Skip to main content
2. mars 2022

Verðlaunaður fyrir rannsóknir á sviði jarðefnafræði

Verðlaunaður fyrir rannsóknir á sviði jarðefnafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Simon William Matthews, nýdoktor í jarðefnafræði við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlýtur viðurkenningu Jarðvísindasamtaka Lundúna (Geological Society of London) fyrir framlag sitt til rannsókna á sviði jarðefnafræði bergs. 

Geological Society of London er elsta landsfélag jarðvísindamanna í heiminum, stofnað fyrir 215 árum, og er jafnframt það fjölmennasta í Evrópu með yfir 12 þúsund félaga. Félagið veitir árlega verðlaun í nokkrum flokkum til þeirra bresku jarðvísindamanna sem hafa átt eftirtektarvert framlag til jarðvísinda í rannsóknum sínum. Verðlaunin eru bæði veitt þeim sem starfað hafa lengi innan fræðasviðsins og ungum vísindamönnum.

Simon hlýtur viðurkenningu úr svokölluðum Murchison-sjóði en hún er veitt ungum vísindamanni sem birt hefur eftirtektarverðar og framúrskarandi rannsóknir á sviði bergefnafræði eða jarðhnikshreyfinga, annaðhvort í Bretlandi eða á alþjóðavettvangi.

Simon hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu það að öðlast betri skilning á þróun möttulsins og jarðskorpunnar. „Rannsóknirnar snúast um að nýta efnafræðileg fingraför sem finna má í hraunkviku og kristöllum hennar til að varpa ljósi á samsetningu dýpstu hluta Jarðarinnar. Ég mæli þann hárfína mun sem er á frumefnum og samsætum þeirra og finna má í íslensku bergi og kristöllum til þess að reyna að átta mig á hreyfingu efna undir yfirborði jarðar. Þessar hreyfingar í iðrum jarðar eru hluti af stærsta færibandi heims sem ber áfram, geymir og sendir frá sér frumefni sem skipta okkur miklu máli, eins og vetni, kolefni og önnur frumefni sem gegna lykilhlutverki í tækni nútímans,“ segir Simon og vísar til þess hvernig frumefni berast upp úr möttlinum og upp á yfirborð jarðar með hraunkviku í eldgosum.

Frá því að Simon kom til starfa við Háskóla Íslands árið 2020 hefur hann beint sjónum sínum að því hvernig svokölluð rokgjörn frumefni, eins og vetni, kolefni, brennisteinn og klór, eru dreifð í möttlinum undir Íslandi og hvað þau geta sagt okkur um myndun andrúmslofts jarðar. „Þökk sé stuðningi Háskóla Íslands þá vinn ég nú að verkefni sem snýst um það að kortleggja hvar og hvernig bergkvika myndast undir vestara rekbelti Íslands,“ segir Simon en þar á hann við það svæði undir Íslandi þar sem jarðskorpuflekana rekur í sundur og gosefni koma upp. Til rannsóknanna nýtir hann samsætur ólíkra frumefna sem finna má í íslensku bergi, en samsætur er misþungar gerðir sama frumefnis. 

Simon segir það afar spennandi að hljóta þessi verðlaun. „Það er gefandi að vita að vísindasamfélagið kann að meta rannsóknir mínar. Ég hef verið ótrúlega hepppinn að vinna með stórum hópi hvetjandi vísindamanna bæði hér á Íslandi og annars staðar í heiminum og er ég er þeim afar þakklátur fyrir að gera vísindin svo skemmtileg,“ segir Simon. 

Verðlaunin verða formlega afhent á athöfn á vegum Geological Society of London í júní.

Vefsíða Simons Matthews

 

Simon William Matthews