Skip to main content

Sjúkraþjálfunarfræði

Sjúkraþjálfunarfræði

Heilbrigðisvísindasvið

Sjúkraþjálfunarfræði

BS gráða – 180 einingar

Fræðilegt og verklegt grunnnám með áhersla á fagmennsku, fræðimennsku og vísindaleg vinnubrögð. Fræðilegur grunnur námsleiðarinnar byggir einkum á kenningum um hreyfistjórn og hreyfinám sem og hugmyndafræði alþjóðlegs flokkunarkerfis um færni, fötlun og heilsu.

Fjöldi nemenda í grunnnám í sjúkraþjálfunarfræði er takmarkaður með inntökuprófi. Á hverju ári eru 35 nemendur teknir inn í námið.

Skipulag náms

X

Líffærafræði sj. IB (LÆK116G)

Stórsæ líffærafræði útlima og bols.

Í fyrirlestrum og verklegum tímum er farið kerfisbundið yfir sértæka líffærafræði (anatomia systematica), líffærafræði svæða (anatomia topographica), yfirborðsútlit og starfsemi (anatomia functionalis) útlima og bols. Fyrirlestraskrá varðandi námsefni hverrar kennslustundar verður aðgengilegt við upphaf námskeiðs.

X

Líffærafræði sj. IA - Almenn (LÆK121G)

Almenn líffærafræði (general anatomy) er tekur til byggingar þ.e. gerð og útlits mannslíkamans. Í fyrirlestrum er farið kerfisbundið yfir almenna líffærafræði mannslíkamans, bæði stórsæar og smásæar byggingar frá vefjum um líffæri og líffærakerfi til samþáttunar í fullþroska mannslíkama. Í verklegum tímum er farið í smásæa bygginu grunnvefja líkamans. Ennfremur er vísað til fyrirlestraskrár varðandi námsefnið, sem afhent verður í upphafi námskeiðs.

X

Inngangur að sjúkraþjálfun (SJÚ105G)

Í þessu námskeiði verða sjúkraþjálfunarfræði og sjúkraþjálfun kynnt ásamt stefnu, hugmyndafræðilegum ramma og gildum Námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Fjallað verður um þróun og framtíðarsýn sjúkraþjálfunar, hugmyndafræðilegan ramma Alþjóðlegs flokkunarkerfis um færni, fötlun og heilsu (ICF) og lykilhugtök fræðigreinarinnar (hreyfing og færni). 

Kynntir verða til sögunnar meginþættir námsins í sjúkraþjálfunarfræðum og sjúkraþjálfun; hreyfistjórn, meðferðarferli sjúkraþjálfunar, notanda-/sjúklingsmiðuð nálgun, gagnreynd nálgun og fagmennska. Nemendur heimsækja vinnustaði sjúkraþjálfara og fylgjast með störfum þeirra. Nemendur fá þjálfun í grundvallaratriðum fræðilegra og gagnreyndra vinnubragða með áherslu á vísindaleg skrif, skilgreiningar hugtaka, rannsóknarspurningar, tilgátur, helstu rannsóknaraðferðir í heilbrigðisvísindum, heimildaleit, tilvísanir í heimildir og heimildaskráningu. Lagður verður grunnur að siðfræði og fagmennsku í námi og framtíðarstörfum. Nemendur fá þjálfun í gagnrýnni hugsun og áhersla lögð á að efla siðferðilega dómgreind og sjálfstæði nemenda þannig að þeir temji sér að ígrunda skoðanir sínar.

X

Vöxtur og þroski (SJÚ106G)

Á þessu námskeiði fá nemendur innsýn í lýðfræði, sjónarmið og kenningar um vöxt og þroska manneskjunnar frá vöggu til grafar. Nemendur kynna sér og ræða fjölbreyttar kenningar og hugmyndir sem lúta að dæmigerðum líkamlegum, vitrænum, félagslegum og tilfinningalegum vexti og þroska; og fá dæmisögur um það hvernig líf-sál-félagsleg nálgun birtist í meðferðarferli sjúkraþjálfunar og notendamiðaðri sjúkraþjálfun. Nemendur læra um mikilvæga áhrifaþætti vaxtar og þroska og þar er sérstaklega fjallað um samspil erfða og umhverfis. Enn fremur, kynnast nemendur ýmsum frávikum frá dæmigerðum vexti og þroska ásamt algengum áskorunum sem tengjast ákveðnum aldursskeiðum.

X

Frumulífeðlisfræði (SJÚ107G)

Farið í byggingu og starfsemi frumna og frumulíffæra, lífsameindir, stjórnun orkubúskapar og efnaskipta, boðskipti á milli frumna, lífeðlisfræðilega starfsemi taugakerfa, hormónakerfa og vöðva. Kynning á vefjaflokkum mannslíkamans.

Verklegar æfingar: himnuspenna- og boðefni og vöðvar.

X

Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn (HVS202G)

Námskeiðið er ætlað nemendum á fyrsta námsári í greinum heilbrigðisvísinda.  Sameiginlegur heilbrigðisvísindadagur nýnema allra deilda á Heilbrigðisvísindasviði í janúar ár hvert. Fjallað er um þverfaglegt samstarf og mikilvægi þess. Farið verður í grundvallarþætti samstarfsins svo sem sameiginlega sýn á réttindi til heilsu, samskipti og siðfræði. Einnig er fjallað um hlutverk og ábyrgð heilbrigðisvísinda.

X

Líffærafræði sj. IIA (LÆK214G)

Taugalíffærafræði og líffærafræði höfuðs og háls. Líffæra- og fósturfræði höfuðs og háls. Farið er yfir fósturfræði, líffærakerfi (anatomia systemica) og svæði (anatomia topographica) höfuðs og háls. Sýnikennsla eftir því sem aðstæður leyfa. Líffæra- og fósturfræði taugakerfis. Í líffærafræði er farið yfir fósturþroska og starfræn kerfi taugakerfis. Í verklegum-/sýnikennslutímum er farið yfir ytri og innri gerð heilans.

X

Líffærafræði sj IIB (LÆK218G)

Stórsæ líffærafræði (macroanatomia) innri (iðrar) líffæra. Í fyrirlestrum er farið yfir líffærafræði brjósthols-, kviðarhols- og grindarholslíffæra og fósturfræði þeirra kynnt þar sem við á. Einnig er kynnt yfirborðs líffærafræði búks og spangar þar sem bygging búk- og spangar veggjanna er skoðuð sérstaklega. Fyrirlestrar byggja á kliniskum tilfellum þar sem því verður við komið svo auka megi skilning vægi byggingar í klinisku samhengi.

Kennsla í LÆK218G (SJÚ) byggist á hefðbundnum fyrirlestrum, netfyrirlestrum, umræðutímum og verkefnum. Kennslufyrirkomulag í námskeiðinu er í stöðugri endurskoðun er taka til framfara í kennslu og því er áskilinn réttur til breytinga.

X

Líffærafræði sj. IA - Fósturfræði (LÆK219G)

Fósturfræði. Kynnt verða  grundvallaratriði í fósturfræði: heiti (íslenskt, latneskt, enskt) atburða í fósturþroska, ferlill breytinga í fósturþroska og stjórnun þeirra, orsakir og afleiðingar truflaðrar myndunar. Miðlun þessarar þekkingar til fagaðila, sjúklinga og almennings.
Kynntar verða með lestri greina helstu rannsóknir í fósturfræði og hvernig nota má þær til ákvarðanatöku (klíník og stefnumörkun) um greiningu og meðferð vandamála og miðlun þeirra ákvarðana til fagaðila, sjúklinga og almennings.
Í námskeiðinu er farið í fyrirlestrum yfir grundvallaratriði fósturfræði og gerð mannslíkamans skýrð með tilvísun til uppruna hans. Námsefnið kemur frekar fram í fyrirlestraskrá í upphafi námskeiðs.

X

Aðferðir í sjúkraþjálfun I (SJÚ205G)

Fræðilegur grunnur fyrir mjúkvefjameðferð í lækningaskyni er kynntur fyrir nemendum í fyrirlestraformi.  Farið er í gegnum mismunandi ástand vefja og greiningu auk þess sem farið er í grundvallaratriði við val á mjúkvefjameðferð.  Í verklegum tímum eru æfð helstu hefðbundnu handtök sem beitt er við mjúkvefjameðferð, m.a. þrýstipunktameðferð, hreyfinudd og  losun á bandvefsreifum vöðva (myofascial release).  Einnig er kennd meðferð við sogæðabjúg.  Helstu líffærafræðilegu kennileiti eru fundin og þreifuð.  Nemendur læra um sína eigin líkamsvitund. Frætt er um líkamsbeitingu við vinnu sem sjúkraþjálfari og áhersla lögð á að nemendur beiti sér vel í verklegum tímum.

X

Lífeðlisfræði (SJÚ206G)

Í námskeiðinu er farið í lífeðlisfræði miðtaugakerfis, skynfæra, blóðrásar, öndunarfæra, nýrna, meltingar- og æxlunarfæra. Einnig er farið í grunnatriði varðandi stjórnun orkubúskapar, efnaskipta, vaxtar og viðbrögð mannslíkamans við áreynslu. Þrjár verklegar æfingar þurfa nemendur að taka en þær fjalla um: a) taugaleiðni og viðbrögð; b) skynjun; og c) hjarta og blóðrás. Þrjú áfangapróf verða lögð fyrir á misserinu úr efni námskeiðsins.

X

Heilsuefling I (SJÚ311G)

Í þessu fyrra heilsueflingarnámskeiði verður lögð áhersla á hlutverk sjúkraþjálfara við heilsueflingu hópa og samfélaga. Farið verður yfir grundvallarhugmyndafræði lýðheilsu, vellíðunar og mismunandi stig forvarna með áherslu á gagnreynda nálgun. Nemendur öðlast þekkingu á heilsueflandi samfélagsverkefnum sem eru/hafa verið í gangi og hvernig sjúkraþjálfarar geta komið að og/eða nýtt sér slíkt verkefni í starfi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða skoðuð og hlutverk sjúkraþjálfara í tengslum við sjálfbærni og umhverfið. Farið verður yfir áhrifaþætti heilbrigðis, með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta og horft til heilsulæsis einstaklinga. Grunnþættir í heilsuhagfræði verða kynntir og tengsl þeirra við heilsu.

X

Hreyfivísindi I: Starfræn líffærafræði og lífaflfræði (SJÚ306G)

Í þessu námskeið verða kynnt hugtök og lögmál sem nauðsynleg eru til að geta greint hreyfingar mannsins. Námskeiðið skiptist í starfræna líffærafræði stoðkerfisins, lífaflfræði og mat á starfsemi liðamóta og vöðva. Í starfrænni líffærafræði er lögð áhersla á eðlilega og skerta starfsemi einstaka liðamóta og vöðva og unnið með dæmi um samsettar liðhreyfingar tengdar ýmsum athöfnum. Unnið er með lífaflfræðihugtök  og farið yfir lífaflfræðilega eiginleika vefja. Áhersla er lögð á áhrif þyngdarkrafts, annarra  ytri krafta og kraftvægja  á líkamann. Fjallað er um hreyfingar mannslíkamans og líkamsstöðu með tilliti til samspils ytri og innri krafta. Nemendur þjálfa leikni í mati á hreyfingum helstu liðamóta, vöðvastyrk og líkamsstöðu, ásamt leikni í að skrá og túlka niðurstöður matsins.

X

Töl- og aðferðafræði (SJÚ307G)

Farið er í mismunandi rannsóknarsnið og aðferðir, bæði í eigindlegum og megindlegum rannsóknum. Lögð verður áhersla á að kynna kosti og galla hverrar aðferðar fyrir sig þannig að nemandinn skilji gæðamun á rannsóknum þar sem mismunandi aðferðum er beitt m.t.t. gagnreyndrar þekkingar. Farið er í lýsandi tölfræði og grunnatriði í ályktunartölfræði. Kynnt verða einföld og algeng tölfræðipróf, eins og t-próf, einþátta dreifnigreiningu, kí-kvaðrat próf, stikalaus próf og línulega aðhvarfsgreiningu, svo og helstu tölfræðiaðferðir við að meta áreiðanleika. Nemendur fá þjálfun í notkun á aðgengilegu tölfræðiforriti.

X

Áreynslulífeðlisfræði (SJÚ308G)

Farið er í áhrif áreynslu og þjálfunar á efnaskipta og lífeðlisfræðilega starfsemi líffærakerfa líkamans, þ.e. vöðva, bein, taugakerfið, hormónakerfið, öndunarfærin, hjarta- og blóðrásarkerfið, hitastjórnun og vatns- og saltbúskap. Þá verður farið í þreytu og mismunandi orsakir hennar. Einnig verður farið í stjórnun líkamsþyngdar. Lagt verður upp úr að þjálfa nemendur í heimildaleit og úrvinnslu heimilda með kynningum á umræðufundum og málstofum.

X

Félagslegt umhverfi (SJÚ309G)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að áhrifum umhverfisþátta á færni og fötlun sem samkvæmt hugmyndafræði Alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni og fötlun (ICF) eru: afurðir og tækni, náttúrulegt umhverfi og umhverfisbreytingar af manna völdum, stuðningur og tengsl, viðhorf og þjónusta, kerfi og stefnur. Nemendur öðlast leikni í að greina hindrandi og hvetjandi þætti í manngerðu og náttúrulegu umhverfi. Í framhaldi af því verður fjallað um heilbrigðiskerfið á Íslandi, stöðu og réttindi sjúklinga, þ.m.t. lífeyri og örorku. Einnig verður farið í siðfræðilegar hliðar heilbrigðisþjónustu, siðfræði lýðheilsu, rannsókna á fólki, heilbrigðisstefnu og forgangsröðun.  

X

Heilsuefling II (SJÚ412G)

Í þessu seinna heilsueflingarnámskeiði verður áhersla lögð á heilsueflingu á einstaklingsmiðaðan hátt, áhrifaþætti heilsuhegðunar einstaklinga og hvernig sjúkraþjálfarar geta haft áhrif á kyrrsetu og hreyfingarleysi. Farið verður í ráðleggingar hreyfingar sem forvörn og meðferð ýmissa sjúkdóma. Nemendur öðlast leikni í að beita aðferðum áhugahvetjandi samtalstækni með áherslu á notkun Hreyfiseðils sem meðferð sjúkdóma og sjúkdómseinkenna. Kynnt verður hvernig hægt er að nýta smáforrit í heilsueflingu. Nemendur öðlast leikni í að ræða heilsu og sjúkraþjálfun á erlendu tungumáli og þekkingu á sjúkraþjálfunarfaginu og heilbrigðiskerfum í evrópskum löndum. Auk þess verður farið í grunnatriði í næringarfræði og svefns og leiðir til að skima lífsstíl einstaklinga verða ræddar.

X

Mælingar á færni og fötlun (SJÚ407G)

Námskeiðið felur í sér kynningu á fræðilegum undirstöðum mælinga í heilbrigðisvísindum með áherslu á staðlað mat sjúkraþjálfara á athöfnum- og þátttöku (mat á færni). Nemendur kynnast mismunandi mælikvörðum og mælitækjum sem hafa verið hönnuð fyrir fjölbreytta notenda-/sjúklingahópa. Nemendur læra um grundvallaratriði í mælinga- og próffræði, með það að markmiðið að geta valið, gagnrýnt og notað mælitæki á faglegan og öruggan máta. Nemendur þjálfa leikni í að nýta hugmyndafræðilegan ramma ICF og samtímakenningar um hreyfistjórn þegar þau flokka mælitækin og túlka niðurstöður þeirra. Hugmyndafræði ICF er einnig lögð til grundvallar þegar nemendur kortleggja og rökstyðja þátttöku sjúkraþjálfara í heildrænu mati tengt teymisvinnu. Kynntar verða aðferðir við þýðingu, staðfærslu og staðalbindingu alþjóðlegra mælitækja. Nemendur munu fá tækifæri til að þjálfa leikni í að gagnrýna og nota staðlaðar mælingar í verklegum kennslustundum. Í námskeiðinu er lögð áhersla á hæfni í að beita gagnreyndri nálgun við val á mælitækjum; og að gæta fyllsta öryggis þegar ögra þarf líkamlegri færni notanda-/sjúklings.

X

Meinafræði, myndgreining og lyf (SJÚ408G)

Í námskeiðinu fá nemendur kynningu á grunnatriðum í meinafræði, lyfjafræði og myndgreiningu.

  1. Fjallað er um frumu- og vefjabreytingar við ýmis konar áreiti, afleiðingar frumuskemmda, bólguviðbrögð, græðslu og viðgerð, ónæmisviðbrögð, ofvöxt og eðli æxlisvaxtar.
  2. Kynnt er fræðigreinin líflyfjafræði og fjallað um hvar finna má upplýsingar um lyf. Tekin verða nokkur dæmi um lyfjaflokka og fjallað um hvernig notkun sjúklinga á þeim geta tengst starfi sjúkraþjálfara.
  3. Kynntar verða myndgreiningaraðferðir sem notaðar eru við rannsóknir á stoðkerfi, taugakerfi, lungum og hjarta- og æðakerfi. Lögð er áhersla á gagnsemi upplýsinga úr myndgreiningu fyrir sjúkraþjálfun.
X

Hreyfivísindi II: Hreyfistjórn og hreyfigreining (SJÚ409G)

Nemandi mun fá þekkingu og skilning á hreyfivísindum. Fjallað er um helstu kenningar að baki hreyfistjórnar og hreyfináms og áhrif sem þær hafa haft á skoðun og íhlutun sjúkraþjálfara. Athygli er beint að kerfakenningum og athafnamiðaðri nálgun. Tenging kenningar kvikra kerfa og Alþjóðlega flokkunarkerfisins um færni, fötlun og heilsu (International Classification of Function, Disability and Health- ICF) verða útskýrð. Lífeðlisfræði hreyfistjórnar og hreyfináms verður kennd. Farið er í hvað er hreyfifærni og um breytingar á henni sem verða við þjálfun. Fjallað verður um áhrifaþætti hreyfináms og í tengslum við það verður talað um aðlögunarhæfni (plasticity) heilans þegar verið er að ná tökum á athöfnum. Breytingar á hreyfistjórn tengdar þroska og aldri verða skoðaðar. Farið verður yfir hvernig nota má vísindalega þekkingu hreyfivísinda sem grunn fyrir gagnreynda nálgun í sjúkraþjálfun.

Áhersla er lögð á athafnamiðaðar hreyfingar mannsins, einkum þær sem fela í sér að koma sér um, hafa stjórn á jafnvægi og stjórn á efri útlimum. Eðlileg framkvæmd hreyfiathafna er skoðuð með áherslu á hreyfingar liðamóta (kinematics) og verkun krafta á líkamann (kinetics) . Einnig verður fjallað um sértækar kröfur í mismunandi verkefnum og umhverfisaðstæðum. Nemendur læra að greina hreyfingar með því að horfa á þær. Þá munu þeir læra um ýmis próf/matstæki sem notuð eru til að meta jafnvægi, göngu, að standa upp og færni með höndum. Þeir  kynna próf/matstæki, æfa sig í að leggja próf fyrir þar sem gætt er að stöðlun mælinga og öryggi sjúklinga auk þess sem þeir skrá og túlka niðurstöður. Dæmi eru tekin um frávik í hreyfistjórn vegna sjúkdóma og slysa.

X

Aðferðir í sjúkraþjálfun II - Þjálffræði (SJÚ411G)

Markmið námskeiðis er nemendur geti samnýtt þekkingu um helstu kenningar í þjálfræði við þekkingu úr líffærafræði, lífaflfræði, og lífeðlisfræði til að útbúa þjálfunaráætlun, og til að þjálfa notendur og hópa.

Innihald námskeiðs: 

Nemendur læra um grundvallaratriði varðandi upphitun, þolþjálfun, styrkþjálfun, liðleikaþjálfun, og stöðugleikaþjálfun. Nemendur nýta þekkingu sína til að velja hagstæðar æfingar og meta framkvæmd æfinganna hjá einstaklingum. Nemendur beita þekkingu sinni til að útbúa tímaseðil fyrir hópa með breitt getustig.
Fjallað verður um markmiðssetningu einstaklinga og hópa, skipulag þjálfunar og áætlanagerð með tilliti til markmiða, uppsetningu og útfærslu æfingaprógramma og stignun í þjálfun. Skoðuð verða grundvallaratriði varðandi upphitun, þolþjálfun, styrkþjálfun, liðleikaþjálfun, stöðugleikaþjálfun og jafnvægisþjálfun. Einnig verða kynntar aðferðir við  samhæfingar/tækni/færniþjálfun, sprengikrafts- og hraðaþjálfun. Auk þess verður fjallað um endurheimt og ofþjálfun. Kynntar verða mismunandi áherslur í þjálfun barna, unglinga, almennings og eldri borgara með áherslu á markmið, ákefð og stignun. Kynntar verða ýmsar mælingar tengdar þjálfun. Auk þessa verður farið í helstu þætti þjálfunar í vatni. Áhrif mismunandi útfærslu æfinga og breytilegra þyngda verða skoðuð út frá lífaflfræðilegu sjónarhorni. Nemendur vinna verkefni í tengslum við þjálfun ólíkra hópa, setja upp tímaseðla og fylgja þeim eftir með kennslu hópa í íþróttasal. Einnig fá þeir verkefni tengt einstaklingsþjálfun í tækjasal.

Kennsla: Fyrirlestrar, vendikennsla, verklegir tímar, æfingakennsla, umræðutímar, verkefni.

X

BS verkefni A (SJÚ512G)

Námskeið sem gefur nemendum tækifæri á að vinna saman í hóp við að undirbúa verkefni þar sem þau fá þjálfun í vinnubrögðum við afmarkaðan þátt í rannsóknum og nýsköpun. Verkefnin geta t.d. verið heimildaöflun og úrvinnsla þeirra, aðstoð við söfnun gagna og úrvinnslu þeirra eða greining á klínískum vandamálum. Lagt verður upp úr gagnrýnni nálgun á viðfangsefnið, nýsköpun, gagnreyndum aðferðum, framsetningu á niðurstöðum, færni í samvinnu og verkstjórnun, og sjálfstæðum vinnubrögðum. Nemendur skila í lok námskeiðsins stuttri samantekt þar sem verkefnið er skilgreint og verkáætlun sett fram.

X

Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum (HVS501M)

Námskeiðið er ætlað nemendum á þriðja námsári eða síðar sem lokið hafa a.m.k. tveimur árum grunnnáms í greinum heilbrigðisvísinda.  Hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu verður lögð til grundvallar í námskeiðinu þar sem nemendur vinna saman að sameiginlegum markmiðum.  Nemendur munu vinna saman í þverfræðilegum teymum og fá tækifæri til að æfa fagmennsku, teymisvinnu, og efla samskipti. Nemendur í hverjum hóp eru úr nokkrum heilbrigðisvísindagreinum.

Námsmat (staðið/fallið) byggist á  verkefnavinnu, virkni í verkefnavinnu og prófum sem verða á rafrænu formi í kennslulotunni.
 
Kennslutilhögun:
Nemendum er skipt í þverfaglega námshópa í byrjun annar sem síðan skipuleggja fundartíma sínir sjálfir og skila lokaverkefnum fyrir lok október. 

X

Skráning í sjúkraþjálfun (SJÚ505G)

Farið er í meðferðarferli sjúkraþjálfara og áhersla lögð á nauðsyn klínískrar rökhugsunar við greiningu og meðferð á vandamálum sjúklinga. Hugmyndafræði Alþjóðlegs flokkunarkerfis um færni, fötlun og heilsu (ICF) verður notuð sem rammi til að meta heilsu og fötlun sjúklings/notanda við sjúkra- og félagssögu, skoðun, markmiðsetningu og meðferð. Fjögur grunnform á skýrslu eru kennd: upphafsskýrsla, dagnótur (um gang meðferðar), endurmat og lokaskýrsla. 

Við gerð upphafsskýrslu er farið skráningu á sjúkra- og félagssögu og skoðun á notanda sjúkraþjálfunar. Farið er hvernig ICF nýtist sem verkfæri til að draga ályktanir frá sögu og skoðun til að setja fram greiningu sjúkraþjálfarins. Aðferð við setningu markmiða í sjúkraþjálfunarmeðferð er kynnt. Áhersla er lögð á að setja skriflega fram athafnamiðuð markmið í samvinnu við sjúklinginn. Rætt verður um hvernig horfur sjúklings eru metnar. Þá er farið í þrjá þætti  meðferðar: 1) samhæfingu á  þjónustu, samskipti og skráningu, 2) leiðbeiningar til skjólstæðings og 3) beina meðferð.

Skráning dagnóta eftir sérstöku formi (SOAP) verður kennd. Farið er í mikilvægi endurmats og hvernig skráning er gerð á stöðu sjúklingsins eftir ákveðin tíma sem og lokaskýrsla. Auk þess verða form á skýrslum og bréfum til ýmissa aðila kennd. Nemendur fá fræðslu um rafrænar sjúkraskrár sem sjúkraþjálfarar nota og um rafræn gagnasöfn sem innihalda upplýsingar úr sjúkraskrám.

Í  námskeiðinu hitta nemendur notendur sjúkraþjálfunar (verklegir tímar) og taka af þeim sjúkra-og félagssögu. Þeir verða þá að fylgjast með líðan viðmælenda og bregðast við ef eitthvað kemur upp á. Einnig verða nemar að gæta öryggi viðmælanda, einkum ef jafnvægi er ábótavant.

X

Vinnuvistfræði (SJÚ506G)

Í þessu námskeið verður kennd líkamsbeiting og færslutækni, en unnið verður út frá þekkingu á lífaflfræði, starfrænni líffærafræði og hreyfistjórn. Grunnatriði forvarna og heilsueflingar á vinnustöðum verða einnig kennd og farið yfir þætti sem geta valdi skertri starfsgetu. Helstu innri sem ytri áhættuþættir og áhrif þeirra á heilsufar og almennt öryggi á vinnustað verða kynntir. Fjallað verður um þverfræðilega teymisvinnu og einstaklingsmiðuð úrræði og ráðgjöf í tengslum við starfsendurhæfingu. Nemendur þjálfa leikni í að framkvæma, skrá og túlka niðurstöður grunnmats á starfsumhverfi og –getu, og læra að skilgreina helstu takmarkandi þætti, með hliðsjón af ICF flokkunarkerfinu.

X

Sjúkdóma- og sjúkraþjálfunarfræði stoðkerfis I (SJÚ508G)

Farið er í faraldsfræði helstu sjúkdóma, álagseinkenna og áverka stoðkerfis og áhrif þeirra á líkamsbyggingu, -starfsemi og athafnagetu. Byggt er á grunni úr líffærafræði, hreyfivísindum, og meinafræði. Markmið kennslunnar er að nemandi öðlist þekkingu á læknisfræðilegu mati og mismunagreiningu í tengslum við áverka, meðfædd frávik/fötlun og sjúkdóma. Nemandi öðlast einnig þekkingu á úrræðum og nálgun ólíkra faghópa í teymisvinnu meðferðar vegna heilsubrests/langvinnra verkja (t.d. lækna, sjúkraþjálfara, stoðtækjafræðinga).

Nemendur nota sjálfstæð vinnubrögð við öflun gagnreyndrar þekkingar til vinnu hópverkefna og þjálfa leikni við grunnskoðun sem tengist verkefninu og flutning þess, og hæfni til að ræða efnið.

X

Heilsusálfræði og geðsjúkraþjálfun (SJÚ509G)

Í námskeiðinu er gefin innsýn í grundvallarhugtök sálfræðinnar og farið yfir ýmsa geðræna sjúkdóma, s.s. kvíðaraskanir, þunglyndi, persónuleikaraskanir, geðklofa, átraskanir, og ýmsar sálrænar truflanir á öllum aldri. Veitt verður innsýn í aðalþætti og markmið geðsjúkraþjálfunar og meðal annars fjallað um aðkomu sjúkraþjálfara í örorku- og starfshæfnimati fólks með andlega heilsu. Þá verður fjallað um lífsgæðaskerðingu og sálfræðilegar hliðar á því að takast á við fötlun og veikindi s.s. krabbamein, langvarandi verki og afleiðingar slysa eða íþróttameiðsla. Farið verður yfir áhrif streitu og áfalla á heilsufar, einkenni áfallastreitu og sorgarviðbragða, þar sem áhersla verður á það hvernig sálfræðileg þekking og nálgun getur gagnast sjúkraþjálfurum í að veita meðferð vegna hvers konar heilsubrests. Áhersla er lögð á samspil andlegrar og líkamlegrar líðanar, þróun sálvefrænna vandamála og aðkomu sjúkraþjálfara. Nemendur fá þjálfun í að koma auga á eigin tilfinningar, hugsun og viðbragð við álagi. Farið verður yfir þróun heilsusálfræðinnar, leiðir til áhugahvatningar og jákvæða sálfræði.

X

Innri líffæri og húð (SJÚ511G)

Í þessu námskeiði verða kenndir helstu sjúkdómar og áverkar í brjóst-og kviðarholi og læknisfræðilegar meðferðir, ásamt hlutverki sjúkraþjálfara. Einnig verða kynntir húðsjúkdómar og sár og hlutverk sjúkraþjálfara í mati og meðferð þeirra. Markmið námskeiðsins er að nemendur nái tökum á að draga ályktanir og setja fram greiningu sjúkraþjálfara ásamt meðferðaráætlun fyrir þennan sjúklingahóp. Lögð verður áhersla á klíníska rökhugsun.

Í verklegum hluta námskeiðsins verður kennd skoðun sjúkraþjálfara og meðferðarmöguleikar á bráða- og endurhæfingarstigi.

X

Stjórnun og rekstur (SJÚ617G)

Fjallað er um stjórnskipulaglag og lagaumhverfi í heilbrigðisþjónustu á Íslandi og stöðu sjúkraþjálfara innan heilbrigðiskerfisins. Farið er yfir hugmyndafræði stjórnunar, verkefnisstjórnun, starfsmannastjórnun, þætti í heilsuhagfræði og gæðastjórnun. Kynntir eru helstu þættir stjórnunarferilsins: markmiðssetning, áætlanagerð, skipulagning, mönnun, samhæfing og mat. Rýnt er í helstu hugtök og kenningar leiðtogafræða ásamt nýjustu stefnum og straumum. Fjallað er um hagnýta þætti sem tengjast rekstri á sjúkraþjálfunarstofum og heilbrigðisstofnunum, almannatengsl og markaðssetningu.

X

BS verkefni B (SJÚ615G)

Námskeið sem gefur nemendum tækifæri á að vinna í hóp að verkefnum þar sem þau fá þjálfun í vinnubrögðum við afmarkaðan þátt í rannsóknum og nýsköpun. Verkefnin geta t.d. verið heimildaöflun og úrvinnsla þeirra, aðstoð við söfnun gagna og úrvinnslu þeirra eða greining á klínískum vandamálum. Lagt verður upp úr gagnrýnni nálgun á viðfangsefnið, nýsköpun, gagnreyndum aðferðum, framsetningu á niðurstöðum, færni í samvinnu og verkstjórnin, og sjálfstæðum vinnubrögðum. Lok á verkefnavinnunni skal skila sem stuttri skýrslu og kynningu á sameiginlegri málstofu.

X

Aðferðir í sjúkraþjálfun III - Rafmagnsfræði (SJÚ608G)

Í fyrri hluta námskeiðsins eru grunnatriði í eðlisfræði rafmagns kennd.  Farið er í uppbyggingu efnis, bylgjur og hljóð, rafsvið, segulsvið, krafta, spennu og strauma.  Einnig er fjallað um ljósfræði og varmafræði.  Sérstaklega er farið í eðlisfræðina á bak við þau rafmagnstæki sem notuð eru innan sjúkraþjálfunar og öryggisatriði er varða rafmagnsnotkun.

Í hinum hluta námskeiðsins er farið yfir fræðilegan bakgrunn rafmagnstækja sem notuð eru í sjúkraþjálfun og lífeðlisfræðileg áhrif á vefi líkamans.  Einnig verða kennd lífeðlisfræðileg áhrif hita- og kælimeðferða.  Kenndar  verða ábendingar og frábendingar þeirra rafmagns- og hita/kuldameðferða sem notaðar eru í sjúkraþjálfun.  Farið er sérstaklega í jákvæð og neikvæð viðbrögð líkamans við meðferðunum.  Lögð er áhersla á gagnreynda nálgun.  

X

Sjúkdóma- og sjúkraþjálfunarfræði taugakerfis (SJÚ609G)

Farið verður yfir fræðilegan bakgrunn taugasjúkraþjálfunar sem eru nýjustu kenningar um hreyfistjórn, hugmyndafræði  Alþjóðlegs flokkunarkerfis um færni, fötlun og heilsu, sem og skjólstæðingsmiðaða nálgun (client/patient-centered practice).

Fjallað verður um eðli helstu sjúkdóma og áverka í taugakerfi hjá fullorðnum. Farið verður yfir áhrif þeirra á byggingu og starfsemi líkamans, getu til athafna og þátttöku í samfélaginu. Rætt er um möguleika taugakerfis til aðlögunar eftir taugasjúkdóma og hvaða þættir hafa þar áhrif (t.d. þjálfun). Skoðun, mat og  meðferð verður kennd bæði fræðilega og verklega. Ýmsar aðferðir sjúkraþjálfunar verður kenndar og ræddar í samhengi við klínískar rannsóknir. Kynntar verða leiðir til að stuðla að aukinni þátttöku sjúklinga í samfélaginu út frá forsendum hvers og eins í þeim aðstæðum sem hann býr við. Lögð er áhersla á gagnreynda sjúkraþjálfun (evidenced based practice) þ.e. að tengja saman bestu vísindalegur sannanir við klíníska reynslu og val skjólstæðinga.

X

Öldrunarfræði fyrir sjúkraþjálfara (SJÚ611G)

Námskeiðið er það fyrra af tveimur sem fjalla um öldrunarsjúkraþjálfun. Í þessu námskeiði læra nemendur um lykilhugtök og kenningar sem tengjast öldrunarfræðum og mynda grunninn fyrir öldrunarsjúkraþjálfun. Rýnt er í og rætt um tengsl öldrunarsjúkraþjálfunar við lýðfræði öldrunar, líffræðilegar og sálfélagslegar öldrunarkenningar, lífeðlisfræðilegar öldrunarbreytingar og heilsufar (sjúkdóma og raskanir) á efri árum. Fjallað er um faraldfræði færni og fötlunar á efri árum og það hvernig færni/fötlun byggir á samspili á milli heilsufars, umhverfisþátta og einstaklingsbundinna þátta. Kynntur er fjölbreyttur starfsvettvangur sjúkraþjálfara með eldri notendum/sjúklingum, lög, reglugerðir, talsmannahlutverk sjúkraþjálfara og siðfræðileg gildi sem tengjast málefnum aldraðra. Þjálfuð er leikni og hæfni í samskiptum við eldra fólk með skerta heyrn og nemendur læra skima fyrir vitrænni skerðingu og þunglyndi. Þá ígrunda nemendur viðhorf til öldrunar, og þjálfa samskipti og samstarf við eldri einstaklinga, í tengslum við viðtöl við eldri einstaklinga og fræðslu sem nemendur veita á vettvangi þar sem öldrunarþjónusta er veitt.

X

Klínískt nám – hópþjálfun (SJÚ613G)

Í klínísku námi – Hópþjálfun fá nemendur innsýn inn í hlutverk sjúkraþjálfara sem leiðbeinanda/kennara. Grundvallarhugmyndir um kennsluhætti eru kynntar og nemendur skoða leiðir til að ná og halda athygli og hvernig þau „þekkja hópinn sinn“.  Til undirbúnings fyrir verklega hópkennslu á klínískum kennslustöðum, fá nemendur kennslu í skyndihjálp og aðferðum við að bregðast við bráðaástandi. Einnig er kennd björgun úr laug. Nemendur kynnast sýkingavörnum á heilbrigðisstofnunum og þjálfast í framkvæmd þeirra. 

Klíníski hluti námskeiðsins fer fram á heilbrigðisstofnunum, sjúkraþjálfunarstofum og heilsuræktarstöðvum þar sem sjúkraþjálfarar og/eða íþróttakennarar/-fræðingar starfa við hópþjálfun. Klíníski hlutinn er kenndur á þremur vikum í lok annar.  Á tímabilinu er lögð áhersla á eftirfarandi: 

  • Hóptímakennsla: Að nemendur fái innsýn og reynslu í að stýra hópþjálfun og/eða æfingakennslu heilbrigðra jafnt sem valinna sjúklingahópa. Miðað er við að hver nemandi fylgist með fagmanni stjórna hópi og taki síðan við kennslunni.  
  • Áhorf: Að nemandi fylgist með sjúkraþjálfara (fylgiþjálfun / job shadowing) við einstaklingsmeðferð með notendum eða annarri vinnu tengdu starfinu s.s. teymisfundum, fræðslu ofl. 

Gildir fyrir öll klínísk tímabil: Þar sem klínískt nám fer fram á stofnunum og stofum um allt land þurfa nemendur að gera ráð fyrir að hluti námsins fari fram utan höfuðborgarsvæðisins. Höfuðborgarsvæðið er skilgreint sem 60 km radíus frá Stapa, húsi Námsbrautar í sjúkraþjálfun. Hver nemandi má gera ráð fyrir að eitt tímabil, að hópþjálfunarkúrsinum meðtöldum, fari fram utan þess svæðis. Í sumum tilfellum geta nemendur farið í klínískt nám í heimabyggð. Í sumum tilfellum hafa stofnanir á landsbyggðinni getað útvegað nemendum húsnæði endurgjaldslaust. Almenna reglan er að Námsbrautin útvegar nemendum pláss í klínískt nám en nemendur bera kostnað þegar það á við. 

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Þóra Kristín Bergsdóttir
Guðrún Marín Viðarsdóttir
Bjarni Geir Gunnarsson
Sigríður Elma Svanbjargardóttir
Þóra Kristín Bergsdóttir
Sjúkraþjálfunarfræði - BS nám

Ég valdi nám í sjúkraþjálfun vegna þess að nákominn vinur lenti í slysi og þurfti á endurhæfingu á halda. Þegar ég sá hvað sjúkraþjálfararnir gerðu mikil kraftaverk var ég ákveðin að þetta væri eitthvað sem mig langaði að gera. Námið er skemmtilegt, krefjandi og áhersla á gæði er mikil. Mér finnst skemmtilegast í heiminum að læra um líkamann, hvernig hann virkar og hvað við getum gert til láta okkur líða betur. Það kom mér á óvart hvað farið er djúpt í margt efni en á sama tíma er farið í rosalega margt efni, því sjúkraþjálfarar vita svo margt! Það kom mér líka á óvart hvað námið var fjölbreytt og hvað starfsmöguleikar eftir nám eru margbreytilegir og áhugaverðir. Námið er áhugavert, krefjandi, fjölbreytt, besta félagslífið og síðast en ekki síst er svo skemmtilegt að læra allt um líkamann! Sjúkraþjálfarar eru framtíðin!

Guðrún Marín Viðarsdóttir
Sjúkraþjálfunarfræði - BS nám

Ég hef alla tíð verið mikið í íþróttum og mætti segja að áhuginn hafi kviknað þar. Ég hef unnið með mörgum sjúkraþjálfurum í gegnum tíðina, meðal annars á mínum landliðsliðsferli og mér fannst þessi starfsgrein mjög spennandi. Einnig hefur alltaf heillað mig að vinna með fólki og getað hjálpað því að öðlast betri heilsu og lífsgæði. Svo finnst mér líka kostur að þetta starf krefst ekki mikillar kyrrsetu. Námið er mjög skemmtilegt og krefjandi á sama tíma. Kennslan er góð, fjölbreytt og kennararnir eru mjög góðir. Ef þú hefur áhuga á því að vinna náið með fólki í framtíðinni og ef að mannslíkaminn og hreyfing heillar þig þá er þetta nám fyrir þig. Það er frábært hvað er öflugt og gott félagslíf innan deildarinnar. Svo er maður í 35 manna bekk og maður kynnist fólki mjög vel. Ég hef eignast æðislega vini til framtíðar í þessu námi. 

Bjarni Geir Gunnarsson
Sjúkraþjálfunarfræði - BS nám

Ég ákvað þegar ég var 13 ára að ég ætlaði mér að verða sjúkraþjálfari. Hreyfing og heilsusamlegur lífstíll er ástríðan mín og ég vil hjálpa fólki að endurheimta, viðhalda og/eða bæta sína heilsu í gegnum hreyfingu og heilsusamlegt líferni. Mér finnst námið mjög skemmtilegt. Það er áhugavert, krefjandi og líflegt. Það sem kom mér mest á óvart var að átta mig á því hve fjölbreytt námið og fagið er í raun og veru. Sjúkraþjálfunarvísindi eru ört vaxandi grein innan læknisfræðinnar og framtíðin er björt!  Ef þú hefur áhuga á heilsu og hreyfingu, villt kynnast skemmtilegu fólki og læra eitthvað sem getur hjálpað öðru fólki í framtíðinni. Þá er þetta nám fyrir þig.

Sigríður Elma Svanbjargardóttir
Sjúkraþjálfunarfræði - BS nám

Áhuginn kviknaði þegar fór fyrst til sjúkraþjálfara 13 ára gömul. Mér þótti magnað að sjá hversu mikið hún vissi um líkamann og hvernig hún nýtti þá þekkingu til að aðstoða mig við að vinna úr vandamálinu. Um 19 ára aldur lenti ég síðan í alvarlegu bílslysi þar sem sjúkraþjálfarar komu að endurhæfingu minni frá 1. degi eftir aðgerð. Við tók langt og strangt endurhæfingarferli á Grensás og síðan á stofu. Sú reynsla ýtti enn meira undir áhuga minn á faginu og löngun til að hjálpa fólki í svipaðri stöðu við að ná bata. Nám í sjúkraþjálfunarfræði er fjölbreytt, krefjandi og mjög skemmtilegt. Inntökuprófið hræddi mig smá, fyrsta árið var erfitt en allt klárlega þess virði þegar ég horfi til baka. Námið kennir manni ekki bara faglegan grunn og anatomíu heldur svo mikið meira sem þú lærir ekki með því að lesa bækur. Það sem kom mér mest að óvart var hversu fjölbreytt starf sjúkraþjálfara er. Ef áhuginn er til staðar á náminu verður lærdómurinn mun auðveldari.

Hafðu samband

Skrifstofa Námsbrautar í sjúkraþjálfun
Stapa við Hringbraut 31, 101 Reykjavík
Sími 525 4004
Netfang: physiotherapy@hi.is

Opið virka daga kl 10:00-12:00 og 13:00-15:00

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.