Skip to main content
30. apríl 2024

GEORG mikilvægur samstarfsvettvangur í jarðvarmarannsóknum í 15 ár

GEORG mikilvægur samstarfsvettvangur í jarðvarmarannsóknum í 15 ár - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fimmtán ára afmæli GEORG, samstarfsvettvangs um rannsóknir og verkefni á sviði jarðvarma, var fagnað á dögunum en Háskóli Íslands hefur leitt hann frá upphafi. Vettvangurinn hefur skapað fjölmörg tækifæri bæði fyrir nemendur og starfsfólk Háskólans og nýverið var stigið stórt skref þegar eitt af verkefnum GEORG, Krafla Magma Testbed, sem miðar að því stórbæta eldgosaspár og þróa orkuvinnsluaðferðir, varð að sjálfstæðri stofnun með mikla framtíðarmöguleika.

GEORG er óhagnaðardrifið félag sem hefur það að markmiði að efla rannsóknir og sjálfbæra nýtingu jarðvarma bæði hér á landi og víðar í heiminum. Aðild að GEORG eiga háskóla- og rannsóknastofnanir, orkufyrirtæki, verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki hér heima og erlendis sem öll vilja leggja sitt af mörkum til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa, samtals 23 aðilar.

Heildarverkefniskostnaður tengdur GEORG yfir 65 milljarðar

„GEORG var stofnaður á grunni styrks úr Markáætlun Vísinda- og tækniráðs árið 2009. Hann hljóðaði upp á 70 milljónir króna í sjö ár eða 490 milljónir króna í heildina og það er stærsti styrkur sem veittur hefur verið til íslensks verkefnis frá upphafi,“ segir Hjalti Páll Ingólfsson, framkvæmdastjóri GEORG.

Hjalti

Hjalti Páll Ingólfsson, framkvæmdastjóri GEORG.

GEORG vinnur m.a. í þágu samstarfsaðila sinna að verkefnahýsingu og að sögn Hjalta hefur félagið algjörlega verið fjármagnað út frá samstarfsverkefnum eftir að styrkjatímanum lauk. „Stærstu verkefnin þar á meðal eru GEOTHERMICA, DeepEGS, GECO og nú KMT,“ segir Hjalti en nánar verður vikið að síðastnefnda verkefninu hér á eftir. Af öllum verkefnum sem GEORG hefur unnið að hafa samtals rúmlega 1,3 milljarðar farið í gegnum skrifstofu félagsins að sögn Hjalta og heildarverkefniskostnaður er yfir 65 milljarðar.

Öflugur vettvangur nýliðunar og nýsköpunar

Að sögn Hjalta liggur styrkur GEORG ekki síst í því að hann er vettvangur fyrir óháða verkefnahýsingu auk þess sem hann hefur stuðlað að sterkari tengslum milli rannsókna og hagnýtingar á jarðvarma. Þá hefur GEORG enn fremur stuðlað að nýliðun í jarðhitageiranum með því að styðja nemendur í rannsóknum á öllum stigum háskólanáms. „Styrkir sem GEORG hefur staðið að hafa farið til fjögurra nýdoktora, 35 doktorsnema, 38 MS-nema og tveggja BS-nema,“ bendir hann á.

Samstarfsvettvangurinn hefur einnig haft áhrif á alþjóðavettvangi því fulltrúar GEORG hafa átt sæti í stjórnarnefnd fyrir orkumál í rammaáætlun Evrópusambandsins frá árinu 2009 og rekið skrifstofur sem stuðla að samstarfi Evrópuþjóða á sviði jarðvarma. Þá hefur GEORG stutt dyggilega við nýsköpun í geiranum, m.a. með aðild að hraðlinum Startup Energy Reykjavík sem fjárfesti í 21 sprotafyrirtæki. „Mörg þeirra lifa góðu lífi í dag sem arðbær fyrirtæki en þar má helst nefna DTEquipment, E1, Laki Power, Gerosion, Atmonia og Arctic Sea Minerals,“ segir Hjalti en þess má geta að vísindamenn HÍ eru meðal stofnenda Gerosion og Atmonia.

Sigurdur Magnus

Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor og forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ og stjórnarformaður GEORG.

Ávinningur Háskólans af þátttöku í GEORG hefur verið mikill að sögn Sigurðar Magnúsar Garðarssonar, prófessors og forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sem hefur jafnframt verið stjórnarformaður GEORG frá upphafi. „Fjölmargir vísindamenn Háskólans hafa komið að verkefnum GEORG, mörg hver á mjög þverfaglegan hátt, þar sem reynt hefur verið að tengja saman vísindalega þekkingu og tæknilega hagnýtingu jarðvarmaorku á sem hagkvæmastan hátt. Þetta hefur nýst nemendum vel þar sem þau hafa fengið reynslu á víðu sviði geirans sem hefur síðan nýst þeim til framtíðarstarfa í orkufyrirtækjunum og/eða í rannsóknum,“ segir Sigurður Magnús.

„Tvö af meginmarkmiðum KMT eru að stórbæta eldgosaspár á heimsvísu og hanna nýjar hagkvæmari aðferðir til orkuvinnslu jarðhita. Þær aðferðir gæfu víðtækari tækifæri til jarðhitavinnslu, ekki síst aðgang að mjög öflugum hluta jarðhitasvæða sem ekki hefur verið aðgengilegur fram að þessu,“ segir Björn Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri KMT sjálfseignarstofnunar.

Ætla að stórbæta eldgosaspár og þróa orkuvinnsluaðferðir

Eitt af þeim verkefnum sem unnið hefur verið á vegum GEORG er Krafla Magma Testbed (KMT) sem eins og nafnið bendir til snýst um að nýta Kröflusvæðið í Þingeyjarsveit, eitt mest rannsakaða eldfjallasvæði í heimi, til frekari þróunar á jarðhitanýtingu og skilningi á kröftum jarðar. „KMT stefnir á að reisa alþjóðlega rannsóknamiðstöð á sviði eldfjalla- og orkurannsókna á Kröflusvæðinu á komandi árum,” segir Björn Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri KMT sjálfseignarstofnunar.

Að hans sögn má rekja hugmyndina að KMT til íslenska djúpborunarverkefnisins IDDP-1 þar sem óvænt var borað í kviku í Kröflu á 2,1 km dýpi árið 2009. „Búnaðurinn sem notaður var í IDDP-1 stóðst engan veginn hitann, þrýstinginn og tæringuna næst kvikunni en mikilvægar upplýsingar fengust úr holunni áður en henni var lokað. Fyrir það fyrsta voru vísindamenn nú komnir með nákvæma staðsetningu á grunnstæðu kvikuhólfi, sem telst einstakt á heimsvísu, og í öðru lagi reyndist holan tíu sinnum öflugri en hefðbundnar vinnsluholur í Kröflu. Því varð fljótlega ljóst að þetta atvik fól í sér mikil tækifæri til eldfjalla- og orkurannsókna,“ segir Björn en meðal þeirra sem tóku þátt í rannsóknunum voru jarðvísindamenn HÍ. 

Nú, fimmtán árum eftir að borað var óvænt ofan í kviku í Kröflu, er stefnt að því að gera það aftur með tækjabúnaði sem KMT vinnur að því að þróa. „Tvö af meginmarkmiðum KMT eru að stórbæta eldgosaspár á heimsvísu og hanna nýjar hagkvæmari aðferðir til orkuvinnslu jarðhita. Þær aðferðir gæfu víðtækari tækifæri til jarðhitavinnslu, ekki síst aðgang að mjög öflugum hluta jarðhitasvæða sem ekki hefur verið aðgengilegur fram að þessu,“ bendir Björn á.

jardvarmi

KMT orðin sjálfseignarstofnun

Að KMT kemur fjölþjóðlegur og stór hópur vísindamanna og sérfræðinga en frá árinu 2017 hefur GEORG stjórnað verkefninu og stutt það dyggilega. „Sem liður í því var Krafla Magma Testbed sjálfseignarstofnunin formlega sett á laggirnar í lok síðasta árs til að skapa trausta og sjálfstæða umgjörð til fjármögnunar og rekstur til lengri tíma,“ segir Hjalti. 

Í stjórn KMT sitja fulltrúar þeirra sem stutt hafa verkefnið fjárhagslega, þeir Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR fyrir hönd íslenska ríkisins, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Marco Bohnhoff, framkvæmdastjóri International Continental Scientific Drilling Program (ICDP), auk John Ludden, forseta International Union of Geological Sciences (IUGS), en hann er jafnframt formaður stjórnar. Framkvæmdastjóri KMT er Björn Þór Guðmundsson sem fyrr segir.

Áhersla á ofurheitan jarðhita og framsæknar orkuöflunarleiðir

Sem fyrr segir var 15 ára afmæli GEORG fagnað á dögunum með GEORG Gleði en þá komu fulltrúar hinna ólíku samstarfsaðila og bakhjarla félagsins saman í Grósku og fóru yfir árangur samstarfsins og horfðu til framtíðar. Aðspurður um áherslur GEORG til framtíðar segir Hjalti að klasinn verði áfram óháður vettvangur til samstarfs á sviði orkurannsókna. „Við munum halda áfram að leita að tækifærum fyrir geirann og styðja við stefnumótun og uppbyggingu á heimsvísu. Í dag bera hæst annars vegar áherslurnar á ofurheitan jarðhita (e. superhot) og nýjar framsæknar leiðir til orkuöflunar og jarðhita og hins vegar verkefni á sviði aukinnar lághitanýtingar, og þá sérstaklega á meginlandi Evrópu,“ upplýsir Hjalti.

Á nýliðnu Rannsóknaþingi Rannís sem bar yfirskriftina „Forgangsröðun í rannsóknum“ var kynnt niðurstaða áhrifamats markáætlunar um öndvegissetur og rannsóknaklasa sem upphaflega styrkti GEORG. Í stuttu máli má segja að áhrifamatið hafi komið sérstaklega vel út og sýnt fram á að vettvangur á því formi sem GEORG hefur starfað hefur sannanlega skilað því sem að var stefnt og meira til. „Það er sérstaklega ánægjulegt að fá staðfestingu á því frábæra starfi sem hefur verið unnið innan GEORG þessi 15 ár og er enn að skila virðisauka til íslensks samfélags,“ segir Sigurður Magnús, stjórnarformaður GEORGs, að endingu.

Fleiri myndir frá afmælishátíðinni og nánari upplýsingar um GEORG má finna á vef félagsins.

Fyrirlesarar á 15 ára afmælishátíð GEORGs