Tannsmíði
Tannsmíði
BS gráða – 180 einingar
Tannsmíði er krefjandi fræðilegt og verklegt þriggja ára nám. Þar læra nemendur hönnun og framleiðslu tann-og munngerva með hefðbundnum aðferðum og tölvutækni (CAD/CAM). Með samstarfi við atvinnulífið gefst nemendum tækifæri til að stunda vettvangsnám hér á landi eða erlendis, þjálfa teymisvinnu og fást við raunveruleg verkefni. Að námi loknu er hægt að sækja um starfsleyfi sem tannsmiður og starfa sjálfstætt við fagið eða hjá öðrum.
Skipulag náms
- Haust
- Fagvitund starfsstéttar
- Liffærafræði
- Efnafræði
- Formfræði tanna verkleg
- Formfræði tanna fræðileg
- Vor
- Inngangur að tannsmíði
- Krónu- og brúargerð I
- Tannréttingar I
- Heilgómagerð I
- Forvarnir og heilsuefling
- Bitfræði fræðileg
- Bitfræði verkleg
- Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn
Fagvitund starfsstéttar (TSM101G)
Námskeið ætlað nemendum í tannsmíði, kenndur er grunnur í fræðilegum vinnubrögðum í háskólanámi, heimildaleit og hugtök aðferðafræðinnar. Nemendur þjálfi sjálfstæð vinnubrögð í heimildaleit og lestri fræðigreina. Kenndur er inngangur að fagsviðum tannsmiða; heilgóma-og partagerð, krónu og brúargerð og tannréttingar. Fagvitund starfstéttar s.s. ábyrgð, samvinna og siðferði.
Liffærafræði (TSM102G)
Námskeið ætlað nemendum á námsbraut í tannsmíði, kennd er líffærafræði höfuðs og háls.
Efnafræði (TSM103G)
Farið yfir grunnatriði í almennri efnafræði, stilling efnajafna, nafngiftir, mólreikningur, leysni, styrkur. Grunnur skammtafræðinnar og bygging atómsins er kennd sem undirstaða efnaeiginleika frumefnanna og efnahvarfa þeirra. Farið er yfir rafeindaskipan frumefnanna, og myndun efnatengja. Helstu kenningar til að ákvarða byggingu og þrívíðan strúktúr sameinda og millisameindakraftar. Farið yfir efnajafnvægi og sýru/basahvörf.
Kennsluaðferðir:
Fyrirlestrar, dæmareikningur og heimaverkefni.
Formfræði tanna verkleg (TAN101G)
Námskeiðinu er ætlað að kynna meginþætti í bersæju formi tanna mannsins. Sérstök áhersla verður lögð á að tengja formið við hlutverk tanna og tannhluta sem og hagnýtt gildi þessa við tannlækningar. Nemendur fá tækifæri til þess að öðlast reynslu í að greina tennur og tannhluta og færni í að móta tennur í vax eftir fyrirmyndum. Námskeiðinu er ætlað að byggja upp þekkingu og hagnýta undirstöðu fyrir áframhaldandi nám í tannlæknisfræði.
Formfræði tanna fræðileg (TAN107G)
Námskeiðinu er ætlað að kynna meginþætti í bersæju formi tanna mannsins. Sérstök áhersla verður lögð á að tengja formið við hlutverk tanna og tannhluta sem og hagnýtt gildi þessa við tannlækningar. Nemendur fá tækifæri til þess að öðlast reynslu í að greina tennur og tannhluta og færni í að móta tennur í vax eftir fyrirmyndum. Námskeiðinu er ætlað að byggja upp þekkingu og hagnýta undirstöðu fyrir áframhaldandi nám í tannlæknisfræði.
Inngangur að tannsmíði (TSM201G)
- Nemendur læra að tileinka sér vinnureglur varðandi umgengni við tækjabúnað, áhöld og efni sem tilheyra starfssviðinu.
- Farið er yfir skipulag vinnusvæða, rökrétta verkferla, umgengni við efni, varúðarráðstafanir og öryggisatriði sem notuð eru við framleiðslu tanngerva.
Nemendur þurfa að útvega eigin námsgögn. Þar með talin eru handverkfæri, bithermir og persónuhlífar (vinnusloppur, öryggisgleraugu, inniskór) meðan þeir stunda nám við námsbrautina.
Frekari upplýsingar varðandi námsgögn eru veittar í upphafi náms á 2. misseri.
Krónu- og brúargerð I (TSM202G)
Námskeið ætlað nemendum í tannsmíði. Fæðilegur hluti námskeiðsins er í formi fyrirlestra, umræðna og verkefnavinnu. Verklegar æfingar fara fram á kennsluverkstæði deildarinnar.
Kennd er hönnun og framleiðsla fastra tanngerva, stakar krónur, brýr, innlegg, onlay og meðferð efna, áhalda og tækja sem notuð eru í hefðbundinni tannsmíði og tölvustuddri tannsmíði CAD/CAM. Í lok námskeiðs á nemandi að geta notað fræðilega þekkingu og verklega færni til smíði tanngerva sem uppfylla gæðakröfur gerðar til lækningatækja í mannslíkamann.
Tannréttingar I (TSM203G)
Námskeið ætlað nemendum í tannsmíði, kennd er undirstaða í þekkingu á bitskekkju, fræðiheitum sem notuð eru í greininni auk þekkingar í notkun lausra tannréttingatækja. Unnið er með hefðbundin mát og æfð móttaka stafrænnar máttöku (e. mouth scan). Fjallað er um efni, aðferðir og framleiðslu lausra tannréttingatækja með hefðbundnum aðferðum og CAD/CAM tækni.
Í verklegum hluta námskeiðsins er kennd undirstaða í smíði lausra tannréttingatækja.
Í lok námskeiðs hafa nemendur náð að samtvinna fræðilega og verklega þekkingu og náð færni í að framleiða einföld tannréttingartæki í samræmi við gæðastaðla.
Heilgómagerð I (TSM204G)
Námskeið ætlað nemendum á öðru misseri í tannsmíði og er byggt bæði á fræðilegri og verklegri kennslu í heilgómagerð.
Fræðileg kennsla fer fram með fyrirlestrum, umræðum og verkefnum. Verkleg kennsla fer fram á kennsluverkstæði deildarinnar undir handleiðslu kennara. Kennd er alhliða heilgómagerð frá upphafi til enda með hefðbundnum aðferðum og fjallað um CAD/CAM og 3-D tækni í heilgómagerð.
Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur geti í lok námskeiðs sýnt fram á þekkingu, færni og getu til að framleiða og smíða heilsett, frá fyrsta máti til lokaskila tanngervis til tannlæknis, heilsett og heilgóma sem uppfylla gæðakröfur gerðar til tanngerva af þessari gerð.
Forvarnir og heilsuefling (TAN013G)
Kynnt verður grunnþekking á orsökum og afleiðingum munnsjúkdóma með áherslu á hvernig beita má forvörnum. Farið yfir grunnatriðin um hvernig miðla má tannheilsuforvörnum til almennings.
Bitfræði fræðileg (TAN103G)
Fjallað er um tannbogana í heild, lögun þeirra og innbyrðis afstöður í biti og við bithreyfingar. Námið felur í sér verklegar æfingar og seminarverkefni.
Bitfræði verkleg (TAN104G)
Fjallað er um tannbogana í heild, lögun þeirra og innbyrðis afstöður í biti og við bithreyfingar. Námið felur í sér verklegar æfingar og seminarverkefni.
Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn (HVS202G)
Námskeiðið er ætlað nemendum á fyrsta námsári í greinum heilbrigðisvísinda. Sameiginlegur heilbrigðisvísindadagur nýnema allra deilda á Heilbrigðisvísindasviði í janúar ár hvert. Fjallað er um þverfaglegt samstarf og mikilvægi þess. Farið verður í grundvallarþætti samstarfsins svo sem sameiginlega sýn á réttindi til heilsu, samskipti og siðfræði. Einnig er fjallað um hlutverk og ábyrgð heilbrigðisvísinda.
- Haust
- Inngangur að tannlæknisfræði
- Tölvustýrð tannsmíði og tannplantar
- Stálgrindur og partagerð
- Krónu- og brúargerð II
- Efnisfræði I
- Vor
- Heilgómagerð II
- Krónu- og brúargerð III
- Tannréttingar II
- Efnisfræði II
- Aðfari að vísindalegum vinnubrögðum
- Tölfræði
Inngangur að tannlæknisfræði (TAN108G)
Námsefni:Kynning á klínískum greinum tannlækninga fyrir nema í Tannlæknadeild, námsbraut í tannsmíði og tanntæknanema.
Tölvustýrð tannsmíði og tannplantar (TSM301G)
Námskeið fyrir nemendur í tannsmíði. Nemendur læra um þróun fagsins, gerð, hönnun og framleiðslu tannplanta verkefna með hefðbundnum hætti og þrívíddartækni (CAD/CAM), auk þess sem þeir læra um kosti, galla og áhættu sem fylgja tannplöntum og tannplantameðferð fyrir sjúklinga.
Nemendur læra um mismunandi tannplantakerfi, þjálfa notkun þeirra og uppbyggingu fastra og lausra tanngerva á tannplanta. Áhersla er lögð á verklega þjálfun í undirbúningsvinnu, gerð hefðbundinna og þrívíddarprentaðra tannplantamódela, meðferð íhluta (abutmenta og analoga), hönnun og framleiðslu tannplanta verkefna með hefðbundnum hætti og CAD/CAM, þar sem reynir á mismunandi færni við úrlausn verkefna.
Stálgrindur og partagerð (TSM302G)
Námskeið í stálgrinda- og partagerð fyrir nemendur í tannsmíði. Kennd er fræðileg og verkleg stálgrinda- og partagerð, nemendur læra undirstöðu hönnunar parta, læra flokkun parta skv. Kennedy Classes I-IV, notkun lóðkana (surveyors) og framleiðsluferil stálgrinda í báða góma, viðgerðir og endurnýjun tanngerva úr gómaefni og gerð bráðabirgðaparta.
Krónu- og brúargerð II (TSM303G)
Nemendur læra fræðilega og verklega krónu og brúargerð, auk hönnunar tanngerva úr postulíni brenndu á málm. Kennd er meðferð, uppbygging og frágangur postulíns tanngerva til lokaskila, sem uppfylla gæðakröfur til slíkra lækningatækja.
Kynnt verður CAD/CAM hönnun tanngerva með sýnikennslu.
Efnisfræði I (TSM304G)
Námskeið fyrir nemendur í tannsmíði, farið er í efnisfræði sem tengist fagsviði tannsmiða. Nemendur læra um notkunarsvið þeirra efna sem notuð eru í faginu, eiginleika þeirra og meðhöndlun.
Heilgómagerð II (TSM401G)
Framhaldsnámskeið í heilgómagerð, fjallað er um frávik og einstaklingsbunda þætti í uppstillingum í heilgómagerð og þróun á framleiðsluaðferðum s.s. CAD/CAM og 3-D tækni.
Í fræðilegum og verklegum hluta námskeiða er farið er í gerð stakra góma, ásetugóma og immediate góma og stakra heilgóma á móti eigin tönnum. Frekari þjálfun á uppstillingu við normal aðstæður við þrengsli, yfirbit og krossbit. Kennd er fóðrun (reline), endurplöstun (rebase) eldri tanngerva, viðgerðir á brotnum gómum og endurnýjun brotinna tanna. Val tanna og notkun ALMA gauge kynnt.
Í lok námskeiðs geta nemendur samþætt fræðilega og verklega þekkingu við uppstillingu ólíkra gerða heilgóma og framleitt þá í samræmi við gæðastaðla.
Krónu- og brúargerð III (TSM402G)
Framhaldsnámskeið í krónu- og brúargerð, nemendur bæta við þekkingu og færni sína frá fyrra námskeiði. Áhersla er lögð á fræðilega og verklega kennslu í meðferð postulíns og hönnun, uppbyggingu tanngerva úr heilpostulíni (e. All Ceramic) og hönnun málmlausra tanngerva og módela í CAD-CAM. Nemendur læra um mismunandi postulínskerfi, notkunarsvið þeirra, takmarkanir, ábendingar, kosti og galla. Í fyrirlestrum er fjallað um hugmyndafræði hönnunar og meðferð postulínskerfa. Notkun og meðferð efna, áhalda, tækja og búnaðar sem þarf til að fullvinna málmlaus tanngervi.
- Í kennslustundum er fjallað um hugmyndafræði, hönnun, meðferð og notkun ólíkra postulínskerfa við smíði lækningatækja í munnhol.
- Fjallað er um megin mun á milli kerfa, notkunarsvið, takmarkanir, kosti og galla. Einnig notkun og meðferð efna, áhalda, tækja og búnaðar sem þarf til fullvinnslu PBM og all Ceramic tanngerva.
- Á námskeiðinu vinna nemenduri sjálfstætt að verkefnum, þjálfa færni sína í upplýsingalæsi á eigin fagsviði og að miðla þekkingu sinni til annarra.
- Verklegar æfingar í meðferð og notkun efna og tækja er æfð undir handleiðslu kennara á kennsluverkstæði deildarinnar.
Tannréttingar II (TSM403G)
Framhaldsnámskeið ætlað nemendum í tannsmíði, kennd er undirstaða í þekkingu á bitskekkju, fræðiheitum sem notuð eru í greininni auk þekkingar í notkun lausra tannréttingatækja. Í verklegum hluta námskeiðsins er kennd smíði flóknari gerða af lausum tannréttingatækjum, þjálfuð mótttaka stafrænna máta (e. digital impressions) og verkefni smíðuð með hefðbundinni og/eða CAD/CAM tækni s.s. hörð bithlíf.
Í lok námskeiðs getur nemandi samþætt fræðilega- og verklega þekkingu í tannréttingum, hannað og framleitt á sjálfstæðan hátt tannréttingartæki með ýmsum íhlutum og notað til þess ýmis efni, áhöld og tæki.
Efnisfræði II (TSM404G)
Námskeið fyrir nemendur í tannsmíði, farið er í efnisfræði sem tengist fagsviði tannsmiða. Nemendur læra um notkunarsvið þeirra efna sem notuð eru í faginu, eiginleika þeirra og meðhöndlun.
Aðfari að vísindalegum vinnubrögðum (TSM405G)
Kennd eru undirstöðu atriði í aðferðafræði rannsókna innan tannlæknavísinda.
Nemendur lesa ritrýndar fræðigreinar og æfa sig í að lesa úr rannsóknarniðurstöðum með gagnrýnum hætti. Samhliða vinna nemendur í tölfræðiforriti og með töflureikni úr gagnasetti lýsandi og greinandi tölfræði. Þeir æfa framsetningu niðurstaðna í texta, töflum og myndum, túlka þær og draga af þeim ályktanir í formlegri rannsóknarskýrslu.
Tölfræði (HJÚ214G)
Í námskeiðinu eru kennd undirstöðuatriði hagnýtrar tölfræði. Að megin efni er fjallað um tölfræðilega úrvinnslu, túlkun á niðurstöðum og framsetningu. Helstu efnisþættir eru: Mælingar á miðlægni og dreifingu í talnasöfnum, stöðlun, normaldreifing, öryggismörk, marktækni (z-, t- og x2-próf) og fylgni (líkindahlutfall, fí, Spearman's r og Pearson's r.
- Haust
- Vettvangsnám I
- Fagvitund og heilbrigðisþjónusta
- Vettvangsnám IBE
- Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindumB
- Vor
- Vettvangsnám II
- Verklegt lausnarleitarnám
- Verkefnakynning
- BS Lokaverkefni
Vettvangsnám I (TSM501G)
Námskeið byggt á raunverulegum verkefnum sem leyst eru undir handleiðslu heilbrigðisstarfsfólks, vettvangsnám fer fram innan/utan kennsluverkstæðis tannlæknadeildar eða á heilbrigðisstofnunum innanlands eða erlendis (Erasmus). Þátttaka í námskeiðinu undirbýr nemendur undir atvinnuþátttöku að námi loknu.
Jafnhliða vettvangssnámi hefst undirbúningur að rannsóknaráætlun í lokaverkefni.
Kennsla hefst með staðlotu í upphafi annar, fræðileg kennsla fer fram í fjarnámi með námsumsjónarkerfi HÍ.
Í lok námskeiðs haf nemendur fengið þjálfun í að vinna að gerð raunverulegra verkefna fyrir sjúklinga og öðlast reynslu í að nota bæði hefðbundnar og tölvustuddar aðferðir s.s. CAD/CAM, 3-D prentun og fræsivélar við framleiðslu tanngerva á fagsviðinu.
Fagvitund og heilbrigðisþjónusta (TSM502G)
Fjallað er um lög og reglur um heilbrigðisstarfsmenn og rekstrarumhverfi helbrigðisþjónustu, siðareglur og starfsleyfi Embættis landlæknis. Ígrundað er gæðaeftirlit, kynnt fyrirkomulag skráningu sérsmíðaðra lækningatækja og gildi upprunavottorða. Rætt er um samskipti, teymisvinnu og vinnuumhverfi. Farið er í hagnýt atriði sem snúa að sótt- og smitvörnum á starfsvettvangi tannsmiða, áhrif sóttvarnarefna á mátefni og kenndur frágangur lækningatækja til lokaskila.
Vettvangsnám I (TSM503G)
Námskeið byggt á raunverulegum verkefnum sem leyst eru undir handleiðslu fagmanna, vettvangsnám fer fram utan kennsluverkstæðis tannlæknadeildar. (Nemendur þurfa sjálfir að útvega sér tannlækna- eða tannsmíðastofu sem getur tekið við þeim í Vettvangsnám I. Verkefnastjóri námsbrautar verður að samþykkja skriflega viðkomandi fagaðila sem nemandi hyggst þjálfa sig hjá í náminu).
Jafnhliða vettvangsnámi hefst undirbúningur að rannsóknaráætlun í lokaverkefni.
Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum (HVS501M)
Námskeiðið er ætlað nemendum á þriðja námsári eða síðar sem lokið hafa a.m.k. tveimur árum grunnnáms í greinum heilbrigðisvísinda. Hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu verður lögð til grundvallar í námskeiðinu þar sem nemendur vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Nemendur munu vinna saman í þverfræðilegum teymum og fá tækifæri til að æfa fagmennsku, teymisvinnu, og efla samskipti. Nemendur í hverjum hóp eru úr nokkrum heilbrigðisvísindagreinum.
Námsmat (staðið/fallið) byggist á verkefnavinnu, virkni í verkefnavinnu og prófum sem verða á rafrænu formi í kennslulotunni.
Kennslutilhögun:
Nemendum er skipt í þverfaglega námshópa í byrjun annar sem síðan skipuleggja fundartíma sínir sjálfir og skila lokaverkefnum fyrir lok október.
Vettvangsnám II (TSM603G)
Vettvangsnám II, fer fram á kennsluverkstæði Tannlæknadeildar samkvæmt skipulagðri dagskrá. Þar vinna nemedur að því að leysa raunveruleg verkefni í tannsmíði í samvinnu við meðferðaraðila. Samhliða þjálfa þeir leikni í hönnun flóknari tann- og munngerva með tölvutækni (Computer aided design).
Þátttaka í námskeiðinu undirbýr nemendur undir atvinnuþátttöku að námi loknu.
Námskeiðið reynir á faglega hæfni nemandans, tímastjórn og útsjónasemi í að leysa úr fjölbreyttum verkefnum í tannsmíði.
Gæðeftirlit er í höndum fagfólks sem veitir nauðsynlega handleiðslu eins og við á.
Verklegt lausnarleitarnám (TSM604G)
Námskeið ætlað nemendum á sjötta misseri í tannsmíði. Nemendur takast á við raunveruleg tannsmíðaverkefni og beita til þess lausnarleitarnámi.
Viðfangsefni:
- Nemendur vinna valin verkefni, gera vinnuáætlun og fylgja henni til lokaskila á verkefnum.
- Þjálfa skipulagningu á verkferlum og tímastjórn.
- Þjálfa samvinnu innan tannheilsuteymis.
Vinnulag:
- Vinnan á verkefnunum fer fram á verknámsstofu Námsbrautar í tannsmíði.
- Nemendur hafa frjálsan vinnutíma en verkefnunum skal skilað á fyrirfram ákveðnum tíma.
Verkefnakynning (TSM607G)
Vettvangur til að kynna eigið verkefni og kynnast verkefnum annarra. Kynning á fyrirframvöldu verkefni tengdu tannsmíði. Notkun á fræðilegum hugtökum tengdu fagi tannsmiða. Tækifæri til skoðanaskipta um fræðileg álitamál og gagnrýna uppbyggilega umræðu um verkefnið. Nemendur veita hvort öðru gagnkvæman stuðning og aðhald.
Lotukennsla í upphafi annar til stuðnings BS verkefna vinnu, umræðutímar og vinnustofur eru skipulaðgar með þarfir nemendahópsins í huga hverju sinni. Í lok námskeiðs kynnir nemandi eigin BS niðurstöður fyrir samnemendum, kennurum og leiðbeinendum.
BS Lokaverkefni (TSM608L)
Nemandi/ur vinnur sjálfstætt að gerð lokaverkefnis, undir stjórn leiðsögukennara.
Notar til þess viðurkennda aðferðafræði, rannsóknir og heimildaöflun.
Nemandi/ur skili inn til námsmats lokaverkefni unnu samkvæmt kröfum sem gerðar eru til lokaverkefna innan háskólasamfélagsins
Inntak / viðfangsefni: Undir lok grunnnámsins vinna nemendur verkefni að eigin vali sem er einskonar smiðshögg á nám þeirra.
Lokaverkefnið skal vera fræðileg ritgerð sem byggist á rannsókn og/eða heimildavinnu. Gert er ráð fyrir að nemendur rifji upp og dýpki þekkingu sína á heimildaöflun, framsetningu fræðitexta og á aðferðafræði rannsókna í tengslum við verkefnið.
Vinnulag: Nemendur fá undir stjórn kennara staðgóða upprifjun á meginatriðum sem varða heimildaöflun, framsetningu fræðitexta og á aðferðafræði rannsókna. Farið er með þeim yfir helstu verkþætti og vinnuferli en þeir vinna að öðru leyti sjálfstætt að lokaverkefni sínu með ráðgjöf frá leiðsögukennara sem valinn er í samráði við umsjónarmann, úr hópi akademískra kennara við Tannlæknadeild. Lokaverkefni vinna nemendur einn eða tveir saman.
Hafðu samband
Skrifstofa Námsbrautar í tannsmíði
Læknagarði, 3. hæð - L-317
Sími 525 4892
tannsmidi@hi.is
Viðtalstími samkvæmt samkomulagi
Skrifstofa Tannlæknadeildar
Læknagarði, 4. hæð
Sími 525 4871
givars@hi.is
Viðtalstími samkvæmt samkomulagi
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.