Lyfjafræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Lyfjafræði

""

Lyfjafræði

180 einingar - BS gráða

. . .

Lyfjafræði er fræðigrein sem fjallar um lyf frá öllum hugsanlegum sjónarhornum, allt frá þróun nýrra lyfjaefna og lyfjaforma, að framleiðslu, notkun og verkun lyfjanna. Lyfjafræðinámið er fjölbreytt nám, samsett af bóklegri og verklegri kennslu í hinum ýmsu greinum líf- og raunvísinda, auk greina úr félagsvísindum. 

Um námið

Í BS-námi í lyfjafræði (180e) er lögð áhersla á undirstöðugreinar lyfjafræðinnar, s.s. efnafræði, líffræði, stærðfræði auk ýmissa sérgreina í lyfjafræði. 

Fullt nám tekur þrjú ár. 

BS-námið er nauðsynlegur undirbúningur fyrir MS-nám í lyfjafræði. Að loknu MS-námi í lyfjafræði er hægt að sækja um starfsleyfi lyfjafræðings hjá Embætti Landlæknis.

""

Námið er byggt á fjölbreyttum kennsluháttum, fyrirlestrum, umræðutímum, verklegum æfingum, einstaklingsbundnum verkefnum, hópverkefnum og dæmatímum.

Lyfjafræðideild hefur aðsetur í byggingunni Haga við Hofsvallagötu. Þar fer kennslan að mestu fram og nemendur hafa aðstöðu og aðgang að lesrými og tölvuveri.

Inntökuskilyrði

Grunnnám

Skilyrði til inntöku í Lyfjafræðideild er stúdentspróf af bóknámsbraut. Æskilegt er að ljúka stúdentsprófi af náttúrufræðibraut með efnafræði sem kjörsvið og leggi þar áherslu á efnafræði og stærðfræði. Auk þess er mælt með því að taka áfanga af kjörsviðum líffræði og eðlisfræði. Ef nám er stundað á öðrum bóknámsbrautum þ.e. félagsfræða- eða málabraut er æskilegt að bæta við sig áföngum sem veita sambærilegan undirbúning í efnafræði og stærðfræði, auk eðlisfræði og líffræði.

 

Sjáðu um hvað námið snýst

Umsagnir nemenda

Markús Leví Stefánsson
Kristín Rún Gunnarsdóttir
Guðrún Sigríður Þórhallsdóttir
Kristófer Haukur Hauksson
Markús Leví Stefánsson
BS nemi í lyfjafræði

Ég valdi lyfjafræði því ég hafði áhuga á lífrænni efnafræði og datt í hug að lyfjafræðin gæti skapað mér einhverja starfsmöguleika út frá því áhugamáli. Ég sé fram á frábæra starfsmöguleika jafnt hérlendis og erlendis þar sem námið er afar hagnýtt. Það verður ávallt þörf fyrir lyfjafræðinga og þeirra störf. Á síðastliðnum 3 árum hef ég kynnst bestu samnemendunum, unnið með frábærum kennurum og starfað innan skilningsríkrar deildar. Mér hefði aldrei dottið í hug að lyfjafræðinám myndi enda á því að verða nokkur af bestu árum lífs míns. Í gegnum námið þá hef ég lært svo margt um hvernig heimurinn hefur áhrif á líkamann og hvernig ég hef áhrif á umheiminn. Ég hef þar með öðlast töluvert betri skilning á sjálfum mér og öllu sem ég er. Ég horfi á Haga sem annað heimili þar sem alltaf er hlýlegt viðmót. Lyfjafræði, takk fyrir mig!

Senía Guðmundsdóttir
BS nemi í lyfjafræði

Sem lyfjafræðingur get ég notað þekkingu mína, hvar sem er í heiminum, öðrum til hjálpar. Lyfjafræðingar eru hvarvetna eftirsóttir starfskraftar því þeir búa yfir ævafornri visku sem nútíma vísindin byggja á. Lyfjafræðin er heillandi, fjölbreyttur og traustur starfsvettvangur þar sem nýjar áskoranir skjótast sífellt upp á yfirborðið.

Kristín Rún Gunnarsdóttir
BS nemi í lyfjafræði

Það kom mér sannarlega á óvart hversu fjölbreyttur starfsvettvangur fylgir loknu námi í lyfjafræði. Á fyrsta ári í BS náminu fékk ég að kynnast ýmsum starfstöðvum lyfjafræðinga; allt frá apótekum til framleiðslu og innflutnings á lyfjum. Ástæðan fyrir því að lyfjafræði varð fyrir valinu er líklega vegna mikils áhuga á efnafræði úr menntaskóla, en þó svo að náminu fylgi töluverð efnafræði er svo margt fleira sem hefur vakið áhuga minn. Þar má t.d nefna námskeið í gæðakröfum og regluverki í lyfjaframleiðslu. Ég hóf störf hjá fyrirtækinu Alvotech snemma á þessu ári og hefur þekkingin og reynslan sem mér hefur áskotnast í hinum ýmsu námskeiðum lyfjafræðinnar nýst vel þar.

Guðrún Sigríður Þórhallsdóttir
BS nemi í lyfjafræði

Lyfjafræðinámið er fjölbreytt og verkleg kennsla brýtur upp hefðbundið fyrirkomulag fyrirlestra. Kennslan er mjög persónuleg og góð tengsl myndast við kennarana. BS-verkefnið var klárlega punkturinn yfir i-ið og fengum við það verkefni að þróa og framleiða lyf. Það var skemmtilegt að finna það að allt sem við höfðum lært síðustu þrjú árin tvinnaðist saman og gerði okkur kleift að vinna að virkilega krefjandi en flottum verkefnum. Ég hef fengið tækifæri til að kynnast störfum tengdum náminu, ég hef bæði unnið á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og á þróunarsviði hjá líftæknifyrirtækinu Alvotech.

Kristófer Haukur Hauksson
BS í lyfjafræði

Ég valdi lyfjafræðina vegna þess að það er skemmtileg blanda af lífvísindum og efnafræði. Auk þess eru kennsluhættir í náminu mjög fjölbreyttir þar sem við fáum oft að vinna með þau efni og þær aðferðir sem við lærum um í bóklega hlutanum til þess að fá betri tök og skilning á náminu. Félagslífið er rosalega sterkt í deildinni og við höfum myndað lítið samfélag fyrir okkur þar sem allir frá öllum árgöngum þekkjast og svo heldur Tinktúra uppi fjörinu alveg einstaklega vel. Lyfjafræðingar eru mjög eftirsóknarverðir starfskraftar og þegar komið er út á vinnumarkaðinn að námi loknu er leiðin greið. Sjálfur stefni ég á vinnu í rannsóknarstarfi en framtíðin er björt og enginn veit hvað hún ber í skauti sér.

Mynd að ofan 
Texti vinstra megin 

Að námi loknu

BS-nám í lyfjafræði er nauðsynlegur undirbúningur fyrir MS-nám í lyfjafræði. Að loknu MS-námi í lyfjafræði er hægt að sækja um starfsleyfi lyfjafræðings hjá Embætti Landlæknis.

Fjölbreytt nám á breiðum grunni gerir lyfjafræðinga eftirsótta í atvinnulífinu og þeirra bíða spennandi atvinnutækifæri að námi loknu. Lyfjafræðingar starfa víða en algengast er að þeir starfi í lyfjaiðnaði, í apótekum, við markaðsmál eða á sjúkrahúsum.

Texti hægra megin 

Starfsmöguleikar

  • Framleiðsla og hönnun lyfja
  • Gæðaeftirlit og skráning
  • Inn- og útflutningur lyfja og markaðsmál
  • Ráðgjöf, eftirlit, stjórnun og afgreiðsla lyfja í apótekum
  • Ráðgjöf til annarra heilbrigðisstarfsmanna
  • Skipulag og eftirlit með lyfjameðferð
  • Framleiðsla lyfja- og næringablanda

Félagslíf

Nemendafélagið Tinktúra heldur uppi félagslífi og stendur vörð um hagsmuni lyfjafræðinema. 

Tinktúra er aðili að alþjóðlegum samtökum lyfjafræðinema, IPSF og EPSA sem miðla upplýsingum milli nemenda um þróun og nýjungar í náminu og störfum lyfjafræðinga. Tinktúra er aðili að IAESTE, alþjóðlegum samtökum nema í raun- og heilbrigðisvísindum.

Hafðu samband

Skrifstofa Lyfjafræðideildar
Haga, Hofsvallagötu 53, 3. hæð
Sími 525 4353
lyf@hi.is

Opið virka daga kl. 10-12 og 13-15