Listfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Listfræði

Listfræði

Hugvísindasvið

Listfræði

BA gráða – 120 ECTS einingar

Nám í listfræði veitir þekkingu í sögu myndlistar og sjónrænnar menningar og þjálfun í að skilja, greina og túlka myndlistarverk og annað sjónrænt efni frá ólíkum tímum og í mismunandi þjóðfélögum. Sérstök áhersla er lögð á íslenska myndlistarsögu í náminu. Listfræði er kennd í samstarfi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Skipulag náms

X

Myndlist á Vesturlöndum frá 1348–1848 (LIS004G)

Í námskeiðinu verða meginverk í listasögu Vesturlanda frá frum-endurreisn til fyrri hluta nítjándu aldar tekin til skoðunar. Landfræðilega er sjónum beint að listaverkum frá Ítalíu og Spáni, Frakklandi, Niðurlöndum, Þýskalandi og Englandi. Fjallað verður um helstu aðferðir og skóla, akademíur og birtingarform myndlistar í trúarlegu, pólitísku og samfélagslegu samhengi. Fjallað verður um málaralist, höggmyndalist, byggingarlist, listiðnað og prentmyndir. Leitast verður við að skoða að hvaða leyti listin speglar samfélagið, hvernig myndmál speglar lífssýn og heimsmynd manna á ólíkum tímabilum. Fjallað er um breytilegt inntak tíma og rýmis á hverjum tíma, breytingar á táknrænni mynd líkama, um stöðu og samfélagshlutverk listamann og hvernig samspil listar og valdastofnana. Í tengslum við þessi viðfangsefni verða lykilverk hvers tíma tekin til ítarlegrar túlkunar og dreifingarsaga þeirra rædd.

X

Aðferðafræði og hugtök listfræði (LIS101G)

Aðferðafræði, hugtök og saga listfræði (LIS101G) er inngangsnámskeið sem er hugsað sem grunnnámskeið fræðigreinarinnar listfræði. Fjallað er um listhugtakið, sögu listfræðinnar, fræðilegar forsendur listasögu sem sjálfstæðrar fræðigreinar, hugtök og heiti, rannsóknaraðferðir og helstu kenningar innan listfræði. Nemendur fá þjálfun í myndgreiningu og myndlestri og kynnast helstu greiningaraðferðum listfræðinnar, s.s. formalískri, íkónógrafískri og marxískri myndgreiningu. Gagnrýnar kenningar sem hafa endurmótað skilgreiningu 'myndlistar' og umfjöllun um myndlist verða teknar til skoðunar í fyrirlestrum, lesefni og umræðum, þar á meðal póst-strúktúralismi, feminísmi og efirlendufræði. Saga og þróun listfræðinnar verður skoðuð í samhengi sögu safna og annarra liststofnana, í víðara samhengi sjónmenningar og mótun og skilgreiningu áhorfandans. Verkefni eru hönnuð til þess að að þjálfa myndgreiningu, gagnrýna hugsun og ritfærni.

X

Íslensk myndlist 1870-1970 (LIS102G)

Saga íslenskrar myndlistar frá 1870 til 1970. Fjallað er um upphaf íslenskrar nútímamyndlistar, einstaka myndlistarmenn og mótandi öfl í íslensku myndlistarlífi, áhrif erlendra listhugmynda og stefna, tilraunir til að skilgreina "þjóðlega" íslenska myndlist, stuðning og áhrif yfirvalda á myndlistarþróun, togstreitu milli málsvara þjóðlegrar listar og óþjóðlegrar listar, einnig milli "tilfinningatjáningar" annars vegar og "vitsmunalegrar" framsetningar hins vegar, innlenda listmenntun og megineinkenni myndlistarumfjöllunar eins og hún birtist á hverjum tíma í dagblöðum og tímaritum. Leitast verður við að meta sérkenni íslenskrar myndlistar í samhengi við erlenda listþróun, en einnig í ljósi íslenskrar samfélagsþróunar og sögu. Kennt í HÍ

X

Snertifletir heimspeki og lista í samtíma (LIS317G)

Í námskeiðinu er gerð grein fyrir nokkrum kenningum í heimspeki sem hafa verið áhrifamiklar á sviði lista undanfarna áratugi, ásamt því að varpa ljósi á sögulegar forsendur þeirra innan listheimspeki og fagurfræði. Sjónum er einkum beint að hugtökum, hugmyndum, kenningum og listaverkum þar sem greina má frjóa snertifleti á milli hugsunar og verka heimspekinga og listamanna. Áhersla er lögð á greiningu og umræður um ný sjónarhorn og hræringar innan heimspekilegs samhengis listarinnar.

X

Sjálfsmyndir, kyngervi og samfélag (LIS415G)

Sjálfsmyndir myndlistarmanna er fjölbreytt flóra myndverka þar sem listamaðurinn nýtir eigin líkama sem viðfangsefni. Gerð slíkra mynda hefur verið samofin nútímalistum allt frá endurreisn til samtíma. Í þeim birtist fjölþætt afstaða listamanna til viðfangsefnis síns, hvort sem um er að ræða sálræna sjálfsskoðun, tjáningu á stöðu innan samfélagsins, táknsögur um mikilvægi myndlistar, eða gagnrýna afstöðu til viðburða líðandi stundar. Í námskeiðinu verða sjálfsmyndir innlendra jafnt sem erlendra listamanna frá ólíkum tímabilum rannsakaðar með tilliti til þessara þátta. Hér er víkjandi meiður myndlistar notaður til að varpa ljósi á víðara samhengi listar í heild.

X

Íslensk myndlist í samtíð (LIS201G)

Helstu sérkenni og söguleg þróun íslenskrar myndlistar síðustu áratugi 20. aldar og á fyrsta áratug 21.aldar skoðuð í ljósi íslensks samfélags og samhengis við erlenda listþróun. Meðal viðfangsefna er arfleifð SÚM á áttunda áratugnum, stofnun Gallerís Suðurgötu 7 og Nýlistasafnsins, einkenni hins íslenska konsepts og annarra „nýlista“, svo sem ljósmynda, innsetninga og gjörninga, stofnun Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík og uppgangur þrívíddarlistar, endurkoma olíumálverksins á níunda áratugnum, vídeólistar starfrænna miðla og í seinni tíð skörun myndlistar, kvikmyndamiðilsins og tónlistar. Hugað verður að afstöðu yngri kynslóðar myndlistarmanna til myndlistararfsins á hverjum tíma, m.a. til náttúruarfleifðar og að "þjóðlegri" birtingarmynd myndlistar. Þá er fjallað um einkenni gagnrýnnar umræðu um myndlist, listmenntun, þátttöku í Feneyjabíennal, rekstur gallería og stofnun sýningarhópa í samtímanum. Kennt í HÍ.

X

Alþjóðleg nútímalistasaga frá 1850-1960 (LIS243G)

Farið verður í þróun myndlistar frá umbrotatímum módernismans á síðustu áratugum 19. aldar, í gegnum helstu framúrstefnuhreyfingar eða -isma 20.aldar fram til ársins 1970. Gerð verður grein fyrir helstu stefnum módernískrar myndlistar, forsendum þeirra, sérkennum og mikilvægi fyrir síðari tíma. Fjallað verður um tengsl listar við pólitík, heimspeki og þjóðfélagsþróun og hugað að róttæku endurmati á fegurðarhugtakinu í listum á 20. öld. Hvernig skila breyttar hugmyndir um tíma og rými sér í listinni? Hvernig raska ofangreindar listastefnur venjubundinni skynjun manna á umhverfinu og raunveruleikanum. Hvað er "innri veruleiki"? Þarf myndlist að vera sýnileg? Hver er munur á myndmáli og tungumáli og annars konar táknmáli? Reynt verður að fella alþjóðlegar sýningar sem hingað koma að námskeiðinu og verða þær sóttar heim í tengslum við það.

X

Menningarheimar (TÁK204G)

Þverfaglegt inngangsnámskeið þar sem efnt er til samræðu milli fræðasviða námsbrautarinnar, þ.e. bókmenntafræði, kvikmyndafræði, kynjafræði, listfræði, málvísinda, menningarfræði, táknmálsfræði og þýðingafræði. Birtu verður brugðið á alþjóðlegar hræringar í hugvísindum á liðnum áratugum en jafnframt rýnt í tengsl fræða og heimsmyndar. Fjallað verður um táknfræði tungumálsins og m.a. spurt hvort það geti talist grundvöllur annarra táknkerfa. Spurst verður fyrir um tengsl og "sambúð" mismunandi tungumála og málheima. Er hægt að þýða á milli allra mál- og menningarheima? Hvað geta aðstæður heyrnarlausra sagt okkur um tengsl málheima? Hvað er fjölmenning? Hvernig tengjast talað mál, lesmál og sjónmenning í samfélaginu? Í hverju felst menningarlæsi? Hugað verður að bókmenntum, myndlist, kvikmyndum og öðru myndefni í þjóðlegu og alþjóðlegu samhengi og kannað hvernig þessi táknkerfi vinna með mörkin milli kynja, kynþátta, stétta, menningarhópa, þjóða og heimshluta. Lesið verður ýmiskonar fræðilegt efni og skáldverk, könnuð myndverk og kvikmyndir, en viðfangsefnin verða einnig sótt í fjölmiðla og það sem er á seyði í samtímanum. Námsmat felst í fjórum verkefnum á misserinu og skriflegu lokaprófi.

X

Sýningagerð og sýningastjórn (LIS202G)

Í námskeiðinu verður farið yfir sögulegt ágrip sýningagerðar og sýningastjórnunar og fjallað um mismunandi vettvanga myndlistarsýninga í samtímanum. Litið verður á flesta þá þætti er lúta að sýningastjórn með sérstökum áherslum á greiningu samstarfs sýningastjóra og myndlistarmanna. Rannsóknarvinna og framkvæmdaþættir við sýningargerð verða í fyrirrúmi og munu nemendur vinna að gerð opinberra sýninga, m.a. með upplýsingaleit, hugmyndavinnu, vali á verkum, skrifum, gerð sýningarskrár, uppsetningu og kynningu á viðburði, o.fl. Athuga þarf að að hámarksfjöldi í námskeiðinu eru 20 nemendur, (10 nemendur úr myndlistardeild og 10 listfræðinemendur frá HÍ á 2. ári. þ.e. skilyrði er að hafa lokið að lágmarki 60 einingum í listfræði).

X

Listheimspeki (HSP310G)

Námskeiðinu er ætlað að veita stutt yfirlit yfir nokkur sígild viðfangsefni í heimspeki listarinnar; að kynna sérstaklega tilteknar spurningar, kenningar og rökfærslur á sviði listheimspeki með lestri valinna texta, bæði sögulegra og samtímalegra; og að þjálfa nemendur í greiningu og umræðu um listheimspekileg efni.

X

BA-ritgerð í listfræði (LIS241L)

BA-ritgerð í listfræði

X

Alþjóðleg myndlist frá 1960 til samtíma (LIS248G)

Í námskeiðinu er farið yfir þróun alþjóðlegrar samtímamyndlistar frá árinu 1970 til okkar tíma. Á þematískan hátt verða helstu stefnur, hreyfingar, einstaklinga og hugmyndir sem einkennt hafa tímabilið til skoðunar. Lögð er áhersla á að kynna þá nýju miðla og aðferðir sem fram komu á þessum tíma; umhverfislist hvers konar og innsetningar; gjörninga og uppákomur; gagnvirka stafræna list; tilraunakvikmyndun og vídeólist; hugmyndalist og ljósmyndun sem listform. Jafnframt verður brugið ljósi á þjóðfélagslegt samhengi myndlistar  í samtíma, tengingar við stjórnmál, efnahag og samfélag.

X

Snertifletir heimspeki og lista í samtíma (LIS317G)

Í námskeiðinu er gerð grein fyrir nokkrum kenningum í heimspeki sem hafa verið áhrifamiklar á sviði lista undanfarna áratugi, ásamt því að varpa ljósi á sögulegar forsendur þeirra innan listheimspeki og fagurfræði. Sjónum er einkum beint að hugtökum, hugmyndum, kenningum og listaverkum þar sem greina má frjóa snertifleti á milli hugsunar og verka heimspekinga og listamanna. Áhersla er lögð á greiningu og umræður um ný sjónarhorn og hræringar innan heimspekilegs samhengis listarinnar.

X

Sjálfsmyndir, kyngervi og samfélag (LIS415G)

Sjálfsmyndir myndlistarmanna er fjölbreytt flóra myndverka þar sem listamaðurinn nýtir eigin líkama sem viðfangsefni. Gerð slíkra mynda hefur verið samofin nútímalistum allt frá endurreisn til samtíma. Í þeim birtist fjölþætt afstaða listamanna til viðfangsefnis síns, hvort sem um er að ræða sálræna sjálfsskoðun, tjáningu á stöðu innan samfélagsins, táknsögur um mikilvægi myndlistar, eða gagnrýna afstöðu til viðburða líðandi stundar. Í námskeiðinu verða sjálfsmyndir innlendra jafnt sem erlendra listamanna frá ólíkum tímabilum rannsakaðar með tilliti til þessara þátta. Hér er víkjandi meiður myndlistar notaður til að varpa ljósi á víðara samhengi listar í heild.

X

Tilraunakvikmyndir og myndlist (LIS508M)

Tilraunakvikmyndir og kenningalegt samhengi þeirra og myndlistar er viðfangsefni námskeiðsins. Skoðuð eru ólík tímabil innan sögu tilraunakvikmynda og þau viðbrögð sem þau kölluðu fram greind, meðal annars í samhengi módernisma, húmanisma, strúktúralismi, póstmódernisma, og and-fagurfærði. Þessi tímabil og kenningalegt samhengi þeirra eru skoðuð út frá fræðimönnum á borð við Kant, Nietzche, Marx, Lacan, Bazin, Baudrillard, McLuhan og Jameson til að móta sjónarhorn til að túlka framúrstefnu kvikmyndir og hreyfingar myndlistar allt frá upphafi expressionisma til samtíma. Í námskeiðinu er einnig lögð áhersla á að greina hlutverk einstaklingsins í umhverfi fjölmiðla og aðþreyingar, meðal annars með því að taka til skoðunar verk ólíkra listamanna sem hægt er að staðsetja innan þessa samhengis. Áhersla er lögð á að horfa á og greina verk höfunda sem hafa unnið með þetta samhengi innan hugmynda sinna og listsköpunar. Námsmat: Skrifleg og munnleg verkefni og hópverkefni.

X

Gjörningar, náttúra og umhverfi: Skilgreining og áhrif gjörninga á mannöld (LIS509M)

Í námskeiðinu verður fjallað um gjörningalistformið í ljósi loftslagsbreytinga og umhverfisvár samtímans. Hvaða áhrif geta listrænir gjörningar haft í þessu samhengi? Hvernig hafa listamenn velt fyrir sér og brugðist við afleiðingum mannlegra framkvæmda á jörðina og vistkerfi hennar? Fjallað verður um samfléttun gjörningalistar og umhverfislistar á 7. og 8. áratugnum og um tengsl myndlistar við pólitískar umhverfishreyfingar. Sjónum verður beint að því hvernig samtímalistamenn um allan heim hafa notað gjörningaformið til þess að varpa ljósi á fjölþætt tengsl mannverunnar við umhverfið, mörk manngerðs og náttúrulegs umhverfis og áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á samfélög manna, dýra og lífríki jarðar. Fjallað verður um skörun umhverfishreyfingarinnar við femínisma og baráttu frumbyggja víða um heim. Skilgreining gjörninga verður tekin til skoðunar og fjallað um lífræna ferla og ómennska gjörninga í myndlist í ljósi róttækra hreyfinga í heimspeki samtímans.

X

BA-ritgerð í listfræði (LIS241L)

BA-ritgerð í listfræði

X

Sýningagerð og sýningastjórn (LIS202G)

Í námskeiðinu verður farið yfir sögulegt ágrip sýningagerðar og sýningastjórnunar og fjallað um mismunandi vettvanga myndlistarsýninga í samtímanum. Litið verður á flesta þá þætti er lúta að sýningastjórn með sérstökum áherslum á greiningu samstarfs sýningastjóra og myndlistarmanna. Rannsóknarvinna og framkvæmdaþættir við sýningargerð verða í fyrirrúmi og munu nemendur vinna að gerð opinberra sýninga, m.a. með upplýsingaleit, hugmyndavinnu, vali á verkum, skrifum, gerð sýningarskrár, uppsetningu og kynningu á viðburði, o.fl. Athuga þarf að að hámarksfjöldi í námskeiðinu eru 20 nemendur, (10 nemendur úr myndlistardeild og 10 listfræðinemendur frá HÍ á 2. ári. þ.e. skilyrði er að hafa lokið að lágmarki 60 einingum í listfræði).

X

Heimsslit og endalok tímans (LIS607M)

Hugmyndin um komandi heimsslit hefur verið áhrifamikill í vestrænni hugsun, bæði í krafti trúarlegra hugmynda um endalok tímans, og í samhengi samtíma hugmynda um yfirvofandi vistfræðilegt hrun og aðgerðaleysi okkar gagnvart því. Með þetta að leiðarljósi er námskeiðinu ætlað að auka þekkingu og skilning á vandanum að skilgreina eigin samtíma andspænis verfræðilegum þversögnum sem rof á framgangi tímans kalla á. Hugmyndin um heimsslit verður því könnuð út frá ólíkum sjónarhornum, meðal annars í samhengi við verufræði tímans, og í ljósi hugtakanna, „framfarir“ og „saga“ og sjónum beint að því að hve miklu marki þessi hugtök og hugtakið „tími“ eru samofin. Teknar eru til umfjöllunar póstmódernískar kenningar um endalok sögunnar sem og samtímakenningar um handan-sögu, og handan-samtíma. Einnig er velt upp hugmyndum um vörpun innan menningarinnar sem og sjónarhorni sálgreiningarinnar á heimsenda hugtakið. Í þessu samhengi eru verk listamanna skoðuð og greind til þess að varpa ljósi á hvernig hefð og saga heimsslitakenninga getur haft áhrif á listrænar athafnir.

X

Plöntur, landslag og pólitík (LIS606M)

Í námskeiðinu verður samband manns og náttúru skoðað í gagnrýnu fræðilegu samhengi. Fjallað verður um „náttúruleg“ fyrirbæri, eins og plöntur og gróður, sem og „menningarleg“ fyrirbæri, eins og garða og landslag, út frá heimspeki, umhverfissögu og listfræði. Sýnt verður fram á að garðhönnunarhefð Upplýsingarinnar, sem á sér sína skýrustu birtingarmynd í enska landslagsgarði 18. aldar, sækir í sig veðrið við upphafs þess jarðsögutímabils hefur verið nefnt „Mannöld“ (e. Anthropocene“).
Námsskeiðið verður í málstofuformi, byggt á lestri og umræðum. Þar á meðal verða lesnir kaflar úr grundvallarritum um efnið: Nature’s Metropolis eftir David Cronon og nýrra rannsóknargreina innan pósthúmanískra fræða, Why Look at Plants. Ætlast er til að nemendur lesi vel allt lesefni sem lagt er fyrir og taki virkan þátt í umræðum. Þáttaka byggð á gagnrýnum heimalestri er lykilatriði í námsmati.

X

Snert á veruleikanum: ljósmyndin sem miðill (LIS605M)

Í námskeiðinu verður fjallað um ljósmyndina sem miðil í bæði listfræðilegu og menningarfræðilegu samhengi. Áhersla verður lögð á að greina sérstöðu ljósmyndarinnar sem miðils í samanburði við aðra miðla myndlistar og í samanburði við texta. Lesnir verða nokkrir lykiltextar í ljósmyndafræði eftir Abigail Solomon Godeau, Geoffrey Batchen, Liz Wells, Roland Barthes, Susan Sontag, Walter Benjamin, og fl. og þeim beitt við greiningu á myndlistarverkum og ljósmyndum. Einnig verða lesnir fræðitextar um íslenska samtímaljósmyndun og verk eftir íslenska listamenn tekin til greiningar. Þá verður hugað sérstaklega að ljósmyndinni sem heimild og sem vitnisburði um minningar og úrvinnslu á þeim, og hvernig listamenn hafa nýtt sér eiginleika ljósmyndarinnar við þjóðfélagslega gagnrýni.

X

Prent, þrykk og fjölfeldi (LIS427M)

Í námskeiðinu verður farið yfir þróun prentmiðilsins bæði í iðnaði sem upplýsingamiðils og sem listmiðils. Saga aðferða við prentun texta og mynda innan ólíkra menningarsamfélaga verður rakin í grófum dráttum, samhliða því að farið verður yfir sögu og merkingu bókarinnar og uppruna bóksverksins sem listmiðils. Litið verður til listamannsins í hinum ýmsu hlutverkum; útgefanda, hönnuðar eða framleiðanda. Teknar verða fyrir samfélagslegar, hugmyndafræðilegar, efnahagslegar og lýðræðislegar skírskotanir listaverka í upplagi, sem fjölfeldi eða hlutfeldi, sem og listhlutarins sem nytja- og söluvöru sem lýtur markaðsáhrifum. Í því samhengi verða mismunandi hópar listamanna skoðaðir með tilliti til afstöðu þeirra til listmarkaðsins og sölu og dreifingu eigin listaverka. Hér verður sjónum einkum beint að jaðar- og gagnmenningu og að listamönnum sem vinna á mörkum hönnunar og myndlistar og reka vinnustofur á við verksmiðjur með háa framleiðni. Námsmat: Hópverkefni, skrifleg og munnleg verkefni

X

Hugmyndasaga 19. og 20. aldar (HSP321G)

Fjallað verður um andóf nokkurra fremstu hugsuða á þessu tímabili gegn hefðbundnum hugmyndum um frelsið, mannlegt eðli, samfélag, siðferði, vísindi og trú.

X

Ritfærni 1: Fræðileg skrif (ÍSR301G)

Ritfærni 1: Fræðileg skrif er grunnnámskeið í meðferð ritaðs máls. Nemendur hljóta þjálfun í ritun með vikulegum heimaverkefnum, fyrirlestrum, umræðum og smiðjuvinnu. Fjallað verður um vinnulag við ritun fræðilegra texta, svo sem val og afmörkun viðfangsefnis, byggingu, heimildanotkun og frágang. Einnig verður lögð áhersla á að þjálfa nemendur í málnotkun í fræðilegum textum og fjallað meðal annars um málsnið, stíl, stafsetningu, greinarmerkjasetningu og hjálpargögn málnotenda. Nemendur skrifa fræðilega ritgerð í leiðsagnarmati og fá reglulega endurgjöf kennara sem og samnemenda. Námsmat byggist á vikulegum heimaverkefnum, miðmisserisverkefni, lokaverkefni og virkri þátttöku í ritsmiðjum. Vakin er athygli á því að aðeins er hægt að ljúka námskeiðinu sé öllum verkefnum skilað.

X

Sagnfræðileg vinnubrögð (SAG101G)

Fjallað er um sérstöðu og einkenni sagnfræði og hvernig sambandi hennar við aðrar fræðigreinar er háttað. Rannsóknatækni sagnfræðinga er kynnt sem og fræðileg vinnubrögð í sagnfræði, einkum heimildafræði, megindlegar aðferðir í sagnfræði og ritgerðasmíð. - Námskeiðið skal taka á fyrsta misseri í sagnfræðinámi (öðru misseri fyrir þá nemendur sem byrja um áramót).

X

Mannskepnur og önnur dýr (ÞJÓ103M)

Kennsla fer fram með fyrirlestrum, umræðu, rafrænum fyrirlestrum  og vettvangsferð á Strandir (fös-sun 16.-18. október 2020).

Samskipti manneskjunnar við önnur dýr er viðfangsefni þessa námskeiðs sem við nálgumst frá bæði fræðilegum og listrænum sjónarhornum. Nemendur vinna sjálfstæð verkefni, um dýr að eigin vali, og fara í þriggja daga vettvangsferð á Strandir þar sem haldin verður málstofa með listafólki og fræðimönnum á þessu sviði.  Í fyrirlestrum verður lögð sérstök áhersla á hvítabirni/ísbirni (ursus maritimus) og nýlegar rannsóknir á þeim.  Fjallað verður um áhrifavald og ólíkar birtingarmyndir ísbjarna í margvíslegu menningarlegu samhengi, til dæmis í fornbókmenntum, þjóðsögum, munnmælum, kvikmyndum, fréttum, efnismenningu og ferðamennsku. Þá verður til dæmis hugað að „framhaldslífi“ ísbjarna í formi listmuna, safngripa og minjagripa. Við munum skoða gripi í einkaeigu og á opinberum vettvangi og spyrja spurninga á borð við: hvað gerist þegar lifandi dýri er breytt í safngrip? Hvernig þróast og breytist merking dýrsins í ólíku samhengi. Tekist verður á við hlutverk dýra á borð við ísbirni í þekkingasköpun og mótun orðræðu um loftslagsmál og málefni norðurslóða, tengsl við ákveðin landsvæði og menningarhópa og hlutverk þeirra í ímynda- og sjálfsmyndasköpun bæði fortíðar og samtíma.  Stigið verður út fyrir hefðbundna ramma sem snúa að aðgreiningu manna/dýra og annarra lífvera um leið og við könnum samtvinnaða hugmynda- og vistheima þeirra.

Markmið

Markmið námskeiðs er að velta upp áríðandi spurningum og málefnum er snúa að sambúð fólks og dýra, loftlagsbreytingum, útrýmingu dýrategunda og sjálfbærni. Við munum íhuga hvernig listamenn, rannsakendur, aðgerðasinnar og söfn hafa tekið þátt í umræðu um þessi málefni og hvernig hægt sé að þróa umræðuna áfram. Við munum skoða hvernig mismunandi lista- og menningarminjasöfn miðla hugmyndum og upplýsingum um samband manna og dýra í gegnum safneign sína og sýningar. Nemendur eru hvattir til að nálgast, með gagnrýnum hætti, sjónrænt efni, muni, gripi og texta, bæði rafrænt en einnig með heimsóknum á söfn og sýningar. 

X

Kvikmyndasaga (KVI201G)

Yfirlit yfir sögu kvikmyndalistarinnar frá upphafi hennar undir lok 19. aldar til okkar daga. Áhrifaríkustu stefnur hvers tíma verða skoðaðar og lykilmyndir sýndar. Nemendur kynnast sovéska myndfléttuskólanum (montage), franska impressjónismanum, þýska expressjónismanum, stúdíókerfinu bandaríska, ítalska nýraunsæinu, japanska mínímalismanum, frönsku nýbylgjunni, þýska nýbíóinu, suður-ameríska byltingabíóinu og Hong Kong-hasarmyndinni svo eitthvað sé nefnt, og reynt verður að bera þessar ólíku stefnur saman. Lögð verður áhersla á að skoða fagurfræðilega þróun kvikmyndarinnar sem og samtímaleg áhrif á útlit og inntak hennar. Námsmat byggist á tveimur prófum.

X

Kvikmyndakenningar (KVI401G)

Námskeiðið er hugsað sem ítarlegt sögulegt yfirlit yfir helstu kenningar kvikmyndafræðinnar allt frá upphafi til dagsins í dag. Lesnar verða kenningar frumherja á borð við Sergei Eisenstein, Rudolf Arnheim, Siegfried Kracauer og André Bazin. Tekin verða fyrir margvísleg og róttæk umskipti í nálgun kvikmynda á seinni hluta tuttugustu aldar, líkt og formgerðargreining, marxísk efnistúlkun, sálgreining og femínismi. Loks verða áhrif menningarfræðinnar rædd með áherslu á kynþætti og skoðuð staða kvikmyndarinnar á tímum hnattvæðingar. Kvikmyndir námskeiðsins munu endurspegla margbreytileika lesefnisins enda er þeim ætlað að draga fram sérstöðu ólíkra kenninga.

X

Efnismenning: Hlutirnir, heimilið, líkaminn (ÞJÓ205G)

Í námskeiðinu verður efnisleg hversdagsmenning tekin til gagngerrar umfjöllunar. Gefið verður yfirlit yfir þetta þverfaglega rannsóknarsvið og rýnt jöfnum höndum í dæmi úr samtímanum og frá fyrri tíð, íslensk og erlend. Meðal annars verður fjallað um föt og tísku, matarhætti, hlutina sem umkringja okkur í daglega lífinu, rusl og hreinlæti, handverk og neyslumenningu, hús og garða, heimilið, borgarlandslag, söfn og sýningar. Um leið kynnast nemendur ýmsum kenningum og sjónarhornum sem leggja t.a.m. áherslu á mannslíkamann, kyngervi, neyslu, rými og stað.

Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum.

X

Norræn trú (ÞJÓ437G)

Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.

Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum Námsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Aldís Arnardóttir
Edda Halldórsdóttir
Aldís Arnardóttir
Listfræðingur

Meistaranámið í listfræði við Háskóla Íslands hefur nýst mér vel í fjölbreyttum verkefnum sem ég hef unnið að frá útskrift, sem sýningarstjóri, kennari, við skrif á sýningartextum fyrir listamenn og gagnrýni um sýningar í dagblöð og fleira.

Silja Pálmarsdóttir
BA í listfræði

Eftir að hafa lokið BA-gráðu í listfræði við Háskóla Íslands komst ég inn í meistaranám í sjónlistasögu við háskólann í Bologna. Þar kláraði ég námið mitt með hæstu einkunn og skrifaði lokaritgerð á ítölsku um listamanninn Ólaf Elíasson. Í gegnum námið mitt hef ég unnið á listasöfnum á Íslandi við skráningu, leiðsagnir og önnur verkefni. Á Ítalíu vann ég í listamannareknu rými þar sem ég aðstoðaði við undirbúning við að taka á móti listamönnum sem komu þangað í stuttan tíma og unnu við list sína. Að loknu náminu mínu komst ég inn í starfsnám í Arts Santa Mònica sem er listamiðstöð í Barcelona og þar hef ég verið að aðstoða sýningarstjórann. Einnig hef ég hjálpað til við skráningu á útgefnu efni, þýðingar og lesið yfir fræðitexta um list. Ég var aðstoðarsýningarstjóri í nýlegri sýningu sem ber heitið Mirall de paper og sýnir útgáfu bóka og katalóga síðustu þrjátíu ár í Arts Santa Mònica.

Edda Halldórsdóttir
Verkefnastjóri í deild safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur

Í starfi mínu er mikilvægt að þekkja listasöguna og geta greint samtímann í ljósi þess sem á undan er gengið. Nám í listfræði hefur veitt mér þessa þekkingu bæði á íslenskri og alþjóðlegri listasögu og menningararfi. 

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustutorg í Gimli og Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

Háskóli Íslands - aðalbygging

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.