Skip to main content

Næringarfræði

Næringarfræði

Heilbrigðisvísindasvið

Næringarfræði

BS gráða – 180 einingar

Næringarfræði er vísindagrein sem kannar áhrif næringar á líkamlegt og andlegt heilbrigði mannsins á öllum æviskeiðum og við ólíkar aðstæður. Nemendur kynnast hlutverki og hollustu næringarefna og áhrifum þeirra á líkamann.

Skipulag náms

X

Grunnaðferðir og hæfni (MON101G)

Markmið námskeiðsins er að kynna almenn tól í verkfæra-kistu nemenda sem nýtast við nám og störf í matvæla- og næringarfræði. Á námskeiðinu verður nemendum kennt að beita í gegn-um verkefni í matvæla- og næringarfræði: 

 • Office 365 (Word, Excel, PowerPoint, Teams etc.) 
 • Námsumsjónarkerfin Uglu, Canvas og Inspera 
 • Almennrar gagna- og heimildarleit (Landsbókasafn, leitarvélar, gagna-grunnar) 
 • Lestur og mat á fræðigreinum  
 • Nýting heimildarumsjónarforrita s.s. Endnote, Mendeley etc. 
 • Almennu siðferði í námi og starfi, þar á meðal á ritstuldarforritið Turnitin 
 • Grunntökum í vísindamiðlun í ræðu og ritun, mikilvægi orðavals og akademískt tungutak. 
 • Matvæla- og næringarfræðitengdum forritum (næringarefnagagnagrunnar (ÍSGEM, hönnun matseðla,  kannanir á mataræði) 

Einnig verður starfsemi matvælatengdra eftirlitsstofnana s.s. MAST, WHO, FAO, EFSA, Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna kynnt ásamt grunnhæfniþáttum þeirra.   

X

Matur, sjálfbærni og heilsa (MON102G)

Markmið námskeiðsins er að skoða samhengi matvælaframleiðslu og fæðutengdra ráðlegginga Embættis Landlæknis í því augnamiði að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma en um leið minnka umhverfisáhrif matvælaframleiðslu og fæðuvals.  

X

Efnafræði fyrir nemendur í Matvæla- og Næringarfræði (MON103G)

Farið verður í grundvallarhugtök í efnafræði með áherslu á heilbrigðisvísindanálgun. Áhersla verður á þætti efnafræðinnar sem munu gagnast nemendum í matvæla- og næringarfræði (t.d. efnatengi, sameindir, mismunandi tegundir efnahvarfa, hraðafræði efnahvarfa, varmafræði, og leysni). Efni fyrirlestra, verklegra æfinga og dæma mun tengja þessi fræði við matvælafræði, næringarfræði og heilbrigðisvísindin almennt.  

X

Áhrifaþættir fæðuvals - sálfræði og neytendur (MON104G)

Markmið námskeiðsins er að kynna þá fjölmörgu þáttum sem hafa áhrif á fæðuval einstaklinga. Í námskeiðinu er fjallað um líffræðilega hvata fæðuvals og hvernig mataræði mótast og breytist yfir ævina, þætti sem hafa áhrif á neysluhegðun út frá einstaklingnum sjálfum (svo sem viðhorf og gildi, næringarlæsi og færni) og umhverfinu sem hann tilheyrir. Kynnt verða áhrif félagslegs umhverfis, hönnunar umhverfisins (m.a. aðgengi að ólíkum matvælum frá framleiðendum, verslunum, í skólum, á vinnustöðum og heimilum). Þá er í áfanganum fjallað um áhrif stjórnvalda og stefnumótunar, efnahags, auglýsinga, fjölmiðla og samfélagsmiðla. Innsýn er gefin í viðfangsefni sálfræðinnar sem tengjast hegðun og því á hvaða grunni einstaklingar taka ákvarðanir, svo sem minni og nám, skynjun, áhugahvata, drif, markmiðasetningu, tilfinningar og atferli.  

X

Frumulíffræði (MON204G)

Fyrirlestrar (46F): Inngangur; þróun lífsins; frumuhimnan: lífefnafræði og frumulíffræði; kjarninn: gen og genastjórn, litni, bygging kjarnans, kjarnahjúpur; frymisnet og Golgi líffæri; bólur og blöðrur; lýsósóm, peroxisóm og hvatberar; stoðkerfi og hreyfiprótein; boðferlar; frumuskipting; frumutengi og millifrumuefni (frumulíffræði og lífefnafræði); boðskipti (inngangur); þroskun og sérhæfing; upptaka og vinnsla næringarefna í frumur. Verklegar æfingar þar sem kynnt verður einangrun frumna; frumuræktun og smásjárskoðun. Umræðutímar, þar sem nemendur kynna vísindagrein er tengist næringarfræði og skila stuttri ritgerð.

X

Tölfræði og gagnavinnsla (STÆ209G)

Í byrjun námskeiðsins eru grunnhugtök tölfræðinnar kynnt til sögunnar, svo sem þýði, úrtak og breyta. Nemendur kynnast hinum ýmsu lýsistærðum og myndrænni framsetningu gagna. Því næst verður farið í grundvallaratriði líkindafræðinnar og helstu líkindadreifingar kynntar.

Síðasti hluti námskeiðsins snýr að ályktunartölfræði þar sem skoðuð verða tilgátupróf og öryggisbil fyrir meðaltöl, dreifni og hlutföll og farið verður í fervikagreiningu og aðhvarfsgreiningu. Nemendur læra beitingu allra ofangreindra aðferða í tölfræðihugbúnaðinum R.

X

Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn (HVS202G)

Námskeiðið er ætlað nemendum á fyrsta námsári í greinum heilbrigðisvísinda.  Sameiginlegur heilbrigðisvísindadagur nýnema allra deilda á Heilbrigðisvísindasviði í janúar ár hvert. Fjallað er um þverfaglegt samstarf og mikilvægi þess. Farið verður í grundvallarþætti samstarfsins svo sem sameiginlega sýn á réttindi til heilsu, samskipti og siðfræði. Einnig er fjallað um hlutverk og ábyrgð heilbrigðisvísinda.

X

Matvæla- og næringarefnafræði (MON205G)

Fjallað er um byggingu, eiginleika og virkni næringarefna og annarra efna í matvælum. Sjónum er beint að vatni og vatnsvirkni, efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum orkugjafa, þ.e. kolvetna, fitu, og próteina. Ennfremur er farið í brúnun, þránun, hraðafræði ensíma og hvörf þeirra í matvælum, geymsluþol, aukefni, aðskotaefni og eiturefni. Þá er fjallað um áhrif mismunandi byggingar næringarefna á upptöku og aðgengileika (bioavailability) þeirra í líkamanum, víxlvirkni við önnur efni í matvælum, frásog frá meltingarvegi og niðurbrot. Einnig er komið inn á hvernig nýta megi þekkingu í matvæla- og næringarefnafræði við framleiðslu matvæla til að viðhalda gæðum, geymsluþoli og aðgengileika næringarefna. Gerð er grein fyrir helstu aðferðum, sem notaðar eru við rannsóknir á matvælum og lífvirkni næringarefna. Kennarar í matvælaefnafræði og næringarfræði koma að fyrirlestrum til að tryggja að þekking á efnum í matvælum tengist við næringu. Kennslan er á formi fyrirlestra kennara auk umræðna og vinnu með námsefni á netinu með virkri þátttöku nemenda.

Verklegar æfingar og nemendaverkefni: Lestur, samantekt og kynning greina úr erlendum vísindaritum um efni er tengist fyrirlestrum.

X

Sameindalífvísindi B (LÆK408G)

Námskeiðið er fyrir nemendur á 2. ári í lyfjafræði, næringarfræði og tannlæknisfræði. Í námskeiðinu er lögð áhersla á efnaskipti og þá þætti efnaskipta sem hafa sérstaka þýðingu fyrir þessa nemahópa. Fjallað verður um háorkusambönd, efnaskipti kolvetna, fitu og amínósýra. Samhæfing efnaskipta, núkleótíð, járn, hem, lifur, hormón og næringu. Í síðasta hluta námskeiðsins sem er einungis fyrir lyfjafræðinema og tannlæknanema verður fjallað um meltingu, upptöku og virkni næringarefna með áherslu á áhrif þeirra á heilsu.

Umræðutímar: Efnaskipti

Verklegar æfingar: Einangrun próteins á súlu, mæling á próteinstyrk, rafdráttur próteina, ónæmismæling (ELISA).

X

Sameindalífvísindi A (LÆK310G)

Námskeið í sameindalífvísindum fyrir nemendur á 2. ári í lyfjafræði, næringarfræði og tannlæknisfræði. Farið verður yfir hugtök og aðferðir í erfðafræði, lífefnafræði og sameindalíffræði. Í inngangsfyrirlestrum verður gefið yfirlit yfir þessar fræðigreinar og samþættingu þeirra. Fyrirlestrar fjalla um erfðamengi, erfðaefni, litninga, mítósu og meiósu, gen, mendelskar-, mítókondríu- og fjölþátta erfðir, helstu efnaskipti DNA og erfðatækni. RNA sameindir, tjáningu gena og umritun. Amínósýrur, peptíðtengi, nýmyndun og niðurbrot próteina. Myndbygging próteina, próteinlyf, ensím og ensímhvötuð efnahvörf. Einnig verður fjallað um transgenísk tilraunadýr, lífupplýsingafræði, sameindaerfðafræði veira og genalækningar. Lögð verður áhersla á notkun þessara fræðigreina í heilbrigðisþjónustu.

Umræðutímar: Nemendasértækir umræðutímar fyrir hvern nemendahóp.

Verklegar æfingar: Einangrun og greining á DNA úr blóði.

X

Næringarfræði mannsins (NÆR404G)

Þetta námskeið er kennt í síðast sinn óbreytt haustið 2022 fyrir nemendahópinn sem hóf nám haustið 2021.

Kennsluefni

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á

 • hlutverki orkugefandi næringarefna, vítamína, steinefna, snefilefna og aðra lífvirkra efna í líkamanum,
 • lífaðgengi þeirra,
 • áhrifum þeirra á líkamsstarfsemi,
 • samspili við önnur efni í fæðu,
 • tengslum mataræðis, næringarefna og heilsu,
 • vannæringu og ofneyslu,
 • einkennum skorts næringarefna og
 • afleiðingum ofneyslu.

Í námskeiðinu er líka fjallað um notkun fæðubótarefna og áhrif þeirra á heilsu í samanburði við inntöku næringarefna úr fæðu.

Íslenskar rannsóknir sem tengjast kennsluefni eru jafnframt kynntar fyrir nemendum.

Kennsluaðferðir

Námskeiðið er samsett af fyrirlestrum, verklegum æfingum, nemendakynningum og umræðutímum. 

Það eru skipulagðar fimm vinnustofur um vítamín og streinefni þar sem nemendur afla sér ítarlegrar þekkingar um tvö næringarefni, skila skýrslu til kennara og kynna fyrir nemendum og kennara í lok námskeiðs. Áhersla er lögð á að auka skilning nemenda á aðferðum til að kanna neyslu vítamína og steinefna.

Í kennslutímum verður reglulega notuð PubMed (eða svipaðar vefsíður) til að fá nýjustu þekkingu um næringarefni og tengsl þeirra við heilsu og til að auka skilning nemenda á vísindagreinum, aðferðarfræði og tölfræði. Einnig er lögð áhersla á að kenna nemendum að nota vísindalega aðferð til að svara næringarfræðilegum spurningum.

X

Matvælaörverufræði (MAT304G)

Þetta námskeið er kennt í síðast sinn óbreytt haustið 2022 fyrir nemendahópinn sem hóf nám haustið 2021.

Efni fyrirlestra er skipt í fjóra hluta:
(1) Inngangur. Þróun örverufræðinnar. Heilkjörnungar og samkjörnungar. Bygging og einkenni örvera - bakteríur, sveppir, veirur, sníkjudýr. Flokkun mikilvægra örvera í matvælum. Fjölgun og efnaskipti örvera. Bendiörverur í matvælum. Hefðbundnar og nýjar aðferðir við ræktun, einangrun og talningu örvera í matvælum. Helsti uppruni örvera í matvælum.
(2) Áhrif ytri og innri umhverfisþátta á örverur í matvælum - hitastig, vatnsvirkni, pH, loftsamsetning, geislun og aðrir þættir. Notkun rotvarnarefna og aðferða til að bæta geymsluþol matvæla. Gerjanir og önnur hagkvæm not örvera við matvælaframleiðslu.
(3) Matarsjúkdómar af völdum örvera. Helstu orsakir matarsjúkdóma. Matareitranir og matarsýkingar. Salmonella, Campylobacter, Listeria, Clostridium, Bacillus, Staphylokokkar og fleiri sýklar í matvælum.
(4) Örverufræði helstu matvælaflokka. Örverufræði sjávarafurða, kjötafurða, mjólkurafurða, neysluvatns, grænmetis og ávaxta. Mengun örvera í helstu matvælategundum, helstu tegundir örvera í mismunandi matvælum, áhrif vinnslu og meðhöndlunar á afkomu örvera og algengustu skemmdir af völdum örvera í matvælum.

Verklegar æfingar verða alls 8.  Æfingarnar  munu taka til grundvallaratriða við meðhöndlun, ræktun og greiningu örvera og helstu ræktunaraðferða við ræktun, talningu og greiningu örvera í matvælum.

Verklegar æfingar munu fara fram á mánudögum og þriðjudögum  frá kl. 16 til 19 á rannsóknarstofu í matvælaörverufræði hjá Maís (Vinlandsleið 12, 113 Reykjavík). Skipt verður í tvo hópa sem mæta sitthvorn daginn.

Ritgerð:

Hver nemandi fær úthlutað efni tengdu matvælaörverufræði frá kennara og flytur um það fyrirlestur.

X

Lífeðlisfræði I TN (LÆK212G)

LÆK212G er fyrri hluti námskeiðs um lífeðlisfræði mannslíkamans, seinni hlutinn er tekinn fyrir í LÆK213G.  Tannlæknanemum og næringarfræðinemum er kennt saman.  Forkrafa fyrir LÆK212G er námskeið í frumulíffræði, samanber LÆK112G Almenn líffræði A eða NÆR203G Frumulíffræði. 

Námskeiðið byggist upp af fyrirlestrum, verklegum æfingum, umræðufundum, málstofum, spurningarverkefnum, áfangaprófum og lokaprófi.  Eftirfarandi efni er tekið fyrir í LÆK212G:  Samvægisstýrikerfi, frumuhimnur, himnuspennur, taugalífeðlisfræði, frálægar taugar, beinagrindarvöðvar og sléttir vöðvar, miðtaugakerfið, stjórn hreyfinga, skynjun (húðskyn, bragð, lykt, sársauki, sjón, heyrn, jafnvægi), hjarta, blóðrás og blóðið. Framkvæmdar eru þrjár verklegar æfingar: Skynjun, Vöðvar og Blóðrás. Skyldumæting er í allar verklegu æfingarnar sem og tilheyrandi umræðufundi, og einnig er skilaskylda á verklegum skýrslum, og fellur próftökuréttur niður ef ekki er mætt eða skilað.  Hver nemendi tekur þátt í einu spurningaverkefni og flytur eitt málstofuerindi að eigin vali á misserinu og er skilaskylda á glærunum.  Það eru fjögur stutt áfangapróf á misserinu.  Skyldumæting er í 75% af málstofuerindum og spurningaverkefnum, og í öll áfangapróf.

X

Vísindamiðlun (MON305G)

Í námskeiðinu munu nemendur læra að koma vísindalegum upplýsingum á framfæri til almennings á mannamáli með því að búa til og halda úti hlaðvarpsþætti MoN.  

Nemendur munu taka viðtöl við sérfræðinga innan matvæla- og næringarfræði (vísindamenn, kennarar, doktorsnemendur, sérfræðinga í bransanum, nýsköpunaraðilar o.fl.) og kynnast þannig fjöbreyttum störfum og rannsóknarefnum matvæla- og næringar. Nemendur munu þá læra að koma vísindalegum upplýsingum á framfæri við breiðan áheyrendahóp á skýran hátt.  

Nemendur munu læra hvernig undirbúa skuli viðtal, búa til handrit, hvernig koma skuli fram, kynnast þvíað beita grunntækni á notkun upptökubúnaðar, og hvernig spyrja megi opinna spurninga sem leiða til líflegra umræða.

X

Sjálfbærni manns og jarðar (MON304G)

 • Inntak námskeiðs er mataræði, fæðukerfi og tengd umhverfisáhrif 
 • Dæmi um mataræði sem fjallað verður um er vegan / ketó / sérfæði /ofurfæði 
 • Kynntar verða tengingar Landskönnunar og næringargagnabanka og hvernig þeir nýtast til að reikna út umhverfisáhrif  
 • Mismunandi fæðukerfi, þau greind og farið verður í flækjustig þeirra. Fjallað verður um lífsferil matvæla allt frá öflun hráefna, framleiðslu, neyslu og förgun. Hluti fæðukerfa eru umbúðir, geymsluþol 
 • Útreikningar á umhverfisáhrifum. Farið verður í útreikninga byggða á massa og orkubókhaldi fæðukerfa.   
 • Mismunur á milli útreiknisíða / gagnagrunna 
X

Næringarfræði mannsins (MON302G)

Kennsluefni

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á

 • hlutverki orkugefandi næringarefna, vítamína, steinefna, snefilefna og aðra lífvirkra efna í líkamanum,
 • lífaðgengi þeirra,
 • áhrifum þeirra á líkamsstarfsemi,
 • samspili við önnur efni í fæðu,
 • tengslum mataræðis, næringarefna og heilsu,
 • vannæringu og ofneyslu,
 • einkennum skorts næringarefna og
 • afleiðingum ofneyslu.

Í námskeiðinu er líka fjallað um notkun fæðubótarefna og áhrif þeirra á heilsu í samanburði við inntöku næringarefna úr fæðu.

Einnig eru kynntar aðferðir til að meta líkamssamsetningu, næringarástand, þ.e. líkamsforða eða aðrar breytur sem tengjast hlutverki næringarefnanna í líkamanum með mælingum á lífsýnum (t.d. í blóði, þvagi, fituvef, hári eða öðrum lífsýnum).

Íslenskar rannsóknir sem tengjast kennsluefni eru jafnframt kynntar fyrir nemendum.

Kennsluaðferðir

Námskeiðið er samsett af fyrirlestrum, verklegum æfingum, nemendakynningum og umræðutímum. 

Það eru skipulagðar fimm vinnustofur um vítamín og streinefni þar sem nemendur afla sér ítarlegrar þekkingar um tvö næringarefni, skila skýrslu til kennara og kynna fyrir nemendum og kennara í lok námskeiðs. Áhersla er lögð á að auka skilning nemenda á aðferðum til að kanna neyslu vítamína og steinefna.

Í kennslutímum verður reglulega notuð PubMed (eða svipaðar vefsíður) til að fá nýjustu þekkingu um næringarefni og tengsl þeirra við heilsu og til að auka skilning nemenda á vísindagreinum, aðferðarfræði og tölfræði. Einnig er lögð áhersla á að kenna nemendum að nota vísindalega aðferð til að svara næringarfræðilegum spurningum.

X

Næringarlífeðlisfræði (NÆR502G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur dýpki skilning sinn á margþættum hlutverkum næringarefna í líkamanum og ytri aðstæðum sem geta haft áhrif á efnaskipti. Sérstök áhersla verður lögð á efnaskipti fitusýra, sykra og amínósýra. Fjallað verður sérstaklega um hormón sem stýra matarlyst, sem tengjast öðru viðfangsefni námskeiðisin sem er svefn og svefnvandamál. Nemendur kynnast aðferðafræði tilraunavísinda sem tengjast næringarfræði og fá innsýn inn í ný rannsóknasvið á sviði næringarfræði.

X

Sameindalífvísindi B (LÆK408G)

Námskeiðið er fyrir nemendur á 2. ári í lyfjafræði, næringarfræði og tannlæknisfræði. Í námskeiðinu er lögð áhersla á efnaskipti og þá þætti efnaskipta sem hafa sérstaka þýðingu fyrir þessa nemahópa. Fjallað verður um háorkusambönd, efnaskipti kolvetna, fitu og amínósýra. Samhæfing efnaskipta, núkleótíð, járn, hem, lifur, hormón og næringu. Í síðasta hluta námskeiðsins sem er einungis fyrir lyfjafræðinema og tannlæknanema verður fjallað um meltingu, upptöku og virkni næringarefna með áherslu á áhrif þeirra á heilsu.

Umræðutímar: Efnaskipti

Verklegar æfingar: Einangrun próteins á súlu, mæling á próteinstyrk, rafdráttur próteina, ónæmismæling (ELISA).

X

Lífeðlisfræði II TN (LÆK213G)

LÆK213G er seinni hluti námskeiðs um lífeðlisfræði mannslíkamans. Forkrafa er LÆK212G, sem inniheldur fyrri hlutann. Tannlæknanemum og næringarfræðinemum er kennt saman. 

Námskeiðið byggist upp af fyrirlestrum, verklegum æfingum, umræðufundum, málstofum, spurningaverkefnum og áfangaprófum.  Eftirfarandi efni er tekið fyrir í LÆK213G: Öndun, nýrnastarfsemi, vökva- og sýrubasavægi, stjórn fæðuinntöku, meltingarkerfið, undirstúka og heiladingull, dægursveiflur, orkuvægi og hitastjórnun, stjórn efnaskipta og vaxtar (starfsemi bris, skjaldkirtils og nýrnahetta), æxlunarlífeðlisfræði. Framkvæmdar eru tvær verklegar æfingar: Nýrnastarfsemi og Áreynslulífeðlisfræði. Ein skrifleg skýrsla, umræðufundur og verkpróf er úr hvorri æfingu fyrir sig. Skyldumæting er í allar verklegu æfingarnar sem og tilheyrandi umræðufundi og verkpróf, og einnig er skilaskylda á verklegum skýrslum, og fellur próftökuréttur niður ef ekki er mætt eða skilað. Hver nemendi ekur þátt í einu spurningaverkefni og flytur eitt málstofuerindi að eigin vali á misserinu og er skilaskylda á glærunum (powerpoint glærum). Það eru fjögur stutt áfangapróf og gilda 3 þeirra betri inn í misserismatið.  Skyldumæting er í 75% af málstofuerindum og spurningaverkefnum, og í öll áfangapróf.

X

Matvæla- og næringarefnafræði (MAT401G)

Þetta námskeið er kennt í síðast sinn óbreytt vorið 2023 fyrir nemendahópinn sem hóf nám haustið 2021.

Fjallað er um byggingu, eiginleika og virkni næringarefna og annarra efna í matvælum. Sjónum er beint að vatni og vatnsvirkni, efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum orkugjafa, þ.e. kolvetna, fitu, og próteina. Ennfremur er farið í brúnun, þránun, hraðafræði ensíma og hvörf þeirra í matvælum, geymsluþol, aukefni, aðskotaefni og eiturefni. Þá er fjallað um áhrif mismunandi byggingar næringarefna á upptöku og aðgengileika (bioavailability) þeirra í líkamanum, víxlvirkni við önnur efni í matvælum, frásog frá meltingarvegi og niðurbrot. Einnig er komið inn á hvernig nýta megi þekkingu í matvæla- og næringarefnafræði við framleiðslu matvæla til að viðhalda gæðum, geymsluþoli og aðgengileika næringarefna. Gerð er grein fyrir helstu aðferðum, sem notaðar eru við rannsóknir á matvælum og lífvirkni næringarefna. Kennarar í matvælaefnafræði og næringarfræði koma að fyrirlestrum til að tryggja að þekking á efnum í matvælum tengist við næringu. Kennslan er á formi fyrirlestra kennara auk umræðna og vinnu með námsefni á netinu með virkri þátttöku nemenda.

Verklegar æfingar og nemendaverkefni: Lestur, samantekt og kynning greina úr erlendum vísindaritum um efni er tengist fyrirlestrum.

X

Skynmat (MAT404G)

Í námskeiðinu kynnast nemendur skynmatsfræðum og hvernig skynmati er beitt til að meta eiginleika matvæla. Fjallað verður um hvernig á að kalla fram, mæla og meta skynræna eiginleika matvæla og mismunandi aðferðir sem notaðar eru í skynmati. Áhersla verður lögð á hefðbundnar skynmatsaðferðir (mismunapróf, myndræn próf, geðjunarpróf ofl), og hvernig þessar aðferðir eru notaðar í mismunandi aðstæðum eins og í gæðaeftirliti og vöruþróun. Aðferðum í neytendarannsóknum verða gerð skil. Jafnframt verður fjallað um þætti sem hafa áhrif á skynmat, skipulag skynmatsrannsókna (undirbúningur, framsetning sýna, val aðferða ofl), og skynmatshópa (val og þjálfun) sem og tölfræðigreining og túlkun skynmatsniðurstaðna.

Kennslan er á formi fyrirlestra, sem og verklegra æfinga undir leiðsögn kennara.

X

Tengsl við atvinnulífið (MON401G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist störfum á ýmsum sviðum matvæla- og næringarfræðinnar, átti sig á starfsaðstæðum, kynnist verklagi og læri fagleg vinnubrögð í samskiptum við starfsfólk, skjólstæðinga og leiðbeinanda á starfstöð.  

Námskeiðið felst í starfsnámi á vinnustað á sviði matvæla og næringarfræðinnar. Starfsnámið stendur yfir í eina viku. Vinnustaður og verkefni eru úthlutuð af umsjónarkennurum námskeiðs og leiðbeinanda á vinnustað.  

Nemendur leysa þau verkefni sem eru sett fyrir á starfstöð, skilar skýrslu um starfsnámið og heldur kynningu fyrir samnemendur og umjónarkennara námskeiðs. 

X

Matvælaörverufræði (MON203G)

Efni fyrirlestra er skipt í fjóra hluta:
(1) Inngangur. Þróun örverufræðinnar. Heilkjörnungar og samkjörnungar. Bygging og einkenni örvera - bakteríur, sveppir, veirur, sníkjudýr. Flokkun mikilvægra örvera í matvælum. Fjölgun og efnaskipti örvera. Bendiörverur í matvælum. Hefðbundnar og nýjar aðferðir við ræktun, einangrun og talningu örvera í matvælum. Helsti uppruni örvera í matvælum.
(2) Áhrif ytri og innri umhverfisþátta á örverur í matvælum - hitastig, vatnsvirkni, pH, loftsamsetning, geislun og aðrir þættir. Notkun rotvarnarefna og aðferða til að bæta geymsluþol matvæla. Gerjanir og önnur hagkvæm not örvera við matvælaframleiðslu.
(3) Matarsjúkdómar af völdum örvera. Helstu orsakir matarsjúkdóma. Matareitranir og matarsýkingar. Salmonella, Campylobacter, Listeria, Clostridium, Bacillus, Staphylokokkar og fleiri sýklar í matvælum.
(4) Örverufræði helstu matvælaflokka. Örverufræði sjávarafurða, kjötafurða, mjólkurafurða, neysluvatns, grænmetis og ávaxta. Mengun örvera í helstu matvælategundum, helstu tegundir örvera í mismunandi matvælum, áhrif vinnslu og meðhöndlunar á afkomu örvera og algengustu skemmdir af völdum örvera í matvælum. Verklegar æfingar taka til grundvallaratriða við meðhöndlun, ræktun og greiningu örvera og helstu ræktunaraðferða við ræktun, talningu og greiningu örvera í matvælum. Hver nemandi aflar efnis og skrifar ritgerð um nýlegt efni tengt matvælaörverufræði og flytur um það fyrirlestur.

X

Matvæla- og fæðuöryggi (MON401M)

Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum yfirlit yfir helstu líf-, efna- og eðlisfræðilegu hættur sem tengist hráefnum og matvælaframleiðslu og geta valdið heilsutjóni. Farið verður yfir helstu hættur s.s. óæskileg efni og örverur sem tengjast matvælaöryggi og kynntar leiðir til að lámarka þær í matvælavinnslu, ítarlega verður fjallað um helstu þætti áhættugreiningar og hvernig þær aðferðir nýtast stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum til að skilja og meta áhættu vegna neyslu matvæla og hvernig hægt er að minnka hana til að auka öryggi neytenda. Farið verður yfir helstu áhættuþætti sem tengjast matvælaframleiðslu frá haga/miðum í maga þ.e.a.s  í gegnum alla virðiskeðjuna frá upphafi til enda. Kynntar verða nýjar hættur og þróun í þeim efnum t.d. í tengslum við loftslagsbreytingar. Sömuleiðis verður farið yfir mikilvægi þess að tryggja hollustuhætti og gæði vatns í framleiðslu matvæla. 

Einnig verður fjallað um erfðabreyttra lífverur í tengslum við öryggi matvæla. Helstu greiningaaðferðir sem notaðar eru til að magngreina óæskileg efni og örverur í matvælum og takmarkanir þeirra verða kynntar. Ítarlega verður farið yfir þrjár meginstoðir áhættugreiningar á sviði matvæla- og næringarfræði þ.e.a.s. áhættumat, áhættustjórnun og áhættukynningu, til þess að nemendur öðlist betri skilning á því hvernig þessi aðferðafræði nýtist á þessu sviði verður einnig fjallað um nýleg hagnýt dæmi um matvælavá.

Verklegar æfingar: 1) Hagnýt dæmi um áhættugreiningu á sviði matvæla- og næringarfræði sem byggja á raunverulegum tilfellum  2)  Nemendaverkefni um rannsóknir og þróun á sviði matvælaöryggis annars vegar í formi fyrirlesturs og hins vegar ritgerðar

Tilhögun námskeiðs:  Námið er í formi fyrirlestra, umræðu og verklegrar þjálfunar er tengist námsefninu.  Gert er ráð fyrir virkri þátttöku nemenda og að þeir kynni sér alþjóðlegar vísindagreinar er tengjast efni fyrirlestra.

X

Skynmat (MON402G)

Í námskeiðinu kynnast nemendur skynmatsfræðum og hvernig skynmati er beitt til að meta eiginleika matvæla. Fjallað verður um hvernig á að kalla fram, mæla og meta skynræna eiginleika matvæla og mismunandi aðferðir sem notaðar eru í skynmati. Áhersla verður lögð á hefðbundnar skynmatsaðferðir (mismunapróf, myndræn próf, geðjunarpróf ofl), og hvernig þessar aðferðir eru notaðar í mismunandi aðstæðum eins og í gæðaeftirliti og vöruþróun. Aðferðum í neytendarannsóknum verða gerð skil. Jafnframt verður fjallað um þætti sem hafa áhrif á skynmat, skipulag skynmatsrannsókna (undirbúningur, framsetning sýna, val aðferða ofl), og skynmatshópa (val og þjálfun) sem og tölfræðigreining og túlkun skynmatsniðurstaðna.

Kennslan er á formi fyrirlestra, sem og verklegra æfinga undir leiðsögn kennara.

X

Næring eldri hópa (NÆR507M)

Þetta námskeið er kennt í síðast sinn óbreytt haustið 2022 fyrir nemendahópinn sem hóf nám haustið 2020.

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist djúpan skilning á áherslum hvað varðar farsæla öldrun. Eins er fjallað um grundvöll ráðlegginga og fyrirliggjandi rannsóknir á sviði öldrunar með áherslu á íslenskar rannsóknir.

X

Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum - heilbrigðisvísindadagur 2 (HVS501M)

Námskeiðið er ætlað nemendum á þriðja námsári eða síðar sem lokið hafa a.m.k. tveimur árum grunnnáms í greinum heilbrigðisvísinda.  Hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu verður lögð til grundvallar í námskeiðinu þar sem nemendur vinna saman að sameiginlegum markmiðum.  Nemendur munu vinna saman í þverfræðilegum teymum og fá tækifæri til að æfa fagmennsku, teymisvinnu, og efla samskipti. Nemendur í hverjum hóp eru úr nokkrum heilbrigðisvísindagreinum.

Námsmat (staðið/fallið) byggist á mætingarskyldu í fyrirlestra og verkefnavinnu, virkni í verkefnavinnu og prófum sem verða á rafrænu formi í kennslulotunni.
 
Kennslutilhögun:
Námskeiðið verður kennt föstudagana,10. og 24. september.

X

Næring yngri hópa (NÆR505M)

Þetta námskeið er kennt í síðast sinn óbreytt haustið 2022 fyrir nemendahópinn sem hóf nám haustið 2020.

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist djúpan skilning á áherslum um fæðuval og næringu á meðgöngu, næringu ungbarna, barna og unglinga.

Eins er fjallað um grundvöll ráðlegginganna og fyrirliggjandi rannsóknir á sviðinu. Fjallað verður sérstaklega um íslenskar rannsóknir á mataræði barnshafandi kvenna, ungbarna, barna og unglinga.

Helstu næringartengdu heilsufarskvillar verða ræddir, orsakir þeirra og hvernig unnt sé að draga úr líkum á þeim meðal hópsins. Farið verður yfir orku- og næringarefnaþörf hvers aldurshóps og mælingar á næringarefnabúskap líkamans.

Nemendur vinna tvö verkefni yfir misserið auk minni verkefna sem unnin eru í kennslustundum:

 • Fræðsla/fræðsluefni fyrir almenning (verkefni I).
 • Leitað svara við einni rannsóknarspurningu er varðar námsefnið með gagnreyndum hætti (verkefni II).
X

Ónæmisfræði (LÆK025M)

Ónæmiskerfið, líffæri og frumur. Ósérhæfðar varnir, átfrumur, kompliment, bólgusvör. Sérhæfðar varnir, þroskun og sérhæfing eitilfruma. Sértækni og greining eitilfrumna, starfsemi B- og T-frumna. Ónæmissvör, ónæmisminni, slímhúðarónæmi. Sjálfsþol og stjórnun ónæmissvara. Ónæmisbilanir, ofnæmi, sjálfsofnæmi og líffæraflutningar. Meðferð sjálfsofnæmis- og ofnæmissjúkdóma. Bólusetningar og varnir gegn smitsjúkdómum. Ónæmisfræðilegar greiningaraðferðir. Nemendafyrirlestrar um valdar vísindagreinar og umræður undir leiðsögn kennara.

Skyldunámskeið fyrir næringarfræðinema.

X

Næring og þjálfun ungmenna (HÍT501M)

Hlutverk næringar í þjálfun og áhrif á árangur í íþróttum eru viðfangsefni þessa námskeiðs. Áhersla er lögð á að skoða þá þætti sem helst eru til umfjöllunar í samfélaginu hverju sinni og sá sérstaklega þætti sem viðkoma þjálfun og viðhorfum ungmenna til næringartengdra þátta.

Megináhersla er lögð á orkuefnin, hlutverk þeirra og þarfir við mismunandi þjálfun. Jafnframt er horft til ólíkra þarfa eftir aldri, kyni, líkamsímynd og líkamsbyggingu. Einnig verður fjallað um vökvaþörf, vítamín, stein- og snefilefni, andoxunarefni og fæðubótarefni í tengslum við þjálfun.

Farið verður yfir nýjustu rannsóknir um efnið og takmarkanir og framfarir á stöðu þekkingar á sviðinu skoðaðar. Áhersla er lögð á að geta greint sundur raunverulega stöðu þekkingar samanborið við markaðssetningu og tískustrauma sem oft hafa áhrif á neysluvenjur og viðhorf ungmenna.

Ennfremur er lögð áhersla á þverfræðilega teymisvinnu milli fagaðila og fjallað er um hvernig má hámarka árangur og stuðla að heilsueflingu með samvinnu fagstétta.

Vinnulag:
Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og einni málstofu. Ætlast er til virkar þátttöku nemenda í umræðum og verkefnavinnu. Gerð er krafa um grunnþekkingu í næringarfræði til að hægt sé að velja námskeiðið. Námsmat er byggt á málstofu og heimaprófi. Mætingaskylda í málstofu.

ATH: Var áður kennt sem hluti af námskeiðinu Íþróttir og næring.

X

Næring í afreksþjálfun (HÍT503M)

Hlutverk næringar í afreksþjálfun með áherslu á árangur í íþróttum er viðfangsefni þessa námskeiðs sem er framhald af námskeiðinu Næring og þjálfun ungmenna. Áhersla er lögð á að dýpka þá þekkingu sem komin er og vinna hagnýt verkefni. Þau byggja á matseðlagerð og rýni í sérþarfir í afreksþjálfun t.d. á keppnistímabili og hvíldartímabilum, við undirbúning, í keppni og í endurheimt. Einnig er skoðuð þyngdarstjórnun í greinum þar sem þyngdarflokkar skipta máli.

Farið verður yfir nýjustu rannsóknir um efnið og takmarkanir og framfarir á stöðu þekkingar á sviðinu skoðaðar. Áhersla er lögð á að geta greint sundur raunverulega stöðu þekkingar samanborið við leiðir sem markaðssettar eru til árangurs eða fá hljómgrunn í ýmsum keppnisgreinum.

Ennfremur er lögð áhersla á þverfræðilega teymisvinnu milli fagaðila og fjallað er um hvernig má hámarka árangur og stuðla að heilsueflingu með samvinnu fagstétta.

Vinnulag
Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og verkefnavinnu í smærri hópum. Ætlast er til virkar þátttöku nemenda í umræðum og verkefnavinnu. Gerð er krafa um að einnig sé tekið námskeiðið Næring og þjálfun ungmenna, auk þess sem grunnþekking í næringarfræði er nauðsynleg. Námsmat er byggt á verkefnavinnu.

ATH: Var áður kennt sem hluti af námskeiðinu Íþróttir og næring.

X

Lýðheilsunæringarfræði (NÆR611M)

Námskeiðslýsing:

Í námskeiðinu eru kynnt helstu viðfangsefni og áskoranir lýðheilsunæringarfræðinnar en einnig aðferðir og nálganir á sviði heilsueflingar. Áhersla verður lögð á heilsueflingarverkefni á sviði næringar á vesturlöndum en einnig í þróunarlöndum. Næring er sett í samhengi við aðra heilsutengda hegðun, aðstæður fólks og lífshætti. Kynntar verða helstu kenningar um heilsutengt atferli hvaða þættir stýra neysluhegðun og hvað getur skipt máli ef unnið er að breytingum á heilsutengdri hegðun. Kynnt verða helstu næringartengdu forvarna- og heilsueflingarverkefni á Íslandi auk erlendra verkefna. Nemendur öðlast færni í að skipuleggja lýðheilsuverkefni á sviði næringar og hvernig má nota rannsóknaniðurstöður til forvarna og aðgerða sem miða að bættri heilsu. Fjallað verður um öll helstu skref í mótun og undibúningi verkefnis, framkvæmd þess og mati á árangri.

Meðal spurninga sem leitað er svara við á námskeiðinu má nefna:

Ráðum við því raunverulega hvað við leggum okkur til munns – eða höfum við takmarkað val?

Ákvarðast lýðheilsa einungis af pólitík?

Er næringarlæsi mikilvægt hugtak?

Er mataræði þitt að eyðileggja heilsu móður jarðar?

Færð þú eitthvað að borða ef það er stríð í útlöndum?

Hver er ábyrgð þín á börnum sem svelta í heiminum?

Hvað stjórnar heiminum í raun og veru?

Viltu eiga þátt í að breyta heiminum?

Skapaðu heilsueflingarverkefni að eigin vali.

X

Áhrifavaldar næringar (NÆR612M)

Þetta námskeið er kennt í síðast sinn óbreytt vorið 2023 fyrir nemendahópinn sem hóf nám haustið 2020.

Í námskeiðinu er fjallað um á hvaða grunni einstaklingar taka ákvarðanir um mataræði sitt og helstu áhrifavaldar næringar í samfélaginu kynntir. Næring er sett í samhengi við aðra heilsutengda hegðun, aðstæður fólks og lífshætti. Kynntar verða helstu kenningar um heilsutengt atferli, hvaða þættir stýra neysluhegðun út frá einstaklingnum sjálfum og næringarlæsi hans á mismunandi æviskeiðum, áhrif af félagslegu umhverfi, áhrif auglýsinga og hönnun umhverfisins auk áhrifa sveitastjórna og ríkis í krafti laga, reglna og stefnumótunar þegar kemur að næringartengdum málefnum. Samstarf er við starfsfólk Embættis Landlæknis og Krabbameinsfélagsins.

X

Hagnýt fjölvíð aðhvarfsgreining og gagnavinnsla (NÆR506M)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning og færni nemenda í að greina og vinna úr rannsóknargögnum svo þeir séu betur undir það búnir að leysa slík verkefni í framhaldsnámi og vinnu. Farið verður ítarlega yfir þær aðferðir sem mest eru notaðar við greiningar á faraldsfræðigögnum með það að markmiði að nemendur geti sjálfir beitt þeim og geti gengið úr skugga um að allar forsendur haldi.

Í  hverjum tíma leggur kennari fyrir verkefni sem byggja á gögnum úr fyrri rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið á rannsóknarstofu í næringarfræði. Farið verður sameiginlega yfir helstu atriði og forsendur hvers verkefnis. Nemendur eiga að greina gögnin m.v. fyrirfram gefnar spurningar. Við tölfræðigreiningar verður mest notast við SPSS en einnig verður SAS kynnt til sögunnar.

X

Næringarefnainnihald matvæla og matvælaefnagreining (NÆR503M)

Þetta námskeið er kennt í síðast sinn óbreytt haustið 2022 fyrir nemendahópinn sem hóf nám haustið 2020.

Áhersla er lögð á að nemendur dýpki þekkingu sína í notkun á íslenska gagnagrunninum um næringarefnasamsetningu matvæla (ÍSGEM) og sambærilegum erlendum gagnagrunnum. Nemendur kynnast gögnum um efnainnihald matvæla, tilurð þeirra og hvernig þeim er komið fyrir í gagnagrunnum. Fjallað er um þætti sem hafa áhrif á efnainnihald matvæla og sérkenni íslenskra matvæla.  Alþjóðlegir staðlar um matvælagögn verða kynntir. Farið verður yfir LanguaL aðferðina við skilgreiningu á fæðutegundum. Gæði gagna verða tekin til skoðunar og aðferðir við gæðamat kynntar. Aðferðir við útreikninga á efnainnihaldi matvæla og máltíða eru skýrðar. Farið verður yfir notkun gagnanna í rannsóknum og ráðgjöf og hugað að áreiðanleika og skekkjum. Fjallað verður um helstu aðferðir til efnagreininga á matvælum, kosti þeirra og takmarkanir. Lýst verður aðferðum til að mæla einstök efni og efnaflokka. Kennsla er í formi fyrirlestra, verkefna, umræðutíma og verklegrar þjálfunar og er í höndum sérfræðinga á Matís.

Verkleg þjálfun: Verkleg kennsla fer fram hjá Matís ehf Vínlandsleið 12. Einkum verða mæld orkuefni í matvælum úr völdum fæðuflokkum. Nemendur leysa verkefni um efnainnihald matvæla. Í verkefnunum er fjallað um gagnagrunna, reikniforrit, útreikninga á næringarefnum, gagnavinnslu, kóðun gagna og gæðamat á gögnum.

X

Næringarmeðferð og sjúkdómafræði I (NÆR606G)

Þetta námskeið er kennt í síðast sinn óbreytt vorið 2023 fyrir nemendahópinn sem hóf nám haustið 2020.

Markmið: Nemendur kynnast helstu áherslum í næringarráðgjöf sjúkdóma ásamt því að læra að þekkja áhættuþætti og meingerðir eftirfarandi sjúkdóma: Hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki (að gerð I og II), beinþynningu, krabbameins, offitu og átröskunar. Einnig verður fjallað um náttúrulyf og náttúruvörur og samspil lyfja og næringarefna og tannheilsu. Siðfræði heilbrigðisstétta og samskipti við sjúklinga verða rædd og siðareglur næringarfræðinga og næringarráðgjafa verða kynntar. Námskeiðið er kennt í nánu samstarfi við næringarstofu LSH.

Verklegar æfingar: Klínískar æfingar með mismunandi næringarfræðilega samsettu fæði í samstarfi við næringarráðgjafa LSH.  Mælingar á blóðsykri eftir máltíðir. Túlkun á niðurstöðum blóðmælinga. Samskipti við sjúklinga. Nemendafyrirlestrar.

X

Matur og menning: (NÆR613M)

Matur er mannsins megin, uppspretta orkunnar og forsenda lífsins. En matur er líka sneisafullur af merkingu. Matarhættir veita innsýn í heimsmynd okkar, lífssýn og listfengi og matur mótar tilveru okkar, líkama, samfélag, hagkerfi, hugarfar og siðferði. Sjálfsmynd okkar og minningar eru nátengdar mat og matur er einhver mikilvægasti miðillinn fyrir samskipti okkar við annað fólk.

Í námskeiðinu skoðum við hvað fólk borðar, hvernig, hvenær, með hverjum og hvers vegna. Með þeim hætti fáum við dýrmæta innsýn í kyngervi og kynslóðir, fæðuöryggi og rétt til matar, stéttaskiptingu og menningarlegan margbreytileika, skynheim og fegurðarskyn, tækni og matvælaframleiðslu, tísku og matarkúra, matarhefðir og menningararf, tilfinningar, vináttu og fjölskyldubönd. Matarhættir tengja þannig saman menningu og náttúru, hnattvæðingu og hið staðbundna, heimilið og vinnustaðinn, fortíð og samtíð, manneskjur og örverur.

Í námskeiðinu beinum við sjónum að sambandi matarframleiðslu og neyslu á 21. öld með sérstaka áherslu á lýðheilsu, siðferðislega neyslu og sjálfbærni.

Matur og menning eru þverfagleg viðfangsefni og því er þetta námskeið kennt í samstarfi námsbrauta í þjóðfræði og matvæla- og næringarfræði.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Adda Bjarnadóttir
Thelma Rut Grímsdóttir
Atli Arnarson
Vignir Snær Stefánsson
Birna Þórisdóttir
Adda Bjarnadóttir
BS í næringarfræði

Ég hafði brennandi áhuga á líkamsrækt og næringu þegar ég ákvað að byrja í næringarfræði, ásamt miklum áhuga á lífeðlis- og lífefnafræði. Í næringarfræðinni sá ég tækifæri til að læra meira um næringu alveg niður í ítrustu efnaferla, hvar og hvernig ég gæti aflað mér réttra upplýsinga og staðið fyrir rökréttum og marktækum svörum við mikið af þeim staðhæfingum sem verið er að halda fram um næringu og næringarfræði út um allt í samfélaginu í dag.

Thelma Rut Grímsdóttir
MS í klínískri næringarfræði

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mat og næringu auk þess sem mér finnst áhugavert að vita hvernig líkaminn starfar, þess vegna fannst mér næringarfræðin alveg tilvalin fyrir mig. Ég sé mörg tækifæri í næringarfræðinni í framtíðinni, meðal annars vegna þess að það er aukin vitundarvakning í samfélaginu um mikilvægi góðrar næringar.

Atli Arnarson
MS og PhD í næringarfræði

Mikill áhugi á lífeðlisfræði leiddi mig út í nám í næringarfræði en flestar rannsóknir innan næringarfræðinnar tengjast sterkt inn á þá fræðigrein. Ég hef starfað við ýmsar rannsóknir á Rannsóknastofu í næringarfræði, en mestur tími fer þó í doktorsverkefnið mitt sem fjallar um áhrif mjólkurpróteina á árangur styrktarþjálfunar og ýmsar heilsufarsbreytur meðal aldraðra. Ég hef einnig kennt sem  leiðbeinandi í verklegum æfingum í BS-námi í næringarfræði eftir að ég lauk sjálfur MS-námi í greininni. Áður en ég hóf undirbúningsnám fyrir MS-námið í næringarfræði lauk ég BS-námi í líffræði við Háskóla Íslands. Þessar fræðigreinar eiga vel saman.

Vignir Snær Stefánsson
BS í næringarfræði

Næring er einn af þeim þáttum sem gerir það að verkum að líf getur þrifist. Hver einasta lífvera hér á jörð er háð næringu á einn eða annan hátt og hún skiptir sköpun þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl. Hún stuðlar að því að við vöxum og þroskumst og er stór partur af lífi hvers og eins. Það gerir það líka að verkum að margir hafa skoðun á málinu og oft mismunandi. Mér fannst því kjörið að taka slaginn á næringarfræði og komast að því hverju vísindin hafa í dag komist að um heilbrigt samband fæðu og manns og hvaða spennandi þekking er að verða til.

Birna Þórisdóttir
BS, MS og PhD í næringarfræði

Nám í næringarfræði er fjölbreytt og skemmtilegt. Strax er hafist handa við að læra næringarfræðina sjálfa, en bæði á 1. og 2. ári eru krefjandi en skemmtileg næringarfræðinámskeið. Í náminu er hægt að sérhæfa sig í ýmsar áttir, sem endurspeglast í því að á 2. og 3. námsári eru spennandi valnámskeið í boði á ýmsum sviðum auk næringarfræðinnar, m.a. í íþróttafræði, sálfræði, viðskiptafræði, matvælafræði o.fl. Miklir möguleikar eru fyrir áhugasama einstaklinga að komast fljótt í tengsl við alvöru störf sem næringarfræðingar framkvæma. Ég tel atvinnumöguleika að námi loknu vera góða þar sem næringarfræðingar koma víða við og tilfinningin er sú að næringarfræðin sé vísindagrein sem eigi eftir að vaxa og dafna á næstu árum.

Hafðu samband

Skrifstofa Matvæla- og næringarfræðideildar
Aragata 14
102 Reykjavík
Sími: 525 4867
Tölvupóstur: mn@hi.is

Opnunartímar:
Mánudaga = lokað
Þriðjudaga – fimmtudags = opið 9 – 15
Föstudagar = opið 9 -12

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.