Skip to main content
1. júní 2016

Aðstoðarrektorar og framkvæmdastjóri stjórnsýslu ráðnir

""

Prófessorarnir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Steinunn Gestsdóttir hafa verið ráðnar í störf aðstoðarrektora við Háskóla Íslands og Guðmundur Ragnar Jónsson prófessor í stöðu framkvæmdastjóra stjórnsýslu skólans frá 1. júlí nk.

Á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands 19. maí sl. var samþykkt að breyta skipulagi sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands í framhaldi af úttekt Ómars H. Kristmundssonar, prófessors við Stjórnmálafræðideild, og Ástu Möller, stjórnsýslufræðings og verkefnisstjóra á skrifstofu rektors, og umræðum um málið á háskólaþingi 10. maí sl. 

Ákveðið var að ráða tvo aðstoðarrektora, valda úr hópi akademískra starfsmanna skólans, aðstoðarrektor vísinda og aðstoðarrektor kennslumála og þróunar. Aðstoðarrektorarnir verða í hlutastarfi (með rannsóknaskyldu) en rektor setur þeim erindisbréf þar sem umboð þeirra er skilgreint. Aðstoðarrektor vísinda verður Guðbjörg Linda Rafnsdóttir prófessor og aðstoðarrektor kennslumála og þróunar verður Steinunn Gestsdóttir prófessor.

Einnig var ákveðið að ráða framkvæmdastjóra stjórnsýslu sem mun leiða sameiginlega stjórnsýslu Háskólans í umboði rektors og hefur þar með yfirumsjón eftirtalinna sviða í stjórnsýslu skólans: framkvæmda- og tæknisviðs, fjármálasviðs, kennslusviðs, markaðs- og samskiptasviðs, starfsmannasviðs og vísinda- og nýsköpunarsviðs. Rektor setur honum erindisbréf. Framkvæmdastjóri stjórnsýslu verður Guðmundur Ragnar Jónsson, prófessor og framkvæmdastjóri fjármála og reksturs.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir er prófessor í félagsfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Hún lauk grunnnámi frá Háskóla Íslands árið 1984, MA-prófi í félagsfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð 1990 og doktorsprófi frá sama háskóla árið 1995. Guðbjörg Linda hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan og utan Háskóla Íslands. Hún hefur meðal annars setið í vísindanefnd háskólaráðs frá árinu 2014 og er formaður nefndarinnar í dag. Einnig hefur hún verið í fagráðum fyrir Rannsóknasjóð Háskóla Íslands, Rannís og norræna rannsóknasjóði. Hún var jafnframt fyrsti deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar 2008-2013 og sat í heildarstefnuhópi Háskóla Íslands 2011-2016 og 2016-2021. Guðbjörg Linda var formaður vísindasiðanefndar Félagsvísindadeildar, sat í starfshópi á vegum háskólaráðs til undirbúnings námi í lýðheilsufræði við Háskóla Íslands og hefur setið í stjórn námsbrautar í lýðheilsuvísindum í Læknadeild. Þá hefur hún setið í ýmsum dóm- og valnefndum innan Háskólans. 

Steinunn Gestsdóttir er prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá Tufts-háskóla í Bandaríkjunum árið 2005, meistaragráðu frá Boston-háskóla 2001 og BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1996. Steinunn hefur sinnt margvíslegum stjórnunarstörfum innan og utan Háskóla Íslands. Hún sat í  heildarstefnuhópi Háskóla Íslands 2011-2016 og var annar tveggja formanna stýrihóps stefnumótunar Háskóla Íslands 2016-2021. Hún var formaður rannsóknarráðs Menntavísindasviðs, sat í vísindanefnd háskólaráðs um árabil og í úttektarnefnd Háskóla Íslands 2012. Steinunn hefur einnig setið í Vísinda- og tækniráði frá árinu 2012 og situr nú í stjórn Vísindafélags Íslendinga, Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Rannsóknarsjóðs Íslands. 

Guðmundur Ragnar Jónsson hefur starfað hjá Háskóla Íslands frá árinu 1983, í upphafi sem sérfræðingur hjá Verkfræðistofnun Háskóla Íslands, síðar sem dósent við véla- og iðnaðarverkfræðiskor og í fullu starfi sem prófessor við sömu skor frá árinu 1996. Hann gegndi starfi sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands frá árinu 2003 og síðar framkvæmdastjóra fjármála og reksturs Háskóla Íslands. Guðmundur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan og utan Háskóla Íslands, þar á meðal verið formaður fjármálanefndar háskólaráðs og samráðsnefndar ráðsins mörg undanfarin ár. Guðmundur lauk námi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1981, meistaraprófi í vélaverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole árið 1983 og doktorsprófi í tölfræði frá Lunds Tekniska Högskola árið 1996. 

Aðstoðarrektorar og framkvæmdastjóri stjórnsýslu ásamt rektor Háskóla Íslands. Frá vinstir: Guðmundur Ragnar Jónsson, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Jón Atli Benediktsson og Steinunn Gestsdóttir.
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir
Steinunn Gestsdóttir
Guðmundur Ragnar Jónsson