Skip to main content
30. apríl 2015

Úttekt á gæðum náms við Háskóla Íslands

""

Gæðaráð íslenskra háskóla, sem er skipað sex erlendum sérfræðingum og starfar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006, hefur lokið viðamikilli úttekt á gæðum náms við Háskóla Íslands.  Úttektin er liður í skipulegu eftirliti Gæðaráðs með gæðum íslenskra háskóla með áherslu á nemendur, námsumhverfi og prófgráður. Háskóli Íslands er sjötti háskólinn sem gengst undir slíka gæðaúttekt. 

Úttektin skiptist í tvo hluta, sjálfsmat Háskóla Íslands annars vegar og ytra mat erlends matshóps hins vegar. Sjálfsmatið fór fram á síðasta ári og lauk með ítarlegri sjálfsmatsskýrslu ásamt aðgerðaráætlun sem miðar að því að efla enn frekar gæðastjórnun og gæðamenningu innan Háskólans. Í kjölfarið heimsótti erlendi matshópurinn, sem var skipaður fimm sérfræðingum og einum fulltrúa nemenda, Háskóla Íslands í janúar sl. og fundaði í þrjá daga með um 170 stjórnendum, starfsmönnum og stúdentum Háskólans, auk fulltrúum atvinnulífs. 

Háskóli Íslands fékk fyrstu niðurstöður úr úttektinni strax að henni lokinni og þar kemur fram að Gæðaráð beri traust (confidence) til Háskólans, bæði varðandi prófgráðurnar sem skólinn veitir og námsumhverfi nemenda. Þetta er besta einkunn sem háskóli getur fengið við fyrstu úttekt samkvæmt núverandi kerfi.

Meðal helstu niðurstaðna úttektarinnar má nefna að Háskóla Íslands er hrósað fyrir akademískan styrk og góða starfshætti, m.a. með því að hafa komið á fót Miðstöð framhaldsnáms, framlagi Kennslumiðstöðvar til að efla góða kennsluhætti, virkri þátttöku nemenda í stjórnun Háskólans, viðbrögðum háskólasamfélagsins við efnahagshruninu hér á landi, aukinni rannsóknavirkni akademískra starfsmanna, uppbyggingu og hagnýtingu á upplýsingakerfi, öflugri námsráðgjöf og stuðningi við stúdenta og fyrir vandaðan undirbúning og framkvæmd á sjálfsmatsskýrslum deilda og þverfræðilegra námsleiða Háskólans. Matshópurinn beinir því m.a. til Háskóla Íslands að hann styrki meistaranámið enn frekar, hugi að því að samræma inntökukröfur, greini m.a. betur á milli nemenda fullu námi og hlutanámi, móti stefnu um nýtingu upplýsingatækni í kennslu, gæti að jafnvægi á milli hvatakerfis kennslu og rannsókna, fylgi kennslukönnunum markvisst eftir, veiti stundakennurum aukinn stuðning og skoði gildi markvissara framboðs á doktorsstigi. 

Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar á opinni ráðstefnu sem haldin verður í Háskóla Íslands 8. júní nk. Jafnframt mun Háskólinn, innan árs, taka saman skýrslu um viðbrögð hans við þeim ábendingum sem fram koma í skýrslu matshópsins.

Skýrslu erlenda matshópsins er að finna hér.

Sjálfsmatið fór fram á síðasta ári og lauk með ítarlegri sjálfsmatsskýrslu ásamt aðgerðaráætlun sem miðar að því að efla enn frekar gæðastjórnun og gæðamenningu innan Háskólans.
Sjálfsmatið fór fram á síðasta ári og lauk með ítarlegri sjálfsmatsskýrslu ásamt aðgerðaráætlun sem miðar að því að efla enn frekar gæðastjórnun og gæðamenningu innan Háskólans.