Skip to main content

Ritlist

Ritlist

Hugvísindasvið

Ritlist

Aukagrein – 60 einingar

Í ritlist er lögð áhersla á frjóa hugsun og miðlun hennar í texta af ýmsu tagi. Meðal annars í ljóðum, smásögum, skáldsögum, bókmenntaþýðingum, leiktexta, greinum og öðrum þeim formum sem þátttakendur kalla til eða finna upp. Námið er í senn hagnýtt og listrænt.

Skipulag náms

X

Bókmenntafræði (ÍSL111G)

Vilt þú læra nýjar leiðir til að lesa og skilja bókmenntir, kafa undir yfirborð texta og ræða um skáldverk á faglegan hátt? Í þessu námskeiði kynnast nemendur undirstöðuhugtökum í bókmenntafræði, textagreiningu og ritun bókmenntaritgerða. Nemendur læra um ólíkar nálganir í bókmenntagreiningu og fá þjálfun í að beita hugtökum við greiningu á skáldtextum af ýmsu tagi, bæði munnlega og í rituðu máli. Námskeiðið skiptist í fjóra hluta: Inngang að bókmenntafræði, ljóð, frásagnir (sögur og leikrit) og loks bókmenntaritgerðaskrif. 

X

Þýðingar (ÍSE502G)

Námskeiðið er inngangur að þýðingum, þýðingasögu og þýðingafræði. Nemendur kynnast helstu hugtökum og kenningum á sviði þýðinga, en einnig verður farið yfir grundvallaratriði í túlkafræði. Námskeiðið skiptist í tvo þætti: Hinn fræðilegi og sögulegi þáttur námskeiðsins fer fram í formi fyrirlestra og umræðna. Jafnframt leggur kennari fram lesefni sem nemendur kynna sér. Námsmat felst í prófi/ritgerð þar sem skyldulesefni er undirstaðan. Verklegi þátturinn fer fram í hópvinnustofum þar sem nemendur æfa sig í þýðingarýni og þýðingum (bókmenntaþýðingum eða nytjaþýðingum) undir handleiðslu kennara. Námsmat felst í skriflegu verkefni eða verkefnum. Nemendur í íslensku sem öðru máli þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum á 1. og 2. ári.

X

Ritfærni 1: Fræðileg skrif (ÍSR301G)

Ritfærni 1: Fræðileg skrif er grunnnámskeið í meðferð ritaðs máls. Nemendur hljóta þjálfun í ritun með vikulegum heimaverkefnum, fyrirlestrum, umræðum og smiðjuvinnu. Fjallað verður um vinnulag við ritun fræðilegra texta, svo sem val og afmörkun viðfangsefnis, byggingu, heimildanotkun og frágang. Einnig verður lögð áhersla á að þjálfa nemendur í málnotkun í fræðilegum textum og fjallað meðal annars um málsnið, stíl, stafsetningu, greinarmerkjasetningu og hjálpargögn málnotenda. Nemendur skrifa fræðilega ritgerð í leiðsagnarmati og fá reglulega endurgjöf kennara sem og samnemenda. Námsmat byggist á vikulegum heimaverkefnum, miðmisserisverkefni, lokaverkefni og virkri þátttöku í ritsmiðjum. Vakin er athygli á því að aðeins er hægt að ljúka námskeiðinu sé öllum verkefnum skilað.

X

Smiðja: Sögur til næsta bæjar (RIT203G)

Smiðja um ritun skáldaðra lausamálstexta, einkum örsagna og smásagna. Þátttakendur gera uppkast að sögum sem lagðar verða fram fyrir hópinn og ræddar í þaula með það fyrir augum að bæta þær. Einnig skila þátttakendur stílæfingum reglulega og lesa birtar sögur af ýmsu tagi. Ætlast er til þess að þátttakendur mæti í alla tíma og taki virkan þátt.

Í lok smiðju fá nemendur tækifæri í samráði við kennara að koma einu af verkum námskeiðsins á framfæri á opinberum vettvangi, t.d. á vef- eða prentmiðli. Það er þó ekki hluti af námsmati heldur skemmtilegt og hvetjandi skref í áttina að því að koma skrifunum úr skúffunni.

X

Smiðja: Veröldin er leiksvið (RIT401G)

Fjallað er um leikritun í víðu samhengi og samband leikbókmennta við hefðir og veruleika. Kenningar um byggingu, áferð og fagurfræði kyntar og valdir leiktextar skoðaðir útfrá þeim. Nemendur gera skriflegar æfingar, bæði á eigin spýtur og í hóp. Í lok námskeiðs vinna nemendur að stuttu leikverki sem verður leiklesið í tíma eða tekið til skoðunar með öðrum hætti ef við á. Ætlast er til mætingar og virkrar þátttöku í tímum. Takmarkaður sætafjöldi. 

X

Ritfærni 2: Miðlun fræðanna (ÍSR401G)

Tilgangur þessa námskeiðs er að þjálfa nemendur í ritfærni. Áhersla verður lögð á þjálfun í meðferð texta af ýmsu tagi. Regluleg ritunarverkefni munu þjálfa ólíkar leiðir til að miðla fræðilegum textum á skapandi hátt, t.a.m. í formi pistla og sannsagna (e. creative nonfiction). Nemendum mun gefast tækifæri til að notast við efnivið úr sínum aðalgreinum en þurfa einnig að takast á við nýjar áskoranir. Kennsla byggir á fyrirlestrum, umræðum, verkefnum í tíma og ritsmiðjum. Námsmat byggist á reglulegum heimaverkefnum, miðmisserisverkefni, ferilmöppu, sjálfsmati og mætingu.

Fjarnám:

Námskeiðið er kennt í staðnámi en allir fyrirlestrar kennara verða teknir upp. Þetta er gert til að auka aðgengi að námskeiðinu. Ekki er hægt að tryggja upptökur á umræðum eða framsögum nemenda ef á við. Mæting og þátttaka gildir 15% af einkunn og verður að hluta til skyldumæting. Þeir nemendur sem ekki mæta í tíma skulu hlusta á fyrirlestra og skila skýrslu um efni þeirra með hliðsjón af lesefni. Þá skulu þeir vinna sjálfir að þeim ritsmiðjuverkefnum sem lögð eru fyrir í tíma og skila inn til kennara. Sú vinna er þá jafngildi mætingar.

Athugið:

Námskeiðið er sjálfstætt framhald Ritfærni 1: Fræðileg skrif. Ekki er skylda að hafa lokið Ritfærni 1 til að taka Ritfærni 2 en einhver grunnur, t.d. sambærileg aðferðafræðinámskeið, eru þó mikill kostur. Vel ritfærum nemendum sem ekki hafa lokið sambærilegum námskeiðum er einnig heimilt að taka námskeiði. Vakin er athygli á að aðeins er hægt að ljúka námskeiðinu sé öllum verkefnum skilað.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Ástrós Elísdóttir
Rebekka Sif Stefánsdóttir
Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir
Ástrós Elísdóttir
Ritlistarnemi

Ég held ótrauð áfram í ritlistinni, sem er það langbesta og skemmtilegasta nám sem ég hef nokkurn tímann komist í tæri við. Gæði námsins eru í hæsta flokki og tengslanetið og vináttan sem hefur skapast í kringum námið ómetanleg.

Rebekka Sif Stefánsdóttir
Ritlist

Í ritlistinni fann ég bæði agann, hvatninguna og innblásturinn sem ég þurfti til að fleyta drauminum um að verða rithöfundur áfram. Umgjörðin og aðhaldið hentaði mér mjög vel, sem og félagslífið sem er mjög öflugt vegna Blekfjelagsins. Ég valdi það að fara í meistaranám í ritlist því mig langaði til að þjálfa ritvöðvann og þroskast sem höfundur. Ég hafði fylgst með náminu og rithöfundunum sem höfðu tekið það um árabil og sá að það var að hafa áhrif mjög jákvæð áhrif á íslenskt bókmenntalíf. Ef það blundar rithöfundur í þér hvet ég þig eindregið til þess að sækja um í ritlist, það er magnað hvað ég fékk mikið út úr þessum tveimur árum. 

Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir
fyrrverandi ritlistarnemi

Hvenær rennur umsóknarfrestur út í MA-námið í ritlist? Ég er að spá í að sækja um aftur.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

Háskóli Íslands - aðalbygging

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.