Skip to main content

Náttúruvá - Kjörsvið í meistaranámi í landfræði

Tilgangur með þessu kjörsviði er að efla rannsóknatengt nám á mikilvægu, þverfræðilegu sviði sem varðar sambúð fólks og náttúru, þar sem velferð og miklir hagsmunir eru í húfi bæði hér á landi og annars staðar. Ísland býður einstaka möguleika til náms og rannsókna á þessu sviði.

Markmið með kjörsviðinu er að brautskrá meistaranema sem hafa staðgóða fræðilega og hagnýta þekkingu á náttúruvá af ólíkum tegundum. Þetta tekur til náttúrulegra orsaka og ferla, en einnig til viðbragða samfélaga við slíkri vá. Aukinni tíðni ýmissa veðurtengdra hamfara verður veitt sérstök athygli, en einnig hugað að öðrum tegundum náttúruhamfara sem algengar eru á Íslandi, svo sem eldgosum, jarðskjálftum og jökulhlaupum.

Nemendur fá góða innsýn í aðferðir sem notaðar eru við greiningu á hamfaraatburðum og þjálfun í að beita þeim, sem og í gerð líkana um slíka atburði. Þeir fá einnig þekkingu á kerfi almannavarna hér á landi og ábyrgð hina ýmsu aðila sem koma að vöktun og viðbrögðum við náttúruvá.

Helmingur námsins er bundinn í námskeiðum (60 ECTS) og helmingur í lokaverkefni nemenda. Í lokaverkefnum sínum geta nemendur einblínt á tilteknar hliðar náttúruvár og mótað þau að sínu áhugasviði, efnislega og aðferðafræðilega.

Meðal viðfangsefna

 • Orsakir og eðli hamfaraatburða
 • Landfræðileg dreifing náttúruvár á heimsvísu
 • Tegundir náttúruvár á Íslandi
 • Ofanflóð og hegðun þeirra
 • Gerð líkana af hamfaraatburðum
 • Tengsl náttúruvár og loftslagsbreytinga
 • Samfélagskenningar um náttúruvá
 • Viðbrögð ríkra og fátækra samfélaga við vá
 • Skynjun einstaklinga og hópa á áhættu
 • Almannavarnahringrásin
 • Vettvangsferðir og heimsóknir

Störf að loknu námi

Að námi loknu eiga nemendur að vera færir um að starfa á fjölbreyttum vettvangi innan ýmissa opinberra stofnana, frjálsra félagasamtaka, fyrirtækja og annarra aðila sem láta sig náttúruvá varða. Möguleg starfssvið tengjast m.a. viðbrögðum við einstökum atburðum, skipulagi byggðar með hliðsjón af mögulegri náttúruvá og vöktun á ferlum sem tengjast slíkri vá eða rannsóknum á sviðinu.