Þjóðfræði - Viðbótardiplóma


Þjóðfræði
Viðbótardiplóma – 30 einingar
Í diplómanámi í þjóðfræði geta nemendur lært um alþýðumenningu og fagurfræði hversdagsins, menningararf, samband manna og dýra, þjóðfræði staðarins, sviðslistafræði, eldhúsnautnir, norræna trú og fleira.
Skipulag náms
- Haust
- Munnleg hefð og íslenskar fornsögur og kvæðiBE
- Kenningar í félags- og mannvísindumB
- Sviðslistafræði (Performance Studies): Frá sagnaflutningi til uppistands, kjötkveðjuhátíða og stjórnmálamannaB
- Vor
- Norræn trúB
Munnleg hefð og íslenskar fornsögur og kvæði (ÞJÓ109F)
Lögð verður til grundvallar kenning Alberts B. Lord um munnlegan kvæðaflutning (munnlega kenningin) í bókinni The Singer of Tales. Þá verða raktar þær rannsóknir sem fram hafa komið í kjölfar hennar og reynt að meta hvaða áhrif kenningin hefur á rannsóknir miðaldabókmennta sem byggja að hluta á munnlegri hefð. Í seinni hluta námskeiðsins verður tekið mið af eddukvæðum og nokkrar Íslendingasögur lesnar vandlega með hliðsjón af kenningum um sagnfestu- bókfestu- og nýsagnfestu. Kennslan fer fram með fyrirlestrum kennara og umræðum. Nemendum er ætlað að vinna sjálfstæð verkefni og skila greinargerðum um efni nokkurra bóka og greina.
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum í bland við sjálfstæð nemendaverkefni um rannsóknaviðfangsefni námskeiðsins.
Athugið, námskeiðið er kennt annað hvert ár.
Kenningar í félags- og mannvísindum (FMÞ102F)
Námskeiðið fjallar um nýleg verk og stefnur sem valdið hafa, eða eru líkleg til að valda, straumhvörfum í félags- og mannvísindalegri hugsun. Áhersla er lögð á samfélagslegt og sögulegt samhengi kenninganna. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum. Skyldumæting er í umræðutíma einu sinni í viku í 40 mínútur. Fjarnemar geta mætt í kennslustofu eða tekið þátt í gegnum Internetið (með Zoom).
Sviðslistafræði (Performance Studies): Frá sagnaflutningi til uppistands, kjötkveðjuhátíða og stjórnmálamanna (ÞJÓ107F)
Sviðslistafræði (Performance Studies) fjallar um það hvernig fólk í öllum samfélögum, bæði fyrr og nú, tekur þátt í ymis konar sviðslist (performances) í daglegu lífi, á mismunandi "leiksviðum", allt frá helgisiðum til kirkjupredikana, leiksýninga, kvikmyndasýninga, útvarpsþátta, uppistands, sagnaflutnings, gjörningalistar, hátíða, útskriftasiða, matarboða, dulbúningasiða og málflutnings stjórnmálamanna heima og erlendis. Á námskeiðinu munu nemendur kynnast þeim margslungnu táknmálsformum sem beitt er í mismunandi tegundum sviðslista, frá talmáli til búninga, útlits, svipbrigða, kyns, samhengis, hljóðs, "timing" og nytsemi rýmis og viðtöku áhorfenda.
Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, umræðum um fyrirlestra og farið í heimsóknir.
Norræn trú (ÞJÓ203F)
Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs
Fylgstu með Félagsvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.