
Næringarfræði
180 einingar - BS gráða
Næringarfræði fjallar meðal annars um næringarefnin og hlutverk þeirra, næringarþörf heilbrigðra og sjúkra, næringarþörf á ýmsum æviskeiðum, í þróuðum og þróunarlöndum, og um hollustu eða óhollustu fæðutegunda og fæðutengdra efna.

Um námið
Námið byggir á sterkum grunni raun-, líf- og heilbrigðisvísinda og veitir innsýn í félagsvísindi, markaðsfræði og upplýsingatækni. Áherslur eru á klíníska-, íþrótta og lýðheilsunæringarfræði sem og rannsóknir og vísindi.
Löggilt starfsheiti næringarfræðings krefst MS prófs í greininni.

Hvað er næringarfræði?
Næringarfræði er heilbrigðisvísindagrein sem fjallar að miklu leyti um líffræði mannsins og heilsu.
Næringarfræðin tekur einnig mið af umhverfinu, sjálfbærri nýtingu og býður upp á þjálfun í notkun mismunandi aðferðafræði.
Næringarfræðingar hafa hæfni til að vinna í heilbrigðisþjónustu, að forvörnum eða næringarmeðferð, auk verkefna- og rannsóknavinnu.
Til að hefja nám í næringarfræði við matvæla- og næringarfræðideild skal stúdent hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi.