
Sálfræði
180 einingar - BS gráða
Er áhugasvið þitt hegðun, samskipti og hugsun fólks? Langar þig að skilja hvernig heilinn starfar? Hefur þú gaman af því að rannsaka, hlusta og fræða? Leitar þú að grunnnámi sem veitir góð atvinnutækifæri eða möguleika á fjölbreyttu framhaldsnámi? Kynntu þér BS-nám í sálfræði.

Um BS-námið
Í BS-námi í sálfræði kynnumst við grunnsviðum fagsins: þroskasálfræði, félagslegri sálfræði, persónuleikasálfræði, skyn- og hugfræði, klínískri sálfræði, atferlisgreiningu og lífeðlislegri sálfræði. Nemendum gefst kostur á að aðstoða við rannsóknir og búa sig undir framtíðarstörf.
BS-nám í sálfræði er 3 ára fræðilegt og verklegt 180e grunnnám.

Spennandi valnámskeið
Umhverfissálfræði, hinseginleikinn í sálfræði, klínísk barnasálfræði og sálfræði öldrunar eru dæmi um valnámskeið.
Einnig er hægt að flétta námskeiðum úr öðrum greinum háskólans inn í BS-gráðuna. Má þar nefna viðskiptafræði, verkfræði, félagsfræði, íþrótta- og tómstundafræði allt eftir því hvar áhuginn liggur.
Inntökuskilyrði í BS-nám í sálfræði við Sálfræðideild er stúdentspróf eða annað sambærilegt próf. Lokapróf frá frumgreinadeild Keilis, Háskólabrú, og frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík, Háskólagrunni, telst sambærilegt stúdentsprófi.