Skip to main content
2. júní 2017

Stóðu fyrir námskeiði um landslag og orkuvinnslu

Vikuna 22.-26. maí sóttu 22 nemendur auk átta kennara námskeið sem haldið var á vegum evrópsks samstarfsnets um orkumál og landslag. Tveir landfræðingar við Líf- og umhverfisvísindadeild, þau Edda R.H. Waage lektor og Karl Benediktsson prófessor, skipulögðu námskeiðið, en þau eru fulltrúar Íslands í samstarfsneti sem fjármagnað er af COST-áætlun Evrópusambandsins. Netið ber yfirskriftina „Renewable Energy and Landscape Quality“ (COST-RELY).

Hnattrænar loftslagsbreytingar eru mál málanna um þessar mundir. Um alla Evrópu og raunar um allan heim er nú lögð mikil áhersla á að breyta orkukerfum þannig að unnt sé að leggja notkun jarðefnaeldsneytis af en taka upp endurnýjanlega orku í staðinn. Hagnýting endurnýjanlegra orkugjafa hefur hins vegar oft í för með sér mikil áhrif á landslag sem bæði kann að vera mörgum kært og einnig vistfræðilega mikilvægt. Víða um Evrópu setja vind- og sólarorkuver þegar mjög mark sitt á landslag og hafa komið upp verulegir árekstrar milli almennings og orkugeirans þegar kemur að skipulagi og staðsetningu slíkra orkumannvirkja. Á Íslandi þekkja allir átökin sem komið hafa upp um bæði vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir þar sem landslagsáhrif eru oftar en ekki í brennidepli. Þörf er á vel ígrunduðu skipulagi þar sem almennum íbúum gefst kostur á að taka þátt og hafa áhrif. Á námskeiðinu var sjónum beint að þessu og fjallað um vald og þátttöku í skipulagi orkuvinnslu.

Fólk frá samtals 18 löndum kom á námskeiðið. Nemendurnir höfðu ólíkan faglegan bakgrunn, þar á meðal landslagsarkitektúr, verkfræði, landfræði og heimspeki, enda viðfangsefnið þess eðlis að það kallar á þverfræðilega nálgun. Þeir spönnuðu allt frá meistaranemum til nýdoktora og ungra sérfræðinga sem þegar eru við störf á sínu sérsviði. Í hópi kennara voru ýmsir vel þekktir fræðimenn á sínum sviðum.

Hin íslenska „Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða“ (Rammaáætlun) var kynnt fyrir nemendum á fyrsta degi. Fulltrúar úr stjórn og faghópum Rammaáætlunar, ásamt fulltrúum Skipulagsstofnunar, Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar og Landverndar gerðu stutta grein fyrir hinum ýmsu hliðum verkefnisins. Næsta dag var farið í vettvangsferð þar sem nokkur virkjunarsvæði voru skoðuð, sem og starfandi virkjanir. Þá fylgdu tveir dagar af stífri hópavinnu, þar sem prófaðar voru ýmsar aðferðir sem nýst geta við skipulagsvinnu af þessu tagi, en einnig fjallað um skipulagsfræðilegar og heimspekilegar undirstöður slíkrar vinnu. Þessi hluti námskeiðsins fór fram í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem hópurinn naut fádæma gestrisni og velvilja sveitarstjóra og annarra. Námskeiðinu lauk með kynningu hópanna á vinnu sinni á opnum fundi í Öskju.

Þátttakendur gerðu góðan róm að námskeiðinu. Ýmislegt kom hinum erlendu gestum á óvart í sambandi við orkumál á Íslandi. Fáir höfðu til að mynda gert sér grein fyrir því að um þrír fjórðu hlutar allrar raforku hérlendis eru nýttir af stóriðjuverum. Ýmsir spurðu gagnrýninna spurninga um heildarskipulag orkumála hérlendis, sem þeim virtist brotakennt. En einnig fannst mörgum áhugavert hve vel hefði tekist til við beina nýtingu jarðhita, svo sem til húshitunar og til grænmetisframleiðslu.

Þátttaka í COST-netum á borð við þetta getur verið mikilvæg vítamínsprauta fyrir rannsóknir og kennslu á þeim sviðum sem þau taka til. Í þeim er ekki aðeins miðlað þekkingu heldur einnig mynduð tengsl sem leiða til frekari samvinnu. Nánari upplýsingar um þetta tiltekna net má finna á vefsíðu þess: http://cost-rely.eu

Nokkrir þátttakenda í námskeiði um landslag og orkuvinnslu við Þjórsá