprengt þrisvar á dag, kl. 11.00, 14.30 og 17.30.

Miklar breytingar verða á ásýnd svæðisins á næstu mánuðum og misserum og munu bílastæði starfsmanna færast á ytri hluta svæðisins. Þannig hafa verið opnuð ný bílastæði norðan við BSÍ sem ætluð eru bæði starfsmönnum og nemendum HÍ og Landspítala en bílastæðum við Vatnsmýrarveg norðan Læknagarðs verður lokað. Bannað er að leggja bílum þar á vegköntum þar sem það heftir för faratækja á vegum verktaka sem hefur starfsstöðvar sínar austast á framkvæmdasvæðinu.

Framkvæmdirnar munu enn fremur hafa ýmis áhrif á aðkomu að starfsstöðvum nemenda og starfsmanna Háskóla Íslands á framkvæmdatímanum og verður fregnum af breytingum á göngu- og akstursleiðum á svæðinu miðlað á vef Háskólans, innri vef skólans og samfélagmiðlum. Einnig eru nýjustu fregnir af framkvæmdum af svæðinu eru birtar reglulega á vefsíðu Hringbrautarverkefnisins.

Landspítalinn hefur útbúið myndband þar sem farið er yfir uppbygginguna á svæðinu á næstu árum
 

Skóflustungan tekin
Jón Atli Benediktsson
Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, og Jón Atli Benediktsson rektor glaðbeitt að lokinn skóflustungu.