Listfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Listfræði

Listfræði

BA gráða

. . .

Nám í listfræði veitir þekkingu í sögu myndlistar og sjónrænnar menningar og þjálfun í að skilja, greina og túlka myndlistarverk og annað sjónrænt efni frá ólíkum tímum og í mismunandi þjóðfélögum. Sérstök áhersla er lögð á íslenska myndlistarsögu í náminu.

Um námið

Listfræði veitir þjálfun í myndlæsi, þ.e. að geta „lesið“ myndmál til jafns við ritaðan texta, ásamt því að kynna helstu hugtök og greiningaraðferðir (listsöguskoðanir) í listfræði. Þetta gerir fræðigreinin út frá ýmsum sjónarhólum; formrænum, íkónógrafískum, félagssögulegum, feminískum, o.s.frv.

Nánari upplýsingar um námið.

Inntökuskilyrði

Grunnnám

Íslenskt stúdentspróf eða sambærilegt próf frá erlendum skóla. Þau listfræðinámskeið sem kennd eru á vegum Listaháskóla Íslands (kennd í LHÍ) eru eingöngu opin fyrir nemendur í listfræði, ekki aðra nemendur HÍ.

Sjáðu um hvað námið snýst

Umsagnir nemenda

Edda Halldórsdóttir
Edda Halldórsdóttir
Verkefnastjóri í deild safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur

Í starfi mínu er mikilvægt að þekkja listasöguna og geta greint samtímann í ljósi þess sem á undan er gengið. Nám í listfræði hefur veitt mér þessa þekkingu bæði á íslenskri og alþjóðlegri listasögu og menningararfi. 

Silja Pálmarsdóttir
BA í listfræði

Eftir að hafa lokið BA-gráðu í listfræði við Háskóla Íslands komst ég inn í meistaranám í sjónlistasögu við háskólann í Bologna. Þar kláraði ég námið mitt með hæstu einkunn og skrifaði lokaritgerð á ítölsku um listamanninn Ólaf Elíasson. Í gegnum námið mitt hef ég unnið á listasöfnum á Íslandi við skráningu, leiðsagnir og önnur verkefni. Á Ítalíu vann ég í listamannareknu rými þar sem ég aðstoðaði við undirbúning við að taka á móti listamönnum sem komu þangað í stuttan tíma og unnu við list sína. Að loknu náminu mínu komst ég inn í starfsnám í Arts Santa Mònica sem er listamiðstöð í Barcelona og þar hef ég verið að aðstoða sýningarstjórann. Einnig hef ég hjálpað til við skráningu á útgefnu efni, þýðingar og lesið yfir fræðitexta um list. Ég var aðstoðarsýningarstjóri í nýlegri sýningu sem ber heitið Mirall de paper og sýnir útgáfu bóka og katalóga síðustu þrjátíu ár í Arts Santa Mònica.

Heiða Björk Árnadóttir
Doktorsnemi

Sú undirstaða sem B.A. nám í listfræði við Háskóla Íslands veitti mér í gagnrýnni hugsun, greiningu og fræðilegum skrifum, listheimspeki og gagnrýnum kenningum, ólíkum aðferðum listfræðinnar og sögu vestrænnar myndlistar og menningar, hefur reynst mér dýrmætur grunnur í framhaldsnámi mínu og kennslustörfum í safna- og listfræðum heima og erlendis.

Mynd að ofan 
Texti vinstra megin 

Starfsmöguleikar að námi loknu

Listsköpun er mótandi afl í samfélaginu sem spannar vítt svið mannlegrar þekkingar og reynslu. Myndlist snýst, eðli málsins samkvæmt, um myndmál og sjónræna menningu, þ.e. þann hluta menningarinnar sem er sýnilegur. Í samfélagi þar sem myndir eru jafnvel stærri áhrifavaldar í lífi manna en orðræða, vantar almennt mikið upp á myndlæsi, að fólk geti „lesið“ myndir til jafns við ritaðan texta.

Nám í listfræði hefur einkum gildi fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa innan myndlistarheimsins, m.a. í tengslum við söfn, sýningarsali og menningarstofnanir. Námið hefur einnig gildi fyrir þá sem hafa áhuga á menningarfjölmiðlun, (blaðamennsku, listgagnrýni, þáttagerð), þ.e. gerð sérhæfðs efnis um listir fyrir fjölmiðla. Einnig nýtist námið þeim sem hyggjast leggja fyrir sig listasögukennslu á grunn- og framhaldskólastigi og/eða vinna við rannsóknir á myndlist. Þá krefjast alþjóðasamskipti í auknum mæli þekkingar á menningar- og listsögulegum bakgrunni og sérstöðu þjóða.

Fyrir þá sem vilja leggja fyrir sig viðameiri rannsóknir og ritstörf í listfræðum er námið hugsað sem undirbúningur fyrir frekara nám erlendis í fræðunum. 

Íslenska starfsheitið listfræðingur tíðkast almennt, en ekki til að mynda listsagnfræðingur. Er það gert bæði til að nota sem styst heiti skv. málvenju háskólafólks (sbr. sálfræðingur, verkfræðingur) og til að leggja áherslu á að listfræði er ekki undirgrein sagnfræði, heldur sjálfstæð fræðigrein með eigin aðferðafræði og kenningar. Til að öðlast starfsheitið listfræðingur er þó gert ráð fyrir að viðkomandi hafi lokið a.m.k. MA-prófi í listfræði.

Texti hægra megin 

Dæmi um starfsvettvang

  • Söfn og aðrar menningarstofnanir.
  • Menningarfjölmiðlun.
  • Listasögukennsla.
  • Rannsóknir.

Félagslíf

Nemendafélag listfræðinema heitir Artíma og stendur fyrir fjölbreyttri starfsemi, auk þess sem félagið gefur út listtímaritið Artímarit. Í flestum námskeiðum sitja blandaðir hópar nemenda úr HÍ og LHÍ og talsvert er einnig um viðburði í tengslum við samstarfið við Listaháskóla Íslands.

Samfélag nemenda á Hugvísindasviði.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs er staðsett á 3. hæð í Aðalbyggingu Háskólans við Sæmundargötu 2. Skrifstofan er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl 10:00–12:15 og 12:45–15:00 og á föstudögum frá kl 10:00–12:15 og lokað eftir hádegi. Hægt er að nálgast upplýsingar í síma 525 4400 eða með tölvupósti á netfangið hug@hi.is.

Nemendur við Hugvísindasvið geta einnig nýtt sér þjónustuborð í Gimli auk þess sem athygli er vakin á þjónustuborði Háskólans á Háskólatorgi.