Skip to main content

Blaðamennska

Blaðamennska

Félagsvísindasvið

Blaðamennska

BA gráða – 120 einingar

Blaðamennska er hagnýtt og fræðilegt nám sem undirbýr þig fyrir störf við fjölmiðla framtíðar. Staðgóð menntun blaða- og fréttamanna er mikilvæg forsenda þess að fjölmiðlar geti sinnt hlutverki sínu við að upplýsa og fræða fólk í nútíma lýðræðissamfélögum og ekki síst að veita  valdhöfum aðhald. Markmiðið er að leggja traustan grunn að fagþekkingu í blaðamennsku og búa nemendur sem best undir störf í hröðum heimi nútímafjölmiðlunar. 

Skipulag náms

X

Blaðamennska I (BLF101G)

Grundvallarnámskeið í blaðamennsku. Markmið þess er að nemendur öðlist skilning á hlutverki og skyldum blaðamanna í samfélaginu – og nái tökum á grundvallarvinnubrögðum við fréttaöflun, fréttaskrif og framsetningu efnis fyrir mismunandi miðla. Námskeiðinu er skipt í þrjár lotur. Í þeirri fyrstu verður fjallað um hvaða hlutverki fjölmiðla eru almennt taldir gegna í lýðræðissamfélögum nútímans. Í lotu tvö verður sjónum beint að fréttum. Hugtök og aðferðir við fréttaskrif eru kynnt; hvað er frétt, á hverju byggja fjölmiðlar fréttamat, hvernig er frétta aflað og hvernig þær eru uppbyggðar o.s.frv. Í lotu 3 verður fjallað um framsetningu frétta á mismunandi miðlum, með áherslu á vef og samfélagsmiðla. Námsmatið byggir alfarið á verkefnum sem unnin eru jafnt og þétt yfir önnina. Nemendur afla og skrifa fréttir sem birtar verða á fréttavef námsins.

X

Íslensk tunga í fjölmiðlum (BLF102G)

Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist skilning á hlutverki fjölmiðla í miðlun, þróun og vernd íslenskunnar. Nemendur verða þjálfaðir í að skrifa fréttatexta og greinar á góðri íslensku og að nýta sér margvísleg hjálpartæki höfunda. Einnig fá þeir tilsögn í raddbeitingu og framsögn. Þá verður fjallað orða og hugtakanotkun í margbreytilegu samfélagi. Námsmatið byggir á verkefnum.

X

Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í alþjóðlegu samhengi (BLF103G)

Í námskeiðinu verður fjallað um sögu og þróun íslenskra fjölmiðla. Fjallað verður um megineinkenni íslenska fjölmiðlakerfisins og sjónum einkum beint að samspili þess við stjórnmála- og efnahagsumhverfið. Skoðaðar verða helstu kenningar og rannsóknir á fjölmiðlakerfum og megineinkenni og þróun íslenskra fjölmiðla sett í samhengi við einkenni og þróun fjölmiðla í öðrum ríkjum. Leitast verður við að svara spurningum um að hvaða leyti þróunin hér á landi hefur verið lík þróuninni annarsstaðar og að hvaða leyti íslenskir fjölmiðlar skera sig úr, meðal annars vegna smæðar markaðarins. Velt verður upp spurningum um áhrif eignarhalds, samkeppni, samþjöppunar og samruna ólíkra tegunda fjölmiðla á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

X

Inngangur að stjórnmálafræði: Íslenska stjórnkerfið (STJ101G)

Fjallað er í víðu samhengi um helstu viðfangsefni stjórnmálafræðinnar, eins og vald, lýðræði, ríkið og stjórnmálastefnur. Lögð er sérstök áhersla á að tengja umfjöllun námskeiðsins við íslensk stjórnmál og stjórnmálaþróun. Fjallað er meðal annars um þróun íslenskrar stjórnskipunar, kosningar, stjórnmálaflokka, þingið, framkvæmdarvaldið, opinbera stefnumótun og sveitarstjórnir.

X

Gagnalæsi og framsetning (STJ208G)

Gögn skipta sífellt meira máli í störfum stjórnmálafræðinga, hvort sem er í opinberri stjórnsýslu, í fjölmiðlum og viðskiptum, í félagsstörfum eða í rannsóknum. Að vera læs á gögn og geta miðlað tölulegum upplýsingum skiptir því grundvallarmáli fyrir stjórnmálafræðinga. Í þessu námskeiði öðlast nemendur skilning á gögnum og gagnavinnslu með það fyrir augum að gera þá að öruggum og hæfum notendum gagna. Megináhersla námskeiðsins er á myndræna framsetningu, en nemendur munu kynnast grundvallarviðmiðum sem eiga við um framsetningu gagna og hvernig hægt er að beita þeim viðmiðum á fjölbreyttar tegundir gagna. Í námskeiðinu vinna nemendur með raunhæf gögn tengd stjórnmálafræði og opinberri stjórnsýslu og öðlast verklega færni í því að sækja, vinna með og miðla gögnum með viðurkenndu gagnavinnsluforriti.

X

Ritstjórnarfundur I (BLF203G)

Markmið þessa námskeiðs er að þjálfa nemendur í að koma hugmyndum að frétta- og greinaskrifum á framfæri við fjölmiðla/ritstjórnir og að taka þátt í samstarfi á ritstjórn. Hugmyndir að umfjöllunarefnum verða rædd og gagnrýnd, fjallað um mögulega nálgun, viðmælendur og aðrar heimildir.

X

Blaðamennska II: Fréttaskýringar, erlendar fréttir og viðtöl (BLF201G)

Í námskeiðinu er haldið áfram að vinna með það sem nemendur lærðu í áfanganum BLF101G Blaðamennska l. Markmiðið er að þjálfa nemendur enn frekar í frétta- og greinaskrifum. Fjallað verður um fréttaskýringar, erlendar fréttir, mannlífsefni og viðtöl, uppsetningu texta, myndefni, framsetningu og útlit. Námsmatið byggir alfarið á verkefnum sem unnin eru jafnt og þétt yfir önnina. Nemendur skrifa fréttir og greinar sem birtar verða á fréttavef námsins og eftir atvikum í öðrum fjölmiðlum.

X

Blaðamennska lll: Hljóðvarp og myndmiðlar (BLF202G)

Markmið þessa námskeiðs er að þjálfa nemendur í störfum við hljóð- og myndmiðla þar á meðal hlaðvarp og að nota snjallsíma til að vinna fréttir. Fjallað verður hvað er líkt með þessum miðlum og hvað skilur þá að, kosti þeirra og galla. Nemendur verða þjálfaðir í að skrifa og byggja upp fréttir fyrir hljóð- og myndmiðla og að nýta eiginleika hljóð- og myndefnis til að segja fréttir. Einnig verður fjallað um notkun hljóð og myndefnis á vef og samfélagsmiðlum. Nemendur fá tilsögn í tæknivinnslu hljóð- og myndefnis.

X

Kyn, fjölmenning og margbreytileiki (KYN201G)

Fjallað um helstu viðfangsefni margbreytileika- og kynjafræða í ljósi gagnrýnnar fjölmenningarhyggju og margbreytileika nútímasamfélaga. Áhersla er á hvernig viðfangsefnin tengjast íslenskum veruleika og stjórnmálum.

Skoðað er hvernig félagslegar áhrifabreytur á borð við kyn, kynhneigð, þjóðernisuppruna, trúarskoðanir, fötlun, aldur og stétt eiga þátt í að skapa einstaklingum mismunandi lífsskilyrði og möguleika.

Kynnt verða helstu hugtök kynja- og margbreytileikafræða svo sem kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja og skoðað hvernig félagslegar áhrifabreytur eru ávallt samtvinnaðar í lífi fólks. Áhersla er á hvernig málefni kyns, fjölmenningar og margbreytileika tengjast íslenskum veruleika og stjórnmálum. 

X

Stjórnmál í fjölmiðlum: Fréttir, samfélagsmiðlar og markaðssetning (STJ360G)

Námskeiðið fjallar um hvernig upplýsingar um stjórnmál dreifast í gegnum fjölmiðla og hvernig þessi upplýsingamiðlun hefur áhrif á skilning okkar á stjórnmálum í dag. Námskeiðið blandar saman kenningum og rannsóknum úr fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði og blaða- og fréttamennsku. Nemendur læra meðal annars um stafræn stjórnmál og samskipti, samfélagsmiðlanotkun stjórnmálafólks og stjórnmálaflokka, krísu hefðbundinna stjórnmála og fjölmiðla í lýðræðisríkjum, hvernig fréttir um stjórnmál verða til, pólitíska markaðssetningu og kosningabaráttur og stjórnmál sem skemmtiefni. Í tengslum við þessi viðfangsefni fræðast nemendur til dæmis um rannsóknir sem snúa að hvernig stríðsátök birtast okkur á samfélagsmiðlum, fjölmiðlaumfjöllun í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit, hvernig Donald Trump hefur beitt samfélagsmiðlum í samskiptum sínum við umheiminn, fjölmiðlaumfjöllun um COVID-19 og nýlegum dæmum frá íslenskum stjórnmálum. Þar sem efni námskeiðsins tengist málefnum líðandi stundar eru nemendur hvattir til að fylgjast vel með fréttum um stjórnmál í fjölbreyttum miðlum.

X

Stafrænir miðlar (BLF301G)

Í námskeiðinu er sjónum beint að stafrænum miðlum með sérstaka áherslu á samfélagsmiðla. Litið verður á stafræna miðla í sögulegu samhengi og hvaða áhrif boðskiptamynstur þeirra hefur á fagaðila, neytendur og notendur. Í fyrri hluta námskeiðsins verða helstu kenningar útskýrðar og settar í samhengi við viðurkenndar aðferðir. Síðari hluti námskeiðsins byggir á dæmum sem sýna helstu einkenni stafrænna miðla. Má þar nefna samspil stafrænna miðla og fjölmiðla, regluverk og viðskiptamódel samfélagsmiðla, áhrif stafrænna miðla á einkalíf og opinbera umræðu, áhrifamátt og dreifingarhæfni samfélagsfélagsmiðla og hvernig þeir skilyrða þátttökumöguleika notenda.

X

Öflun, meðferð og framsetning upplýsinga og gagna (BLF302G)

Markmið þessa námskeiðs er að þjálfa nemendur frekar í faglegum vinnubrögðum blaðamennsku og áhersla lögð á aðferðir og tæki við öflun, meðferð og framsetningu upplýsinga og gagna. Fjallað verður um upplýsingalög og nemendur þjálfaðir í að nota þau til afla upplýsinga og rannsaka mál. Nemendum gefst síðan kostur á velja sér frekari sérhæfingu í rannsóknarblaðamennsku; gagnavinnslu og sjónrænni framsetningu gagna eða notkun gervigreindar í fréttavinnslu. Námskeiðið verður að hluta byggt upp á opnum netnámskeiðum sem ætluð eru til sjálfsnáms (MOOC) og umræðutímum.

X

Fjölmiðlalög og siðareglur (BLF403G)

Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist skilning og þjálfun í faglegum vinnubrögðum blaðamanna. Fjallað verður um lög og reglur sem gilda um fjölmiðla og störf blaðamanna, þ.m.t um tjáningarfrelsi, meiðyrði og vernd heimildarmanna. Fjallað verður um siðareglur fjölmiðla, bæði almennar siðareglur Blaðamannafélags Íslands og innanhúss reglur einstakra fjölmiðla og hvernig þeim er beitt inni á mismunandi fjölmiðlum. Rætt verður um samskipti blaðamanna við eigendur fjölmiðla og auglýsendur. Einnig um meðferð heimilda og umgengni við heimildarmenn eða aðrar rætur upplýsinga.

X

Ritstjórnarfundur II (BLF401G)

Markmið þessa námskeið er að þjálfa nemendur í ritstjórn, að taka þátt í samstarfi á ritstjórn og stýra verkum annara. Nemendur stýra ritstjórnarfundum með fyrsta árs nemendum, þar sem hugmyndir að umfjöllunarefnum verða rædd og gagnrýnd, fjallað um mögulega nálgun, viðmælendur og aðrar heimildir. Einnig ritstýra þeir umfjöllun og sjá um birtingu á vef námsins, og að deila efni á samfélagsmiðlum.

X

Starfsþjálfun (BLF402G)

Nemendur fara í 6 vikna starfsþjálfun á fjölmiðli. Þar ganga þeir í almenn störf blaðamanna og kynnast flestum þáttum starfa á ritstjórn. Í upphafi annar vinna nemendur undir handleiðslu að því að útbúa ferilsskrá og umsókn um starfnám á fjölmiðli. Síðan fara þeir í starfsnám á valinn miðil. Í lok starfsþjálfunar skal skila til umsjónarkennara námskeiðsins dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfstíma stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver helstu verkefni vikunnar voru og ígrundun um þau og vinnuna almennt. Einkunn er ekki gefin fyrir starfstímann. Námskeiðinu verður hins vegar ekki lokið fyrr en umsjónarmaður starfsþjálfunar hefur staðfest mætingu nemanda og að viðunandi árangur hafi náðst. Kennari skilar staðfestingu til deildarskrifstofu. Nemendur með yfirgripsmikla reynslu á starfi í fjölmiðlum geta sótt um undanþágu á starfsnámi á skrifstofu stjórnmálafræðideildar. Alla jafna er miðað við að starfsþjálfunin fari fram í febrúar - mars á vormisseri síðasta námsárs.

X

Falsfréttir, upplýsingaóreiða og stjórnmál (STJ355G)

Í námskeiðinu verður kastljósinu beint að upplýsingaóreiðu og falsfréttum í tengslum við umræðu um stjórnmál. Fjallað verður um mismunandi skilgreiningar á hugtakinu falsfrétt og það rætt í sögulegu samhengi. Skoðuð verða möguleg áhrif og afleiðingar falsfrétta og einnig hvernig hugtakinu er beitt í pólitískri baráttu.

Fjallað verður um hvernig röngum og misvísandi upplýsingum er dreift og sérstaklega skoðaður þáttur samfélagsmiðla í dreifingunni. Þá verður farið í hverjir dreifa falsfréttum og í hvaða tilgangi. Einnig verður fjallað um hvernig stjórnvöld á Vesturlöndum hafa brugðist við auknu umfangi falsfrétta og tilraunum utanaðkomandi aðila til að hafa áhrif á lýðræðislega umræðu og kosningar.

Þá verður vikið að því breytta fjölmiðlaumhverfi sem stjórnmálamenn búa við, þar sem upplýsingar dreifast á ógnarhraða og tími til umhugsunar og viðbragða því oft lítill. Einnig hafa skilin milli  einkalífs og opinbers lífs orðið óljósari og fréttir af því sem stjórnmálamenn segja og/gera geta náð til mjög margra á örskömmum tíma.

X

Alþjóðastjórnmál: Inngangur (STJ102G)

Námskeiðinu er ætlað að kynna nemendur fyrir ólíkum kenningum og viðfangsefnum alþjóðastjórnmála, einkum út frá breyttri stöðu í alþjóðastjórnmálum eftir Kalda stríðið. Hnattvæðing er notuð sem ein grunnnálgun að viðfangsefninu. Byrjað er á því að fjalla um alþjóðakerfið, ríkið og stöðu þess í kerfinu. Þá er farið í grunnkenningar alþjóðastjórnmála og helstu greinar innan þess, s.s. stjórnmálahagfræði og öryggisfræði. Fjallað er um alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar og hlutverk þeirra. Síðari hluti námskeiðsins er helgaður viðfangsefnum alþjóðastjórnmála, t.d. umhverfismálum, frjálsum félagasamtökum og mannréttindum.

Í námskeiðinu eru nemendur:
1) kynntir fyrir nokkrum helstu kenningum í alþjóðastjórnmálum, sem veit þeim grunn að skilningi á pólitískum viðburðum í samtímanum
2) þjálfaðir í að greina gagnrýnið hugmyndir og kenningar um hnattvæðingu/alþjóðavæðingu
3) kynntir fyrir samhengi milli viðburða í alþjóðastjórnmálum og kenningum á því sviði

X

Verkefni í blaðamennsku (BLF002G)

Nemandur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn. 

X

Verkefni í blaðamennsku (BLF001G)

Nemandur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn. 

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 
Netfang: nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs

Stjórnmálafræðideild á samfélagsmiðlum

 Instagram   Facebook

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.