Skip to main content
4. mars 2023

María mey og Grýla á Hugvísindaþingi

María mey og Grýla á Hugvísindaþingi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hugvísindaþing 2023 verður haldið í Háskóla Íslands dagana 10. og 11. mars. Á Hugvísindaþingi er borið fram það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Meðal þess sem fjallað verður um í ár er María mey, Grýla, stafrænar skemmtanir, Austurland, rímur, ríkisvaldið, táknmál og önnur mál, listir, loftslagsbreytingar, kennsla, þýðingar og bókmenntagagnrýni.

Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, setur þingið í Hátíðasal í Aðalbyggingu föstudaginn 10. mars kl. 12. Í kjölfarið flytur Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus í heimspeki, hátíðarfyrirlestur. Vilhjálmur hefur fjölbreytta reynslu af kennslu, rannsóknum, ritstjórn og stjórnunarstörfum og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann hefur einkum fengist við efni á sviði siðfræði, tilvistarheimspeki, heimspeki samfélags og stjórnmála. Vilhjálmur nefnir erindi sitt Merking og mikilvægi samræðunnar.

Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus í heimspeki, heldur hátíðarfyrirlestur Hugvísindaþings 2023 í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 10. mars kl. 12-13. 

Málstofur fara fram í Árnagarði, Lögbergi og Odda og hægt er að skoða dagskrá þingsins á síðunni hugvisindathing.hi.is. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Óskir um táknmálstúlkun þurfa að berast á netfangið rannsve@hi.is fyrir 8. mars.