Skip to main content
10. október 2023

Styrkir til framhaldsnáms í Bandaríkjunum

Styrkir til framhaldsnáms í Bandaríkjunum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stofnun Leifs Eiríkssonar (Leifur Eiriksson Foundation) auglýsir styrki fyrir íslenska stúdenta til framhaldsnáms í Bandaríkjunum skólaárið 2024-2025. Upphæð styrkja nemur allt að 25.000 bandarískum dollurum og gert er ráð fyrir að úthluta allt að tíu styrkjum fyrir næsta skólaár. Sex íslenskir nemar fengu styrk úr sjóðnum fyrir yfirstandandi skólaár.

Umsækjendur sem lokið hafa námi frá háskólum á Íslandi og eru íslenskir ríkisborgarar geta sótt um styrk til að stunda framhaldsnám við bandaríska háskóla. Nám á öllum fagsviðum er styrkhæft.

Frekari upplýsingar og umsóknarform er að finna á www.leifureirikssonfoundation.org.

Umsóknarfrestur er til 17. nóvember 2023. 

Stofnun Leifs Eiríkssonar var sett á laggirnar árið 2001 til að minnast siglingar Leifs Eiríkssonar til Norður-Ameríku þúsund árum áður og til að styrkja íslenska nemendur til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og bandaríska nemendur til náms á Íslandi. Sjóðurinn hefur verið í vörslu sjóðsstjórnar (endowment fund) University of Virginia og nemur nú um 1,2 milljarði króna.

Ellefu fengu styrk í ár

Ellefu íslenskir og bandarískir háskólanemar hlutu styrki úr sjóðnum til framhaldsnáms á skólaárinu 2023-24 en styrkjum var úthlutað fyrr á árinu. 

Íslensku styrkþegarnir eru 6 talsins og munu stunda meistara- eða doktorsnám í Bandaríkjunum á sviðum fjölmiðla- og menningarfræði, iðnaðarverkfræði, lögfræði, lífefna- og sameindalíffræði og rafmagnsverkfræði. 

Bandarísku styrkþegarnir eru 5 talsins og munu stunda nám í líffræði við Háskóla Íslands, orkuverkfræði og orkuvísindum við Háskólann í Reykjavík, umhverfis- og auðlindafræði við HÍ, tónlistar- og hljóðlistarfræði við Listaháskóla Íslands, Árnastofnun og Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði og í fiskalíffræði við Háskólann á Hólum.

Íslensku nemendurnir sem hlutu styrk eru:

Islenskir styrkthegar

Hanna Þráinsdóttir til meistaranáms í fjölmiðla- og menningarfræði við New York University með áherslu á menningaráhrif fjölmiðlunar á Íslandi. Hanna lauk BA-námi frá Georgian Court University í New Jersey. 

Ingvar Þóroddsson til doktorsnáms í iðnaðarverkfræði og aðgerðagreiningu við University of California Berkeley. Rannsóknirnar eru þverfræðilegar á sviðum verkfræði, stærðfræði, tölvunarfræði, hagfræði, fjármálafræði og stefnumótunar. Ingvar lauk BS-námi í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands.

Ivana Anna Nikolic til LLM-náms í lögfræði við Harvard-háskóla í Boston með áherslu á mannréttindalögfræði, viðskipta- og samanburðarrétt. Ivana lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands. 

Kjartan Skarphéðinsson til rannsókna á sviði frumulíffræði við University of Pennsylvania. Rannsóknaverkefnið er hluti af meistaranámi Kjartans í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. 

Óttar Snær Yngvason til meistaranáms í rafmagnsverkfræði við Stanford-háskóla í Kaliforníu með áherslu á hálfleiðara, hönnun rása og gervigreind í listum. Hann lauk BS-gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands. 

Sigurbjörn Bernharð Edvardsson til LLM-náms í lögfræði við Harvard-háskóla í Boston með áherslu á alþjóðleg réttarkerfi frá lagalegu, heimspekilegu og samfélagslegu sjónarhorni. Sigurbjörn lauk meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands. 

Bandarísku nemendurnir sem hlutu styrk til að stunda nám á Íslandi eru: 

bna styrkthegar

Moira Aileen Brennan til meistaranáms í líffræði við Háskóla Íslands við rannsóknir á atferli og lífsháttum eyruglu í íslenska vistkerfinu. Moira lauk BS-námi frá Stevens Institute of Technology í New Jersey. 

Katelin Collier til meistaranáms í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands með áherslu á orkukerfi, loftslagsbreytingar og sjálfbæran landbúnað. Katelin lauk BA-prófi frá University of Pennsylvania.

Taylor Alexandra Martin til meistaranáms í orkuverkfræði og orkuvísindum við Háskólann í Reykjavík með áherslu á sjálfbæra orkunýtingu. Taylor lauk BS-gráðu frá University of Colorado í Boulder. 

Kostantine Vlasis sem stundar doktorsnám við New York University á sviðum tónlistar- og hljóðlistarfræði ólíkra menningarheima. Verkefnið á Íslandi er hluti námsins og mun Konstantine dvelja við Árnastofnun, Listaháskóla Íslands og Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði. 

Daison Weedop til meistaranáms á sviði vistfræði við Háskólann á Hólum með áherslu á rannsóknir á lífsferli og atferli bleikju. Íslandssdvölin er hluti meistaranáms við University of Maine en Daison hlaut BSc gráðu frá Utah State University. 

Stjórn Stofnunar Leifs Eiríkssonar er skipuð Kristínu Ingólfsdóttur, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands sem er formaður, Kristrúnu Heimisdóttur, lögfræðingi og lektor við Háskólann á Bifröst, John T. Casteen, fyrrverandi rektor University of Virginia, Susan Harris, lögfræðingi við University of Virginia, og Nancy Marie Brown rithöfundi. Stjórnin er skipuð af Seðlabanka Íslands, ríkisstjórn Íslands og University of Virginia. Matsnefnd skipuð sérfræðingum úr hópi fyrri styrkþega metur styrkumsóknir og gerir tillögu að úthlutun til stjórnarinnar. Matsnefndin er skipuð þeim Jennifer Grayburn við Mistöð stafrænnar kennslu og opinna vísinda hjá Princeton-háskóla, Herði Jóhannssyni, yfirverkfræðingi hjá Teledyne Gavia, og Arnaldi Hjartarsyni héraðsdómara.

Stytta af Leifi Eiríkssyni