Skip to main content
3. október 2022

Verðlaunaðir fyrir frábæran árangur í stærðfræði

Verðlaunaðir fyrir frábæran árangur í stærðfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Arnar Ágúst Kristjánsson og Kári Rögnvaldsson, nemendur á þriðja ári í stærðfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Sigurðar Helgasonar prófessors fyrir frábæran námsárangur. Verðlaunin nema 12.000 bandaríkjadölum, jafnvirði um 1,7 milljóna króna, sem skiptast jafnt á milli þeirra. Úthlutað var úr sjóðnum á afmælisdegi Sigurðar, en hann varð 95 ára 30. september.

Arnar og Kári luku stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 2020. Þeir hafa sýnt framúrskarandi árangur með því að ljúka næstum öllum stærðfræðinámskeiðum á fyrstu tveimur námsárunum í HÍ með einkunninni 10. Báðir stefna þeir á að útskrifast næsta vor frá Háskóla Íslands og fara í framhaldsnám til útlanda um haustið.

Arnar hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði á stúdentsprófi, hann tók þátt í landskeppnum í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði með góðum árangri og var í liði Íslands á Ólympíuleikunum í stærðfræði 2019 og 2020. Áhugasvið hans liggja víða innan stærðfræðinnar, meðal annars í algebru, rökfræði og grannfræði.

Kári hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og tölvunarfræði á stúdentsprófi. Hann náði eins og Arnar góðum árangri í landskeppnum í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði og var í liði Íslands á Ólympíuleikunum í stærðfræði 2020. Í framhaldsnáminu hyggst hann sérhæfa sig í gagnavísindum og tölfræði. Hann hefur nú  þegar aflað sér reynslu sem aðstoðarmaður við tölfræðirannsóknir, meðal annars við gerð tölfræðilegra líkana fyrir COVID-19.

Um Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar prófessors

Verðlaunasjóður Sigurðar Helgasonar veitir viðurkenningar til stærðfræðinema og nýútskrifaðra stærðfræðinga fyrir góðan árangur og styrkir þá til frekari afreka í námi og rannsóknum.

Stofnandi sjóðsins er Sigurður Helgason, prófessor í stærðfræði við MIT í Boston. Sigurður fæddist á Akureyri 30. september 1927 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Eftir árs nám við verkfræðideild Háskóla Íslands hélt Sigurður til Danmerkur og lauk Mag.Scient.-prófi í stærðfræði 1952 frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann hélt þá til frekara náms við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi 1954 og kenndi síðan við Tækniháskóla Massachusetts (MIT), Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla. Sigurður varð prófessor við MIT árið 1965 og eftir hann liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar um stærðfræði. Hann hefur verið heiðursdoktor við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og er heiðursfélagi Íslenska stærðfræðafélagsins.

Styrktarsjóðir á borð við Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að hvetja nemendur skólans til dáða, efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

Myndir frá afhendingu viðurkenninganna má sjá hér að neðan.
 

Verðlaunahafarnir tveir ásamt rektor og stjórn Verðlaunasjóðs Sigurðar Helgasonar.
Verðlaunahafarnir ásamt fjölskyldum.
Arnar Ágúst Kristjánsson og Kári Rögnvaldsson ásamt gestum við athöfnina.
Ragnar Sigurðsson, prófessor og formaður stjórnar sjóðsins, ávarpar gesti. MYND/Kristinn Ingvarsson
Jón Atli Benediktsson, Sverrir Örn Þorvaldsson og Freyja Hreinsdóttir
Aðstandendur verðlaunahafanna tveggja fjölmenntuna á athöfnina í Hátíðasal.
Kári Rögnvaldsson, Arnar Ágúst Kristjánsson og Ragnar Sigurðsson.
Arnar Ágúst Kristjánsson tekur við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar rektors.
Jón Atli Benediktsson, Kári Rögnvaldsson og Arnar Ágúst Kristjánsson
Kári Rögnvaldsson ásamt fjölskyldu sinni.
Arnar Ágúst Kristjánsson ásamt fjölskyldu sinni.
Gestir við afhendingu styrkjanna úr Verðlaunasjóði Sigurðar Helgasonar.