Skip to main content
23. ágúst 2023

Fullt hús á móttöku nýnema á Menntavísindasviði

Fullt hús á móttöku nýnema á Menntavísindasviði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýnemar í grunnnámi streymdu í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð mánudaginn 21. ágúst.Tilhlökkun og gleði lá í loftinu en tekið var á móti nýnemum með fjörefli sem ætlað er að hrista hrollinn úr nýnemum fyrir nýjum áskorunum í námi og ekki síst til að brjóta ísinn og gera nemendum kleift að kynnast.

Forseti sviðsins, Kolbrún Þ. Pálsdóttir tók á móti hópnum í upphafi. Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, forseti sviðsráðs ávarpaði hópinn og kynnti fulltrúa nemendafélaga Menntavísindasviðs; Tuma, Kennó og Vatnið. Stutt kynning var haldin á stoðþjónustu sviðsins og deildum og Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir leiddi fjörefli og þjálfaði hóp sjálfboðaliða úr röðum eldri nemenda.

Hér má lesa ávarp sviðsforseta:

Kæru nýnemar, ég býð ykkur innilega velkomin til náms við Menntavísindasvið Háskóla Íslands! Frábært að sjá ykkur svona mörg hér í dag.

Lífið er óvissuferð og lífið er ævintýri. Ég fagna því að þið hafið ákveðið að skrá ykkur til náms við Háskóla Íslands og valið ykkur námsleið hér á Menntavísindasviði. Það er stórt skref að hefja háskólanám og því býð ég ykkur sem eruð að taka ykkar fyrstu skref sérstaklega velkomin. Í háskólum er unnið að rannsóknum, nýsköpun og kennslu. Háskólakennarar stunda flestir rannsóknir á þeim sviðum sem þau kenna og miðla – og eru hugsjónafólk um þau viðfangsefni sem þau miðla. Háskólinn er samfélag þar sem nemendur, kennarar og starfsfólk vinna saman að því að skapa nýja þekkingu, efla fagmenntun og efla íslenskt samfélag. Og ég er sérstaklega glöð að þið sem hér eruð hafið valið ykkur nám sem tengist á einn eða annan hátt sviði menntavísinda, því menntun ykkar mun gera ykkur kleift að breyta lífi fólks. Allar manneskjur eiga sér drauma um að verða farsæl, eignast góða fjölskyldu, atvinnu og búa sér líf í góðu samfélagi. Ósjaldan eru það einmitt kennarar, þjálfarar, tómstundafræðingar, þroskaþjálfar, uppeldis- og menntunarfræðingar eða annað starfsfólk innan skóla- og frístundastarfs sem sáir fræjum og skapar ungu fólki vettvang til að vaxa.

Stefna Háskóla Íslands ber því lýsandi heiti betri háskóli- betra samfélag. Háskólinn er í sífelldri þróun og hefur tekið gríðarlegum breytingum frá því skólinn var stofnaður árið 1911 sem embættismannaskóli. Núna stunda hátt í 14.000 manns nám við skólann og hér á Menntavísindasviði stunda rúmlega 3.000 nemendur nám. Starfsárið sem nú er að hefjast er sögulegt, því ákveðið hefur verið að Menntavísindasvið flytji í nýtt hús á aðalsvæði háskólans sumarið 2024. Að þessum flutningi hefur verið stefnt frá því að Kennaraháskólinn sem var, sameinaðist Háskóla Íslands árið 2008. Því eru mjög spennandi tímar fram undan sem þið munuð flest á einn eða annan hátt vera hluti af. Saman munum við skrifa nýja Sögu í sögu Menntavísindasviðs.

Ef þið lítið í kringum ykkur núna í þessum sal, þá sjáið það ólíka einstaklinga, allskonar fólk, og í hópi þeirra eru einstaklingar sem geta gefið ykkur alveg ótrúlega mikla fjársjóði, svo sem athygli, vináttu félagsskap og stuðning. Ef þið gefið þeim. Þess vegna hve ég ykkur til að hafa frumkvæði að því að tengjast samnemendum ykkar, ekki bíða eftir að einhver tali við þig – hafið frumkvæði.

Kæru nýnemar, mín von er sú að þið sem nú eruð að hefja háskólanám hér á Menntavísindasviði munið njóta ykkar hér í námi, starfi og leik. Starfsfólk sviðsins leitast við að aðstoða ykkur eftir fremsta megni – en þið megið ekki láta ykkar kyrrt eftir liggja. Skipuleggið ykkar nám og takið virkan þátt í námssamfélaginu. Verið forvitin og djörf, spyrjið spurninga og látið til ykkar taka. Þá mun ykkur farnast vel! Njótið dagsins.

Myndir: Gunnar Sverrisson

Móttaka nýnema í grunnnámi MVS MYNDIR: GUNNAR SVERRISSON
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS
Móttaka nýnema í grunnnámi MVS