Skip to main content
15. nóvember 2023

Ritstýrir bók um vinnuþvingun og hreyfanleika verkafólks

Ritstýrir bók um vinnuþvingun og hreyfanleika verkafólks - á vefsíðu Háskóla Íslands

Bókin Moving Workers: Historical Perspectives on Labour, Coercion and Im/mobilities er komin út hjá hinu virta útgáfuforlagi De Gruyter. Vilhelm Vilhelmsson, sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, er einn af ritstjórum hennar og höfundum efnis. 

Í bókinni er fjallað um samverkan vinnuþvingunar og hreyfanleika verkafólks í sögulegu og hnattrænu samhengi. Hún byggist á þverfræðilegri nálgun og þar er meðal annars reynt að svara því hvernig og hvers vegna verkafólk flutti sig um set eða var tilneytt til flutninga á milli staða, hvernig ráðandi öfl reyndu að stjórna flæði vinnuafls og hvernig hömlur á eða þrýstingur um hreyfanleika mótaði líf og störf verkafólks á ólíkum tímum.

„Bókin er sprottin úr samvinnu ritstjóra og höfunda í COST-styrkta verkefninu Worlds of Related Coercions in Work. Ég stýrði þar einum af fjórum vinnuhópum sem einblíndi á samband hreyfanleika verkafólks og vinnuþvingunar í sögulegu samhengi. Þar kom fljótt fram sú hugmynd að vinna að sameiginlegu útgáfuverkefni og þessi bók varð niðurstaðan af því,“ segir Vilhelm aðspurður um tilurð bókarinnar.

Auk þess að rita inngagnskafla bókarinnar ásamt öðrum ritstjórum bókarinnar er Vilhelm höfundur kafla í bókinni ásamt Emil Gunnlaugssyni sagnfræðingi. „Inngangskaflinn fjallar um þær kenninga- og aðferðafræðilegu áherslur sem liggja bókinni til grundvallar og felast í stuttu máli í því að tvinna saman greiningaraðferðir og rannsóknaráherslur hnattrænnar vinnusögu (e. global labour history) annars vegar og þverfræðilega nálgun rannsókna sem gjarnan eru flokkaðar saman undir heitinu „Mobility studies“ hins vegar. Í kaflanum er rýnt í meiningu hugtaka á borð við vinnuþvingun (e. coerced labour) í sögulegu samhengi og kenningar um orsakir og hlutverk hreyfanleika í skipulagi vinnu á heimsvísu,“ útskýrir Vilhelm.

Emil Gunnlaugsson var um tíma starfsmaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra og á þeim tíma lögðu þeir Vilhelm drög að þeim kafla sem birtist í bókinni og ber heitið „Passports, permits, and labour im/mobility in Iceland, 1780s-1860s“. „Þar fjöllum við um notkun vegabréfa, eða svokallaðra reisupassa, sem stjórntæki yfirvalda við skipulag á nýtingu vinnuafls á Íslandi á 18. og 19. öld, hvernig ráðandi kerfi vistarbands var lagað að þörfum þeirra tveggja atvinnugreina sem þá voru ráðandi, landbúnaðar og sjávarútvegs, og síðast en ekki síst hvernig vinnandi fólk brást við og spyrnti fótum við þessu samtvinnaða kerfi vinnuþvingunar og handstýrðs hreyfanleika,“ segir Vilhelm.

Bókin er fáanleg í harðspjalda útgáfu en einnig í opnu aðgengi á vefsíðu De Gruyter

 

Kápa bókarinnar og Vilhelm