Skip to main content

Umhverfis- og byggingarverkfræði

Umhverfis- og byggingarverkfræði

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Umhverfis- og byggingarverkfræði

BS gráða – 180 einingar

Umhverfis- og byggingarverkfræðingar þróa og hanna hagkvæmar lausnir sem tryggja öryggi og stuðla að jákvæðum áhrifum á heilsu og umhverfi. Grunnnám í umhverfis- og byggingarverkfræði er þriggja ára nám sem lýkur með BS gráðu. Til að öðlast réttindi til starfsheitisins verkfræðingur þarf einnig að ljúka meistaraprófi.  

Skipulag náms

X

Eðlisfræði 1 V (EÐL102G)

Markmið: Að kynna nemendum aðferðir og grundvallarlögmál aflfræði, stöðufræði og bylgjufræði til þeirrar hlítar að þeir geti beitt þeim við lausn dæma. Námskeiðinu er m.a. ætlað að vera undirstaða í þessum greinum fyrir frekara nám í verkfræði.

Námsefni: Hugtök, einingar, tölur, víddir. Vigrar. Gangfræði. Hreyfifræði agna, tregða, kraftar og lögmál Newtons. Núningur. Vinna og orka og varðveisla orkunnar. Skriðþungi, árekstrar. Agnakerfi, massamiðja. Snúningur stjarfhlutar. Hverfiþungi og hverfitregða. Stöðufræði. Þyngd. Storka og straumefni, jafna Bernoullis. Sveiflur: Hreinar, deyfðar og þvingaðar. Bylgjur. Hljóð.

Verklegt: Gerðar eru 3 verklegar æfingar þar sem viðfangsefnin eru einkum sótt í aflfræði og áhersla lögð á að kynna nemendum verklag við gagnasöfnun og úrvinnslu gagna.  Nemendur skila vinnubókum fyrir verklegu æfingarnar og fá einkunn.

Athugið að kennslubókin er aðgengileg nemendum í gegnum Canvas án endurgjalds.

X

Stærðfræðigreining I (STÆ104G)

Þetta er grunnnámskeið um stærðfræðigreiningu í einni breytistærð. Æskilegur undirbúningur er að nemendur hafi lokið námskeiðum á framhaldsskólastigi sem fjalla um algebru, rúmfræði, hornaföll, diffrun og heildun. Námskeiðið leggur grunn að skilningi á greinum á borð við náttúrufræði, verkfræði, hagfræði og tölvunarfræði. Umfjöllunarefni námskeiðsins eru meðal annars:

  • Rauntölur.
  • Markgildi og samfelld föll.
  • Deildanleg föll, reglur um afleiður, hærri afleiður, hagnýtingar deildareiknings (útgildisverkefni, línuleg nálgun).
  • Torræð föll.
  • Meðalgildissetning, setningar l'Hôpitals og Taylors.
  • Heildun, ákveðin heildi og reiknireglur fyrir þau, stofnföll, óeiginleg heildi.
  • Undirstöðusetning stærðfræðigreiningarinnar.
  • Hagnýtingar heildareiknings: Bogalengd, flatarmál, rúmmál, þungamiðjur.
  • Venjulegar afleiðujöfnur: fyrsta stigs línulegar diffurjöfnur, annars stigs línulegar diffurjöfnur með fastastuðlum.
  • Runur og raðir, samleitnipróf.
  • Veldaraðir, Taylor-raðir.
X

Línuleg algebra (STÆ107G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort REI201G  Stærðfræði og reiknifræði eða STÆ107G Línuleg algebra.

Fjallað er um undirstöðuatriði línulegar algebru yfir rauntölurnar.

Viðfangsefni: Línuleg jöfnuhneppi,fylkjareikningur, Gauss-Jordan aðferð.  Vigurrúm og hlutrúm þeirra.  Línulega óháð hlutmengi, grunnar og vídd.  Línulegar varpanir, myndrúm og kjarni.  Depilfargfeldið, lengd og horn.  Rúmmál í margvíðu hnitarúmi og krossfeldi í þrívíðu.  Flatneskjur, stikaframsetning og fólgin framsetning.  Hornrétt ofanvörp og einingaréttir grunnar.  Aðferð Grams og Schmidts.  Ákveður og andhverfur fylkja.  Eigingildi, eiginvigrar og hornalínugerningur.

X

Tölvunarfræði 1a (TÖL105G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort TÖL101G Tölvunarfræði 1 eða TÖL105G Tölvunarfræði 1a.

Forritun í Python (sniðið að verkfræðilegum og raunvísindalegum útreikningum): Helstu skipanir og setningar (útreikningur, stýri-setningar, innlestur og útskrift), skilgreining og inning falla, gagnatög (tölur, fylki, strengir, rökgildi, færslur), aðgerðir og innbyggð föll, vigur- og fylkjareikningur, skráavinnsla, tölfræðileg úrvinnsla, myndvinnsla. Hlutbundin forritun: klasar, hlutir, smiðir og aðferðir. Hugtök tengd hönnun og smíði tölvukerfa: Forritunarumhverfi, vinnubrögð við forritun, gerð falla- og undirforritasafna og tilheyrandi skjölun, villuleit og prófun forrita.

X

Starf og ábyrgð verkfræðinga (UMV102G)

Markmið: Að lýsa störfum, siðfræðilegri ábyrgð og fagmannlegum vinnubrögðum hjá verkfræðingum.

Efni: Námskeiðið gefur verkfræðinemum grunn til að skilja siðfræðilegar skyldur sínar gagnvart umhverfi, samfélagi, faginu og sjálfum sér. Það veitir innsýn í störf verkfræðinga í fortíð, nútíð og framtíð.  Gefið er yfirlit yfir hin fjölþættu starfsvið verkfræðinga á íslenskum og erlendum atvinnumarkaði. Frumkvöðlastarf og nýjustu stefnur, t.d. sjálfbærni og ýmis umhverfismál, eru rædd. Heimildavinna og ritgerðarsmíð er kennd og gefnar ábendingar um fagmannlega og góða framkomu. Unnin eru ýmis verkefni í umræðu- og hópvinnutímum til að dýpka skilning á efni námskeiðsins.

X

Vinnustofa fyrir nýnema í umhverfis- og byggingarverkfræði (BYG057G)

Vinnustofa fyrir nýnema í BS námi í umhverfis- og byggingarverkfræði til þess að vinna að heimaverkefnum í stærðfræðigreiningu I, eðlisfræði 1 og línulegri algebru. Stúdentar af efri árum taka vaktir á vinnustofunum yfir misserið og leitast við að svara spurningum nýnema. Hlutverk vaktmanna er ekki að kenna þessi fög heldur gefa góð ráð og ábendingar. Þessar vinnustofur eru vettvangur fyrir nýnema deildarinnar til að hittast og vinna sjálfstætt að verkefnum fyrsta misseris. Allir BS nemendur í umhverfis- og byggingarverkfræði eru hvött til að taka þátt.

Skiptist almennt á 12 vikur og byrjar í þriðju viku misseris, 2x40 mín einu sinni í viku

X

Greining burðarvirkja 1 (BYG201G)

Greining burðarvirkja 1 er fyrsta námskeiðið af nokkrum í byggingarverkfræði sem ganga út kenna aðferðir við að ákvarða undirstöðukrafta, sniðkrafta og formbreytingar í burðarvirkjum vegna álags. Slík greining er grundvöllur fyrir alla verkfræðilega hönnun. Í námskeiðinu er farið yfir undirstöðuatriði í stöðufræði og aflfræði og veitt þjálfun í að greina einföld virki. Vikulega eru lögð fyrir skilaverkefni sem byggja á handreikningum. Einnig þarf þó beita tölvum og forrita í Matlab.

X

Tölvuteikning og framsetning (BYG202G)

Markmið kennslunnar er að fá nemendur til að kynnast og/eða auka skilning sinn á CAD teiknivinnslu og á BIM (Building Information Modeling) aðferðafræðinni. Nemendur nota bæði AutoCAD og Revit forritin til grundvallar í kennslustundum.

Viðmót og eiginleikar forritanna eru kynntir og notkun þeirra við almenna byggingarhönnun og skráningu.
Önnur algeng forrit innan BIM aðferðafræðinnar verða einnig kynnt, eins og t.d. Formit, SketchUp, Civil 3D, Infraworks, 3ds Max, Navisworks, Inventor, ReCap og önnur sambærileg forrit sem hverju og einu er ætlað að auðvelda vinnu við úrlausnir ákveðinna hönnunarþátta og ætlað að auðvelda samvinnu ólíkra fagaðila við gerð heildstæðs BIM líkans á skilvirkan hátt.

Nemendur kynnast AutoCAD teikniforritinu fyrir hverskonar tví- og þrívíða teiknivinnu. Farið verður í helstu skipanir og skilgreiningar til að öðlast skilning á hvernig teikningar eru skapaðar og uppbyggðar.

Hugtakið BIM (Building Information Modeling) verður kynnt og hvernig Revit hugbúnaðurinn vinnur skv. BIM aðferðafræðinnni. Nemendur skapa þrívíddar byggingarlíkan í Revit sem hefur alla eiginleika BIM aðferðafræðinnar til sköpunar teikninga, magntöku og ýmissa greininga.

X

Líkindareikningur og tölfræði (STÆ203G)

Grundvallarhugtök í líkindafræði og tölfræði, stærðfræðileg undirstaða þeirra og beiting með tölfræðihugbúnaðinum R. 

  • Líkindi, slembistærðir og væntigildi þeirra
  • Mikilvægar líkindadreifingar
  • Úrtök, lýsistærðir og úrtaksdreifing lýsistærða
  • Metlar og öryggisbil
  • Hugmyndafræði tilgátuprófa
  • Mikilvæg tilgátupróf
  • Línuleg aðhvarfsgreining

X

Stærðfræðigreining II (STÆ205G)

Í námskeiðinu er fengist við stærðfræðigreiningu falla af mörgum breytistærðum. Helstu hugtök sem koma vip sögu eru:

Opin mengi og lokuð. Varpanir, markgildi og samfelldni. Deildanlegar varpanir, hlutafleiður og keðjuregla. Jacobi-fylki. Stiglar og stefnuafleiður. Blandaðar hlutafleiður. Ferlar. Vigursvið og streymi. Sívalningshnit og kúluhnit. Taylor-margliður. Útgildi og flokkun stöðupunkta. Skilyrt útgildi. Fólgin föll og staðbundnar andhverfur. Ferilheildi, stofnföll. Heildun falla af tveimur breytistærðum. Óeiginleg heildi. Setning Greens. Einfaldlega samanhangandi svæði. Breytuskipti í tvöföldu heildi. Margföld heildi. Breytuskipti í margföldu heildi. Heildun á flötum. Flatarheildi vigursviðs. Setningar Stokes og Gauss.

X

Jarðfræði fyrir verkfræðinga (UMV203G)

Tengsl jarðfræði við umhverfis- og byggingarverkfræði. Farið er í helstu þætti í almennum jarðvísindum. Innri öfl: Innri gerð jarðar, kvika og bergtegundir, jarðskorpuhreyfingar, jarðskjálftar, eldvirkni. Ytri öfl: Veðrun, rof (jökulrof, árrof, sjávarrof), setmyndun / setmyndunarumhverfi, hringrás vatns (grunnvatn). Fjallað er um jarðsögu Íslands og N-Atlantshafsins. Farið er yfir helstu þætti í náttúruvá á Íslandi, s.s. eldgos, jarðskjálfta, ofanflóð, flóð, ofasaveður. Fjallað um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Fjallað er um hagnýt jarðefni, s.s. jarðefni sem byggingarefni og í vegagerð, fylliefni í steypu, jarðefni í sement, annað fylliefni, frostnæmi, síur, stórgrýti, önnur hagnýt jarðefni, bergtækni, prófanir á bergi og berggæðamat. Helstu rannsóknaraðferðir í verkfræðilegri jarðfræði og jarðeðlisfræðilegri könnun kynntar. Rannsóknir vegna undirbúnings ýmis konar mannvirkja: virkjanir, jarðgöng, hafnir, brýr, vegir, flugvellir, raflínur og skipulag þéttbýlis. Ýmis dæmi um jarðfræðilegan undirbúning og áhrif hans á hönnun og byggingu. Nemendum er boðið upp á tvær til þrjár heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á önninni og að auki er farið í tveggja daga námsferð þar sem jarðfræðileg og umhverfis- og byggingaverkfræðileg verkefni verða skoðuð.

X

Samfelldaraflfræði 1 (BYG301G)

Markmið: Að kynna undirstöðuatriði aflfræði samfelldra efna og veita þjálfun í beitingu þeirra. Nemendur beiti forritinu Matlab við lausn verkefna.

Námsefni: Spenna, streita, samband spennu og streitu, spennuföll. Fjaðurfræði: Tvívítt spennuástand, tvívítt streituástand, spennuþjöppun, snertispenna, áhrif hita stigsbreytinga. Mismunandi brot- og flotskilyrði, þreyta. Beygja, vinda, orkuaðferðir: Ólínuleg hegðun, flot. Stöðugleiki. Bylgjuútbreiðsla í föstum efnum.

X

Efnisfræði (BYG302G)

Markmið er að skapa færni í að meta eiginleika helstu byggingarefna með tilliti til efnisvals og efnisnotkunar.

Grundvallareiginleikar efna s.s. efnisþéttleiki og holrýmd, varmi og varmaeiginleikar, raki og rakaflutningur, styrkur og stífleiki, rúmmálsstöðugleiki, ending og áhrif hitastigsbreytinga á efniseiginleika. Efniseiginleikar timburs, stáls, fylliefna, steypu, plastefna og glers verða skoðaðir. Einnig er fjallað um sjálfbærni og umhverfisáhrif efna í byggingariðnaði.

X

Almenn efnafræði V (EFN301G)

Almenn og sérhæfð atriði um efnatengi og sameindabyggingu. Efnahvörf. Lofttegundir, vökvar, föst efni og lausnir. Varma- og hraðafræði efnahvarfa. Efnajafnvægi: sýru-basa, fellingar-, komplex- og afoxunar. Rafefnafræði og kjarnefnafræði.

X

Stærðfræðigreining III (STÆ302G)

Í námskeiðinu er fjallað undistöðuatriði um tvö svið stærðfræðigreiningar, tvinnfallagreiningu og afleiðujöfnur, með áherslu á hagnýtingu og útreikninga á lausnum.

Viðfangsefni: Tvinntölur og varpanir á svæðum í tvinntalnasléttunni. Föll af einni tvinnbreytistærð. Fáguð föll. Veldisvísisfallið, lograr, rætur og horn. Cauchy-setningin og Cauchy-formúlan. Samleitni í jöfnum mæli. Veldaraðir. Laurent-raðir. Leifareikningur. Hagnýtingar á tvinnfallagreiningu í straumfræði. Venjulegar afleiðujöfnur og afleiðujöfnuhneppi. Línulegar afleiðujöfnur  með fastastuðlum. Ýmsar aðferðir til að reikna út sérlausnir. Green-föll fyrir upphafsgildisverkefni. Línuleg afleiðujöfnuhneppi. Veldisvísisfylkið. Veldaraðalausnir og aðferð Frobeniusar. Laplace-ummyndun og notkun hennar við lausn á afleiðujöfnum. Leifaformúlur fyrir Fourier-myndir og andhverfar Laplace-myndir.

X

Umhverfisverkfræði G (UMV302G)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í þverfaglegan heim umhverfisverkfræðinnar. Áhersla er lögð á að auka skilning á ástæðum fyrir umhverfisvandamálum og kynna hagnýtar aðferðir til að greina og leysa þau. Viðfangsefni eru: Staðbundin og hnattræn umhverfisvandamál, massavarðveislulögmál, umhverfisefnafræði, áhættugreining, mengun í vatni, vatns- og skólphreinsun, loftmengun, sorphirða, hnattræn hlýnun og heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Fyrirlestrar og dæmatímar verða kenndir á íslensku. Skriflegt efni (glærur, heimadæmi og kennslubók) er á ensku. Nemendur vinna hóprannsóknaverkefni sem innifelur gagnasöfnun úr felti, ritgerðarskrif og munnlega kynningu. 

X

Stærðfræðigreining IV (STÆ401G)

Markmið: Að kynna fyrir nemendum Fourier-greiningu og hlutafleiðujöfnur og hagnýtingu á þeim.

Lýsing: Fourier-raðir og þverstöðluð fallakerfi, jaðargildisverkefni fyrir venjulega afleiðuvirkja, eigingildisverkefni fyrir Sturm-Liouville-virkja, Fourier-ummyndun, bylgjujafnan, varmaleiðnijafnan og Laplace-jafnan leystar á ýmsum svæðum í einni, tveimur og þremur víddum með aðferðum úr fyrri hluta námskeiðsins, aðskilnaður breytistærða, grunnlausn, Green-föll, speglunaraðferðin.

X

Töluleg greining (STÆ405G)

Einingar til BS-prófs gilda aðeins fyrir annaðhvort REI201G Stærðfræði og reiknifræði eða STÆ405G Töluleg greining.

Undirstöðuhugtök um nálgun og skekkjumat. Lausn línulegra og ólínulegra jöfnuhneppa. PLU-þáttun. Margliðubrúun, splæsibrúun og aðhvarfsgreining. Töluleg nálgun afleiða og heilda. Útgiskun. Töluleg lausn upphafshafsgildisverkefna fyrir venjuleg afleiðujöfnuhneppi. Fjölskrefaaðferðir. Töluleg lausn jaðargildisverkefna fyrir venjulegar afleiðujöfnur.

Gefin er einkunn fyrir skriflegar úrlausnir á forritunarverkefnum og vegur hún 30% af heildareinkunn. Stúdent verður að hafa lágmarkseinkunn 5 bæði fyrir verkefni og lokapróf.

X

Vatnafræði (UMV201G)

Vatnafræði er vísindaleg könnun á vatnsauðlindum jarðar. Nemendur verða kynntir fyrir eðlisfræðilegum og efnafræðilegum eiginleikum vatns og þeim ferlum sem stýra hvar vatnið er, dreifingu þess og hringrás, ásamt einkennum íslenskra vatnsauðlinda. Aðferðir og líkön sem notuð eru í vatnaverkfræði og hönnun eru kynnt og notuð til lausna verkefna.

X

Landfræðileg upplýsingakerfi 1 (UMV401G)

Stúdentar með UMV401G sem skyldunámskeið hafa forgang við skráningu. 

Markmið: Að gera stúdentum frá breiðum bakgrunni mögulegt að hagnýta landfræðileg upplýsingakerfi til kortagerðar og landfræðilegrar greiningar við skýrslu- og álitsgerð, kynningu verkefna, vinnu og rannsóknir. Að stúdentar öðlist þroska og þjálfun til að: 1) stýra verkefnum á sviði landfræðilegra upplýsinga, 2) meta hvernig landfræðileg greining og kort nýtast best fyrir fjölbreytt verkefni, 3) rita texta sem túlkar kort og lýsir landfræðilegri greiningu, 4) rita fagmannlega skýrslu um verkefni sem hagnýtir sér landfræðileg upplýsingakerfi, kort og landfræðilega greiningu. 

Efni: Stúdentar kynnast landfræðilegum upplýsingakerfum og landfræðilegum gögnum. Lærið gerð staðháttakorta og þemakorta. Notuð verða vektorgögn og rastagögn. Lærið val eftir eigindum og staðsetningu, og gerð kortalaga út frá vali. Lærið tengsl við töflugögn og landfræðileg tengsl. Æfðar verða fjölbreyttar aðgerðir með kortalög, t.d. klippa, sameina, flytja gögn á milli laga, auk teikningar og gerðar nýrra kortalaga. Tengið loftmynd við kortalög. Tengið GPS hnituð gögn við landakort. Framkvæmið landfræðilega greiningu gagna. Áhersla er á að stuðla að þroska nemenda við að velja innihald korta, aðgerðir og greiningartæki, hanna kort og túlka kort með texta. 

Kennsluhættir: Stúdentar kynnast og fá þjálfun í algengri hagnýtri notkun landfræðilegra upplýsingakerfa í verklegum kennslutímum í tölvustofu og við vinnu heimaverkefna og lokaverkefnis byggðum á raunverulegum gögnum. Verkefni eru hönnuð til að auka færni stúdenta í vali korta, innihalds og greiningartækni auk túlkunar korta.

Námsform

Námskeiðið er kennt í kennslustofu með beinu streymi og upptökur síðan gerðar aðgengilegar nokkrum dögum síðar. Hægt er að taka námskeiðið í staðnámi eða fjarnámi eða blandað. Ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að taka námskeiðið sem netnámskeið án rauntímaþátttöku.

X

Umhverfistækni (UMV402G)

Objective: To provide students with an overview of technology to clean and reuse waste and minimize pollution, in sewage treatment areas, air pollution control and waste management.

Topics: The course covers three main topics:

(1) Wastewater treatment and recovery. Physical, chemical and biological purification techniques are discussed in sewage, industrial school cleaning, advanced sewage treatment technology; sewage treatment and disposal of sewage.

(2) Air pollution control. Measurement techniques for air pollution will be addressed. Purification of sulfur oxides, nitrogen oxides, volatile organic carbons, HC substances; PM. Cleaning of mobile sources of air pollution, eg cars. 

(3) Úrgangsstjórnun. Farið verður í lágmörkun úrgangs, lífefnafræðilega umbreytingu úrgangs, minnkun hitamengunar, förgun úrgangs, meðhöndlun hættulegs úrgangs og endurnýtingu.

Kennsluhættir: Fyrirlestrar, dæmatímar, verklegar æfingar, heimaverkefni og hópvinnuverkefni. Kennd verða grunnfræðin og tækniþróun á sviði  hreinsunar og endurnýtingar í umhverfisverfkræði, með áherslu á skólp, loft og fastan úrgang. Heimaverkefni eru lögð fyrir til að hjálpa nemendum að tileinka sér efnið og til að vinna með hagnýt viðfangsefni á sviðinu. Í dæma- og umræðutímum verða lausnir heimaverkefna ræddar. Tilraunir verða framkvæmdar í tilraunastofu til þess að sýna hvernig mismunandi hreinsiferli virka og til að veita nemendum hagnýta reynslu.  Í hópvinnuverkefninu fá nemendur tækifæri á að fara yfir stöðu þekkingar á tilteknu sviði hreinsitækni, skrifa skýrslu og kynna munnlega. 

The course will be useful to students in the fields of environmental engineering, civil engineering, chemical engineering, biotechnology, environmental and natural resources, and life and environmental sciences.

X

Reiknileg aflfræði 1 (BYG401G)

Markmið: Að kynna helstu undirstöðuatriði einingaraðferðarinnar og veita þjálfun í beitingu hennar.

Námsefni: Beiting fylkjareiknings við greiningu burðarvirkja. Formbreytingaraðferðin sett fram sem einingaraðferð. Grindur og rammar. Stífnifylki stakra burðareininga. Uppbygging stífnifylkis fyrir burðarvirki. Lausnaraðferðir. Gerð tölvuforrita og notkun tölvu. Rayleigh-Ritz aðferð. Grundvallaratriði einingaraðferðarinnar. Formföll. Spennugreining tvívíðra samfelldra burðarvirkja. Þríhyrndar og ferhyrndar einingar. Skekkjur.

X

Jarðtækni og grundun 1 (BYG501G)

Markmið:

Að veita nemendum færni í að beita undirstöðuatriðum aflfræði lausra jarðefna við hönnun mannvirkja.

Inntak:

Samsetning jarðvegs, kornastærðadreifing, mörk Atterbergs. Flokkun jarðvegs. Þjöppun jarðvegs. Vökvaþrýstingur, háræðakraftur, grunnvatn, rennsli, rennslisnet, og framræsing. Spennur í jarðvegi, virkar spennur. Skúfstyrkur, innra viðnám, samloðun. Jarðvegsþrýstingur, stoðveggir, sig, sigútreikningar. Burðargeta jarðvegs. Stöðugleiki fláa. Verklegar tilraunir.

X

Samgönguverkfræði (BYG503G)

Markmiðin eru að gera nemendum mögulegt að taka þátt í, framkvæma og meta verkefni á sviði samgönguverkfræði, sér í lagi á sviði vegagerðar, umferðarverkfræði og samgönguskipulags. Að undirbúa nemendur undir framhaldsnám í samgönguverkfræði.

Helstu efnisatriði eru m.a.: Samgöngur og samfélagið; helstu eiginleikar ökutækja sem hafa áhrif á samgönguverkfræði; grundvallar hönnun veglína; umferðaröryggi; umferðarverkfræði; umferðarflæði; biðraðir; umferðarrýmd; umferðarspár og samgöngulíkön.

Nemendur fá þjálfun í samgönguverkfræði við vinnu hönnunarverkefna, bæði sem einstaklingar og í hóp, sem og við framkvæmd lokaverkefnis.

X

Hagverkfræði (IÐN502G)

Markmið námskeiðsins er að gera nemendur færa um:

1. Að skilja helstu hugtök bókhalds, kostnaðarreiknings og fjárfestingarfræði.

2. Að nota aðferðir til að meta hagkvæmni verktæknilegra kosta.

3. Að gera reiknilíkan til að meta arðsemi fjárfestinga, virði fyrirtækja og verðleggja hlutabréf og skuldabréf.

Meðal námsefnis er  bókhald, kostnaðarreikningar, greining á fjárstreymi, fjárfestingarfræði, mælikvarðar á arðsemi, þar á meðal núvirði og innri vextir, og gerð  arðsemilíkana. Námskeiðinu lýkur með hópverkefnum þar sem nemendur æfa arðsemimat verkefna.

X

Straumfræði 1 (UMV502G)

Í námskeiðinu er nemendum veitt undirstöðuþekking í straumfræði. Fræðilegur grunnur kvikefna og rennslis er settur fram. Grunnjöfnur straumfræðinnar eru leiddar út og notaðar til lausnar verkefna. Nemendur gera verklegar æfingar.

X

Sjálfbær borg (UMV504G)

Námskeiðið leggur áherslu á mismunandi sjónarhorn á sjálfbærni í samhengi borga og annarra mannabyggða, og að lokum á spurninguna um hvað hugtakið sjálfbær borg þýðir. Hugmyndir um einnar plánetu mörk og öruggt athafnarými eru færðar yfir í samhengi borga til að sýna hlutverk þeirra í leitinni að sjálfbærum lifnaðarháttum, og til þess að sýna þau skilyrði sem þarf að uppfylla svo að borgin geti verið raunverulega sjálfbær. Námskeiðið kynnir nemendum fyrir helstu atriðum í þremur stoðum sjálfbærnis í samhengi mannabyggða. Hvað er vistfræðileg sjálfbærni þegar það kemur að borgum og öðrum mannabyggðum? Félagsleg? Efnahagsleg? Hvernig getum við sameinað þetta þrennt til að skapa sannarlega sjálfbæra mannabyggð? Velferð, hagvöxtur, bein og óbein vistfræðileg áhrif, tæknilegar og samfélagslegar lausnir og „feedback loops“ á milli þeirra er kynnt og rætt á gagnrýninn hátt.

X

Tilraunastofa í umhverfisverkfræði (UMV502M)

Námskeiðið veitir nemendum þjálfun í framkvæmd tilrauna á fagsviði umhverfisverkfræðinnar. Nemendur hljóta þjálfun í grunnfræðunum, í greiningartækni á vatnsgæðum, læra að framkvæma hátækni skólphreinsun, safna og greina gögn og undirbúa skýrslu með niðurstöðum mælinga. Tveggja manna teymi vinna sjálstætt að framkvæmd tilrauna með áherslu á að hámarka rekstraraðstæður og ná sem mestum árangri í hreinsun vatns. Námskeiðið veitir tæknilega sérfræðikunnátta til grundvallar sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu Þjóðanna nr. 6 (hreint vatn og hreinlætisaðstaða og nr. 14 (líf í vatni).

Projects in Fall 2024: (1) Mitigation of microplastic fibres during membrane filtration of wastewater (focusing on microfiber detection, microfiber transport and interaction with membrane, and water quality); (2) Electrodialysis membrane process for nutrient recovery from wastewater (focusing on 3D-printed system design, membrane performance, and water quality). Students will select one project for fulfilling this course.

X

Álag og öryggi burðarvirkja (BYG101M)

Námskeiðinu er ætlað að kynna líkindafræðilegar forsendur fyrir þolhönnun bygginga og byggingarstaðla. Lýst er aðferðum sem nota má til að ákvarða öryggi og áreiðanleika burðarvirkja.  Ennfremur hvernig beita má þeim til að ákvarða efnisstyrk og álagsgildi við hönnun. Áhersla er lögð á að kynna gildandi Evrópustaðla sem snúa að öryggi mannvirkja og skilgreiningu á álagi. Nemendur þurfa að leysa heimaverkefni þar sem meðal annars þarf að beita tölvun og forritun í Matlab.

X

Verkefnastjórnun (IÐN503G)

Í námskeiðinu eru kennd grunnatriði í verkefnastjórnun. Farið verður yfir grunnhugtök, umhverfi og val verkefna, áætlunargerð, eftifylgni, stjórnun verkefnateyma og lok verkefna. Nemendur fá þjálfun í gerð verkefnaáætlana og að takast á við áskoranir við framkvæmd og lok verkefna. Sérstök áhersla er á notkun verkefnastjórnunar við tækninýsköpun í skipuheildum.

X

Tæknistjórnun (IÐN103G)

Tilgangur námskeiðsins er að undirbúa nemendur undir störf í tæknifyrirtækjum og tæknimiðuðum skipuheildum. Farið verður í helstu þætti í reksti fyrirtækja og annarra skipuheilda og fjallað um hlutverk verkfræðinga og áskoranir sem þeir standa frammi fyrir. Nemendur kynnast greiningaraðferðum sem notaðar eru við ákvarðantöku, túlka niðurstöður þeirra og miðla munnlega og skriflega.

X

Húsagerð (BYG601G)

Markmið: Skýra kröfur til bygginga og áhrif þessa á almenna hönnun þeirra. Skapa færni í mótun forsendna verkkaupa og vinna úr þeim bæði heildar- og deililausnir að húshlutum og húskerfum.

Námsefni: Byggingareðlisfræði einvíðs varma- og rakaflutnings, lofthreyfingar við byggingar og þrýstifall yfir byggingarhluta, loftun þaka og varmatap bygginga. Veðurfar og inniaðstæður. Byggingar, lögun þeirra, innra fyrirkomulag og rýmisþörf, öryggi, heilbrigði og velferð þeirra sem í þeim dveljast. Gerð byggingarhluta og deililausna. Lauslega fjallað um umhverfisvænar byggingar, vistferligreiningu, kostnað, galla, endurbætur og viðhald.

X

Framkvæmdafræði 1 (BYG603G)

Í námskeiðinu er nemendum veitt þjálfun og færni til að beita undirstöðuatriðum í verkefnisstjórn og framkvæmdafræði í byggingageiranum. Farið er í undirstöðu atriði verkefnisstjórnunar og sýnt fram á hvernig þeim er beitt við stjórnun verkefna.

X

Umhverfisskipulag (UMV201M)

Markmið: Nemendur fá yfirsýn yfir umhverfismál í heiminum með áherslu á helstu umhverfisáhrif vegna uppbyggingar þjóðfélaga og nýtingar á auðlindum. Nemendur læra að meta og bera saman mismunandi byggðamynstur og skipulagsmarkmið með tilliti til umhverfisáhrifa þeirra.

Efnisatriði: Námskeiðið gefur nemendum yfirsýn á umhverfisvandamál bæði í nærumhverfi og í heiminum. Áherslan er á greiningu og mat á áhrifum mismunandi landnotkunar á umhverfið. Dæmi um slíkar greiningar eru rannsökuð og leitað að mögulegum skipulagslausnum. Núverandi skipulagsstefna er skoðuð og metin með tilliti til verndunar umhverfisins.

Kennsla: Fyrirlestrar og hópvinna. Fyrirlestrar verða um helstu þemu sem verður nánar fjallað um í hópverkefnum. Í fyrirlestrum verður mikið af dæmum úr fræðilegum rannsóknum kynnt. Nemendur munu einnig taka þátt í fyrirlestrum með umræðum og litlum hópverkefnum.

X

Steinsteypuvirki 1 (BYG202M)

Markmið: Námskeiðið er inngangur að hönnun steinsteyptra mannvirkja. Lögð er megin áhersla á að veita nemendum skilning á hegðun einfaldra bita og einvíðra platna, ásamt því að skapa færni í burðarþolshönnun slíkra burðareininga. Kennt er skv. Eurocode 2.

Námsefni: Fjallað verður um eiginleika steinsteypu og steypustyrktarstáls og samvirkni þeirra í járnbentum mannvirkjum. Spennustreitu ferlar og fjaðurstuðlar. Formbreytingar og spennur eru skoðaðar í notmarkástandi fyrir rifin þversnið. Öryggisstuðlar. Plastísk hönnun. Vægis- og skerburðargeta eru ákvarðaðar í brotmarkástandi, auk gegnumbrots í plötum. Jafnvægis- og lágmarksjárnun. Teygjanleiki þversniða. Tímaháðir eiginleikar steinsteypu, skrið og rýrnun. Frágangur og festa steypustyrktarstáls, umhverfisaðstæður.

Verkefni: Reikniæfingar.

X

Stálvirki 1 (BYG201M)

Markmið: Námskeiðið er inngangur að hönnun stálvirkja. Það veitir nemendum skilning á hegðun burðarvirkja úr stáli og hvernig staðlar eru notaðir við hönnun þeirra.

Námsefni: Framleiðsla á stáli og helstu eiginleikar þess með tilliti til hönnunar stálvirkja. Hegðun og hönnun helstu burðareininga úr stáli svo sem togstanga, bita súlna og bitasúlna. Skoðuð er kiknun burðareininga, bæði súlna og bita og einnig staðbundin kiknun og flokkun þversniða. Tengingar stálvirkja, hegðun þeirra og grunnatriði hönnunar. Tengingar með rafsuðu og boltum og hönnun einfaldra tenginga.

Verkefni: Gert er ráð fyrir reikniæfingum og hönnunarverkefnum.

X

Vegagerð (BYG203M)

Markmið: Að nemendur læri undirstöðuatriði vegagerðar og hönnun vega og flugbrauta.

Námslýsing: Vegferill, hæðarlega, þversnið, undirstöður vega, burðarlög og slitlög. Massareikningar í vegagerð. Buðarþolshönnun vega, vegtækni. Viðhald vega og slitlaga, PMS. Skipulag flugvalla og burðarþolshönnun flugbrauta, akbrauta og flughlaða. Áhrifamat.

X

Vatnsveitur og heilnæmi neysluvatns (UMV601M)

Markmið námskeiðsins er að veita innsýn í hönnun og rekstur vatnsveitukerfa, og hvernig gæði neysluvatns eru best tryggð. Einnig að veita innsýn í hönnun vatnsveitna með einfaldari lausnum á dreifbýlum svæðum.

Efnisinnihald:  Lagarammi vatnsveitna. Kröfur um vatnsgæði og fyrirbyggjandi eftirlit til að tryggja heilnæmi vatns. Helstu þættir sem valdið geta mengun vatns. Vatnsþörf og hönnunarstærðir.  Vatnslindir, virkjun vatnsbóla og vatnsöflun.  Helstu þættir vatnshreinsunar.  Miðlunartankar og ákvörðun á nauðsynlegri stærð þeirra. Dælugerðir og val á dælum. Hönnun aðveituæða og dreifikerfis. Pípugerðir og eiginleikar þeirra. Lokar og brunahanar.

Nemendur vinna sjálfstætt að hönnun lítillar vatnsveitu frá vatnstöku að inntaki til notenda og innra gæðaeftirliti vatnsveitna með áhættugreiningu og skipulagi á aðgerðum til að fyrirbyggja mengun. Einnig verður farið í skoðunarferð til vatnsveitu.

X

Fráveitur og afrennsli í borg (UMV602M)

Markmið námskeiðsins er að veita innsýn í söfnun og flutning fráveituvatns og afrennslis í borg. Námskeiðið fjallar um viðfangsefni Sjálbærnimarkmiða Sameinuðu Þjóðanna nr. 6 (hreinlætisaðstaða) og nr. 11 (Sjálfbærar borgir). 

Efnisinnihald: Efnafræðilegir og líffræðilegir eiginleikar skólps og afrennslis af götum. Tegundir og magn skólps. Hönnun fráveitukerfa: Rennslisreikningar, leyfilegur halli lagna, rennslishraði, Mannings jafnan. Uppbygging kerfa:  Lagnir og leiðslur, brunnar, dælustöðvar og yfirföll í sjó. Bygging, rekstur og endurbætur á skólpkerfum. Magn regnvatns: Úrkomustyrkur, varandi, endurkomutími og afrennslisstuðlar. Orsakir og eiginleikar flóða í þéttbýli á Íslandi. Aðlögun að loftslagsbreytingum með blágrænni, sjálfbærri regnvatnsstjórnun. Geta jarðvegs til að taka við ofanvatni í köldu loftlsagi. 

Námskeiðið innifelur hönnunarverkefni fyrir fráveitur, upplýsingaöflun og greiningu gagna. 

X

Mat á umhverfisáhrifum 1 (UMV205M)

Markmið: Að kynna hugmyndafræði og þær aðferðir, sem notaðar eru við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og á umhverfismati sem samfléttuðum þáttum við gerð skipulagsáætlana.

Efni: Ástæður og aðdragandi lagasetningar um mat á umhverfisáhrifum og hvernig framkvæmd mats er háttað á Íslandi. Aðferðafræði; gátlistar, töflur, glæruaðferðir og flæðirit. Notkun landfræðilegra upplýsingakerfa (LUK), sem byggjast á stafrænum kortagrunnum og gagnasöfnum. Fræðasvið, sem nýtast við matið; landfræði, vistfræði, straumfræði, jarðfræði, efnafræði, lögfræði, félagsfræði, hagfræði og fagurfræði. Aðferðir við framsetningu á matinu; skýrslugerð, myndræn framsetning og tölvugrafík. Dæmi um notkun mats á umhverfisáhrifum við undirbúning og hönnun mannvirkja; losun og förgun úrgangsefna, vega- og línulagnir, brýr, hafnir og flugvellir, verksmiðjur og einstök mannvirki. Einnig ný aðferðafræði um hvernig þarf að flétta aðferðir MÁU inn í gerð skipulagsáætlana, á þann veg að skipulags-, landnýtingar og staðarvalsákvarðanir taki mið af umhverfissjónarmiðum. Hópverkefni, sem tengjast efni námskeiðsins.

X

Titringshljóð og tónlist (IÐN205M)

Þetta námskeið veitir ítarlega könnun á eðlisfræði og hljóðfræði klassískra hljóðfæra, yfirtóna þeirra og hvernig yfirtónar eru notaðir til að smíða tónstiga. Megináherslan er lögð á greiningu hljóðframleiðslu með strengjahljóðfærum (slá, toga og strjúka).  Einnig verður fjallað um hljóðmyndun slagverks-  (trommur, marimba), málmblásturs- (varareyr, sívalur hola, keilulaga hola) og tréblásturshljóðfæra (flautur, einn reyr , tvöfaldur reyr).

Meðal efnis sem fjallað verður um eru eiginleikar hljóðs - þ.e.  geislunareiginleikar, dempunaraðferðir, tenging á milli hljóðvistar og byggingarhluta, tíðni tónnóta, hljóðhjúp og geðhljóð.  Í námskeiðinu er gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunnskilning á undirstöðuatriðum hljóðvistar og titrings.

X

Landfræðileg upplýsingakerfi 2 (LAN617G)

Námskeiðið er verkefnamiðað,nemendur vinna sjálfstætt að verkefnum undir leiðsögn kennara. Leiðsögn kennara felst einkum í tæknilegri og fræðilegri úrfærslu verkefna út frá landupplýsingafræðilegu (LUK) sjónarhorni. Stærri hluta af önninni vinna nemendur sín eigin verkefni, oft í tengslum við lokaverkefni (BS). Verkefni nemenda geta verið úr hvaða vísindagrein sem er, en með LUK sjónarhorn sem þarf að leysa.

Efni námskeiðsins: Hnit og varpanir. Landræn fyrirbæri, eigindi og gagnagrunnar, grannfræði og landræn svið. Landrænar greiningar og brúanir, framsetning og miðlun landrænna gagna, 3D. Lýsigögn og varðveisla. Opinn hugbúnaður.

Áfanginn er próflaus en einkunn verður gefin fyrir lokaskýrslu og minni verkefni. Í upphafi annar þurfa nemendur að hafa á reiðum höndum lýsingu á verkefninu sem þeir ætla að vinna að ásamt mati á þeim landfræðilegum gögnum sem þarf til verksins.

X

Lífræn efnafræði L (EFN214G)

Námskeið fyrir nemendur í líffræði. Í fyrirlestrum, sem eru sameiginlegir með námskeiðinu Efnafræði II (EFN205G), verður höfð hliðsjón af viðfangsefnum líffræðinnar. Farið verður yfir flesta flokka lífrænnar efnafræði, þ. e. alkana, alkena, alkýna, arómata, alkýl halíð, alkóhól, etera, aldehýð, ketóna, lífrænar sýrur, sýruafleiður og amín. Farið verður yfir grundvallaratriði í rúmefnafræði sameinda nemendur læra að finna út hvenær sameind er hendin og hvenær hún er ljósvirk.

X

Almenn efnafræði 2 (EFN202G)

Námskeiðið fjallar um uppbyggingu lotukerfisins og lotubundna eiginleika frumefnanna.  Farið er yfir náttúrulegt form frumefnanna, einangrun hreinna frumefna og algeng efnahvörf þeirra. Bygging atómsins er kennd sem undirstaða efnaeiginleika frumefnanna og efnahvarfa þeirra. Farið er í kenningar Bohrs um vetnisatómið og nýrri kenningar til nútíma sýn á atómbyggingu. Farið er yfir rafeindaskipan frumefnanna, og myndun efnatengja. Gildistengjakenningin (valence bond theory), fráhrindikraftar gildisrafeindapara (VSEPR) og byggingu sameinda. Farið er í sameindasvigrúmakenninguna (molecular orbital theory). Farið er í málmvinnslu og málmblendi, eiginleika málmlíkja og málmleysingja. Kynnt verður efnafræði hliðarmálmanna (Coordination chemistry), leysni, jafnvægi og girðitengi þeirra við jónir og rafeindagjafa. Farið er yfir kjarnaklofnun, kjarnahvörf og geislavirkni.

X

Eðlisfræði 2 V (EÐL201G)

Kennt í 12 vikur. Markmið: Að kynna nemendum aðferðir og grundvallarlögmál rafsegulfræði og ljósfræði. Námsefni: Hleðsla og rafsvið. Lögmál Gauss. Rafmætti. Þéttar og rafsvarar. Rafstraumur, viðnám, rafrásir. Segulsvið. Lögmál Ampères og Faradays. Span. Rafsveiflur og riðstraumur. Jöfnur Maxwells. Rafsegulbylgjur. Endurkast og ljósbrot. Linsur og speglar. Bylgjuljósfræði. Verklegt: Gerðar eru fjórar tilraunir í ljósfræði og almennri rafsegulfræði. Nemendur skila vinnubókum fyrir allar tilraunir og formlegri skýrslu um eina tíma tilraun.

X

Fjarkönnun og umhverfisvöktun (LAN616G)

Lögmál og grundvallaratriði fjarkönnunar. Rafsegulgeislun, víxlverkun við lofthjúp og yfirborð jarðar. Endurvarp og eigingeislun. Eiginleikar ljósmynda, hitamynda, örbylgju- og ratsjármynda. Yfirlit yfir annars konar fjarkönnun: LIDAR, bylgjuvíxlmyndir, fjölgeisla- og jarðsjármælingar, fjarkönnun á öðrum reikistjörnum.

Fjarkönnunargögn og aðferðir við öflun þeirra. Nemar og skannar um borð í gervitunglum og flugvélum. Upplausn mynda: rúmfræðileg, rófgreinihæfni, geislastyrkur, tími. Saga fjarkönnunar á 20. og 21. öld.

Notkun og túlkun loftmynda og gervitunglamynda. Myndvinnsla og greining: forvinna, upprétting, strekking, vinnsla með fjölda banda, stýrð og sjálfvirk flokkun, landgreiningar og rannsóknir á breytingum, líkangerð. GPS. Samfelling gagna og landupplýsinga. Framsetning og miðlun fjarkönnunargagna.

Umhverfisvöktun og gildi fjarkönnunar á ýmsum fræðasviðum: landfræði, jarðfræði og líffræði. Umhverfisvöktunarkerfi vegna snöggra og hægfara umhverfisbreytinga, náttúruvár, atburða og kortagerðar. Öflun og vinnsla rauntímagagna.

Kennslufyrirkomulag: Fyrirlestarar, umræðutímar og vikuleg verkefni í tölvuveri í öflun, greiningu og túlkun fjarkönnunargagna. Unnið verður með landupplýsingakerfi, einkum ArcGIS og QuantumGIS, svo og ýmis myndvinnsluforrit.

X

Kveikja (HSÞ001M)

Háskóli Íslands býður upp á þetta þverfaglega námskeið fyrir nemendur á síðasta ári í grunnnámi við öll fræðasvið HÍ. Námskeiðið er einnig opið nemendum frá öllum Aurora háskólum. Námskeiðið sameinar efni á netinu, sýndarlotur sem fara fram yfir önnina og fimm daga lokaupplifun á staðnum við Háskóla Íslands.

Þátttakendur öðlast innsýn í áskoranir samfélagsins og hvernig má takast á við þær. Nemendur öðlast dýpri skilning á eigin styrkleikum auk þess að þróa aðferðir og nálganir til nýsköpunarhugsunar undir handleiðslu reyndra kennara.

Námskeiðið felur í sér nálgun félagslegrar frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar (e. social entrepreneurship and innovation). Þetta hugtak felur í sér bæði félagslegt frumkvöðlastarf, leið til að ná fram félagslegum breytingum með myndun nýrra félaga eða stofnana, og félagslega nýsköpun, ferli til að þróa og beita skilvirkum lausnum á krefjandi og oft kerfisbundnum félagslegum og umhverfismálum til stuðnings við félagslegar framfarir.

Námskeiðið byggir á stuttum verkefnum sem unnið er með í sýndarlotum sem kenndar eru í fjarnámi, og svo hópvinnu sem unnin er í fimm daga staðarlotu. Afraksturinn er svo kynntur á lokadegi staðarlotunnar.

Námið er 6 ECTS einingar.

X

Vatnsaflsvirkjanir (UMV605M)

Ísland sker sig úr í alþjóðlegum samanburði að því leyti að nánast öll raforka er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Vatnsafl er önnur af tveimur mikilvægustu orkulindum á Íslandi, ásamt jarðvarma.   

Markmið: Veita innsýn í tæknina og rannsóknirnar við virkjun vatnsafls, með sérstaka áherslu á íslenskar aðstæður. Þetta er lykilnámskeið í kjörsviðum í vatnaverkfræði og endurnýjanlegri orku, og snertir sjálfbærnimarkmiði Sameinuðu Þjóðanna nr. 7, sjálfbær orka. 

Efni: Virkjanlegt afl. Helstu burðarliðir í vatnsaflsvirkjun. Byggingarverkfræðileg hönnun yfir líftíma virkjunar, bæði neðanjarðarmannvirki (göng, stöðvarhús) svo og ofanjarðar (stíflur, yfirföll). Lagalegt umhverfi.  Öryggis, umhverfis og heilsu sjónarmið yfir líftíma virkjunar. Ís og setmyndun. Vélfræðileg hönnun og rekstur, t.d. túrbína. Framleiðsla rafmagns.

Námsmat

Námskeiðið samanstendur af verkefnum unnum á misseri, og munnlegu lokaprófi í lok misseris.

Námsfyrirkomulag

Námskeiðið byggir á sjálfsnámi og sjálfstæðri verkefnavinnu. Gert er ráð fyrir vikulegum fundum, 3 x 40 mín í senn. Gert er ráð fyrir einni vettvangsheimsókn. Námskeiðið er kennt á ensku. 

Nemendur á eftirfarandi kjörsviðum ganga fyrir um skráningu í námskeiðið: Endurnýjanleg orka - orkuverkfræði, vatnaverkfræði.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Klara Sif Sverrisdóttir
Klara Sif Sverrisdóttir
Nemandi i umhverfis- og byggingarverkfræði

Mér finnst námið í umhverfis- og byggingarverkfræði fjölbreytt, áhugavert og skemmtilegt. Kennararnir eru lifandi og skemmtilegir ásamt því að vera miklir fagmenn sem hafa mikinn áhuga og vilja til að deila þekkingu og reynslu.
Námið er mjög hagnýtt og snemma í náminu fær maður að kynnast því hvað umhverfis- og byggingarverkfræðingar fást við daglega sem gefur manni góða innsýn í möguleika í framtíðinni.  Félagslífið er mjög gott og alltaf nóg af viðburðum og vísindaferðum sem toppa námið enn frekar.

Hafðu samband

Nemendaþjónusta VoN
s. 525 4466 - ​nemvon@hi.is
Opið virka daga frá 09:00-15:30

Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netspjall hér á síðunni (í samræmi við þjónustutíma)

​Tæknigarður - Dunhaga 5, 107 Reykjavík
Askja - Sturlugata 7, 102 Reykjavík

Fylgstu með Verkfræði- og náttúruvísindasviði:

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.