Skip to main content

Starfstengt nám fyrir fólk með þroskahömlun - Grunndiplóma

Starfstengt nám fyrir fólk með þroskahömlun - Grunndiplóma

Menntavísindasvið

Starfstengt nám fyrir fólk með þroskahömlun

Grunndiplóma –

Þessi námsleið er sérsniðin að nemendum með þroskahömlun og geta nemendur reiknað með að fá góðan undirbúning fyrir störf í skólum, leikskólum, félagsmiðstöðvum eða öðrum vettvangi þar sem fatlað fólk sækir þjónustu. Tilgangur námsins er að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku.

Námið er skipulagt í samræmi við yfirlýsta alþjóðlega stefnu hagsmunasamtaka fólks með þroskahömlun, mannréttindasáttmála og stefnu HÍ. 

Tekið er inn í námið á hverju ári. Umsóknarfrestur er frá byrjun mars til 5. júní.

Skipulag náms

X

Inngangur að tómstundafræði (TÓS101G)

Markmið: Að nemendur hafi að loknu námskeiði öðlast yfirgripsmikla þekkingu á tómstundafræði, bæði í sögulegu ljósi en ekki síst tómstundafræði samtímans. Áhersla er á að nemendur hafi öðlast skilning á viðfangsefnum og aðferðum tómstundafræðinnar og þeim fræðilegu forsendum sem liggja til grundvallar, áttað sig á mikilvægi tómstundastarfs í nútíma samfélagi og geti tengt niðurstöður rannsókna á tómstundastarfi við starf á vettvangi. Einnig að nemendur hafi kynnst því tómstundastarfi sem í boði er á Íslandi, þekki sögu tómstundastarfs og þróun í takt við breytingar á samfélaginu.

Inntak / viðfangsefni: Fjallað verður um skilgreiningar, mikilvægi og kenningar tómstundafræðanna. Einnig verður fjallað um þróun og stöðu tómstundamála á Íslandi. Farið verður sérstaklega í hlutverk leiðbeinenda. Auk þess verður farið ítarlega í gildi tómstunda og verða rannsóknir skoðaðar í þeim tilgangi. Þá verður fjallað um óformlegt nám, tómstundamenntun, lýðræði og jaðarhópa. Nemendum gefst kostur á að tengja hugmyndir sínar, reynslu og þekkingu við starf á vettvangi.

Innheimt verða gjöld vegna kostnaðar sem til fellur vegna nýnemaferðar, kr. 4000.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður, hópavinna og vettvangsheimsóknir.

X

Tjáning og samskipti (TÓS104G)

Nemendur lesa texta um viðfangsefni námskeiðsins og hagnýta sér, ásamt fyrirlestrum og leiðsögn kennara, til að æfa sig í þeirri sköpun, tjáningu og athugun sem skilgreind er í hæfnisviðmiðum.

Námskeiðið er skipulagt með það fyrir augum að tengja saman fræði og framkvæmd á þann veg að nemendur vinni þau verk sem námskeiðið snýst um, ræði saman (eða skrifist á) um reynslu sína af viðfangsefnum og læri af henni. Í þessu felst meðal annars ræðuþjálfun, leikrænn tjáning og greining á samskiptum. Að auki verður áhersla á stofnun og stjórnun félagasamtaka, fundarstjórn og fundarsköp.

X

Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (haust) (TÓS106G)

Viðfangsefni
Viðfangsefni námskeiðsins eru félagsleg samskipti, samvera og námsaðstoð við nemendur sem geta þurft aðstoð og/eða stuðning í námi sínu á Menntavísindasviði HÍ.

Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar áherslur og nýbreytni í menntamálum, sérstök áhersla lögð á nám án aðgreiningar, algilda hönnun og tækifærin sem hugmyndafræðin býður upp á. Einnig verður fjallað um markþjálfun, jafnrétti, samfélag án aðgreiningar og mannréttindi í víðu samhengi. Kynntar verða leiðir til að efla náms- og félagslega þátttöku nemenda í háskólanum með fjölbreyttum hætti.

Að námskeiði loknu hljóta nemendur viðurkenningu/staðfestingu á að hafa lokið námskeiðinu sem þeir geta til dæmis nýtt í ferilskrá en námskeiðið er dýrmæt reynsla sem mun nýtast í leik og starfi.

Vinnulag
Samstarf og samvera með samnemum er að jafnaði þrjár kennslustundir á viku. Samstarfið getur falið í sér námsaðstoð, til dæmis við verkefnavinnu, verkefnaskil, yfirferð á námsefni eða samveru á bókasafni eða matsal og þátttaka í félagslífi á vegum nemendafélaga.

Fimm fræðslufundir með kennurum fyrrihluta misseris auk eins vinnudags þar sem nemendur fá stuðning og fræðslu. Að auki geta nemendur pantað fundi eftir þörfum með kennurum námskeiðsins.

Nemendur vinna dagbókarverkefni jafnt og þétt yfir misserið og skila lokaskýrslu um reynslu sína af námskeiðinu.

X

Jafnrétti og samfélag (TÓS207G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri að tengja samfélag sitt, starfsvettvang og fræðigrein við fræðilegar hugmyndir um mismunun og forréttindi. Kynntar eru mismunandi kenningar sem geta hjálpað okkur að skilja það samfélag sem við lifum í. Fjallað verður um félagslega mismunun og forréttindi með áherslu á stétt, kyngervi, kynþátt, fötlun og hnattvæðingu með sérstöku tilliti til starfsvettvangs tómstunda- og félagsmálafræðinga.

Vinnulag
Vikulegir fyrirlestrar og umræðutímar.

Námskeiðið er einungis kennt í staðnámi og er opið öllum nemendum annarra námsbrauta í staðnámi sem valnámskeið. Einungis er veitt undanþága frá staðnámi til þeirra nemenda í tómstunda- og félagsmálafræði sem þurfa að taka námskeiðið sem skyldunámskeið og hafa samið um undanþágu frá staðnámi við kennsluskrifstofu og námsbraut vegna sérstakra aðstæðna.

X

Starfsnám I (TÓS209G)

Námskeiðið er tvíþætt:
Annars vegar undirbúa nemendur sig fyrir starfsnám á vettvangi í skólanum og hins vegar eru þeir á starfsvettvangi sem fellur undir fræðasvið menntavísinda má þar til dæmis nefna leikskólastarf, tómstunda- og félagsstarf og starf sem snýr að valdeflingu, hagsmunabaráttu og þátttöku fatlaðs fólks í 4-6 vikur. Undirbúningur fyrir starfsnámið felst í fyrirlestrum, hópavinnu og verkefnavinnu. Þá vinna nemendur ferilskrá og skrifa bréf til leiðbeinenda sinna. Á meðan á starfsnáminu stendur vinna nemendur vikuverkefni og við lok starfsnámsins vinna þeir kynningar um sinn starfsnámsstað sem þeir flytja svo á málþingi við misserislok.

Lögð er rík áhersla á að nemendur taki ábyrgð á eigin námi og setji sér markmið sem þeir vinna að á sínum vinnustað.

Viðfangsefni: Áður en nemendur fara út á vinnustað fá þeir kynningar um skyldur á vinnustað, þeir fá æfingu í að setja sér markmið og undirbúa sig með því að kynna sér vinnustaðinn og hitta leiðbeinendur áður en starfsnámið hefst. Nemendur vinna ferislskrá sem verður í þróun allt námið. Nemendur hittast í skólanum á umræðufundum þar sem farið verður yfir starfsnámið, hvað gangi vel og hvað betur megi fara. Nemendur vinna að lokum kynningar um starfsnámið sitt í skólanum. 

Vinnulag: Vinna undir leiðsögn á starfsvettvangi, Fyrirlestrar, umræðuhópar, einstaklingsverkefni, hópavinna, rannsóknarvinna.

Sveigjanlegar og fjölbreyttar kennsluaðferðir verða á námskeiðinu og námsmat einnig fjölbreytilegt. Námskeiðið er skyldunámskeið fyrir nemendur í starfstengdu diplómanámi og er ekki opið öðrum nemendum í Háskóla Íslands.

Námskeiðið byggir á þátttöku á staðnum og á námskeiðið er mætingaskylda.

X

Starfsnám II (TÓS406G)

Námskeiðið er tvíþætt og skiptist eins og áður í viðveru í skóla og starfsnámið sjálft á leikskóla, frístundaheimili eða á vettvangi fatlaðs fólks. Nemendur eiga að hafa öðlast aukið sjáfstæði í vinnubrögðum og stefnt er að því að auka ábyrgð nemenda á vinnustað og fela þeim fleiri og flóknari verk. Eins vinna nemendur lokaverkefni á vinnustað sem þeir undirbúa og vinna að alla önnina. Nemendur búa svo til kynningu um sinn vinnustað og lokaverkefnið sem þeir flytja á opinni málstofu diplómanema í maí.

Enn er lögð rík áhersla á að nemendur taki aukna ábyrgð og setji sér markmið sem þeir vinna að á sínum vinnustað.
Viðfangsefni: Áður en nemendur fara út á vinnustað eru rifjaðar upp skyldur, markmiðasetning og ábyrgðarhlutverk nemanna í starfsnáminu. Farið er ofan í saumana á lokaverkefnavinnu nemanna og hún kynnt ítarlega. Í janúarlok skulu nemendur vera komnir af stað í hugmyndavinnu um hvað þeir ætli að taka fyrir. Gert er ráð fyrir að nemendur haldi áfram á þeim vinnustað sem þeir voru á síðasta misseri en ef það kemur upp að einhver þurfi að skipta þarf sá hinn sami að vinna undirbúningsvinnu, finna upplýsingar um vinnustaðinn, skrifa leiðbeinanda bréf og hitta hann á fundi.
Starfsnámið sjálft verður í 5 vikur í mars-apríl.
Viðvera á starfsnámsstað er 15-20 tímar á viku.
Vinnulag: Vinna undir leiðsögn leiðbeinanda á starfsvettvangi, fyrirlestrar, umræðuhópar, einstaklingsverkefni, hópavinna, rannsóknarvinna, einstaklingskennsla.
Í námskeiðið er mætingaskylda.

X

Starfsnám II (TÓS311G)

Námskeiðið er tvíþætt:
Annars vegar undirbúa nemendur sig fyrir starfsnám á vettvangi í skólanum og hins vegar eru þeir á starfsvettvangi sem fellur undir fræðasvið menntavísinda má þar til dæmis nefna leikskólastarf, tómstunda- og félagsstarf og starf sem snýr að valdeflingu, hagsmunabaráttu og þátttöku fatlaðs fólks í 4-6 vikur. Undirbúningur fyrir starfsnámið felst í fyrirlestrum, hópavinnu og verkefnavinnu. Þá uppfæra nemendur ferilskrá og bréf til leiðbeinenda sinna. Á meðan á starfsnáminu stendur vinna nemendur vikuverkefni og við lok starfsnámsins vinna þeir kynningar um sinn starfsnámsstað sem þeir flytja svo á málþingi við misserislok.

Lögð er rík áhersla á að nemendur taki ábyrgð á ákveðnu verkefni á vinnustað. 

Viðfangsefni:
Áður en nemendur fara út á vinnustað fá þeir kynningar um skyldur á vinnustað, þeir fá frekari æfingu í að setja sér markmið og undirbúa sig með því að kynna sér vinnustaðinn og hitta leiðbeinendur áður en starfsnámið hefst. Nemendur hittast í skólanum á umræðufundum þar sem þeim gefst tækifæri til að ræða nám sitt. Nemendur vinna að lokum kynningar um starfsnámið sitt í skólanum. 

Vinnulag:
Vinna undir leiðsögn á starfsvettvangi, Fyrirlestrar, umræðuhópar, einstaklingsverkefni, hópavinna, rannsóknarvinna.

Sveigjanlegar og fjölbreyttar kennsluaðferðir verða á námskeiðinu.

Námskeiðið er skyldunámskeið fyrir nemendur í starfstengdu diplómanámi og er ekki opið öðrum nemendum í Háskóla Íslands.

Námskeiðið byggir á þátttöku á staðnum og í því er mætingaskylda.

X

Útivist og útinám í lífi og starfi (TÓS301G, ÍÞH325G)

Inntak: Fjallað verður um hugmyndafræði og gildi útináms og ævintýranáms í starfi með fólki með áherslu á hagnýtar kenningar, rannsóknir og reynslu af vettvangi. Áhersla er lögð á að annars vegar að njóta náttúrunnar og hins vegar að greina hvernig náttúruna getur verið vettvangur fyrir uppeldi og margskonar nám (t.d. með rýni í plöntur, dýr eða landslag).

Kynntar eru leiðir um hvernig náttúran getur auðgað starf með börnum, unglingum og fullorðnum m.a. til þess að efla sjálfstraust, sjálfsmynd, uppbyggjandi samskipti og auka þekkingu fólks á náttúrunni og efla tengsl okkar við hana. Einkum er litið á vettvang frítímans sem þann starfsvettvang sem unnið er með, en einnig er unnið með útfærslu og framkvæmd útináms í skóla- eða tómstundastarfi. Kennaranemar sem taka námskeiðið vinna sín verkefni með hliðsjón af skólastarfi og tengingar við aðalnámskrá. Fjallað verður um ýmis gagnleg atriði varðandi útivist m.a. um útbúnað, klæðnað, ferðamennsku og öryggismál.

Farið verður í eina tveggja nátta ferð (11. - 13. október 2023 (gæti breyst í dagsetninguna 25.-27. okt)), einnar nætur ferð (14.- 15. nóvember 2023) þar sem nemendur glíma við raunveruleg verkefni á vettvangi.

Innheimt verða gjöld vegna kostnaðar sem til fellur vegna ferðar, kr. 17.000.

Vinnulag: Námskeiðið er kennt bæði í stað- og fjarnámi. Í staðnámi er að jafnaði kennt tvo dag í viku.

Kennslan byggir á fyrirlestrum, verklegri kennslu, útivistarferðum, verkefnavinnu og umræðum. Rík áhersla er lög á fjölbreyttar útivistarferðir þar sem nemendur takast á við raunveruleg verkefni. Umræður eru í tímum og á neti, en einnig er rætt um upplifanir hópsins og einstaklinganna í ferðunum og rýnt í þann lærdóm sem af þeim má draga (ígrundun). Unnin eru verkefni þar sem nemendur þurfa m.a. að fara með hóp í ferð. Þar reynir á ferlið frá hugmynd (sköpun), undirbúning, framkvæmd og mat. 
Nemendur eru hvattir til að nota leiðarbók á námskeiðinu fyrir ígrundanir, minnispunkta og hugleiðingar.

X

Útikennsla, útinám og heilsa (TÓS301G, ÍÞH325G)

Viðfangsefni

Fjallað er um hvernig hægt er að færa bóklega kennslu út úr skólabyggingunni og auka m.a. hreyfingu nemenda í skólastarfi. Áhersla er lögð á mikilvægi útiveru fyrir fólk og tengsl þess við náttúru og sitt nærumhverfi. Nememdur fara í útinámsleiðangra, kynnast útikennslu í verki með heimsókn á vettvang og þátttöku í örnámskeiðum og almennri fræðslu. Nemendur skipuleggja útinám og fylgja skipulaginu eftir með verklegri kennslu.

X

Inngangur að þroskaþjálfafræði (ÞRS118G)

Námskeiðið er inngangsnámskeið að þroskaþjálfafræðum. Þroskaþjálfar starfa á öllum sviðum samfélagsins með það að leiðarljósi að styðja og efla samfélagslega þátttöku og gæta hagsmuna fatlaðs fólks og annarra sem nýta sér þjónustu og fagþekkingu þroskaþjálfa. Mannréttindi eru kjölfestan í störfum þroskaþjálfa.

Í námskeiðinu verður farið yfir grunnþætti þroskaþjálfastarfsins:

 • Mannréttindi og mannréttindasáttmála
 • Lykilhugtök þroskaþjálfafræða
 • Sögu og þróun þroskaþjálfastéttarinnar á Íslandi
 • Siðareglur, hugmyndafræði og gildi þroskaþjálfa
 • Lög og reglugerðir sem tengjast störfum og starfsvettvangi þroskaþjálfa
 • Hlutverk þroskaþjálfa í samfélagi margbreytileikans
 • Grunnþætti í teymis- og hópavinnu.

Nemendur fá kynningu á starfsviði og starfsháttum þroskaþjálfa á vettvangi og helstu þjónustukerfum í málaflokkum fatlaðs fólks. Starfandi þroskaþjálfar munu koma sem gestafyrirlesarar inn í kennslustundir  Leitast er við að kynna nýjar íslenskar rannsóknir innan þroskaþjálfafræðinnar.

Vinnulag: Kennarar setja inn fyrirlestra og annað námsefni á Canvas

Staðkennsla: Vikuleg kennsla – þátttökuskylda. Umræður og verkefnavinna staðnema fer fram í kennslustundum samkvæmt stundaskrá á staðnum eða í rauntíma á netinu. Stundaskrá verður kynnt í nýnemaviku.

Fjarkennsla: Fjarnemendur sinna þátttökuskyldu á netinu. Þátttaka og virkni í umræðum og verkefnavinnu á Canvas.

Staðlotur: Staðlotur eru tvær á önninni. Fyrri staðlota er 11.- 15. september og seinni staðlota er 30. okt - 1. nóvember. Gert er ráð fyrir því að nemendur mæti í rauntíma í staðlotur, annaðhvort í Stakkahlíð eða á netinu, þar sem mætingaskylda er í námskeiðinu (Mætingarskylda er nánar útfærð í kennsluáætlun).

Áhersla er lögð á samvinnu nemenda og virka þátttöku í námskeiðinu.

X

Umhverfi sem uppspretta náms (LSS105G, ÍÞH325G)

Í námskeiðinu verður skoðað hvernig umhverfi barna getur gefið fjölbreytt tækifæri til náms í náttúrufræði og stærðfræði með áherslu á athuganir og tilraunir barna.  Nemendur kynnast meginhugmyndum um útikennslu og verða tekin nokkur dæmi um heppileg viðfangsefni. Fjallað verður um náttúrufræðileg og stærðfræðileg fyrirbæri í umhverfi barna svo sem spendýr, smádýr, plöntur, form, fjölda, mynstur, vatn og loft. Nemendur skoða gögn og leiðir sem nýta má við undirbúning og skipulagningu kennslu þar sem umhverfið er nýtt sem uppspretta náms í náttúrufræði og stærðfræði. Nemendur prófa valin viðfangsefni með börnum á vettvangi.

Vinnulag
Fyrirlestrar, kynningar, umræður, verklegar æfingar, vettvangsferðir, verkefnavinna, skólaheimsóknir og nemendur vinna verkefni með börnum í skólum.

Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma. Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.

X

Útikennsla, útinám og heilsa (LSS105G, ÍÞH325G)

Viðfangsefni

Fjallað er um hvernig hægt er að færa bóklega kennslu út úr skólabyggingunni og auka m.a. hreyfingu nemenda í skólastarfi. Áhersla er lögð á mikilvægi útiveru fyrir fólk og tengsl þess við náttúru og sitt nærumhverfi. Nememdur fara í útinámsleiðangra, kynnast útikennslu í verki með heimsókn á vettvang og þátttöku í örnámskeiðum og almennri fræðslu. Nemendur skipuleggja útinám og fylgja skipulaginu eftir með verklegri kennslu.

X

Lokaverkefni í diplómanámi (TÓS407G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur í starfstengdu diplómanámi vinni að lokaverkefni. Stefnt verður að því að efla færni nemenda í að skipuleggja stórt verkefni og vinna að því jafnt og þétt yfir misserið. Krafa verður bæði á einstaklingsframtak sem og hópavinnu og munu nemendur einnig fá tækifæri til að æfa framkomu og búa til kynningar. Námskeiðið verður sniðið að áhuga og framlagi hvers og eins. Verkefnavinna verður með markvissum hætti og stefnt að því að í lok námskeiðsins hafi nemendur undirbúið kynningu eða viðburð sem tengist þeirra lokaverkefni.

Sveigjanlegar og fjölbreyttar kennsluaðferðir verða á námskeiðinu og námsmat einnig fjölbreytilegt. Námskeiðið er skyldunámskeið fyrir nemendur í starfstengdu diplómanámi og er ekki opið öðrum nemendum í Háskóla Íslands.

X

Tómstundir og börn (TÓS202G, LSS202G)

Megin viðfangsefni námskeiðsins eru tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára í víðum skilningi. Fjallað er um helstu uppeldisfræðislegu sjónarhornin með þennan aldurshóp í huga. Fjallað verður um margvíslegar áskoranir sem börn á þessum aldri standa frammi fyrir.

Viðfangsefni námskeiðsins snúa meðal annars að lýðræðislegum starfsháttum í starfi með börnum, grunnþáttum menntunar, viðmiðum um gæði í frístundastarfi, öryggis- og velferðarmálum í æskulýðsstarfi, mikilvægi leiksins, fjölmenningu og inngildingu, samskiptum og gagnrýnni hugsun, listum, menningu og skapandi starfi og tómstundastarfi með margbreytilegum barnahópum.

Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur

 • öðlist þekkingu á kenningum um þroska, nám og félagsfærni allra barna á aldrinum 6-12 ára
 • fái innsýn í tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára og öðlist skilning á hlutverki grunnskóla, frístundaheimila og æskulýðstarfs
 • efli eigin færni og styrk í að vinna með börnum á vettvangi frítímans og efli þekkingu sína á mikilvægi leiks í starfi með börnum
 • átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með börnum og tileinki sér slík vinnubrögð.
X

Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni (TÓS202G, LSS202G)

Meginmarkmið námskeiðsins eru að nemendur

 • efli eigið næmi, hugmyndaflug og sköpunargáfu
 • kynni sér tjáningu og samskipti barna, bæði í skipulögðum og sjálfsprottnum leikjum
 • öðlist færni í að skipuleggja hreyfingu og leikræna tjánigu í daglegu starfi, úti sem inni

Kennslufyrirkomulag: Námskeiðið verður kennt í nokkrum staðbundnum lotum fyrir alla nemendur, bæði í stað - og fjarnámi. 

Viðfangsefni: Kynntar verða leiðir í leikrænni tjáningu sem tengjast umhyggju, trausti og öryggiskennd barna sem leið til að efla umburðarlyndi, vináttu og tjáningu. Í gegnum hreyfingu og leik stuðlar kennari að því að barnið skilji eigin styrk og getu í þeim tilgangi að efla sjálfstraust þess og lífsleikni. Fjallað er um mikilvægi hreyfingar og hreyfiuppeldis í daglegu lífi barna og kynntar aðferðir sem byggja á styrkleikum barna og áhuga ásamt þörf þeirra til að hreyfa sig frjáls og óhindrað. Kynntar verða fjölbreyttar leiðir til tjáningar og líkamsþjálfunar sem hæfa börnum í leikskóla og yngri bekkjum grunnskóla. Fjallað er um val leikja og sköpun nýrra leikja sem stuðla að tjáningu og hreyfingu barna, aðferðir sem samþætta hreyfiþjálfun, leikræna tjáningu og sköpun auk tengsla við aðra þætti skólastarfs.

Hluti námskeiðsins er einnar viku vettvangsnám (2Ve) sem fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs. Vettvangshluti námskeiðs skal tekin samhliða vettvangsnámi í námskeiðinu Leikskólafræði II - leikur, samskipti og skráning.  

X

Fötlun og lífshlaup (ÞRS212G, ÞRS214G)

Í þessu námskeiði verður líf og aðstæður fatlaðs fólks á ólíkum æviskeiðum skoðað með það að markmiði að greina hvernig best megi styðja við fulla samfélagsþátttöku fatlaðs fólks og fjarlægja manngerðar hindranir í lífi fatlaðs fólks á öllum aldri. Einnig verður horft til þess hvernig margþætt mismunun á ólíkum tímabilum í lífi fatlaðs fólks hefur áhrif á hvað fötluðu fólki er boðið upp á og hvaða væntingar það hefur í hversdeginum og til framtíðar, t.d. á sviði menntunar, atvinnu, fjölskyldulífs, ástarsambanda, heimilislífs, félagsstarfa og tómstunda, og stjórnmálaþátttöku. Lögð verður áherslu á að skoða gagnrýnar kenningar um æviskeiðið og hvernig hugmyndir okkar um ólík æviskeið, t.d. bernsku, unglingsár og fullorðinsár, geta verið bæði hamlandi og frelsandi fyrir hóp fatlaðs fólks og sjálfsmyndarsköpun þess. Í þessu samhengi verður íslensk stefnumótun og löggjöf í málefnum fatlaðs fólks skoðuð og alþjólegir mannréttindasamningar?

Vinnulag: Fyrirlestrar, hópavinna og greining opinberrar umræðu. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda í umræðum og að þeir fylgist vel með umfjöllun um fötlun í fjölmiðlum með tilliti til birtingarmynda fötlunar og ólíkra æviskeiða. Jafnframt að nemendur tileinki sér fræðileg vinnubrögð í skrifum og við heimildaleit.

X

Vald og jaðarsetning: hagnýting félagsfræðikenninga (ÞRS212G, ÞRS214G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læri að þekkja og nota mismunandi félagsfræðilegar kenningar sem tengjast líkamlegu og andlegu atgervi. Farið verður yfir hugtök sem tengjast valdi, til dæmis stigma, valds, öráreitni og ableisma, sem nemendur geta nýtt sér til að greina hvernig normi er viðhaldið og hvernig samfélagslegar skilgreiningar á normi eru til komnar. Þær kenningar sem farið verður í ættu að geta nýst nemendum til þess að átta sig á því hvernig jaðarsetningu hópa er viðhaldið í samfélaginu og hvernig ögun líkama fer fram.

X

Tómstundir og börn (TÓS202G, TÓS211G)

Megin viðfangsefni námskeiðsins eru tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára í víðum skilningi. Fjallað er um helstu uppeldisfræðislegu sjónarhornin með þennan aldurshóp í huga. Fjallað verður um margvíslegar áskoranir sem börn á þessum aldri standa frammi fyrir.

Viðfangsefni námskeiðsins snúa meðal annars að lýðræðislegum starfsháttum í starfi með börnum, grunnþáttum menntunar, viðmiðum um gæði í frístundastarfi, öryggis- og velferðarmálum í æskulýðsstarfi, mikilvægi leiksins, fjölmenningu og inngildingu, samskiptum og gagnrýnni hugsun, listum, menningu og skapandi starfi og tómstundastarfi með margbreytilegum barnahópum.

Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur

 • öðlist þekkingu á kenningum um þroska, nám og félagsfærni allra barna á aldrinum 6-12 ára
 • fái innsýn í tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára og öðlist skilning á hlutverki grunnskóla, frístundaheimila og æskulýðstarfs
 • efli eigin færni og styrk í að vinna með börnum á vettvangi frítímans og efli þekkingu sína á mikilvægi leiks í starfi með börnum
 • átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með börnum og tileinki sér slík vinnubrögð.
X

Tómstundir og unglingar (TÓS202G, TÓS211G)

Markmið: Að nemendur

 • Kynnist því tómstundastarfi sem sérstaklega er boðið upp á fyrir unglinga á Íslandi.
 • Efli eigin færni og styrk í að vinna með unglingum á vettvangi frítímans.
 • Öðlist innsýn í þann heim sem unglingar búa við í dag, má þar nefna hnattvæðingu, fjölmiðla, unglingamenningu og samvistir fjölskyldunnar.
 • Kryfji rannsóknir á gildi tómstunda fyrir unglinga.
 • Öðlist færni í að greina og bregðast við ofbeldi gegn unglingum, ásamt því að þekkja skyldur og ábyrgð leiðbeinenda.
 • Öðlist innsýn í hverskonar frávikshegðun unglinga og hvernig helst megi koma í veg fyrir hana.
 • Þrói hugmyndir sínar um tómstundastarf fyrir unglinga með því að gera verkefni á vettvangi.
 • Átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með unglingum.
 • Geti skipulagt og stjórnað tómstundastarfi fyrir unglinga.

Inntak / viðfangsefni: Fjallað verður um starf félagsmiðstöðva, íþróttafélaga, skáta og um trúarlegt starf fyrir unglinga, ásamt félagsstarfi í grunnskólum. Áhersla verður lögð á starfshlutverk tómstundafræðinga við fræðslu, ráðgjöf og forvarnarstarf. Farið verður í skoðun á samfélaginu út frá unglingunum sjálfum og nemendur kryfja gildi tómstunda fyrir unglinga til mergjar. Fjallað verður um helstu einkenni og vandamál sem börn og unglingar eiga við að etja, meðal annars verður fjallað um kenningar, áhættuþætti, eðli og umfang ofbeldis og vanrækslu og mismunandi birtingarform þess. Jafnframt verður fjallað um ofbeldi í fjölskyldum og áhrif þess á unglinga. Ennfremur verður fjallað um löggjöf, úrræði og forvarnarstarf, vinnuaðferðir, viðhorf og viðbrögð fagfólks í slíkum málum. Að lokum verður fjallað um hlutverk og ábyrgð leiðbeinenda og mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í starfi með unglingum.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður, einstaklingsvinna, hópavinna og vettvangsheimsóknir. Nemendur fara í vettvangsheimsóknir og kynna sér starf með unglingum. Nemendur hanna starf í frítíma fyrir unglinga.

X

Samvinnurannsóknir I (TÓS312G)

Í námskeiðinu er fjallað samvinnurannsóknir sem byggja á nánu samstarfi milli fólks með þroskahömlun og fræðifólks þar sem allir aðilar taka virkan þátt í rannsóknarferlinu. Farið verður yfir hvað felst í rannsóknarferlinum frá hugmynd að kynningum á niðurstöðum. Nemendur fá kynningu á því hvernig sótt er um leyfi fyrir rannsóknum og þjálfun í því að taka viðtöl. Einnig verða kynntar fyrir þeim ýmsar leiðir við að kynna niðurstöður rannsókna eins og myndaritgerðir og fræðaskrif. Samvinnurannsóknir tengjast beint kröfu laga og alþjóðlegra samninga um virkt samráð og mun námskeiðið þar af leiðandi einnig nýtast þeim nemendum sem munu taka þátt í slíkri vinnu í framtíðinni. 

X

Samvinnurannsóknir II (TÓS412G)

Námskeiðið er framhald af námskeiðinu Samvinnurannsóknir II. Í námskeiðinu er fjallað samvinnurannsóknir sem byggja á nánu samstarfi milli fólks með þroskahömlun og fræðifólks þar sem allir aðilar taka virkan þátt í rannsóknarferlinu. Farið verður nánar yfir hvað felst í rannsóknarferlinum frá hugmynd að kynningum á niðurstöðum. Í þessu námskeiðið er megin viðfangsefnið kynning á rannsóknarniðurstöðum. Nemendur fá þjálfun í að kynna fyrir öðrum niðurstöður bæði í ræðu og riti. Samvinnurannsóknir tengjast beint kröfu laga og alþjóðlegra samninga um virkt samráð og mun námskeiðið þar af leiðandi einnig nýtast þeim nemendum sem munu taka þátt í slíkri vinnu í framtíðinni. 

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Arnbjörg K. Magnúsdóttir
Margeir Þór Hauksson
Arnbjörg K. Magnúsdóttir
Starfstengt diplómanám

Ég sótti um í námið því það sem ég hafði heyrt um námið fannst mér spennandi. Námið er frábært, það hefur aukið sjálfstraust mitt og ég hef kynnst nýju fólki. Ég er á leikskólalínu og hef lært margt sem ég get nýtt mér með leikskólabörnum í starfsnáminu. Þegar ég útskrifast langar mig að vinna á leikskóla. Ég hvet alla áhugasama um að sækja um í námið því að það gefur allskonar möguleika.

Margeir Þór Hauksson
Starfstengt diplómanám

Ég sótti um námið af því að mig langaði að mennta mig meira. Mér hefur fundist mjög gaman að vera í Háskólanum. Það sem stendur upp úr er að hafa verið í tímum með stúdentum á öðrum brautum. Ég fékk starf á starfsnámstaðnum mínum sem er félagsmiðstöð, mig langar að halda áfram að vinna þar eftir að ég útskrifast. Það er rosalega skemmtilegt að vera í háskóla svo ég hvet alla áhugasama til að sækja um.

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa
Stakkahlíð, 1. hæði í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni 

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.