Skip to main content
27. október 2022

Sagnamaður hinna hopandi íslensku jökla - myndband

Sagnamaður hinna hopandi íslensku jökla - myndband - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það fylgir því mjög sterkt tilfinning að snúa aftur að jökli sem þú þekkir og sjá hann breytast með svo afdrifaríkum hætti, að hluta til yfir áratugi eða jafnvel bara milli ára. Það getur verið yfirþyrmandi stundum og það er hryggilegt til þess að hugsa að sumir þessara staða munu verða óþekkjanlegir innan nokkurra áratuga,” segir Kieran Baxter, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn á Hornafirði.

Kieran hefur ásamt samstarfsfólki sínu þróað nýjar aðferðir í myndmiðlun til þess að koma til skila þeim miklu breytingum sem eru að verða á jöklum landsins. Myndskeið hans af hraðri bráðnun íslensku jöklanna hafa vakið feiknaathygli víða um heim og hafa m.a. fært Kieran tækifæri til þess að vinna með BBC að hinni geysivinsælu þáttaröð Frozen Planet.

Myndefni frá ólíkum tímum splæst saman á nýstárlegan hátt

Kieran hefur um langt skeið verið heillaður af jöklalandslagi. „Þetta landslag  vekur hjá mér góðar tilfinningar og ég hef auðvitað mjög mikilvæga sögu  að segja, sérstaklega núna þegar við sjáum jöklana bráðna hraðar en áður. Mig hefur því alltaf langað til að sameina þetta, myndtæknina og ást mína á þessum stöðum og ég reyni að segja þær sögur sem finna má í landslaginu,“ segir Kieran um upphaf þessara verkefna.

Kieran segir frá rannsóknum sínum á Youtube-rás HÍ

Til að segja þessar mikilvægu sögur notar hann aðferðir sem segja má að séu blanda lista og vísinda en við sögu koma m.a. ljósmyndir, kvikmyndir, drónamyndir og gamlar loftmyndir úr safni Landmælinga Íslands. Þessu efni splæsir Kieran svo saman þannig að til verða afar áhrifarík myndskeið sem sýna hraða bráðnun jökla á Suðurlandi á síðustu áratugum. „Við höfum einnig í auknum mæli komið fyrir myndavélum mjög nálægt jöklunum til þess að fylgjast með breytingunum í nærmynd. Við notum þessa tækni til að fanga myndir sem við nýtum til að varpa ljósi á þá ferla sem við vitum að eru að eiga sér stað en það er allt annað að sjá þá í nærmynd,“ segir Kieran sem vinnur að þessum verkefnum með Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni Rannsóknaseturs HÍ á Höfn, og fleiri aðilum.

„Við höfum þróað nýjar aðferðir, sérstaklega tengdar loftmyndum en þar höfum við sameinað aðferðir sem við fáum að láni úr kvikmyndum og sjónvarpi, tæknibrellur og þrívíddarendursköpun á sumum loftmyndanna. Þetta hefur verið afar áhugaverð og þverfræðileg nálgun þar sem við höfum nýtt aðferðir úr fjölmiðlum og sameinað þær vísindalegum aðferðum og þannig reynt að brúa bilið milli hins vísindalega skilnings og mynda sem almenningur skilur,” útskýrir Kieran.

Mjög afdrifaríkar breytingar af mannavöldum

Myndefni Kierans og félaga leiðir í ljós afar miklar breytingar á landslagi sem notið hefur vaxandi vinsælda hjá þeim stóra hópi ferðamanna sem heimsækja Ísland heim ár hvert. „Við sjáum mjög afdrifaríkar breytingar á  mjög stuttum tíma í þessu myndefni, ekki síst frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag. Við höfum orðið vitni að hraðari bráðnun jökla á Íslandi og þetta má aðeins rekja til aukins útblástur gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum,” bendir Kieran á og bætir við: „Þetta er er því mjög mikilvæg og brýn saga og við höfum tækifæri hér á Íslandi til þess að nýta þetta stórbrotna landslag sem hefur sannarlega áhrif á mann.“ 

Til að segja þessar mikilvægu sögur notar Kieran Baxter aðferðir sem segja má að séu blanda lista og vísinda en við sögu koma m.a. ljósmyndir, kvikmyndir, drónamyndir og gamlar loftmyndir úr safni Landmælinga Íslands. Þessu efni splæsir Kieran svo saman þannig að til verða afar áhrifarík myndskeið sem sýna hraða bráðnun jökla á Suðurlandi á síðustu áratugum. „Við höfum einnig í auknum mæli komið fyrir myndavélum mjög nálægt jöklunum til þess að fylgjast með breytingunum í nærmynd.“

Kemur að vinnslu Frozen Planet II

Kieran og Þorvaldur hafa nýtt ýmsar leiðir til þess að koma efninu á framfæri, m.a. í heimildamyndinni After Ice sem frumsýnd var í fyrra. Myndin hefur verið tekin til sýninga á fjölmörgum kvikmyndahátíðum og unnið til ýmissa verðlauna og viðurkenninga. 

Kirean segir myndmiðilinn og þessar nýju aðferðir afar góða leið til þess að skýra betur fyrir almenningi hvernig gjörðir okkar hafa áhrif á umhverfi okkar og jafnframt miðla niðurstöðum rannsókna. „Þetta er mjög góð leið til þess að skýra betur staðreyndir og tölur, sem er stundum er erfitt að meðtaka, og útskýra með myndum sem auðveldara er að skilja. Við höfum einnig reynt að vinna með fjölmiðlum eins mikið og við getum og höfum fengið umfjöllun og birtingu í fjölmörgum miðlum um allan heim,” segir hann.

Vinna Kierans með nýstárleg þrívíddarlíkön af bráðnun jökla hefur einnig fært honum spennandi tækifæri til þess að ná til stórs hóps. „Við höfum verið að vinna með BBC vegna þáttaraðarinnar Frozen Planet II en það kom til vegna vinnu okkar hér á Íslandi. Þau vildu sýna breytingar um allan heim, í þessu tilviki með sérstaka áherslu á jökla í Ölpunum, og þetta gaf okkur færi á að þróa frekar sumar af þessum aðferðum þannig að við getum nýtt þennan vettvang til þess að sýna breytingarnar á áhrifamikinn hátt með þeim sögulegum myndum sem til eru. Í þessu tilviki vorum við einnig að horfa til breytinga frá tíunda áratugnum til nútímans og þetta var frábært tækifæri til þess að setja saman myndir sem ná munu til stórs áhorfendahóps,” segir Kieran um vinnuna með BBC. 

Fólk oft hissa á umfangi bráðnunarinnar

En hvaða viðbrögð hafa Kieran og samstarfsfólk fengið við efninu. „Fólk verður oft hissa þegar það áttar sig á umfangi þeirra breytinga sem við sjáum að eru að verða á landslaginu en sjást auðvitað ekki í einni heimsókn á þessa staði. Það þarf þessar myndir og samanburðinn til að átta sig á breytingunum og auðvitað er það sorglegt að sjá hversu hratt þessir fallegu staðir eru að hopa. Það er erfitt fyrir okkur að reyna að sýna þessar myndir og það er erfitt að sætta sig við afleiðingar svo afdrifaríkra breytinga af mannavöldum. Við verðum jafnframt að reyna að tengja við þær einhverja von því það er auðvitað heilmargt sem við getum gert til þess að takast á við þær áskoranir í umhverfismálum sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Kieran Baxter að endingu.

Kieran Baxter