Læknisfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Læknisfræði

""

Læknisfræði

180 einingar - BS gráða

. . .

Langar þig að verða læknir? Viltu læra um mannslíkamann og starfsemi hans? Viltu komast í fjölbreytt, gefandi en um leið krefjandi starf? BS nám í læknisfræði er fyrsta skrefið í læknanámi.

Um námið

BS nám í læknisfræði er 180e fullt nám í þrjú ár og fyrsta skrefið í átt að læknastarfi. 

Þar er m.a. kennd undirstaða í eðlis- og efnafræði, starfsemi mannslíkamans, samskipti við sjúklinga og líkamsskoðun, siðfræði læknisstarfsins, meinafræði og lyfjafræði.

BS náminu lýkur með 10 vikna rannsóknaverkefni.

Inntökuskilyrði

Grunnnám

Íslenskt stúdentspróf eða annað sambærilegt próf. Inntökupróf, sem sker úr um hvaða nemendur hefja nám í læknisfræði er haldið í júní ár hvert. Fjöldi þeirra nemenda sem öðlast rétt til náms í læknisfræði við deildina er takmarkaður, nú 60.

Sjáðu um hvað námið snýst

Umsagnir nemenda

Teitur Ari Theodórsson
Þórdís Þorkelsdóttir
Arnar Snær Ágústsson
Thelma Kristinsdóttir
Teitur Ari Theodórsson
BS í læknisfræði

Fyrri þrjú ár námsins eru byggð upp af grunnfögum læknisfræðinnar. Þau veigamestu telja líffærafræði (e. anatomy), lífeðlisfræði, lífefnafræði, lyfjafræði og meinafræði. Skiptist námið þannig að á 1. ári er líffærafræðin fyrirferðarmest, á 2. ári kveður lífeðlis- og lífefnafræðin sér rúms en á 3. ári er tími lyfja- og meinafræðinnar kominn. 
    Bygging námsins er í línulegri röð, þ.e. til þess að öðlast nýja þekkingu þarf sífellt að ryfja upp það sem áður hefur verið lært. Sem gerir það að verkum að þrátt fyrir að náminu sé skipt niður í áfanga hjálpar það nemandanum að byggja upp heildarmynd af virkni og starfsemi líkamans.
Námið er krefjandi en skemmtilegt. Það býður uppá persónuleg tengls við kennara, er vel skipulagt og er aðstaðan til fyrirmyndar. 
    Mér finnst námið hafa undirbúið mig vel undir síðari helming læknisfræðinnar og tekst ég spenntur á við áskoranir klínísku áranna. 
 

Þórdís Þorkelsdóttir
BS í Læknisfræði

Læknisfræði varð fyrir valinu af því mig langaði til að vinna við krefjandi og gefandi starf sem felur í sér að hjálpa öðrum. Auk þess hafði ég mikinn áhuga á mannslíkamanum. Læknavísindin eru í stöðugri þróun og framfarir geta verið mjög örar. Sú staðreynd hafði einnig áhrif á valið því ég vildi tryggja að ég myndi halda áfram að læra og tileinka mér nýja þekkingu út starfsævina.

Nám í læknisfræði er langt, grunnnámið er sex ár og eftir það tekur við sérfræðinám og því verður að gera ráð fyrir að minnsta kosti áratugalangri framhaldsmenntun.
Grunnnámið er tvískipt. Fyrstu þrjú árin eru að miklu leiti bókleg menntun í grunnvísindum, eðlilegri lífefna- og lífeðlisfræði líkamans ásamt því hvað getur farið úrskeiðis. Seinni þrjú árin eru að mestu verkleg kennsla sem fer fram á mismunandi sviðum og deildum Landspítalans. Verklega kennslan fer fram á dagvinnutíma og á nemavöktum sem eru ekki launaðar. Utan þess þarf að finna tíma til að tileinka sér bóklega námsefnið og því er námið óneitanlega mjög tímafrekt og krefjandi en einnig ákaflega skemmtilegt, fjölbreytt og áhugavekjandi. Ásamt því er óumflýjanlegt að eignast mjög góða vini sem munu vonandi endast út ævina.

Arnar Snær Ágústsson
læknanemi

Mig hefur alltaf langað að verða læknir, enda ákvað ég það 7 ára galvaskur pjakkur. Hvers vegna? Jú vegna þess að læknisfræði er gríðarlega mikilvægt starf, krefjandi og snýst fyrst og fremst um að hjálpa fólki. Þannig leggur maður á sig mikla vinnu í að afla sér þekkingar og færni til að takast á við heilsubresti og sjúkdóma fólks. Læknisfræði er krefjandi fag, alls ekki á færi allra, tímafrekt og á tímabilum kemst fátt annað fyrir. Það er þó algerlega þess virði þegar maður finnur að manns daglegu störf skipta máli. Það vantar alltaf góða lækna og eru tækifæri allstaðar, hvar sem er í heiminum. Fjölbreytnin er líka svakaleg; kósý heimilislækningar, klikkaðar hjartaskurðaðgerðir, sjaldgæfir og flóknir sjúkdómar eða yfirgripsmiklar rannsóknir, læknisfræðimenntunin býður upp á allt þetta. Læknisfræðin hefur allt til alls og er algjörlega þess virði.

Thelma Kristinsdóttir
BS í Læknisfræði

Nám í læknisfræði er á sama tíma mjög krefjandi og ótrúlega skemmtilegt. Áfangarnir eru settir upp í lotukerfi svo maður getur einbeitt sér vel að hverju fagi og klárað þau jafnóðum. Námið er oft á tíðum bæði erfitt og tímafrekt og þá eru stuðningur samnemenda og samstaðan innan árganga ómissandi. Árgangarnir eru litlir og allir eru í sömu áföngum svo það myndast mikil bekkjarstemning. Þrátt fyrir að mikill tími fari í námið er félagslífið mjög gott, alltaf nóg að gera og margar nefndir til að sitja í. Ég mæli óhikað með námi í læknisfræði.

Mynd að ofan 
Texti vinstra megin 

Starfsmöguleikar eftir útskrift

BS gráða í læknisfræði veitir ekki sérstök starfsréttindi heldur aðgang að áframhaldandi cand. med. námi í læknisfræði.

Texti hægra megin 

Framhaldsnám

Grunnnám í læknisfræði við HÍ veitir góða undirstöðu fyrir hvert það framhaldsnám sem nemendur óska, hvort sem það er sérhæfing í sérgreinum læknisfræðinnar, vísindarannsóknir eða hvoru tveggja.

Félagslíf

Félag læknanema stendur fyrir öflugu félagslífi fyrir læknanema. Það annast stúdentaskipti í samvinnu við alþjóðleg samtök læknanema, aðstoðar við ráðningar læknanema í margs konar afleysingastörf innan heilbrigðiskerfisins og stendur fyrir kynfræðslu í framhaldsskólum undir yfirskriftinni Ástráður. Félagið Bjargráður hefur það að markmiði að efla skyndihjálparkunnáttu.

Þú gætir líka haft áhuga á:
LæknisfræðiSjúkraþjálfunarfræðiGeislafræði
Lífeindafræði
Þú gætir líka haft áhuga á:
LæknisfræðiSjúkraþjálfunarfræði
GeislafræðiLífeindafræði

Hafðu samband

Skrifstofa Læknadeildar
Læknagarði, 4. hæð
Vatnsmýrarvegi 16, 101 Reykjavík.
Sími: 525 4881   Fax: 525 4884
Netfang: medicine@hi.is

Opið alla virka daga kl. 10-16

Upplýsingar um skrifstofur og starfsfólk