Þjóðfræði - Viðbótardiplóma


Þjóðfræði
Viðbótardiplóma – 30 einingar
Í diplómanámi í þjóðfræði geta nemendur lært um alþýðumenningu og fagurfræði hversdagsins, menningararf, samband manna og dýra, þjóðfræði staðarins, sviðslistafræði, eldhúsnautnir, norræna trú og fleira.
Skipulag náms
- Haust
- Samfélög manna og örvera: Örverur, menning, heilsa, og umhverfiB
- Munnleg hefð og íslenskar fornsögur og kvæðiBE
- Kenningar í félags- og mannvísindumB
- Sviðslistafræði (Performance Studies): Frá sagnaflutningi til uppistands, kjötkveðjuhátíða og stjórnmálamannaB
- Vor
- Norræn trúB
- Matur og menning:B
- Náttúrusögur: (yfir)náttúra í þjóðsögum og bókmenntum fyrri aldaB
Samfélög manna og örvera: Örverur, menning, heilsa, og umhverfi (MON002M)
Námskeiðslýsing
Hvað segir skyrgerð okkur um þróun íslensks samfélags? Hver eru áhrif þarmaflórunnar á heilsu okkar? Hvernig losum við okkur við úrgang í þéttbýli á umhverfisvænan hátt og hvaða þögli meirihluti jarðarbúa er þar að verki? Lykillinn að öllum þessum spurningum er sá sami: Samfélög örvera hafa mótað jörðina og íbúa hennar frá upphafi lífs eða í milljarða ára. Til að skilja og takast á við áskoranir 21. aldar varðandi umhverfi, heilsu og samfélag, þurfum við að skilja hlutverk þessara fyrstu lífvera betur og hvernig það tvinnast saman við líf okkar sjálfra og nágranna okkar í lífríkinu. Nýlegar rannsóknir sýna að meirihluti frumanna í og á mannslíkamanum tilheyrir fjölbreyttum tegundum örvera. Þýðir það að menn séu örverur? Eða “bara” að samlífið við örverur sé nánasta og mikilvægasta sambandið sem við eigum í? Námskeiðið býður nemendum að kanna samlífi örvera og manna út frá ýmsum sjónarhornum, sem eru m.a. ættuð úr örverufræði og þjóðfræði, matvælafræði, næringarfræði og mannfræði. Litið verður til þess hvernig örverur koma að þróun og varðveislu matvæla í samfélögum manna, hlutverk þeirra í meltingunni og tengsl við andlega og líkamlega heilsu. Einnig hvernig örverur viðhalda lífsnauðsynlegum hringrásum lífrænna efna og geta umbreytt rusli og úrgangi í endurnýjanlegt form eins og heilbrigðan jarðveg.
Námskeiðið vinnur út frá hugmyndinni um „eina heilsu“ sem mótast hefur síðustu áratugi og vísar til þess að heilbrigði umhverfis, manna og annarra dýra, og samfélaga, er samtengt á þann hátt að niðurbrot á einhverju þessara sviða leiðir til niðurbrots á öðrum. Efnið verður skoðað út frá einstökum dæmum um samlífi örvera og manna, eins og áhrifum örvera á bragð og samsetningu matvæla, áhrifum mataræðis á þarmaflóru, hlutverki gerjunar í mótun mannlegra tengsla og hvernig losunarkerfi í þéttbýli rjúfa hringrás næringarefna í umhverfi mannsins.
Munnleg hefð og íslenskar fornsögur og kvæði (ÞJÓ109F)
Lögð verður til grundvallar kenning Alberts B. Lord um munnlegan kvæðaflutning (munnlega kenningin) í bókinni The Singer of Tales. Þá verða raktar þær rannsóknir sem fram hafa komið í kjölfar hennar og reynt að meta hvaða áhrif kenningin hefur á rannsóknir miðaldabókmennta sem byggja að hluta á munnlegri hefð. Í seinni hluta námskeiðsins verður tekið mið af eddukvæðum og nokkrar Íslendingasögur lesnar vandlega með hliðsjón af kenningum um sagnfestu- bókfestu- og nýsagnfestu. Kennslan fer fram með fyrirlestrum kennara og umræðum. Nemendum er ætlað að vinna sjálfstæð verkefni og skila greinargerðum um efni nokkurra bóka og greina.
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum í bland við sjálfstæð nemendaverkefni um rannsóknaviðfangsefni námskeiðsins.
Athugið, námskeiðið er kennt annað hvert ár.
Kenningar í félags- og mannvísindum (FMÞ102F)
Námskeiðið fjallar um nýleg verk og stefnur sem valdið hafa, eða eru líkleg til að valda, straumhvörfum í félags- og mannvísindalegri hugsun. Áhersla er lögð á samfélagslegt og sögulegt samhengi kenninganna. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum. Skyldumæting er í umræðutíma einu sinni í viku í 40 mínútur. Fjarnemar geta mætt í kennslustofu eða tekið þátt í gegnum Internetið (með Zoom).
Sviðslistafræði (Performance Studies): Frá sagnaflutningi til uppistands, kjötkveðjuhátíða og stjórnmálamanna (ÞJÓ107F)
Sviðslistafræði (Performance Studies) fjallar um það hvernig fólk í öllum samfélögum, bæði fyrr og nú, tekur þátt í ymis konar sviðslist (performances) í daglegu lífi, á mismunandi "leiksviðum", allt frá helgisiðum til kirkjupredikana, leiksýninga, kvikmyndasýninga, útvarpsþátta, uppistands, sagnaflutnings, gjörningalistar, hátíða, útskriftasiða, matarboða, dulbúningasiða og málflutnings stjórnmálamanna heima og erlendis. Á námskeiðinu munu nemendur kynnast þeim margslungnu táknmálsformum sem beitt er í mismunandi tegundum sviðslista, frá talmáli til búninga, útlits, svipbrigða, kyns, samhengis, hljóðs, "timing" og nytsemi rýmis og viðtöku áhorfenda.
Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, umræðum um fyrirlestra og farið í heimsóknir.
Norræn trú (ÞJÓ203F)
Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.
Matur og menning: (NÆR613M)
Matur er mannsins megin, uppspretta orkunnar og forsenda lífsins. En matur er líka sneisafullur af merkingu. Matarhættir veita innsýn í heimsmynd okkar, lífssýn og listfengi og matur mótar tilveru okkar, líkama, samfélag, hagkerfi, hugarfar og siðferði. Sjálfsmynd okkar og minningar eru nátengdar mat og matur er einhver mikilvægasti miðillinn fyrir samskipti okkar við annað fólk.
Í námskeiðinu skoðum við hvað fólk borðar, hvernig, hvenær, með hverjum og hvers vegna. Með þeim hætti fáum við dýrmæta innsýn í kyngervi og kynslóðir, fæðuöryggi og rétt til matar, stéttaskiptingu og menningarlegan margbreytileika, skynheim og fegurðarskyn, tækni og matvælaframleiðslu, tísku og matarkúra, matarhefðir og menningararf, tilfinningar, vináttu og fjölskyldubönd. Matarhættir tengja þannig saman menningu og náttúru, hnattvæðingu og hið staðbundna, heimilið og vinnustaðinn, fortíð og samtíð, manneskjur og örverur.
Í námskeiðinu beinum við sjónum að sambandi matarframleiðslu og neyslu á 21. öld með sérstaka áherslu á lýðheilsu, siðferðislega neyslu og sjálfbærni.
Matur og menning eru þverfagleg viðfangsefni og því er þetta námskeið kennt í samstarfi námsbrauta í þjóðfræði og matvæla- og næringarfræði.
Náttúrusögur: (yfir)náttúra í þjóðsögum og bókmenntum fyrri alda (ÞJÓ614M)
Með hliðsjón af þjóðsögum, bókmenntatextum og öðrum heimildum fjallar námskeiðið um birtingarmyndir náttúru og yfirnáttúru í frásagnarmenningu á Íslandi í gegnum aldirnar. Nemendur læra um þýðingu, snertifleti og óljós mörk þessara fyrirbæra og hvernig þau hafa mótað samfélag og umhverfi. Nemendur kynnast þannig ólíkum hugmyndum um stöðu fólks og (annarra) dýra innan, yfir eða utan við náttúruna. Í fjölbreyttum fyrirlestrum og verkefnavinnu verður fjallað með gagnrýnum hætti um mennsku og dýrsleika, lífheima og handanheima, efnisleika og hið yfirskilvitlega. Kannað verður hvaða hlutverk og form landslag, lífverur, líkamar, veður og náttúrufyrirbrigði taka í frásögnunum. Kynntar verða nýjustu rannsóknir á þessu breiða sviði, svo sem á framsetningu jarðhræringa og himingeima, bjarndýra, hvala, sela og húsdýra, og á náttúrvættum og öðrum þjóðsagnaverum á borð við álfa, drauga, tröll og berserki. Nemendur læra hvernig sagnaheimar og þjóðtrú hafa sett mark sitt á náttúruskynjun, alþýðuhefðir, þjóðhætti og samfélagsleg rými svo sem álagabletti, helga staði og staði sem eru þekktir fyrir reimleika. Einnig spyrjum við hvernig þessar frásagnir birtast í alþýðulist og myndlist, allt frá fyrri öldum til nútímans. Að lokum munum við kanna hvaða þýðingu frásagnir af náttúru og yfirnáttúru hafa í samhengi mannaldar, mannmiðaðra sjónarhorna, loftslagsbreytinga og ólíkrar stöðu samfélagshópa og tegunda
Hafðu samband
Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs
Fylgstu með Félagsvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.