Næringarfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Næringarfræði

Næringarfræði

180 einingar - BS gráða

. . .

Næringarfræði fjallar meðal annars um næringarefnin og hlutverk þeirra, næringarþörf heilbrigðra og sjúkra, næringarþörf á ýmsum æviskeiðum, í þróuðum og þróunarlöndum, og um hollustu eða óhollustu fæðutegunda og fæðutengdra efna.

Um námið

Námið byggir á sterkum grunni raun-, líf- og heilbrigðisvísinda og veitir innsýn í félagsvísindi, markaðsfræði og upplýsingatækni. Áherslur eru á klíníska-, íþrótta og lýðheilsunæringarfræði sem og rannsóknir og vísindi.  

Löggilt starfsheiti næringarfræðings krefst MS prófs í greininni. 

Hvað er næringarfræði?

Næringarfræði er heilbrigðisvísindagrein sem fjallar að töluverðu leyti um líffræði mannsins og  heilsu.
Næringarfræðin tekur einnig mið af umhverfinu, sjálfbærri nýtingu og býður upp á þjálfun í notkun mismunandi aðferðafræði.
Næringarfræðingar hafa hæfni til að vinna í heilbrigðisþjónustu, að forvörnum eða næringarmeðferð, auk verkefna- og rannsóknavinnu.

Inntökuskilyrði

Grunnnám

Til að hefja nám í næringarfræði við matvæla- og næringarfræðideild skal stúdent hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi.

Sjáðu um hvað námið snýst

Umsagnir nemenda

Birna Þórisdóttir
Vignir Snær Stefánsson
Adda Bjarnadóttir
Telma Björg Kristinsdóttir
Birna Þórisdóttir
Fyrrum næringarfræðinemi

Nám í næringarfræði er fjölbreytt og skemmtilegt. Skemmtilegt er hversu fljótt hafist er handa við að læra næringarfræðina sjálfa, en bæði á 1. og 2. ári eru krefjandi en skemmtileg næringarfræðinámskeið. Í náminu er hægt að sérhæfa sig í ýmsar áttir, sem endurspeglast í því að á 2. og 3. námsári eru spennandi valnámskeið í boði á ýmsum sviðum auk næringarfræðinnar, m.a. í íþróttafræði, sálfræði, viðskiptafræði, matvælafræði o.fl. Miklir möguleikar eru fyrir áhugasama einstaklinga að komast fljótt í tengsl við alvöru störf sem næringarfræðingar framkvæma. Ég tel atvinnumöguleika að námi loknu vera góða þar sem næringarfræðingar koma víða við og tilfinningin er sú að næringarfræðin sé vísindagrein sem eigi eftir að vaxa og dafna á næstu árum. Mín reynsla af náminu var mjög ánægjuleg. Meðfram náminu æfði ég íþróttir og dansaði í háskóladansinum og skemmti mér konunglega.

Vignir Snær Stefánsson
næringarfræðinemi

Næring er einn af þeim þáttum sem gerir það að verkum að líf getur þrifist. Hver einasta lífvera hér á jörð er háð næringu á einn eða annan hátt og hún skiptir sköpun þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl. 
Hún stuðlar að því að við vöxum og þroskumst og er stór partur af lífi hvers og eins. Það gerir það líka að verkum að margir hafa skoðun á málinu og oft mismunandi. Mér fannst því kjörið að taka slaginn á næringarfræði og komast að því hverju vísindin hafa í dag komist að um heilbrigt samband fæðu og manns og hvaða spennandi þekking er að verða til.

Adda Bjarnadóttir
næringarfræðinemi

Ég hafði brennandi áhuga á líkamsrækt og næringu þegar ég ákvað að byrja í næringarfræði, ásamt miklum áhuga á lífeðlis- og lífefnafræði. Í næringarfræðinni sá ég tækifæri til að læra meira um næringu alveg niður í ítrustu efnaferla, hvar og hvernig ég gæti aflað mér réttra upplýsinga og staðið fyrir rökréttum og marktækum svörum við mikið af þeim staðhæfingum sem verið er að halda fram um næringu og næringarfræði út um allt í samfélaginu í dag.

Telma Björg Kristinsdóttir
BS í næringarfræði

Næringarfræðinámið er fjölbreytt, áhugavert og krefjandi! Við lærum um hvernig meltingarfærin verða til og þroskast í móðurkviði, hvernig þau starfa við að brjóta niður matinn sem við innbyrðum, hvernig upptaka næringarefna og nýting fer fram og svo hvernig efnin koma til góðs í viðhaldi og starfi líkamans. Námið gengur út á það að skilja þátt næringarefna í vexti og heilbrigði einstaklinga sem og að fræðast um kvilla og sjúkdóma sem tengjast næringu og orkuefnum, í fljótu bragði er þar að nefna offitu með sína fylgikvilla sem og vannæringu og átraskanir. Þegar fólk veikist alvarlega getur það haft í för með sér breytingar á getu líkamans til nýtingar á orku- og næringarefnum eða þörf á meðferðum þar sem næringin spilar stóran þátt. Mín reynsla af náminu hingað til er mjög góð. Mér finnst ég vera feta einhvers konar sannleiksstíg þar sem gagnrýnin hugsun og tilhneiging til vísindalegra vinnubragða vex og styrkist og ég skil betur og betur starf mannslíkamans, allt frá heildarmyndinni niður í einstöku frumulíffæri.

Mynd að ofan 
Texti vinstra megin 

Að námi loknu

Störf útskrifaðra næringarfræðinga (með MS próf) eru mjög fjölbreytt en þeir vinna meðal annars við rannsóknir, vöruþróun, markaðsmál, kynningarmál, áætlanir, eftirlit, gæðamál og ráðleggingar um mataræði. 
Þeir starfa meðal annars hjá einkafyrirtækjum, rannsóknastofnunum, eftirlits- og stjórnsýslustofnunum, háskólum, öðrum menntastofnunum, og heilbrigðisstofnunum. 

Texti hægra megin 

Framhaldsnám

MS nám í næringarfræði er 120 eininga einstaklingsmiðað framhaldsnám með rannsóknarverkefni. Boðið er upp á eitt kjörsvið, klíníska næringarfræði í samstarfi við Næringarstofu Landspítala. Takmarkaður fjöldi nema kemst í þetta nám. Doktorsnám í næringarfræði felur í sér 180 eininga vísindaleg og tæknileg rannsóknarverkefni sem leiða til nýrrar þekkingar og nýsköpunar.
Öllum nemendum í rannsóknar- og framhaldsnámi stendur til boða að taka hluta af námi sínu erlendis í samvinnu við leiðbeinendur. 

Félagslíf

Hnallþóra er félag matvæla- og næringarfræðinema við HÍ.  Megin markmið félagsins er að gæta hagsmuna nemenda og efla samstöðu meðal þeirra. Hnallþóra sér um að halda uppi öflugu félagslífi fyrir nemendur deildarinnar m.a. með nýnemaferðum, árshátíð og vísindaferðum með heimsóknum til fyrirtækja og stofnana sem tengjast náminu. 

Hafðu samband

Skrifstofa Matvæla- og næringarfræðideildar
Læknagarði, 4. hæð
Vatnsmýrarvegi 16
101 Reykjavík
Sími: 525 4867
mn@hi.is

Opið alla daga frá 09:00 - 12:00