Skip to main content
7. desember 2023

Er kvíði ein helsta rót átaka í miðaldasamfélaginu? 

Er kvíði ein helsta rót átaka í miðaldasamfélaginu?  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Það eru engar ýkjur að Torfi H. Tulinius sé á kafi í íslenskum miðaldabókmenntum, ekki síst Íslendingasögunum. Samhliða því að hafa mikla ástríðu fyrir þessum bókmenntaarfi okkar Íslendinga, og öllu því sem Íslendingasögurnar birta okkur á síbreytilegan hátt eftir því hvernig þær eru lesnar, hefur Torfi hreinlega af þeim lifibrauð. Torfi er nefnilega prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands og þar rýnir hann í texta þessara bókmennta nánast daglega. Hann rannsakar fornsögurnar okkar með því að bregða fyrir augun alls kyns glerjum. Torfi er stundum að pæla í frásagnarfræðinni, textunum sjálfum og táknfræðinni, jafnvel viðtökum sagnanna á ólíkum tímum og félagsfræðilegum fléttum. Stundum er það svo sagnfræðin sem er í skerpunni hjá Torfa, veruleikinn að baki viðburðunum, aldarfarið og stundum er Torfi sálgreinir og skoðar persónurnar í þessum miklu sagnabálkum og flókin samskipti þeirra. Auk alls þessa kennir Torfi fjölbreytt námskeið í Háskóla Íslands og við Endurmenntun HÍ sem helguð eru þessum meiði miðaldabókmenntanna. 

Vegna alls þessa hefur Torfi komið að íslenskum fornsögum frá ýmsum hliðum og núna er hann að rannsaka tengsl ójöfnuðar og kvíða eins og þau birtast í frásögnum þeirra. Torfi veit að Íslendingasögurnar opna á endalausa möguleika í túlkun og núna er hann að skoða Laxdælu þar sem hann spyr sig hvort kvíði yfir því að lækka í þjóðfélagsstiganum geti leitt til ofbeldis. 

Átök ambáttar og húsfreyju í Laxdælu

„Ég var að lesa Laxdæla sögu, nánar tiltekið kaflann um komu ambáttarinnar Melkorku inn á heimili Höskuldar Dala-Kollsonar, en hann keypti hana í ferð sinni til Norðurlanda og tók hana upp í til sín á ferðalaginu,“ segir Torfi þegar hann er beðinn um að segja frá kveikju nýjustu rannsóknarinnar. 

„Það sem vakti athygli mína voru viðbrögð Jórunnar, eiginkonu Höskuldar og hvernig höfundur lýsir þeim. Fyrst lætur hún sér fátt um finnast, enda sefur bóndi hennar hjá eiginkonu sinni eftir að heim er komið. Viðmót Jórunnar verður kuldalegra við ambáttina þegar barnið kemur í heiminn því það er fallegur drengur og faðirinn hefur strax mikla ást á því. Nokkrum árum síðar kemur í ljós að ambáttin er írsk prinsessa og drengurinn hennar því konungborinn. Þá stenst Jórunn ekki lengur mátið og ræðst á Melkorku með ofbeldi en ambáttin svarar í sömu mynt,“ segir Torfi. 

Í Laxdælu segir svo frá þessu atviki, sem í nútímanum yrði vafalítið skilgreint sem heimilisofbeldi: „Og litlu síðar er Jórunn gekk að sofa togaði Melkorka af henni og lagði skóklæðin á gólfið. Jórunn tók sokkana og keyrði um höfuð henni. Melkorka reiddist og setti hnefann á nasar henni svo að blóð varð laust. Höskuldur kom að og skildi þær.“

Einhvern tímann var fullyrðingin „bændur fljúgast á“ höfð í hálfkæringi yfir þessa bókmenntahefð Íslendinga en eins og Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, segir á Vísindavefnum þá gegna konur oft veigamiklu hlutverki í sögunum og það á svo sannarlega við í Laxdælu eins og framangreint dæmi sýnir. Aðalheiður segir að konurnar ýmist hvetji til hefnda eða gerist sáttasemjarar og með því móti hafi þær bein áhrif á atburðarás sagnanna. Kvenhetjur Íslendingasagna hafi margar hverjar orðið að táknmynd íslenskra kvenskörunga en þannig háttar einmitt til um Laxdælu.

Torfi segist telja skynsamlegt að líta á hegðun Jórunnar þarna sem kvíðatengd viðbrögð við því sem hún upplifi sem ógn við eigin stöðu og stöðu barna hennar gagnvart óskilgetnum en eðalbornum hálfbróður þeirra. Þetta þykir Torfa réttara frekar en sjá þetta sem afbrýðisemi tveggja kvenna sem deila um sama manninn. 

Hér er Torfi í hlutverki sálgreinandans og samhliða því að rýna í samfélagsmyndina. Torfi hefur enda einatt nálgast Íslendingasögurnar út frá samtíma þeirra sjálfra, einkum og sérílagi með tilliti til þjóðfélagsgerðar og mótsagna og togstreitu sem henni fylgja. Þannig hefur hann haft áhuga á samspili þjóðfélags og mannshugarins og hvernig þetta samspil birtist í bókmentunum, nákvæmlega eins og það kjarnast í þessum ofbeldisfulla atburði þar sem tvær konur eigast hreinlega við með hnefunum. 

„Flestar Íslendingasögur verða til á 13. og 14. öld. Þá verða miklar breytingar á íslensku samfélagi. Goðaveldið hrynur og Ísland verður hluti af norska konungsríkinu. Það hefur umtalsverðar afleiðingar fyrir einstaklinga og ættir. Sumir hækka í þjóðfélagsstiganum en aðrir falla. Slíkum breytingum fylgja jafnan kvíði hjá þeim sem óttast um stöðu sína. Mér fannst rétt að kanna betur hvernig þetta ástand birtist í bókmenntunum, jafnvel þeim sem segja frá atburðum fjarri í tíma og rúmi frá höfundum og viðtakendum sagnanna á miðöldum,“ segir Torfi. MYND/Kristinn Ingvarsson

Tengsl samfélags og bókmennta

Frá því Torfi hóf rannsóknarferil sinn, hefur hann haft brennandi áhuga á tengslum samfélags og bókmennta. Hann hefur einatt leitast við að skoða bókmenntaverk út frá þeim samfélagslega veruleika sem þær eru sprottnar úr. 

„Flestar Íslendingasögur verða til á 13. og 14. öld. Þá verða miklar breytingar á íslensku samfélagi. Goðaveldið hrynur og Ísland verður hluti af norska konungsríkinu. Það hefur umtalsverðar afleiðingar fyrir einstaklinga og ættir. Sumir hækka í þjóðfélagsstiganum en aðrir falla. Slíkum breytingum fylgja jafnan kvíði hjá þeim sem óttast um stöðu sína. Mér fannst rétt að kanna betur hvernig þetta ástand birtist í bókmenntunum, jafnvel þeim sem segja frá atburðum fjarri í tíma og rúmi frá höfundum og viðtakendum sagnanna á miðöldum.“

Íslendingasögurnar eru án vafa eitt allra merkilegasta framlag þessara litlu þjóðar til heimsbókmenntanna á öllum tímum. Um þær hefur Torfi skipulagt málstofur og flutt fyrirlestra og nú síðast um þetta efni úr Laxdælu á Hugvísindaþingi og einnig á alþjóðlega fornsagnaþinginu sem haldið var í Helsinki árið 2022. 

„Enn fremur hef ég samið bókarkafla sem setur fram nýja túlkun á Laxdæla sögu þar sem ég skoða hana í samhengi við menn og málefni á Sturlungaöld. Oddaverjar eru blóðskyldir norsku konungaættinni og það er spurning hvort það gefi þeim stöðu í valdabaráttu íslenskra höfðingja um fram aðra, sem ekki hafa konunglegt blóð í æðum sínum. Greinin er nú í ritrýningu og birtist vonandi í safnriti um tilfinningar á miðöldum á næsta ári. Einnig hef ég látið vinna gagnagrunn um þjóðfélagsstöðu landnámsmanna og persóna úr Íslendingasagna þar sem sérstaklega er hugað að því hvort viðkomandi hækki eða lækki í þjóðfélagsstiganum við komuna til Íslands. Markmiðið er að halda áfram að rannsaka tengsl ofbeldis og kvíða yfir þjóðfélagsstöðu í sögunum og hef ég þegar safnað dæmum sem benda til þess að kvíði af þessu tagi er ein helsta undirrót átaka í miðaldasamfélaginu.“

Nýjar aðferðir – ný þekking

Aðferð Torfa til að nálgast efni Laxdælu er ný og vonast hann til að hún fylli upp í mynd okkar, ekki bara af Laxdæla sögu sjálfri, heldur almennt af Íslendingasögunum. „Rannsóknin mun væntanlega leiða sitthvað í ljós um íslenskar miðaldabókmenntir sem fræðimenn hafa ekki enn þá komið auga á. Þar með eykst skilningur okkar á þessum mikilvæga menningararfi. Jafnframt mun hún vonandi varpa ljósi á kvíða vegna ójöfnuðar og áhrif þess á menningu og hlutskipti og upplifun einstaklinga.“

Torfi Tulinius