Skip to main content
17. október 2018

Háskóli Íslands annað árið í röð í hópi 300 bestu á sviði félagsvísinda

Háskóli Íslands er annað árið í röð í sæti 251-300 yfir bestu háskóla heims á sviði félagsvísinda samkvæmt nýjum lista Times Higher Education University Rankings sem birtur var í dag. 

Tímaritið Times Higher Education hefur í um 15 ár tekið saman lista yfir bestu háskóla heims og hefur Háskóli Íslands verið í hópi þeirra 300 bestu allt frá árinu 2011. Ritið hefur enn fremur birt lista yfir bestu háskóla heims á einstökum fræðasviðum undanfarin ár og verður engin undanteking gerð á því þetta haustið.

Við mat á styrk háskóla á einstökum fræðasviðum er litið til sömu þrettán þátta og við mat á háskólum í heild, m.a. rannsóknastarfs, áhrifa rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.

Times Higher Education birti í fyrstu listana yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum í dag og sem fyrr segir er Háskóli Íslands í hópi þeirra 300 bestu á sviði félagsvísinda. Mat Times Higher Education á bestu háskólunum á því sviði tekur mið af frammistöðu þeirra innan fjölmiðla- og samskiptafræði, stjórnmálafræði og alþjóðasamskipta, félagsfræði og landfræði. 

Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistunum heims á þessu sviði. Hinn er er Shanghai-listinn svokallaði en þess má geta að Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á þann lista á síðasta ári. Shanghai-listinn tekur einnig til einstakra fræðasviða og þar raðast Háskóli Íslands t.d. í sæti 101-150 á sviði landfræði og í sæti 301-400 í stjórnmálafræði í ár.

Alls mun Times Higher Education birta lista yfir fremstu háskóla heims á ellefu fræðasviðum nú í haust en auk þeirra sem greint var frá í dag eru það hugvísindi, lífvísindi, sálfræði, læknisfræði og lýðheilsuvísindi, náttúruvísindi, verkfræði, tækni og  tölvunarfræði. 

Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði félagsvísinda má finna á heimasíðu tímaritsins
 

""