Skip to main content
25. júní 2016

Ræða rektors við brautskráningu 25. júní

""

Forseti Íslands, fyrrverandi forseti Íslands, fyrrverandi rektorar, fræðisviðsforsetar, deildarforsetar, kandídatar, góðir gestir.

Ég óska ykkur, kæru kandídatar, innilega til hamingju með árangurinn sem staðfestur er með prófskírteinum sem þið hafið nú tekið við.

Brautskráning markar tímamót á svo margan hátt en hún einkennist þó fyrst og fremst af gleði og stolti okkar sem hér eru saman komin. Fyrst ber auðvitað að nefna ykkur kandídatana sem í dag eru komnir á áfangastað eftir krefjandi ferðalag; í öðru lagi eru hér fjölmargir aðstandendur sem stutt hafa ykkur kandídata í gegnum þykkt og þunnt. Hér eru líka kennarar og annað starfsfólk Háskóla Íslands sem leiðbeint hefur ykkur kandídötum í náminu. Ég þykist viss um að á þessari vegferð hafa skipst á skin og skúrir, en það er órjúfanlegur hluti þeirrar þroskagöngu sem háskólanám er. Námið býr einstaklinginn undir þau verkefni sem taka við í lífinu, hvort sem er á vettvangi framtíðarstarfa eða í einkalífi. Háskólanám laðar fram margt það besta í fari hvers einstaklings. Fyrir röskum áttatíu árum komst Guðmundur Finnbogason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, þannig að orði um menntahugsjónina: „„Menntun“ er samstofna við „maður“, og að menntast ætti því að þýða „að verða að manni“, verða þannig að allar eigindir mannseðlisins nái hæfilegum þroska.“

Í menntun felast þannig auðæfi sem seint ef nokkurn tíma verða metin til fjár. Halldór Laxness orðaði þessa sömu hugsun eitt sinn þannig að auðæfi væru það sem aðrir ná ekki af manni. En menntun auðgar ekki aðeins líf einstaklingsins heldur eykur hún jafnframt þekkingarauð samfélagsins.

Allt frá stofnun Háskóla Íslands árið 1911 hefur það verið hlutverk hans og köllun að veita nýrri þekkingu inn í samfélagið með því að mennta einstaklinga eins og ykkur sem hér útskrifist í dag. Ég veit að þið eruð öll reiðubúin að takast á við ný verkefni og taka virkan þátt í uppbyggingu samfélags þar sem þekking, samstarf og skapandi hugsun eru nýtt til hins ýtrasta í þágu aukinna lífsgæða og velsældar fyrir alla. Í mínum huga ber okkur brýn samfélagsleg skylda til að stuðla að því að sem flestir fái notið þeirra varanlegu auðæfa sem menntastofnanir landsins búa yfir, óháð efnahag, kyni eða uppruna. Við megum aldrei láta stundarhagsmuni og skammsýni bera okkur af leið eða villa okkur sýn. Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni. 

Þannig háttar til að um þessar mundir eru 25 ár síðan ég kom til starfa við Háskóla Íslands. Ég er ekki viss um að ég eigi til nægilega sterk orð til að lýsa þeim miklu breytingum sem orðið hafa á Háskólanum á umliðnum aldarfjórðungi og um leið á öllum sviðum íslensks samfélags. Á þessum tíma hefur skólinn í vaxandi mæli stigið fram sem alþjóðlegur rannsóknaháskóli. Þrotlaus vinna starfsfólks og nemenda hefur í fimm ár í röð skilað Háskóla Íslands í hóp 300 bestu háskóla heims og raðast hann nú í 222. sæti á lista Times Higher Education World University Rankings. Er skólinn í 13. sæti á meðal norrænna háskóla og hefur aldrei komist hærra. Þessi árangur er engin tilviljun heldur byggist hann á langtíma sýn Háskóla Íslands og einnig metnaðarfullri stefnu sem mörkuð var fyrir rúmum áratug af öllu starfsfólki og stúdentum skólans undir forystu Kristínar Ingólfsdóttur, þáverandi rektors.

Í vor var samþykkt ný stefna fyrir Háskóla Íslands til næstu fimm ára sem ætlað er að treysta í sessi þann árangur sem náðst hefur og styrkja enn frekar stöðu skólans. Þar er lögð áhersla á nám og kennslu sem undirstöðu farsældar og framfara, rannsóknir sem drifkraft nýrrar þekkingar, og virka þátttöku Háskóla Íslands í samfélagi og atvinnulífi. Jafnframt er mannauði skipað í öndvegi og lögð áhersla á akademískt frelsi, jafnrétti og fagmennsku. Þannig vill Háskóli Íslands með starfi sínu hafa sem víðtækust áhrif og takast á við þær flóknu áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Að baki stefnumörkun Háskóla Íslands er ekki bara alþekkt keppnisskap og þrautseigja Íslendinga sem birtist nú með eftirminnilegum hætti í samstilltu átaki landsliðs okkar og áhorfenda á Evrópumótinu í knattspyrnu. Stefnan byggist ekki síður á raunsæju mati á þeim tækifærum sem felast í því fyrir starfsfólk og stúdenta, og samfélagið allt, að eiga alhliða háskóla í fremstu röð. Á meðal þessara tækifæra er síaukið alþjóðlegt samstarf á öllum sviðum. Á kvenréttindadaginn, 19. júní sl., lögðum við hornstein að nýju húsi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þessi glæsilega bygging, sem hýsa mun alþjóðlega tungumálamiðstöð, er áþreifanlegt dæmi um mikilvægi þess að móta metnaðarfulla framtíðarsýn, virkja fólk til samstarfs og vinna markvisst að framgangi þeirrar sýnar. 

Nánast vikulega berast fréttir af þeim ríkulegu ávöxtum sem samstarf íslenskra og erlendra vísindamanna skilar, stundum með þeim hætti að heimsbyggðin tekur eftir líkt og gerðist nýverið þegar alþjóðlegur rannsóknarhópur kynnti niðurstöður rannsókna og prófana á bindingu koltvísýrings í bergi við Hellisheiðarvirkjun. Miklar vonir eru bundnar við uppgötvanir þessara vísindamanna. En árangur starfsfólks og stúdenta Háskóla Íslands ratar ekki alltaf samstundis í fjölmiðla og áhrif þekkingarsköpunar þeirra verða stundum ekki sýnileg almenningi fyrr en árum eða jafnvel áratugum eftir að rannsóknarverkefnunum lýkur.

Sagt er að sjaldan njóti þeir eldanna er fyrstir kveikja þá. Háskóli Íslands er opinber stofnun og verður því að geta treyst á yfirvöld sem skilja mikilvægi menntunar og hafa metnað og hugrekki til að setja varanlega hagsmuni þjóðarinnar ofar stundarhagsmunum. Háskóli Íslands nýtur samkvæmt endurteknum könnunum mikils trausts hjá íslenskum almenningi og við finnum fyrir miklum stuðningi hvarvetna í samfélaginu. Við erum þakklát fyrir þennan stuðning og hann er okkur hvatning til að sækja ótrauð fram. En góður hugur er ekki nóg. Það er algjör nauðsyn að velvild þjóðarinnar í garð Háskóla Íslands endurspeglist með áþreifanlegum hætti í fjárlögum og í stefnumörkun stjórnvalda fyrir háskólastigið í landinu. Við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum láta þau tækifæri sem nú blasa við Háskóla Íslands og þar með íslensku samfélagi ganga okkur úr greipum.

Kæru kandídatar, stór hluti ykkar sem takið við prófskírteinum hér í dag hyggur á þátttöku í atvinnulífinu og eflaust eru mörg ykkar þegar komin með starf á meðan aðrir munu afla sér framhaldsmenntunar og sérhæfa sig þannig enn frekar fyrir samfélagið, vinnumarkaðinn eða vísindin. En hvaða vettvang sem þið nú kjósið ykkur er ég þess fullviss að frammistaða ykkar og framkoma verður Háskóla Íslands til sóma. Við erum stolt af ykkur!

Hér að framan vék ég að mikilvægi framsýni. Í sumar stendur íslenska þjóðin frammi fyrir tímamótum þegar núverandi forseti Íslands kveður eftir 20 ár í embætti, en forsetakjörið fer einmitt fram í dag. Síðar á árinu verður einnig kosinn nýr forseti í Bandaríkjunum. Í tengslum við þetta langar mig að enda ræðu mína hér í dag á tilvitnun í Robert Kennedy, sem eitt sinn hugði á forsetaframboð í Bandaríkjunum, en entist ekki aldur til. Orðin lét hann falla í ræðu fyrir sléttum 50 árum þegar hann ávarpaði stúdenta í Höfðaborg í Suður-Afríku og notaði tækifærið til að beina orðum sínum til æskufólks um allan heim. „Heimurinn sem við byggjum“, sagði Kennedy, „… krefst eiginleika æskunnar og er ég þá ekki að vísa til tiltekins æviskeiðs heldur hugarástands, skerpu viljans, ímyndunaraflsins, hvernig hugrekkið sigrar kjarkleysið og ævintýraþráin hægindin. Við lifum í byltingarkenndum heimi … og því verðið þið, unga fólkið, að rísa upp og taka forystuna. Ykkur og jafnöldrum ykkar um allan heim hefur verið treyst fyrir því að axla meiri ábyrgð en nokkurri kynslóð á undan ykkur.“

Með þessum orðum kveð ég ykkur, kæru kandídatar, og óska ykkur öllum velfarnaðar í hverju sem þið eigið eftir að taka ykkur fyrir hendur. Megi eiginleikar æskunnar, sem Guðmundur Finnbogason nefndi eigindir mannseðlisins og Robert Kennedy sagði framtíðina velta á, lifa í hjörtum ykkar og hugum um ókomin ár. Til hamingju með daginn!

Jón Atli Benediktsson
Jón Atli Benediktsson