Skip to main content

Læknisfræði

Læknisfræði

Heilbrigðisvísindasvið

Læknisfræði

BS gráða – 180 einingar

BS nám í læknisfræði er fullt nám í þrjú ár og fyrsta skrefið í átt að læknastarfi. Inntökupróf er í námið. 

Kennd er undirstaða í eðlis- og efnafræði, starfsemi mannslíkamans, samskipti við sjúklinga og líkamsskoðun, siðfræði læknisstarfsins, meinafræði og lyfjafræði.

Skipulag náms

X

Klínisk aðferð: Samskiptafræði - Sálarfræði I (LÆK225G)

Á þessu námskeiði er fjallað um grunnþætti heilsusálfræði, kenningar um heilsuhegðun, áhrif viðhorfa, tilfinningar og hegðunar á getu einstaklinga til að sinna eigin heilsu og takast á við heilsutengdar breytingar. Fjallað verður í þessu samhengi um nokkur af helstu viðfangsefnum sálfræðinnar svo sem þroska, sjálfsmynd, persónuleika, bjargráða, streitu og áföll.

Kennsla er í formi fyrirlestra og verklegrar kennslu. Æfingar tengt námsefninu eru unnar samhliða fyrirlestrum ýmist í tímum eða milli tíma. Prófað verður úr námsefninu á verklegu stöðvaprófi þar sem áhersla er lögð á að prófa fræðilega þekkingu samhliða því að meta hve vel gengur að miðla upplýsingum á skiljanlegan hátt í samræmi við góða samskipta hætti.

Námskeiðið er samkennt LÆK226G Klínisk aðferð: Samskiptafræði - læknir/sjúklingur I

Læknanemar munu halda áfram að vinna með þessi viðfangsefni í samskiptafræði og sálfræði á 2 ári og umræðuhópum á 3-6 ári.

X

Klínisk aðferð: Samskiptafræði - Læknir/sjúklingur I (LÆK226G)

Á námskeiðinu verður fjallað um:

 • Að vera læknir
 • Að vera sjúklingur
 • Samskipti og samband læknis og sjúklings skoðuð frá ýmsum sjónarhornum.
 • Mikilvægi þess að hlusta af athygli og nálgast vanda frá sjónarhóli sjúklings.
 • Grunnur siðfræðinnar og sérkenni heilbrigðissiðfræðinnar
 • Dygðug manngerð og gagnrýnin hugsun í samhengi læknisfræðinnar
 • Siðfræðileg gildisviðmið, frumskyldur og siðareglur lækna
 • Fagmennska og góðir starfshættir lækna
 • Lög um þagnarskyldu og réttindi sjúklinga.

Námskeiðið er samkennt LÆK225G Klínísk aðferð: Samskiptafræði - Sálarfræði I

X

Að verða/vera læknir (LÆK123G)

Námskeiðið er á fyrstu tveimur vikum náms í læknisfræði og er ætlað að gefa nemendum innsýn í það starf sem bíður þeirra sem læknanema og lækna.

Námskeiðið er hluti af námskeiðinu LÆK226G Klínisk aðferð: Samskiptafræði - læknir/sjúklingur og kemur námsefni til prófs á stöðvaprófi á vorönn. 

Megináherslur:

Námskeiðinu er ætlað að veita innsýn í uppbyggingu námsins, kynna mikilvægi teymisvinnu, siðfræði, ábyrgðar og fagmennsku ásamt vísindalegra vinnubragða.

Í fyrri vikunni er fjallað um samskipti læknis og sjúklings, siðfræði, ábyrgð og fagmennsku lækna, uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og heilsu lækna. Hlutverk annarra fagaðila verða kynnt og lögð áhersla á mikilvægi samskipta fagaðila sín á milli og við sjúklinga.  Menntun, samþætting vísinda í læknisnáminu og hálfur dagur tileinkaður forvörnum og hvernig þrær eru hluti af daglegu starfi læknis. Hálfur dagur er umræðutímar um atriði er varða lífsgæði , ábyrgð sjúklinga á eigin heilsu, meðferðarheldni og óhefðbundnar lækningar. Félag læknanema kynnir starfsemi félagsins og þá forvarnarhópa sem starfræktir eru á þeirra vegum. 

Síðari vikan er helguð þjálfun í fyrstu viðbrögðum. Nemendur taka RKÍ námskeið um fyrstuhjálp, fá kynningu um móttöku slasaðra og Bjargráðsliðar læknanema skipuleggja kennslu og æfingar í bráðaviðbrögðum. Saga læknisfræðinnar er kynnt og nemendur kynna verkefni því tengt. Í einni af fyrstu vikunum á haustmisseri skipuleggur Heilbrigðisvísindasvið móttöku nýnema.

X

Efnafræði 2 (EFN103G)

Lífræn efnafræði er mikilvægt undirstöðu fag fyrir læknisfræði. Þegar lífefnafræðilegir ferlar sem eiga sér stað í líkama okkar eru skoðaðir, þá erum við í raun oft að skoða misflókin lífrænni efnahvörf. Lífræn efnafræði skiptir einnig miklu máli þegar virkniháttur lyfja er skoðaður og þar getur þrívíddarlögun lyfjanna haft gríðarleg áhrif.

Í þessu námskeiði verður farið yfir grunnatriði lífrænnar efnafræði. Farið verður yfir helstu kennihópa lífrænna efnasambanda, eiginleika þeirra og rúmefnafræði. Sérstök áherlsa verður lögð á efnahvörf lífrænna efna, hvarfganga þeirra og hvernig við getum nýtt efnahvörfin til að smíða önnur lífræn efni. Námsefnið mun byggja á fyrstu 12 köflum námsbókarinnar "Fundamentals of Organic Chemistry" eftir John McMurry.

X

Efnafræði 3 (EFN104G)

Kennt í fimm vikur í upphafi kennsluárs.

Námskeið fyrir nemendur í læknisfræði. Verklegar æfingar í almennri og lífrænni efnafræði: Algeng vinnubrögð á tilraunastofu. Magngreining. Sýru-basa eiginleikar og sýrustigsmælingar. Ákvörðun á jafnvægisfasta efnahvarfs og magngreining á járni í járntöflu með ljósmælingum. Efnasmíði nokkurra lífrænna efna með skiptihvarfi og alkýlun. Greining lífrænna kennihópa með afleiðum og þunnlagsskilju. Stoðfyrirlestrar tengja saman hagnýt atriði verklegu æfinganna og fræðilega undirstöðu þeirra í samræmi við fjölritað vinnuhefti og kennslubækur.

X

Líffærafræði IB (LÆK115G)

Stórsæ líffærafræði útlima og bols.

Í fyrirlestrum og verklegum tímum er farið kerfisbundið yfir sértæka líffærafræði (anatomia systematica), líffærafræði svæða (anatomia topographica), yfirborðsútlit og starfsemi (anatomia functionalis) útlima og bols. Fyrirlestraskrá varðandi námsefni hverrar kennslustundar verður aðgengilegt við upphaf námskeiðs.

X

Læknisfræðileg eðlisfræði (LÆK117G)

Kennsla er í formi fyrirlestra, áfangaprófa og verklegra æfinga. Skylt er að mæta í  verklegar æfingar og umræðutíma. Valdir þættir námsefnisins verða kannaðir með aðferðum vendikennslu.

Efni fyrirlestra: Aflfræði stoðkerfis og vöðva, fjaðurfræði æða og hollíffæra, stýrikerfi í líkamanum, varmafræði mannslíkamans, vökvafræði hjarta og æðakerfisins, rafmagn í mannslíkamanum og áhrif þess á hann, sveim og flæði efna og jóna yfir himnur, geislun og geislavirkni í læknisfræði og áhrif geislunar á mannslíkamann. Myndgerðarhættir og hagnýting þeirra í læknisfræði.

Verklegt: Stuttar æfingar og sýnikennsla úr efni námskeiðsins.  Skipulögð verður valkvæð heimsókn á myndgreiningardeild.

X

Líffærafræði IA - Almenn (LÆK120G)

Almenn líffærafræði (general anatomy) er tekur til byggingar þ.e. gerð og útlits mannslíkamans. Í fyrirlestrum er farið kerfisbundið yfir almenna líffærafræði mannslíkamans, bæði stórsæar og smásæar byggingar frá vefjum um líffæri og líffærakerfi til samþáttunar í fullþroska mannslíkama. Í verklegum tímum er farið í smásæa bygginu grunnvefja líkamans. Ennfremur er vísað til fyrirlestraskrár varðandi námsefnið, sem afhent verður í upphafi námskeiðs.

X

Vísindalæsi (LÆK034G)

Markmið námskeiðsins er að kynna vísindaleg vinnubrögð við heimildaleit, lestur og túlkun á vísindagreinum. Námskeiðið er ætlað læknanemum sem hafa hug á að gera rannsóknir að veigamiklum þætti í námi og starfi og verður skyldunámskeið fyrir þá sem stefna á rannsóknatengt nám samhliða klínísku læknanámi. Efni verður kynnt með fyrirlestrum en mikil áhersla lögð á að fara yfir raunveruleg dæmi í tímunum og þjálfun með heimaverkefnum. Námsmat verður byggt á þátttöku í hópavinnu og verkefnaskilum. Fjögur skipti, 3 klst. í senn.

Leit að upplýsingum
Kynntar verða aðferðir til að framkvæma markvissa leit að upplýsingum meðal birtra vísindagreina innan læknisfræði. Farið verður í skilgreiningu á klínísku vandamáli út frá „PICO“  (Patient, intervention, comparison, outcome) til að leit að vísindagreinum skili sem bestum áringri. Gerð verður grein fyrir helstu gagnagrunnum vísindagreina í læknisfræði. Farið verður í MEDLINE gagnagrunninn, leitarorð (Medical subject Heading, MeSH) PUBMED leitarvélina og MEDLINE leit í gegnum tölfræðiforritið R.  Einnig verða aðrir gagnagrunnar kynntir td. EMBASE, Google Scholar, Uptodate og Cochrane safnið.

Lestur vísindagreina
Kynntar verða  helstu gerðir vísindagreina í læknisfræði, þ. á m. vísindagrein (original scientific paper) sem byggir á eigin niðurstöðum og gögnum, yfirlitsgreinar af mismunandi gerðum, safngreiningar (meta-analysis) og klínískar leiðbeiningar sem að byggja á birtum niðurstöðum. Leiðbeint verður við að nálgast efni í skilvirkan hátt til þess að ná utan um helstu niðurstöður og skilaboð.

Skilningur á vísindagreinum
Farið verður í uppbyggingu vísindagreina í læknisfræði og tekin dæmi af vísindagreinum sem byggja á aðferðum sameindalíffræði annars vegar og faralds- og líftölfræði hins vegar. Farið verður í framsetningu gagna með töflum og myndum og ýmis tæknileg atriði sem eru nauðsynleg til skilnings.

Túlkun á vísindagreinum
Fjallað verður um trúverðugleika og áreiðanleika, almennt og sértækt gildi niðurstaðna frá vísindalegu og læknisfræðilegu sjónarmiði. Kynntar aðferðir gagnreyndrar læknisfræði.

X

Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi - heilbrigðisvísindadagurinn (HVS202G)

Námskeiðið er ætlað nemendum á fyrsta námsári í greinum heilbrigðisvísinda.  Sameiginlegur heilbrigðisvísindadagur nýnema allra deilda á Heilbrigðisvísindasviði í janúar ár hvert. Fjallað er um þverfaglegt samstarf og mikilvægi þess. Farið verður í grundvallarþætti samstarfsins svo sem sameiginlega sýn á réttindi til heilsu, samskipti og siðfræði. Einnig er fjallað um hlutverk og ábyrgð heilbrigðisvísinda.

X

Líffærafræði IA - Fósturfræði (LÆK220G)

Fósturfræði. Kynnt verða grundvallaratriði í fósturfræði: heiti (íslenskt, latneskt, enskt) atburða í fósturþroska, ferli breytinga í fósturþroska og stjórnun þeirra, orsakir og afleiðingar truflaðrar myndunar. Miðlun þessarar þekkingar til fagaðila, sjúklinga og almennings.
Kynntar verða með lestri greina helstu rannsóknir í fósturfræði og hvernig nota má þær til ákvarðanatöku (klíník og stefnumörkun) um greiningu og meðferð vandamála og miðlun þeirra ákvarðana til fagaðila, sjúklinga og almennings.
Í námskeiðinu er farið í fyrirlestrum yfir grundvallaratriði fósturfræði og gerð mannslíkamans skýrð með tilvísun til uppruna hans. Námsefnið kemur frekar fram í fyrirlestraskrá í upphafi námskeiðs.

X

Líffærafræði IIA (LÆK221G)

Taugalíffærafræði og líffærafræði höfuðs og háls. Líffæra- og fósturfræði höfuðs og háls. Í fyrirlestrum er farið yfir fósturfræði, líffærakerfi (anatomia systemica) og svæði (anatomia topographica) höfuðs og háls. Sýnikennsla eftir því sem aðstæður leyfa. Líffæra- og fósturfræði taugakerfis. Í líffærafræði er farið yfir fósturþroska og starfræn kerfi taugakerfis. Í verklegum-/sýnikennslutímum er farið yfir ytri og innri gerð heilans.

X

Frumulíffræði og erfðafræði (LÆK222G)

Frumulíffræði fyrirlestrar (46F): Inngangur; þróun lífsins; frumuhimna: lífefnafræði og frumulíffræði; kjarninn: gen og genastjórn, litni, bygging kjarnans, kjarnahjúpur; frymisnet og Golgi líffæri; bólur og blöðrur; lýsósóm, peroxisóm og hvatberar; stoðkerfi og hreyfiprótein; frumuskipting; frumutengi og millifrumuefni (frumulíffræði og lífefnafræði); boðskipti (inngangur); þroskun og sérhæfing.

Þrjár verklegar æfingar: Einangrun frumna; frumuræktun; smásjárskoðun.

Þrír umræðutímar: Tímaritsgreinar og sjúkratilfelli.

Erfðafræði fyrirlestrar (12F): Farið er yfir viðfangsefni, hugtök og aðferðir í erfðafræði. Fjallað er um gen, samsætur, erfðamengi, litninga, mítósu og meiósu, mendelískar, mítókondríu- og fjölþátta erfðir, erfðatölfræði, tengslagreiningu og genakortlagningu, þróun og þroskunarfræði. Dæmi eru tekin um notkun erfðafræði í læknisfræði. Kynning á upplýsingatækni í erfðafræði og skyldum greinum.

X

Frumulífeðlisfræði (LÆK223G)

Kennsla er í formi fyrirlestra, verklegrar æfingar, umræðufunds og verkprófs. Skylt er að mæta í verklegu æfinguna, skila skýrslu, taka verkprófið og mæta á umræðufundinn.
Efni fyrirlestra: Fjallað verður um lífeðlisfræði frumuhimna, flutningsleiðir yfir himnur, flæði efna, uppbyggingu jónaganga og stjórn þeirra, raflífeðlisfræði frumuhimna, hvíldarspenna, stigspennur, boðspennur, taugamót, myndun og flutning taugaboða innan og milli taugafruma, boðefni og viðtaka, innanfrumuboðefnakerfi, starfsemi rákóttra og sléttra vöðva, rúmmálstjórnun fruma, sýrubasavægi fruma og lífeðlisfræðilegt hlutverk útþekjuvefs.
Ein verkleg æfing: Himnuspennur, boðefni og sléttur vöðvi með tilheyrandi umræðutíma og verkprófi.

X

Líffærafræði IIB (LÆK224G)

Stórsæ líffærafræði (macroanatomia) innri (iðrar) líffæra. Í fyrirlestrum er farið yfir líffærafræði brjósthols-, kviðarhols- og grindarholslíffæra og fósturfræði þeirra kynnt þar sem við á. Einnig er kynnt yfirborðs líffærafræði búks og spangar þar sem bygging búk- og spangar veggjanna er skoðuð sérstaklega. Fyrirlestrar byggja á kliniskum tilfellum þar sem því verður við komið svo auka megi skilning vægi byggingar í klinisku samhengi.

Smásæ líffærafræði er tekur til sértækra byggingarþátta vefja. Smásæa vefjagreðin er skoðuð í smásjá (verklegir tímar) en í fyrirlestrum er lögð áhersla á samþáttun ólíkra vefjagerða í einstökum líffærum og er einkennandi fyrir starf þeirra (histologia functionalis).

Kennsla í LÆK224G byggist á hefðbundnum fyrirlestrum, netfyrirlestrum, umræðutímum og verkefnum auk þess sem í vefjafræðihluta námskeiðsins eru verklegar æfingar í smásjárskoðun. Kennslufyrirkomulag í námskeiðinu er í stöðugri endurskoðun er taka til framfara í kennslu og því er áskilinn réttur til breytinga.

X

Lífeðlisfræði B (LÆK409G)

Kennsla er í formi fyrirlestra, verklegra æfinga, verkprófa, verkefnatíma og lausnarleitarnáms (PBL). Skylt er að mæta í PBL og allar verklegar æfingar, taka verkpróf, skila munnlegum skýrslum og mæta á umræðufundi.
Efni fyrirlestra: Lífeðlisfræði hjarta og blóðrásar: Hjartað sem dæla, rafvirkni hjartans, stjórnun blóðflæðis og blóðþrýstings. Lífeðlisfræði öndunar: Loftun lungna, lungnablóðrás, loftskipti, flutningur lofttegunda, stjórn öndunar og öndunarbilun. Stjórn líkamshita. Stjórn jóna- og vökvavægis: Nýrnastarfsemi, hormónastjórn nýrna, sýrubasavægi. Melting og fæðuinntaka. Hormónakerfið: Undirstúka og heiladingull. Stjórn efnaskipta og vaxtar: Brisið, skjaldkirtill, nýrnahettur, vaxtarhormón. Æxlunarlífeðlisfræði. Viðbrögð við áreynslu.
Verklegar æfingar: (1) Hjartastarfsemi. (2) Nýrnastarfsemi. (3) Áreynslulífeðlisfræði. Og tilheyrandi umræðutímar og verkpróf.
Þematengdir verkefnatímar: Nemendur vinna í 3ja manna hópum verkefni sem tengjast þema tímans, taka stutt krossapróf og skrifa jafningamat. 
Lausnaleit (PBL): Nemendur vinna saman í 6-7 manna hópum með leiðbeinanda að lausn á klínísku tilfelli sem tengist námsefni grunnfaga læknisfræðinnar.

LÆK409G er síðasti hluti námskeiðs um lífeðlisfræði mannslíkamans fyrir læknanema (ásamt LÆK223G og LÆK313G).

X

Lífefna- og sameindalíffræði B (LÆK410G)

Innihald námskeiðs:

Fyrirlestrar: Háorkusambönd, efnaskipti kolvetna, fitu og amínósýra, samhæfing efnaskipta, núkleótíð, plasma prótein og blóðstorka, járn, hem, lifur, næring, hormón.

Verklegar æfingar: Einangrun próteins á gripsúlu, mæling á próteinstyrk, ónæmismæling (ELISA).

Hópumræður: Samhæfing efnaskipta, næring.

PBL: Efnaskipti, næring.

TBL: Valið efni

Lífefna- og sameindalæknisfræði: Dæmi um lífefna- og sameindalíffræði sjúkdóma.

X

Klínisk aðferð: Samskiptafræði - Sálarfræði II (LÆK411G)

Markmið námskeiðsins er að þjálfa færni í grundvallaratriðum (A) hugrænnar atferlismeðferðar og (B) hvatningar samtals og nýtingu þessara aðferða í viðtölum við sjúklinga í almennu starfi læknis.

Meginþættir námskeiðsins eru: 1) Fræðilegan bakgrunn og grundvallarhugtök Hugræna atferlismeðferðar (HAM). 2) Grunn kortlagning vanda sjúklings skv. aðferðum HAM. 3) Hvernig er hægt að nota HAM í viðtali við sjúkling til að hafa áhrif á hugsun og hegðun. 4) Fræðilegur bakgrunnur og grundvallarhugtök hvatningarsamtals. 5) Kortlagning breytingarferlis sjúkling. 6) Hvernig nota má hvatningarsamtal í viðtölum við sjúklinga.

Kennsla er í formi fyrirlestra og verklegrar kennslu. Verklegar samtalsæfingar eru samhliða fyrirlestrum þar sem viðfangsefni námskeiðsins eru æft. Prófað verður úr námsefninu á verklegu stöðvaprófi.

Læknanemar munu halda áfram að vinna með þessi viðfangsefni í umræðuhópum á 3-6 ári.

Námskeiðið er kennt í samvinnu við Klínísk aðferð: Samskipti læknis og sjúklings II (LÆK412G).

X

Klínisk aðferð: Samskiptafræði - Læknir/sjúklingur II (LÆK412G)

Markmið námskeiðs er að þjálfa færni í sjúklingsviðmiðuðum samskiptum læknis og sjúklings. Farið er í uppbyggingu samtals læknis og sjúklings, samskiptafræði, samtalstækni, líkamsskoðun, grunnatriði í sýkingarvörnum, sálfræði og siðfræði og byggir kennslan á þekkingu og hæfnikröfum í LÆK123, LÆK226 og LÆK225.

Kennsla er í formi fyrirlestra með umræðuívafi, umræðutíma og verklegrar kennslu. Verklegar samtalsæfingar eru á haustönn þar sem læknisviðtalið er æft og tekið á sterkum tilfinningum í samskiptum. Farið verður í grunnatriði í ritun og notkun sjúkraskrár. Líkamsskoðun er kennd og æfð í færnibúðum í litlum hópum nemenda undir handleiðslu kennara. Verklegt nám er á heilsugæslustöðvum og á sjúkrahúsi þar sem nemendur fylgjast með störfum læknis og æfa samtöl og líkamsskoðun.

Prófað verður á stöðvaprófi úr atriðum er tengjast færni í samskiptum, líkamsskoðun, notkun sjúkraskrár og umræðu um siðfræðileg álitaefni.

Læknanemar munu halda áfram að vinna með þessi viðfangsefni í umræðuhópum á 3-6 ári.

Námskeiðið er samkennt LÆK411G Klínísk aðferð: Samskiptafræði - Sálfræði II.

X

Ástráður (LÆK416G)

Ástráður kynfræðslufélag læknanema stendur fyrir Ástráðsviku á haustmisseri fyrir 2.árs læknanema. Vikan undirbýr nemendur til að halda fyrirlestra í framhaldsskólum landsins. Farið verður yfir kynheilbrigði, kynlíf, kynhneigðir og fleira sem að því kemur. Kennslan verður í formi fyrirlestra en fyrirlesararnir koma úr öllum áttum. Læknanemar í stjórn Ástráðs skipuleggja Ástráðsvikuna og fleira sem að því kemur.

X

Lífeðlisfræði A (LÆK313G)

Námsefni: Kennsla er í formi fyrirlestra, áfangaprófa, verklegra æfinga, verkprófa, umræðufunda og lausnarleitarnáms (PBL). Skylt er að mæta í PBL og allar verklegar æfingar, taka verkpróf, skila skýrslum og mæta á umræðufundi.
Efni fyrirlestra: Lífeðlisfræði taugakerfisins: Skipulag og boðflutningur í miðtaugakerfinu, sjálfvirka og viljastýrða taugakerfið, mænuviðbrögð og stjórn hreyfinga. Skynjunarlífeðlisfræði: Almenn skynjun, húðskyn, sársauki, sjónskyn, heyrnarskyn, jafnvægi, efnaskyn. Heilastarfsemi: Nám, minni, samskipti, hegðun, tilfinningar, vitundarstig, svefn, dægursveiflur.
Verklegar æfingar: (1) Vöðvar og viðbrögð. (2) Heilastarfsemi.  Og tilheyrandi umræðutímar og verkpróf.
Lausnaleit (PBL): Taugar, vöðvar, bein, prótein, erfðaefni, erfðatækni.
LÆK313G er annað af þremur námskeiðum um lífeðlisfræði mannslíkamans fyrir læknanema (ásamt LÆK223G og LÆK409G).

X

Lífefna- og sameindalíffræði A (LÆK314G)

Viðfangsefni, hugtök og aðferðir í lífefna- og sameindalíffræði. Erfðamengi, erfðaefni og efnaskipti DNA, erfðatækni. RNA, tjáning gena, umritun og þýðing. Prótein, ensím og próteinlyf. Transgenísk tilraunadýr. Lífupplýsingafræði. Sameindalíffræði veira og genalækningar. Frumuhringur, apoptosis og sameindaerfðafræði krabbameins. Sjúkdómalífefnafræði og dæmi um notkun lífefna- og sameindalíffræði í læknisfræði.

Hópumræður: Erfðamengið og efnaskipti DNA; RNA, tjáning og starfsemi RNA og próteina.

Lausnaleit (PBL): Erfðamengið, tjáning gena, starfsemi próteina.

Vefverkefni: Lífupplýsingafræði og notkun hennar með tilliti til sjúkdóma.

Sjúkdómalífefnafræði: Dæmi um lífefna- og sameindalíffræði sjúkdóma.

Verklegar æfingar: Einangrun og greining á DNA úr blóði.

Þátttakendur: Nemendur á 2. ári í læknisfræði.

X

Ónæmisfræði (LÆK415G)

Markmið: Við lok námskeiðsins eiga nemendur að kunna skil á grunnþáttum ónæmiskerfisins og jafnframt hafa öðlast grunnþekkingu á megin rannsóknaraðferðum ónæmisfræðinnar. Ætlast er til að gera nemendur læsa á almennar læknisfræðilegar yfirlitsgreinar um ónæmisfræði, þannig að þeir geti fylgst með þróun greinarinnar og þekkt leiðir til að fyrirbyggja, greina og lækna sjúkdóma. Ætlast er til, að nemendur tileinki sér helstu grundvallaratriði heilbrigðs ónæmiskerfis, ónæmisbilanir, ofnæmi, sjálfsofnæmi og hlutdeild ónæmiskerfisins í tilurð og meingerð sjúkdóma almennt. Einnig verður farið yfir grunnatriði klínískrar ónæmisfræði. Stefnt er að því að nemendur geti skilið orsakasamhengi milli verkana ónæmiskerfisins og vissra sjúkdómsmyndana, sem þeir kynnast betur í síðari hluta klíníska námsins á 4 ári læknisfræðinnar.

X

Sýkla- og veirufræði (LÆK417G)

Námskeiðið tekur til grundvallaratriða varðandi sýkla (bakteríur, veirur, sveppir og sníkjudýr) sem valda sjúkdómum í mönnum. Kennslan er í formi fyrirlestra, verklegra æfinga og umræðutíma/teymisnáms (TBL, team-based learning).

 • Í upphafi námskeiðsins verða fyrirlestrar um almenna sýkla- og veirufræði, þar á meðal flokkun og byggingu sýkla, samspil sýkils og hýsils, meinmyndun (pathogenesis) sýkinga, greiningaraðferðir og greiningarferli á sýkla- og veirufræðideildum.
 • Í kjölfarið verður farið nánar í einstaka meinvalda sem valda sýkingum hjá mönnum með áherslu á smitleiðir, faraldsfræði, sjúkdómsmyndun, klínísk einkenni og fylgikvilla sýkinga, greiningu sýkla á rannsóknarstofu og forvarnir.
 • Að lokum verður farið í grunnatriði klínískrar sýkla- og veirufræði með áherslu á einkennamiðaða nálgun tengt einstökum líffærakerfum og fer sú kennsla m.a. fram sem TBL.
 • Í verklega hluta námskeiðsins fá nemendur þjálfun í notkun einfaldra aðferða við rannsóknir og greiningu algengra sýkingavalda og kennd verða grundavallaratriði við túlkun og mat á rannsóknaniðurstöðum. Nemendum er skipt upp í minni hópa og hver nemandi er samfellt eina viku, eftir hádegi, í verklegum tímum og skilar inn verkefnahefti í lok vikunnar.
 • Mætingarskylda er í verklegar æfingar og teymisnám (TBL).
X

Klínísk aðferð: Samskiptafræði - Læknir/sjúklingur III (LÆK615G)

Í upphafi námskeiðsins eru fyrirlestrar en síðan fer kennslan fram í litlum hópum (4-6 nemendur) með kennara þar sem nemendur fá þjálfun í töku sjúkrasögu og líkamsskoðun. Enn fremur fá nemendur að spreyta sig á skráningu klínískra upplýsinga og kynningu sjúkratilfella.

Þetta námskeið er í endurskoðun.

X

Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum (HVS501M)

Námskeiðið er ætlað nemendum á þriðja námsári eða síðar sem lokið hafa a.m.k. tveimur árum grunnnáms í greinum heilbrigðisvísinda.  Hugmyndafræði þverfræðilegrar samvinnu verður lögð til grundvallar í námskeiðinu þar sem nemendur vinna saman að sameiginlegum markmiðum.  Nemendur munu vinna saman í þverfræðilegum teymum og fá tækifæri til að æfa fagmennsku, teymisvinnu, og efla samskipti. Nemendur í hverjum hóp eru úr nokkrum heilbrigðisvísindagreinum.

Námsmat (staðið/fallið) byggist á  verkefnavinnu, virkni í verkefnavinnu og prófum sem verða á rafrænu formi í kennslulotunni.
 
Kennslutilhögun:
Nemendum er skipt í þverfaglega námshópa í byrjun annar sem síðan skipuleggja fundartíma sínir sjálfir og skila lokaverkefnum fyrir lok október. 

X

Meinafræði (LÆK514G)

A1: Fyrirlestrar: Almenn meinafræði: Frumuskemmdir, frumudauði, frumuaðlögun, útfelling efna, bólga, viðgerð vefja, bjúgur, blæðing, storka, segar, blóðrek, æxli.

A2: Fyrirlestrar: Sérhæfð meinafræði: Hjarta- og æðasjúkdómar, lungnasjúkdómar, sjúkdómar í munni, munnvatnskirtlum og meltingarvegi, taugameinafræði, sjúkdómar í lifur, gallvegum og brisi, sjúkdómar í þvagfærum, sjúkdómar í kynfærum karla, sjúkdómar í kynfærum kvenna, sjúkdómar í brjóstum, sjúkdómar í innkirtlum, blóð- og eitilvefssjúkdómar, sjúkdómar í stoðvefjum, sjúkdómar í húð.

B: Verklegt nám: Meinvefjafræði með sýnikennslu. Verklegar æfingar í smásjárskoðun sjúkra vefja undir leiðsögn kennara. Lýkur með stuttu verklegu prófi í lok námskeiðs.

C: Sýnikennsla: Sýndar eru krufningar, skurðsýni og rætt um ýmis viðfangsefni í meinafræði í því sambandi, samkvæmt nánara samkomulagi kennara og nemenda.

D: Sjúkratilfelli: Í þessum tímum fást læknanemar við sjúkratilfelli sem tengjast námsefni lyfja- og/eða meinafræði. Þessir tímar eru skipulagðir í sameiningu af kennurum í meinafræði og lyfjafræði en með þátttöku klínískra kennara deildarinnar. Í þessum tímum er leitast við að tengja námið í meinafræði og lyfjafræði við klíníska læknisfræði. Læknanemum er skipt upp í hópa. Hver hópur fær í hendurnar sjúkrasögur, sem nemendur glíma við og kynna síðan fyrir samnemendum sínum og kennurum. Leitast skal við að virkja vel samnemendur í salnum að láta þannig nemendur taka þátt í að komast að sjúkdómsgreiningum með því að stinga upp á sjúkdómum sem til greina koma út frá einkennum og koma með tillögur að rannsóknum sem að gagni gætu komið við uppvinnslu sjúklings. Það er mætingarskylda í sjúkratilfellatíma. Tilkynna þarf forföll.

X

Lyfja- og eiturefnafræði (LÆK515G)

Markmið með kennslu í lyfjafræði í læknadeild (líflyfjafræði; medical pharmacology) er að veita læknanemum fræðslu um verkunarmáta helstu lyfja og lyfjaflokka sem notaðir eru við lækningar.

Veigamesti hluti kennslunnar er lyfhrifafræði (pharmacodynamics), er tekur til hinna sérstöku verkana lyfja (lyfhrifa) á tiltekin líffæri eða líffærakerfi (hjartalyf, lyf með verkun á úttaugakerfið o.s.frv.), svo og til verkunarháttar lyfjanna (með hverjum hætti lyfin verka á frumur hlutaðeigandi líffæra eða líffærakerfa eða sýkla, ef um sýklalyf er að ræða).

Önnur aðalgrein líflyfjafræði er lyfjahvarfafræði (pharmacokinetics) sem fjallar um það hvernig lyf komast, eftir gjöf eða töku, inn í líkamann (í blóðbraut), dreifast um hann, skiljast út eða umbreytast í önnur efni, svo og ýmis önnur atriði, sem sameiginleg eru öllum lyfjum eða miklum fjölda lyfja.

Kennsla í eiturefnafræði (toxicology) beinist að því að nemendur kynnist eiturhrifum (sbr. lyfhrif) helstu efna annarra en lyfja, er þeir kunna að hafa afskipti af við læknisstörf eða þurfa að hafa nokkra þekkingu á með öðrum hætti.

Sjúkratilfelli: Í þessum tímum fást læknanemar við sjúkratilfelli sem tengjast námsefni lyfja- og/eða meinafræði. Þessir tímar eru skipulagðir í sameiningu af kennurum í meinafræði og lyfjafræði en með þátttöku klínískra kennara deildarinnar. Í þessum tímum er leitast við að tengja námið í meinafræði og lyfjafræði við klíníska læknisfræði. Læknanemum er skipt upp í hópa. Hver hópur fær í hendurnar sjúkrasögur, sem nemendur glíma við og kynna síðan fyrir samnemendum sínum og kennurum. Leitast skal við að virkja vel samnemendur í salnum að láta þannig nemendur taka þátt í að komast að sjúkdómsgreiningum með því að stinga upp á sjúkdómum sem til greina koma út frá einkennum og koma með tillögur að rannsóknum sem að gagni gætu komið við uppvinnslu sjúklings. Það er mætingarskylda í sjúkratilfellatíma. Tilkynna þarf forföll.

Ábyrgð og umsjón:

Kristín Ólafsdóttir, dósent

Magnús Karl Magnússon, prófessor

Læknadeild, Rannsóknastofa í Lyfja og eiturefnafræði

Haga, Hofsvallagötu 53, 107 Reykjavík

X

Rannsóknarverkefni (LÆK517G)

Markmið námskeiðs er að gefa læknanemum tækifæri til þess að vinna að eigin rannsóknarverkefni undir handleiðslu. Allar tillögur að rannsóknarverkefnum eru yfirfarnar og samþykktar af nefnd um rannsóknanám læknanema (NURL). Nemar tileinka sér vísindaleg vinnubrögð við gagnaöflun/tilraunir, úrvinnslu gagna og túlkun niðurstaðna. Nemendur kynna niðurstöður verkefnisins með fyrirlestri á ráðstefnu og skrifa ritgerð á íslensku um efnið. Sækja má um undanþágu til að skila ritgerð á ensku ef móðurmál nemans er ekki íslenska eða leiðbeinendur lesa ekki íslensku.

X

Rannsóknarverkefni (LÆK601L)

Markmið námskeiðsins er að gefa læknanemum tækifæri til þess að vinna að eigin rannsóknarverkefni undir handleiðslu. Allar tillögur að rannsóknarverkefnum eru yfirfarnar og samþykktar af nefnd um rannsóknanám læknanema (NURL). Nemar tileinka sér vísindaleg vinnubrögð við gagnaöflun/tilraunir, úrvinnslu gagna og túlkun niðurstaðna. Nemendur kynna niðurstöður verkefnisins með fyrirlestri á ráðstefnu og skrifa ritgerð um efnið.

X

Faraldsfræði (LÆK616G, LÆK617G)

Námskeiðið er inngangur að faraldsfræðilegum rannsóknaraðferðum og nálgun orsaka. Námskeiðið gefur yfirlit yfir mælingar á tíðni sjúkdóma, áhættu og afstæðri áhættu, gerðir faraldsfræðilegra rannsókna (íhlutandi rannsóknir, hóprannsóknir, tilfella-viðmiðsrannsóknir). Farið er yfir kerfisbundna skekkjuvalda og aðferðir við að komst hjá þeim á undirbúningsstigi rannsókna og í úrvinnslu gagna. Nemendur fá þjálfun í því að ritrýna faraldsfræðilegar rannsóknir.

X

Líftölfræði (LÆK616G, LÆK617G)

Inngangur að hagnýtri líftölfræði í lýðheilsurannsóknum. Yfirlit er gefið yfir tegundir breyta; flokkabreytur, strjálar og samfelldar talnabreytur. Lýsandi tölfræði; lýsistærðir og myndræn framsetning gagna. Fræðilegar líkindadreifingar; tvíkostadreifing, Poisson dreifing og normaldreifing. Skilgreiningar á slembiúrtaki og þýði. Dreifingar lýsistærða. Notkun á öryggisbilum og tilgátuprófum. Samanburður á meðalgildi hópa (samfelldar mælingar). Tölfræðipróf fyrir tíðnitöflur (flokkabreytur). Einföld og lógistísk aðhvarfsgreining og ROC greining. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og dæmatímum. Í fyrirlestrum og dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R og SAS.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Teitur Ari Theodórsson
Thelma Kristinsdóttir
Þórdís Þorkelsdóttir
Teitur Ari Theodórsson
Læknisfræði

Fyrri þrjú ár námsins eru byggð upp af grunnfögum læknisfræðinnar. Þau veigamestu telja líffærafræði (e. anatomy), lífeðlisfræði, lífefnafræði, lyfjafræði og meinafræði. Skiptist námið þannig að á 1. ári er líffærafræðin fyrirferðarmest, á 2. ári kveður lífeðlis- og lífefnafræðin sér rúms en á 3. ári er tími lyfja- og meinafræðinnar kominn. Bygging námsins er í línulegri röð, þ.e. til þess að öðlast nýja þekkingu þarf sífellt að ryfja upp það sem áður hefur verið lært. Sem gerir það að verkum að þrátt fyrir að náminu sé skipt niður í áfanga hjálpar það nemandanum að byggja upp heildarmynd af virkni og starfsemi líkamans.

Thelma Kristinsdóttir
Læknisfræði

Nám í læknisfræði er á sama tíma mjög krefjandi og ótrúlega skemmtilegt. Áfangarnir eru settir upp í lotukerfi svo maður getur einbeitt sér vel að hverju fagi og klárað þau jafnóðum. Námið er oft á tíðum bæði erfitt og tímafrekt og þá eru stuðningur samnemenda og samstaðan innan árganga ómissandi. Árgangarnir eru litlir og allir eru í sömu áföngum svo það myndast mikil bekkjarstemning. Þrátt fyrir að mikill tími fari í námið er félagslífið mjög gott, alltaf nóg að gera og margar nefndir til að sitja í. Ég mæli óhikað með námi í læknisfræði.

Þórdís Þorkelsdóttir
Læknisfræði

Nám í læknisfræði er langt, grunnnámið er sex ár og eftir það tekur við sérfræðinám og því verður að gera ráð fyrir að minnsta kosti áratugalangri framhaldsmenntun. Grunnnámið er tvískipt. Fyrstu þrjú árin eru að miklu leiti bókleg menntun í grunnvísindum, eðlilegri lífefna- og lífeðlisfræði líkamans ásamt því hvað getur farið úrskeiðis. Seinni þrjú árin eru að mestu verkleg kennsla sem fer fram á mismunandi sviðum og deildum Landspítalans. Verklega kennslan fer fram á dagvinnutíma og á nemavöktum sem eru ekki launaðar. Utan þess þarf að finna tíma til að tileinka sér bóklega námsefnið og því er námið óneitanlega mjög tímafrekt og krefjandi en einnig ákaflega skemmtilegt, fjölbreytt og áhugavekjandi. Ásamt því er óumflýjanlegt að eignast mjög góða vini sem munu vonandi endast út ævina.

Hafðu samband

Skrifstofa Læknadeildar
Læknagarði, 4. hæð
Vatnsmýrarvegi 16, 101 Reykjavík.
Sími: 525 4881 Fax: 525 4884
Netfang: medicine@hi.is

Opið alla virka daga 10:00-16:00

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.