Skip to main content
7. mars 2018

Fagna afmæli Mannréttindayfirlýsingar með fundaröð

Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum (RIKK) og Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) við Háskóla Íslands standa að hádegisfyrirlestraröð á vormisseri 2018 sem tileinkuð er Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en í ár eru 70 ár síðan hún var samþykkt. 

Mannréttindayfirlýsingin nær yfir grundvallarréttindi sem allir menn – karlar og konur – eiga tilkall til. Markmiðið með fyrirlestraröðinni er að fjalla um þá þætti sem viðhalda kynjamismunun og ójafnrétti í ólíkum samfélögum og vekja athygli á gildi mannréttinda sem verkfæris til að takast á við viðvarandi kynjaójöfnuð. Hádegisfyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og eru flestir fyrirlestrarnir haldnir í fyrirlestrasal safnsins í hádegi á fimmtudögum og fara fram á ensku.

Fyrsti fyrirlestur vormisseris var fluttur 11. janúar af Sólveigu Önnu Bóasdóttur, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands, og bar fyrirlestur hennar heitið: „Veröld ný og betri. Mótun Mannréttindayfirlýsingarinnar.“ Hinn 25. janúar talaði Ulrike E. Auga, prófessor við Humboldt-háskóla í Berlín og gestaprófessor við Salzburg-háskóla í Austurríki um „Mannréttindi, kyn og trú. Álitamál í orðræðu um stjórn-, félags-, menningarmál“. Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, gerði mannlega reisn í íslenskum rétti að umfjöllunarefni í sínu erindi hinn 8. febrúar og Elizabeth Klatzer, sérfræðingur í kynjaðri hagstjórn, ræddi kynjaða fjárlagagerð í erindi sínu „Fjárlagagerð í þágu kvenréttinda: Skattaréttlæti og kynjajafnrétti“. 

Á alþjóðlegum degi kvenna, þann 8.mars nk. er komið að Magnúsi Þorkeli Bernharðssyni, prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College, og nefnist hans erindi „Hvar liggja mörkin? Egypskar konur og arabíska vorið“. Hinn 19. mars flytur Linda Hogan, fyrrverandi aðstoðarrektor Trinity-háskóla í Dublin, fyrirlesturinn „Trú, kyn og pólitík í ljósi mannréttinda. Sifjafræðileg greining“ í Hátíðasal Háskóla Íslands. Viviane Namaste, prófessor við Concordia-háskóla í Montreal fjallar um „Skipulag heilbrigðisþjónustu fyrir konur: Lærdómur úr samfélagi innflytjenda frá Haíti í Montréal“ hinn 12. apríl, í stofu 101 í Odda og síðust á dagskránni er Andrea Peto, prófessor í kynjafræði við Central European háskólann í Búdapest, með erindið „Andfemínískar hreyfingar sem ögrun við mannréttindi“, hinn 8. maí, í Veröld — húsi Vigdísar.

Magnús Þorkell Bernharðsson