Íþrótta- og heilsufræði
Íþrótta- og heilsufræði
BS gráða – 180 einingar
BS nám í íþrótta-og heilsufræði er fjölbreytt og krefjandi, fræðilegt og verklegt nám þar sem nemendur öðlast þekkingu og færni til að miðla henni í kennslu, þjálfun, stjórnun og rannsóknum. Fjölbreyttir starfsmöguleikar bíða íþrótta-og heilsufræðinga að námi loknu á sviði skólakennslu, þjálfunar og leiðtogastarfa innan íþróttahreyfingarinnar, kennslu á heilsuræktarstöðvum og við þjálfun almennings.
Skipulag náms
- Haust
- Vinnulag í háskólanámi
- Inngangur að íþrótta- og heilsufræði
- Sundtækni og björgun
- Frjálsíþróttir barna og unglinga
- Lífeðlisfræði
- Líffærafræði
- Vor
- Sundkennsla og skyndihjálp
- Hagnýtar kennsluaðferðir kennara og þjálfara
- Næring og orkujafnvægi
- Fimleikar barna og unglinga
- Þjálfunarlífeðlisfræði og mælingar
Vinnulag í háskólanámi (HÍT101G)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum grundvallarfærni í fræðilegum vinnubrögðum. Kynnt verða meginatriði í skipulagi og frágangi verkefna og ritgerða. Áhersla verður lögð á að þjálfa nemendur í að skrifa fræðilegan texta á góðri íslensku. Nemendur öðlast þjálfun í að finna heimildir í gegnum leitarvélar, nota og skrá heimildir á réttan hátt.
Námsmat byggist á vikulegum verkefnaskilum og stuttri fræðilegri greinargerð sem skilað er í lok námskeiðs.
Inngangur að íþrótta- og heilsufræði (ÍÞH111G)
Námskeiðið miðar að því að kynna fyrir nemendum fyrir þeim margvíslegu viðfangsefnum sem þeir munu takast á við í námi sínu í Íþrótta- og heilsufræði. Nemendur læra að vinna með fræðilegan texta og lesa úr rannsóknarniðurstöðum bæði á íslensku og erlendum tungumálum. Nemendur kynnast þeim tækjum og áhöldum sem þeir munu vinna með í íþróttahúsi og í líkamsræktarstöð. Einnig læra nemendur að aflað sér þekkingar um leiki, útkennslu og kennslufræði sem liggur þar að baki. Nemendur munu framkvæma og æfa sig í mismunandi kennsluaðferðum og læra að framkvæma einföld líkamleg afkastagetu próf. Stórt verkefni í áfanganum miðast að því að nemendur vinna með mælingar á hjartslætti til að finna og mæla ákefð við mismunandi vinnu.
Sundtækni og björgun (ÍÞH115G)
Markmið námskeiðsins er:
Að auka hæfni nemenda við að kenna öðrum sund, sérstaklega grunnskólabörnum en einnig öðrum aldurshópum. Með aukinni tæknikunnáttu og þjálfun myndast meiri leikni og hæfni við sundkennsluna. Þá er ætlast til að nemendur læri skyndihjálp og björgun úr vatni og geti miðlað þekkingu sinni til annarra.
Unnið verður að mestu með eftirfarandi meginefni:
- aðlögun að vatninu
- kennsla á öllum sundaðferðum
- skyndihjálp, að bregðast við algengustu slysum, sem þó aðallega tengjast vatni
- björgun úr vatni með þeim tækjum og tólum sem nýtileg eru til slíks
Viðfangsefni:
- Námskeiðið er mikið verklegt en byggir á fræðilegum grunni sem kynntur er í fyrirlestrum.
- Nemendur læra meðfram tækniþjálfuninni
- Námskeiðið þjálfar nemendur í að bjarga úr vatni og einnig að bregðast við öðrum slysum og sjúkdómum sem geta komið upp í kennarastarfinu við sundkennslu.
Vinnulag:
Fyrirlestrar, verklegar æfingar, umræður, hópvinna, leiðsögn, verkefnavinna.
Námsefni:
- Skólasund-kennarahandbók
- Ties - Technological innovation in educating swimmers (vef efni)
- Skyndihjálp og endurlífgun (2012)
- Aðrir vefmiðlar og greinar frá kennara
Frjálsíþróttir barna og unglinga (ÍÞH113G)
Viðfangsefni námskeiðsins eru flestar greinar frjálsíþrótta, köst, stökk og hlaup sem og Krakkafrjálsar. Áhersla er lögð á kennslufræðilega uppbyggingu greinanna, tækni hverra greinar og helstu keppnisreglur. Námskeiðið er byggt upp á fræðilegum og verklegum tímum. Nemendur fá þjálfun í mótahaldi í frjálsíþróttum.
Lífeðlisfræði (ÍÞH108G)
Í námskeiðinu er farið yfir starfsemi líkamans og mismunandi líffærakerfa. Helstu efnisþættir eru eftirfarandi: Uppbygging, innihald og starfsemi fruma, flutningur um frumuhimnu, samskipti fruma og stjórn þeirra. Myndun samvægis. Efnaskipti og framleiðsla ATP. Hormón og innkirtlakerfið, mismunandi gerðir hormóna og hlutverk þeirra, stjórn hormónaseytingar. Taugakerfið og uppbygging þess, taugafrumur og myndun taugaboða. Viljastýrða taugakerfið, sjálfvirka taugakerfið, drifkerfið og sefkerfið. Skynjun, heyrn, sjón og jafnvægi. Uppbygging vöðvavefs og mismunandi vöðvafruma líkamans, virkni vöðvafruma í samdrætti. Samspil tauga- og vöðvakerfis. Uppbygging og starfsemi hjarta- og æðakerfisins, blóðvefs, hringrásir æðakerfisins, blóðþrýstingur og blóðþrýstingsstjórnun. Lungnakerfið, uppbygging, loftrýmdir og starfsemi lungna. Lungnaflæði og loftskipti lungna, blóðs og vefja. Starfsemi og uppbygging nýra, stjórnun vatns- og saltvægis og útskilnaður. Undirstöðulögmál vökva- og jónajafnvægis og sýru- og basa jafnvægis.
Vinnulag: Fyrirlestrar, hlutapróf og verkefni.
Líffærafræði (ÍÞH109G)
Nemendur eiga að hafa öðlast almennan skilning og innsæi í eftirfarandi viðfangsefni:
- Vöðvar, mismunandi tegundir þeirra og uppbygging. Staðsetning vöðva s.s. upptök, festu og starf einstaka vöðva og vöðvahópa, starfsemi og stjórnun vöðva í hreyfingu.
- Uppbygging beinagrindarinnar og bein, mismunandi tegundir liðamóta, einstök bein, liðfletir, bönd og gerð þessara líffæra, hlutverk, staðsetning og festustaðir.
- Skilningur og yfirlit yfir uppbyggingu mannslíkamans í hreyfingu í íþróttum og í styrktarþjálfun.
Sundkennsla og skyndihjálp (ÍÞH212G)
Markmið námskeiðsins er að auka hæfni nemenda við að kenna öðrum sund, sérstaklega grunnskólabörnum en einnig öðrum aldurshópum. Mikil áhersla verður á undirbúning nemenda að takast á við sundkennslu fyrir grunnskóla. Byggt verður ofan á fyrra námskeið, þar sem unnið var með tæknikunnáttu og þjálfun sem skilar sér síðan í meiri leikni og hæfni við sundkennsluna. þá munu nemendur læra skyndihjálp og rifja upp björgun úr vatni frá fyrra námskeiði. Ef nemendur stenst þetta námskeið ásamt fyrra námskeiði (Sundtækni og björgun) fær hann skyndihjálparskírteini frá Rauða kross Íslands og hæfnispróf sundstaða.
Unnið verður að mestu með eftirfarandi meginefni:
- Kennslufræðileg nálgun við þekktar stefnur í kennslu,
- Framkvæmd áætlanagerðar við sundkennslu
- Þjálfun í kennslu
- Skyndihjálp, að bregðast við algengustu slysum, sem þó aðallega tengjast íþróttum.
Viðfangsefni:
- Námskeiðið er mikið verklegt en byggir á fræðilegum grunni sem kynntur er í fyrirlestrum.
- Verklegar æfingar sem þjálfa við kennslu
- Námskeiðið þjálfar nemendur í að bregðast við slysum og sjúkdómum sem geta komið upp í kennarastarfinu s.s. við sundkennslu.
Vinnulag:
Fyrirlestrar, verklegar æfingar, umræður, hópvinna, leiðsögn, verkefnavinna.
Námsefni:
Skólasund-kennarahandbók
Ties - Technological innovation in educating swimmers (vef efni)
Skyndihjálp og endurlífgun (2012)
Aðrir vefmiðlar og greinar frá kennara
Hagnýtar kennsluaðferðir kennara og þjálfara (ÍÞH213G)
Í námskeiðinu verður fjallað um grundvallaratriði árangursríkra kennsluaðferða í íþróttakennslu og þjálfun. Farið verður yfir hlutverk og skyldur íþróttakennarans/þjálfarans og kröfur sem námskrár gera til íþróttafræðingsins. Kynntar verða aðferðir í áætlanagerð í íþróttakennslu og lögð áhersla á hagnýtar kennslufræðilegar aðferðir við kennslu og þjálfun íþrótta. Fjallað verður um fagvitund, námsumhverfi, raddbeitingu, virkni, aga og hvatningaaðferðir. Verklegar kennsluæfingar.
ATH. Þar sem ýmsum verkefnum er sinnt í tímum og hluti námskeiðsins er verkleg kennsla sem krefst þátttöku nemenda er mætingarskylda.
Næring og orkujafnvægi (HÍT201G)
Farið verður í grundvallaratriði og hugtök næringarfræðinnar, hlutverk og gildi næringarefna, meltingu, frásog og flutning. Sérstök áhersla er lögð á orkuefnin og orkuefnaskiptin, en einnig er fjallað um valin vítamín, steinefni og önnur næringarefni að því marki sem þau eru tekin fyrir í almennum ráðleggingum um mataræði.
Námskeiðið byggir á fyrirlestrum og verkefnavinnu, þar á meðal athugun á eigin mataræði. Þannig má auka skilning á viðfangsefninu og tengja það daglegu lífi og neysluháttum.
ATH. Námskeiðin HÍT201 Næring og orkujafnvægi 5e og HÍT401 Næring og heilsa 5e koma í stað námskeiðsins ÍÞH503G Næring heilsa og þjálfun 10e. Þeir nemendur sem hafa lokið því þurfa ekki að taka 5e námskeiðin.
Fimleikar barna og unglinga (ÍÞH215G)
Á námskeiðinu er farið í grunnatriði við fimleikakennslu barna og unglinga. Helstu áhersluatriði námskeiðsins eru vinna með tækni, styrk, liðleika og móttöku. Áhersla er lögð á einfaldar grunn-fimleikaæfingar og æfingar með eigin líkama, ýmsar æfingar á einföldum áhöldum og kennslufræðilegri uppbyggingu tímaseðla fyrir börn í grunnskóla. Námskeiðið er að stærstum hluta byggt upp á verklegum æfingum þar sem nemendur reyna eigin færni og leiðbeina öðrum í kennslu en þannig er stefnt að því að nemandi öðlist dýpri skilning á kennslunni og hlutverki kennarans. Lögð er áhersla á sjálfstæði, sköpun og virkni í tímum.
Þjálfunarlífeðlisfræði og mælingar (ÍÞH210G)
Markmið
Að auka þekkingu nemenda á grundvallarlögmálum þjálfunarlífeðlisfræði og mat á kerfum líkamans m.t.t. getu í íþróttum. Sérstök áhersla verður lög á að tengja lífeðlisfræðina íþróttaiðkun og þeim breytingum sem verða á líkamsstarfseminni við þjálfun. Að auka skilning nemenda á viðbrögðum líkamans við áreynslu með verklegum æfingum. Að nemendur kunni skil á meginatriðum eftirfarandi viðfangsefna:
- Uppbyggingu og starfsemi vöðva-, tauga-, efnaskipta-, hormóna-, hjarta-, æða- og önudarkerfisins
- Aðlögun ofantaldra kerfa að þjálfun
- Almennum lögmálum þjálfunar
- Stjórnun líkamshita og vatnsbúskaparins
- Viðbrögðum og aðlögunarhæfni líkamans í mikilli lofthæð
- Líkamssamsetningu
- Kynjamun
Viðfangsefni
Uppbygging fruma með áherslu á vöðva- og taugafrumur. Flutningur taugaboða og vöðvasamdráttur. Efnaskiptaferli og myndun ATP (orku) við mismunandi álag. Seyti hormóna í hvíld og á æfingum, og stjórnun og áhrif slíks seytis. Uppbygging og starfsemi súrefnisflutningskerfisins (hjarta- æða- og öndunarkerfin). Stjórnun hjartsláttar og öndunar. Samsetning blóðs og stjórnun blóðflæðis við mismunandi álag. Aðlaganir vöðva-, tauga-, efnaskipta-, hormóna-, hjarta-, æða- og öndunarkerfis að þjálfun og þættir sem hafa áhrif á slíka aðlögun. Einnig fjallað um hvernig slíkar aðlaganir bæta íþróttagetu fólks t.d. þolgetu. Almenn lögmál þjálfunar og uppbygging hennar. Ofþjálfun og áhrif hennar. Stjórnun líkamshita og hvernig líkaminn aðlagast miklum hita eða kulda. Æfingar/þjálfun og vera í mikilli lofthæð, og hvernig líkaminn bregst við slíku umhverfi og æfingum í því (t.d. æfingum í háfjallalofti). Samsetning líkamans og hvernig er hægt að mæla líkamssamsetningu. Áhrif hennar á getu í íþróttum og hvernig er hægt að ná kjörþyngd. Breytingar á líkamanum við öldurn s.s. í styrk, þoli, og líkamssamsetningu. Kynjamunur í viðbrögum líkamans við æfingum og þjálfun og í stærð og líkamssamsetningu. Kynjamunur á getu í íþróttum. Ólétta og þjálfun. Ýmis próf til að meta íþróttagetu.
- Haust
- Útikennsla, útinám og heilsa
- Lífshlaupið: Hugsun, hreyfifærni og félagstengsl
- Knattspyrna og blak
- Starfræn líffærafræði
- Vor
- Kennslufræði íþrótta í grunnskóla
- Vettvangsnám í grunnskóla
- Styrktarþjálfun
- Handknattleikur og körfuknattleikur
- Lífaflfræði
Útikennsla, útinám og heilsa (ÍÞH325G)
Viðfangsefni
Fjallað er um hvernig hægt er að færa bóklega kennslu út úr skólabyggingunni og auka m.a. hreyfingu nemenda í skólastarfi. Áhersla er lögð á mikilvægi útiveru fyrir fólk og tengsl þess við náttúru og sitt nærumhverfi. Nememdur fara í útinámsleiðangra, kynnast útikennslu í verki með heimsókn á vettvang og þátttöku í örnámskeiðum og almennri fræðslu. Nemendur skipuleggja útinám og fylgja skipulaginu eftir með verklegri kennslu.
Lífshlaupið: Hugsun, hreyfifærni og félagstengsl (HÍT001G)
Fjallað er um lífshlaup mannsins og þær breytingar sem verða á hugsun, hreyfifærni og félagstengslum. Helstu kenningum á þessu sviði verður gerð skil, þ.m.t. um erfðir, atlæti, tilfinningar, sjálfsmynd og siðferði.
Farið er yfir hvert þroskaskeið með hliðsjón af líkams-, vitsmuna-, félags- og tilfinningaþroska, og umfjöllunin tengd starfsvettvangi deildarinnar. Þar sem nemendur munu starfa við fjölbreyttar aðstæður í framtíðinni verður lögð áhersla á umfjöllun um áhrif erfða, uppeldis, félagslegra aðstæðna, lífsstíls og menntunar á þroska einstaklingsins.
Fjallað verður um leiðir til að fá einstaklinga til að breyta hegðun sinni og viðhorfum í átt að auknu andlegu og líkamlegu heilbrigði.
Knattspyrna og blak (ÍÞH320G)
Námskeiðinu er ætlað kynna og fræða nemendur um íþróttagreinarnar knattspyrnu og blak. Áhersla er lögð að nemendur séu meðvitaðir um kennsluaðferðir og kennslufræðileg atriði sem eru mikilvægi í miðlun þessara íþróttagreina í grunnskólum. Farið verður yfir alla helstu þætti hverjum knattleik fyrir sig, þ.e. leikreglur, einstaklingstækni og aðeins í leikskipulag. Námskeiðinu er einnig ætlað að auka verklega og fræðilega kunnáttu nemendanna í þessum íþróttagreinum og eru nemendur hvattir til að æfa og efla getu sína í frjálsum tímum utan hefðbundins skólatíma.
Kennsla fer að mestu fram í verklegum tímum í íþróttahúsi, lögð er áhersla á að nemendur sýni sjálfstæði og taki virkan þátt í kennslunni. Nemendur þurfa að vinna hópverkefni, kenna tímaseðla og meta og ræða kennslufræðileg atriði varðandi skipulag og uppbyggingu á kennslu fyrir börn og unglinga í þessum knattleikjum.
Starfræn líffærafræði (ÍÞH321G)
Námskeiðið er byggt upp á fræðilegum fyrirlestrum, verkefnum, umræðutímum og verklegum tímum.
Markmið námskeiðisins er að auka og dýpka skilning nemenda á því flókna samspili sem vöðvar, bein og taugar mynda við hreyfingu líkamans.
Kennari verður með fræðilega innlögn sem nemendur vinna svo með ýmist í umræðutímum, verkefnum eða verklegum tímum sem flest koma inni í námsmat.
Hagnýt hæfni námskeiðs snýr m.a. að því að nemandi geti á vettvangi metið og leiðbeint fólki í íþróttum og hreyfingu almennt með hagkvæmni og öryggi hreyfing að leiðarljósi
Einfaldar hreyfingar líkamans, hagkvæmni hreyfinga og líkamsbeiting verða megin viðfangsefni ágangans.
Kennslufræði íþrótta í grunnskóla (ÍÞH414G)
Námskeiðið Kennslufræði íþrótta í grunnskóla, skal taka samhliða námskeiðinu ÍÞH413G, Vettvangsnám í grunnskóla.
Markmiðið námskeiðs er að nemandi:
- Þekki markmið, hugmyndafræði og áherslur í íþróttakennslu á grunnskólastigi.
- Fái innsýn í og undirbúi vettvangsnámið í íþróttum.
- Fái innsýn í aðalnámskrá grunnskóla; almennan hluta og greinasvið um skólaíþróttir.
- Þekki uppbyggingu hæfniviðmiða í námskrá.
- Öðlist skilning og færni í að setja fram markmið með hliðsjón af aðalnámskrá og skólanámskrá.
Vettvangsnám í grunnskóla (ÍÞH413G)
Námskeiðið Vettvangsnám í grunnskóla skal taka samhliða námskeiðinu ÍÞH414G, Kennslufræði íþrótta í grunnskóla.
Meginviðfangsefni námskeiðsins er vettvangsnám á sviði íþróttakennslu í grunnskóla. Nemandinn kynnist af eigin raun íþróttakennslu í grunnskóla á starfsvettvangi með áherslu á verklega kennslu íþrótta, líkams- og heilsuræktar undir leiðsögn vettvangskennara.
Styrktarþjálfun (ÍÞH324G)
Markmið
Að auka þekkingu nemenda á grundvallarþáttum styrktarþjálfunar. Að nemendur kunni skil á helstu hugtökum og skilgreiningum í styrktarþjálfun. Að nemendur hafi skilning á hvaða lífeðlisfræðilegar breytingar verða á vöðvum og eins hvaða áhrif styrktarþjálfun hefur á heilsu og velferð til lengri og styttri tíma. Nemendur eiga að kunna skil á:
- helstu þjálfunaraðferðum við styrktarþjálfun
- gerð styrktrþjálfunaráætlunar fyrir ólíka hópa
- styrktarþjálfun fyrir börn, unglinga og fullorðna
- styrktarþjálfun fyrir keppnis- og afreksfólk
- samspili styrktar- og þolþjálfunar
- æskilegri næringu tengda styrktarþjálfun
- styrktaræfingum fyrir ólíka vöðvahópa
- ýmsum tegundum styrktarþjálfunar og styrktaræfingum þar sem unnið er með lóðum, í tækjum og eigin þyngd
- áhrifum styrktarþjálfunar á heilsu mismundandi aldurshópa
Form kennslu: Námskeiðið er bæði verklegt og fræðilegt. Fyrirlestrar, verkefni, lestur fræðigreina, verklegar æfingar og þjálfun á vettvangi.
Handknattleikur og körfuknattleikur (ÍÞH412G)
Áhersla er lögð að nemendur séu meðvitaðir um kennsluaðferðir og kennslufræðileg atriði sem eru mikilvægi í miðlun þessara íþróttagreina í grunnskólum. Farið verður yfir alla helstu þætti í hverjum knattleik fyrir sig, þ.e. leikreglur, einstaklingstækni og leikskipulag. Námskeiðinu er einnig ætlað að auka verklega og fræðilega kunnáttu nemendanna í þessum íþróttagreinum og eru nemendur hvattir til að æfa og efla getu sína í frjálsum tímum utan hefðbundins skólatíma.
Kennsla fer að mestu fram í verklegum tímum í íþróttahúsi, lögð er áhersla á að nemendur sýni sjálfstæði og taki virkan þátt í kennslunni. Nemendur vinna hópverkefni, kenna tímaseðla og meta og ræða kennslufræðileg atriði varðandi skipulag og uppbyggingu á kennslu fyrir börn og unglinga.
Lífaflfræði (ÍÞH410G)
Lífaflfræði íþrótta og þjálfunar. Farið verður í grunnatriði aflfræði, eðlisfræði og útreikninga á þáttum lífaflfræði sem skipta máli til að dýpka skilning og auka þekkingu í íþrótta-og þjálffræði. Fjallað um krafta sem verka á líkamann við þjálfun og hreyfingu almennt. Skoðað verður hvernig kraftar flytjast á milli, verka saman eða á móti hvor öðrum í vinnu við ýmsar hreyfingar. Í áfanganum verða auk þess teknir fyrir ýmsir helstu þættir sem koma fyrir í algengum hreyfingum og þessir þættir brotnir niður í einingar og greint frá atriðum sem geta hjálpað við að greina frávik í hreyfingum.
Viðfangsefni námskeiðsins eru:
- Eðlisfræðilegir þættir: Kraftur, vinna, orka, afl, aflfræði, hraði, hröðun, massi, tregða, þyngd, kraftvægi, hverfihreyfingar, línulegar hreyfingar, flæði, viðnám, vogararmar, kraftarmar, formúlur og útreikningar.
- Lífeðlisfræðilegir þættir: Lífaflfræðileg atriði í uppbyggingu vefja og líffæra (bein, vöðvar, sinar, liðbönd, brjósk o.fl.), spenna, bjögun og eiginleikar efna sem byggja upp vefi.
- Hreyfingafræðilegir þættir: Skilgreining á hreyfingum í plönum og um ása. Samtenging á lífaflfræðilegum og lífeðlisfræðilegum þáttum til útskýringa á hreyfingum mannslíkamans.
- Haust
- Íþróttakennsla í margbreytilegum hópi og sérhæfð þjálfun
- Aðferðafræði rannsókna í heilsueflingu, íþrótta- og tómstundafræði
- Vor
- Kennslufræði íþrótta í framhaldsskóla
- Vettvangsnám í framhaldsskóla
- Íþróttir og samfélag
- Næring og heilsa
- Þjálffræði íþrótta
Íþróttakennsla í margbreytilegum hópi og sérhæfð þjálfun (ÍÞH516G)
Í námskeiðinu er fjallað um ólíkar þarfir nemenda í skólaíþróttum og hvernig hægt er að mæta þeim. Byggt verður á þeirri þekkingu sem nemendur hafa þegar öðlast um hreyfingu og íþróttakennslu. Nemendur kynnast fjölbreyttum leiðum og aðferðum til að aðlaga æfingar og leiki að þörfum ólíkra einstaklinga í margbreytilegum hópi. Áhersla er lögð á að mæta hverjum nemanda á hans forsendum og hvetja til hreyfingar og íþróttaiðkunnar.
Einnig verður farið í vettvangsheimsóknir og fylgst með þjálfun fatlaðra íþróttaiðkenda sem stefna langt í sínum greinum. Þar verða kynntar ýmsar leiðir og aðferðir í sérhæfðri þjálfun.
Aðferðafræði rannsókna í heilsueflingu, íþrótta- og tómstundafræði (HÍT501G)
Í þessu námskeiði er fjallað um aðferðafræði rannsókna. Fjallað er um hvernig framkvæma á rannsóknir með eigindlegum og megindlegum rannsóknaraðferðum og farið er yfir siðfræði rannsókna.
Fjallað er um helstu rannsóknaraðferðir og rannsóknarferlið kynnt. Nemendur rýna í rannsóknir á sínu fræðisviði í því skyni að auka hæfni þeirra til að nýta sér niðurstöður rannsókna og tileinka sér gagnrýnið hugarfar. Áhersla er á ólík rannsóknarsnið, úrtaksaðferðir, áreiðanleika og réttmæti rannsóknarniðurstaðna.
Í eigindlega hluta námskeiðsins er fjallað um öflun, skráningu, flokkun og túlkun eigindlegra gagna og nemendur vinna verkefni í tengslum við það. Í megindlega hluta námskeiðsins verður fjallað um breytur, áhersla lögð á lýsandi tölfræði þar með talið framsetningu niðurstaðna í texta, töflum og myndum og nemendur vinna verkefni í samræmi við það.
Kennslufræði íþrótta í framhaldsskóla (ÍÞH609G)
Markmiðið námskeiðs er að nemandi:
- Fái innsýn í hugmyndafræði og uppbyggingu aðalanámskrár íþróttakennslu í framhaldsskóla.
- Afli sér þekkingar á aðalnámskrá í íþróttum – líkams- og heilsurækt í framhaldsskólum.
- Afli sér þekkingar á starfsnámi á íþróttabrautum framhaldsskóla.
- Hafi þekkingu á mismunandi kennsluaðferðum sem beita má í til að ná settum markmiðum aðalnámskrár.
- Geti lýst skipan náms og helstu áherslum og markmiðum í íþróttakennslu á framhaldsskólastigi.
- Fái þjálfun í að skipuleggja nám í einum áfanga íþrótta, bæði yfir heila önn og einstakar kennslustundir.
- Fari í vettvangsheimsókn og fái innsýn í starf íþróttakennara í framhaldsskólum.
Viðfangsefni
Námskeið þetta byggir ofan á námskeiðið Hagnýtar kennsluaðferðir auk þess sem það hefur skírskotun til flestra annarra námskeiða á íþrótta- og heilsubraut. Námskeiðið er nátengt námskeiðinu ÍÞH608G semskal tekið samhliða þessu námskeiði. Námskeiðið er sérstaklega ætlað fyrir verðandi íþróttakennara í framhaldsskólum. Markmið námskeiðs er að veita nemendum innsýn í hugmyndafræði og uppbyggingu aðalnámskrár í íþróttakennslu framhaldsskóla og almenna umfjöllun um íþróttir í framhaldsskólanámi. Jafnframt er markmiðið að fræða nemendur um nám og kennslu íþrótta á framhalsskólastigi, skipan námsins og skiptingu þess í áfanga og áfangamarkmið. Fjallað er einnig um námsmat í íþróttum og skipulag námsins þar sem nemendur fá tækifæri til að skipuleggja íþróttakennslu til lengri og skemmri tíma út frá markmiðum aðalnámskrár og skólanámskrár. Áhersla er lögð á tengingu við starfsvettvang með áherslu á verklega kennslu íþrótta – líkams- og heilsuræktar
Vinnulag
Í námskeiðinu er fjallað annars vegar um fræðilega og verklega kennslu íþrótta – líkams- og heilsuræktar og hins vegar um starfsnám í íþróttafræði og íþróttagreinum. Fjallað er um lokamarkmið íþrótta – líkams- og heilsuræktar annars vegar og hins vegar fyrir starfsnám í íþróttafræði og íþróttagreinum. Fjallað er um mismunandi aðferðir við kennslu og þjálfun þar sem meðal annars er komið inn á viðhorf og viðhorfsbreytingar við að ná settum markmiðum aðalnámskrár. Viðfangsefni námskeiðs er tengt stefnumótandi atriðum alþjóðlegra heilbrigðisstofnana og Lýðheilsustöðvar og fjallað um mismunandi kennsluaðferðir til að ná fram settum markmiðum. Leitast verður við að tengja þessar stefnumótandi kröfur við verklegar framkvæmdir og þjálfun unglinga á framhaldsskólastigi með það að markmiði að þeir verði færir um að skipuleggja eigin þjálfun og fylgja henni. Komið verður inn á mismunandi starfsumhverfi skóla hér á landi og nemendur undirbúnir til að taka þátt í nokkurra vikna vettvangsnámi.
Vettvangsnám í framhaldsskóla (ÍÞH608G)
Markmiðið námskeiðsins er að nemandi:
- kynnist starfi íþróttakennara á vettvangi framhaldsskóla,
- taki að sér almenna íþróttakennslu í framhaldsskóla undir leiðsögn íþróttakennara og/eða íþróttafræðings
- skipuleggi nokkurra vikna íþróttakennslu og stjórni henni í samvinnu við vettvangskennara.
- skipuleggi kennslu í einstökum áfögnum yfir lengri tíma
- skipuleggi og kenni einstakar kennslustundir í viðkomandi áfanga
- fái tækifæri til að taka þátt í uppbyggilegri gagnrýni á skipulag og verklega útfærslu kennslunnar
Viðfangsefni
Nemandi tekur að sér að skipuleggja íþróttakennslu í framhaldsskóla undir leiðsögn vettvangskennara. Jafnframt sér nemandi um kennslu í áfanga eða nokkrum áföngum yfir ákveðið tímabil. Hann skipuleggur kennsluna út frá þeim markmiðum sem koma fram aðalnámskrá eða skólanámskrá viðkomandi framhaldsskóla.
Vinnulag
Eftir undirbúning og gerð vettvangs- og kennsluáætlunar, fer kennslan að mestu fram á vettvangi í formi undirbúnings kennslu á einstökum kennslustundum, kennslu á vettvangi og umræðu um mat á kennslu eftir einstakar kennslustundir, kennsluvikur og í lok kennslutímabils.
Íþróttir og samfélag (ÍÞH610G)
Námskeiðið er byggt upp á fræðilegum fyrirlestrum, verkefnum og umræðutímum. Með umræðutímum og fræðilegri kennslu er stefnt að því að nemandi skilji mikilvægi og hlutverk íþrótta í samfélaginu og þátttöku barna og unglinga í íþróttum, auk mikilvægis afreksfólks í íþróttum fyrir samfélagið. Unnið verður með heimspeki íþrótta og hvernig hún tengist íþróttum og samfélaginu.
Hagnýt hæfni námskeiðs snýr m.a. að því að nemandi geti nýtt sér í starfi og kynnt fyrir öðrum mikilvægi íþrótta í félagsfræðilegu samhengi. Áhersla er lögð á þætti sem tengjast þátttöku í íþróttum, s.s. aldur, kynferði, tegund íþrótta o.fl. Fræðileg hæfni snýr að hæfni nemanda til að skilja félags- og heimspekilegar kenningar og hvernig áhrif þær hafa í samfélagi íþrótta. Hæfni í samskiptum snýr að því að nemandinn sýni stjórnunarhæfileika, sjálfstæð vinnubrögð og geti unnið með öðrum.
Hlutverk og mikilvægi íþrótta verður aðalviðfangsefni námskeiðsins. Saga íþrótta í heiminum verður einnig nokkuð stór þáttur í kennslunni. Einnig heimspekilegar hugleiðingar um uppbyggingu íþrótta, tengingu við samfélagið, stjórnmál, peninga og margt fleira.
Vinnulag:
Fyrirlestrar, umræður og einstaklings- og hópmiðuð verkefnavinna.
Námefni:
Tilgreint í kennsluáætlun.
Næring og heilsa (HÍT401G)
Hér verður lögð áhersla á tengsl næringar við heilsufar og hlutverk næringar í forvörnum gegn langvinnum sjúkdómum sem tengjast lífsháttum fólks. Einnig verður horft á samspil næringar og hreyfingar og þátt næringar í þjálfun. Nemendur kynnast jafnframt hlutverki vítamína, stein- og snefilefna ásamt vökvajafnvægi. Lögð er áhersla á að nemendur fái þjálfun í að skoða og skilja rannsóknir í næringarfræði, hvernig má safna og vinna úr upplýsingum og hvernig ber að túlka þær í samhengi við aðra lífshætti og heilsufar.
Um er að ræða framhald af námskeiðinu Næring og orkujafnvægi.
ATH. Námskeiðin HÍT201 Næring og orkujafnvægi 5e og HÍT401 Næring og heilsa 5e koma í stað námskeiðsins ÍÞH503G Næring heilsa og þjálfun 10e. Þeir nemendur sem hafa lokið því þurfa ekki að taka 5e námskeiðin.
Þjálffræði íþrótta (ÍÞH416G)
Markmiðið námskeiðsins er:
- Að nemendur auki þekkingu sína og færni í skipulagningu þjálfunar.
- Að nemendur öðlist reynslu með eigin þjálfun.
- Að kynna starf þjálfara á vettvangi.
- Að nemendur taki þátt í skipulagðri þjálfun með áherslu á bætta afkastagetu í þoli, styrk og hraða.
- Að nemendur skilji mikilvægi samhæfingar, liðleikaþjálfunar, endurheimtar og taki þátt í æfingum sem ná til þessara þátta.
- Að nemendur verði færir um að stjórna þjálfun íþróttamanna og íþróttahópa.
Viðfangsefni
Viðfangsefni námskeiðs er þjálfun íþróttafólks. Nemendur munu skipuleggja þjálfunaráætlanir fyrir einstaklinga og/eða hópa þar sem gengið er út frá markmiðum með tilliti til aldurs, þroska og viðkomandi íþróttagreinar. Fjallað verður um helstu þjálfunaraðferðir og mikilvægi einstaklingsbundinnar greiningar og þjálfunar. Nemendur öðlast þekkingu á mikilvægi markmiðasetningar í þjálfun og fá reynslu af slíkri útfærslu með eigin markmiðasetningu og þjálfun. Áhersla verður á verklegar æfingar sem tengdar eru þrekþáttum, samhæfingu, liðleika og endurheimt á meðan og eftir að þjálfun lýkur. Stefnt er að því að hver nemandi öðlist góðan skilning á ýmsum sérhæfðum þáttum í þjálfun íþróttamanna og geti nýtt sér slíka þekkingu við uppbyggingu íþrótta- og afreksmanna.
Vinnulag
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og verklegum kennslustundum. Nemendur vinna verkefni og taka þátt í umræðum.
Athugið: Námskeiðið er fyrst og fremst ætlað nemendum á kjörsviðinu þjálfari. Kennsla í námskeiðinu fellur ekki niður þann tíma sem nemendur á kjörsviðinu kennari eru í vettvangsnámi.
- Haust
- Heilsurækt og vettvangurV
- ÍþróttasálfræðiV
- Útivist - klettaklifurV
- Útivist og útinám í lífi og starfiV
- Vistkerafæði – hollur matur fyrir heilbrigði fólks og jarðarV
- HandknattleikurV
- Einelti, forvarnir og inngripV
- KörfuknattleikurV
- Markaðsfræði og stjórnunVE
- FrjálsíþróttirVE
- Vor
- Viðburða- og verkefnastjórnun í íþróttumV
- Íþróttameiðsl, forvarnir og endurhæfingV
- Fangbrögð og jaðaríþróttirV
- Útivist - vetrarfjallamennskaV
- Kynbundið ofbeldi: forvarnir og fræðslaV
- Knattspyrna IV
- LífsleikniV
- Spaðaíþróttir og golfV
- BlakV
- Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótunV
- LokaverkefniV
- VetraríþróttirV
Heilsurækt og vettvangur (ÍÞH513G)
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að undirbúa nemendur fyrir þjálfun og kennslu á vettvangi líkams- og heilsuræktar fyrir almenning. Námskeiðið er að stærstum hluta verklegt og byggir á grunnfögum í íþrótta- og heilsufræði. Það reynir á samþættingu hæfni og þekkingar sem þjálfun almennings krefst. Námskeiðið er sniðið að þjálfun einstaklinga og hópa hvort sem er á heilsuræktarstöð eða öðrum vettvangi. Mikið er lagt upp úr því að nemendur þjálfist í að koma fram sem þjálfarar og læri að skipuleggja þjálfun fyrir almenning í líkams- og heilsurækt.
Íþróttasálfræði (ÍÞH515G)
Lögð áhersla á ýmsa lykilþætti íþróttasálfræðinnar. Fjallað verður um áhugahvöt, spennustig, sjálfstraust, streitu, ofþjálfun, kulnun, meiðsli, hugarþjálfun o.fl. Einnig verður hugað að tengslum líðanar og hreyfingar.
Útivist - klettaklifur (ÍÞH026G)
Markmið námskeiðsins er að nemandinn öðlist þekkingu á þeim öryggisreglum sem fylgja þarf þegar klifrað er, þekki og kunni að nota þann búnað sem fylgir klifri. Að hæfni nemandans í klifri, klifurtækni, aukist.
Inntak / viðfangsefni: Farið verður í helstu hnúta sem notaðir eru í klifri, notkun búnaðar, uppsetningu trygginga, hvernig maður ber sig að við að tryggja aðra, klifurtækni, sig, "júmmun".
Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður, verklegar æfingar, styttri ferðir og ein helgarferð. Mætingarskilda er í námskeiðið.
Útivist og útinám í lífi og starfi (TÓS301G)
Inntak: Fjallað verður um hugmyndafræði og gildi útináms og ævintýranáms í starfi með fólki með áherslu á hagnýtar kenningar, rannsóknir og reynslu af vettvangi. Áhersla er lögð á að annars vegar að njóta náttúrunnar og hins vegar að greina hvernig náttúran getur verið vettvangur fyrir uppeldi og margskonar nám (t.d. með rýni í plöntur, dýr eða landslag).
Kynntar eru leiðir um hvernig náttúran getur auðgað starf með börnum, unglingum og fullorðnum m.a. til þess að efla sjálfstraust, sjálfsmynd, uppbyggjandi samskipti og auka þekkingu fólks á náttúrunni og efla tengsl okkar við hana. Einkum er litið á vettvang frítímans sem þann starfsvettvang sem unnið er með, en einnig er unnið með útfærslu og framkvæmd útináms í skóla- eða tómstundastarfi. Kennaranemar sem taka námskeiðið vinna sín verkefni með hliðsjón af skólastarfi og tengingar við aðalnámskrá. Fjallað verður um ýmis gagnleg atriði varðandi útivist m.a. um útbúnað, klæðnað, ferðamennsku og öryggismál.
Farið verður í eina tveggja nátta ferð 2. - 4. október 2024 (gæti breyst í dagsetninguna 30. okt - 1. nóv.) og eina einnar nætur ferð (12.- 13. nóvember 2024) þar sem nemendur glíma við raunveruleg verkefni á vettvangi.
Ferðakostnaður: Innheimt verða gjöld vegna kostnaðar sem til fellur vegna ferðar, kr. 17.000.
Vinnulag: Námskeiðið er kennt bæði í stað- og fjarnámi. Í staðnámi er að jafnaði kennt tvo dag í viku.
Kennslan byggir á fyrirlestrum, verklegri kennslu, útivistarferðum, verkefnavinnu og umræðum. Rík áhersla er lögð á fjölbreyttar útivistarferðir þar sem nemendur takast á við raunveruleg verkefni. Umræður eru í tímum og á neti, en einnig er rætt um upplifanir hópsins og einstaklinganna í ferðunum og rýnt í þann lærdóm sem af þeim má draga (ígrundun). Unnin eru verkefni þar sem nemendur þurfa m.a. að fara með hóp í ferð. Þar reynir á ferlið frá hugmynd (sköpun), undirbúning, framkvæmd og mat.
Nemendur eru hvattir til að nota leiðarbók á námskeiðinu fyrir ígrundanir, minnispunkta og hugleiðingar.
Vistkerafæði – hollur matur fyrir heilbrigði fólks og jarðar (HHE302G)
Námskeiðið Vistkerafæði (e. flexitarian diet) miðar að því að kynna nemendum hvernig fæðuval hefur áhrif á heilbrigði fólks og jarðar. Það er mikilvægt að hafa í huga að það sem við borðum hefur ekki aðeins áhrif á heilbrigði okkar sjálfra heldur einnig líka á heilbrigði jarðarinnar. Með heilbrigði fólks og jarðar að leiðarljósi inniheldur fæði okkar meira af grænmeti, ávöxtum, hnetum, baunum og heilkornum en í hefðbundnara fæði. Á námskeiðinu verður farið yfir undirstöðuþætti vistkerafæðis og hvernig hægt er að breyta fæðuvali til hagsbóta fyrir okkur sjálf og jörðina. Með breyttu fæðuvali væri hægt að minnka líkur á ýmsum sjúkdómum, framleiða nægan mat fyrir alla og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Handknattleikur (ÍÞH004G)
Markmið
Að nemandinn öðlist skilning á handknattleik þ.e. leikskipulagi, þjálfun barna og unglinga og helstu leikreglum. Í námskeiðinu verða helstu áhersluatriði við þjálfun barna og unglinga í handknattleik tekin fyrir. Hlutverk þjálfara, kennsluaðferðir, samskipti og hvaða þjálffræðilegar áherslur eigi að vera í barna og unglingaþjálfun.
Að nemandinn hafi aukið færni og þekkingu í þjálfun og kennslu handknattleiks barna og unglinga og geti sett sér og öðrum markmið varðandi þjálfun, starfsáætlanir og kennsluáætlanir. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemanda.
Að nemendi geti nýtt sér fræðilega og verklega þekkingu til að greina og meta ólík viðfangsefni innan handknattleiksþjálfunar og geti réttlætt ákvarðanir tengdar þjálfun barna og unglinga á fræðilegan og faglegan hátt. Hafi þekkingu og hæfni til að útskýra helstu kenningar og hugtök í kennslufræði og þjálffræði sem tengjast handknattleik.
Að nemandi taki virkan þátt í námskeiði og hópavinnu, sýni faginu áhuga og sé fær um að miðla þekkingu og hugmyndum til annarra í námskeiðinu.
Að nemandi sýni sjálfstæð vinnubrögð, frumleika og víðsýni sem nýtist við þjálfun barna og unglinga í handknattleik.
Inntak / viðfangsefni
Farið er í þjálfun helstu grunnatriða í varnar- og sóknarleik handknattleiks. Greint verður frá helstu grunnhugtökum í leikfræði handknattleiks. Áhersla er lögð á barna og unglingaþjálfun. Námskeiðið er að stærstum hluta verklegt og lögð er áhersla á að nemendur séu virkir og taki þátt í kennslu og öðlist færni í að miðla kunnáttu á námskeiðinu.
Einelti, forvarnir og inngrip (TÓS509M)
Þetta námskeið er um einelti og markmiðið er að þeir sem ljúka námskeiðinu öðlist þekkingu, leikni og hæfni til að geta tekist á við og komið í veg fyrir einelti meðal barna og unglinga.
Námskeiðið byggir á kenningum og rannsóknum á einelti. Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa hug á að vinna með börnum og unglingum og hentar því vel fyrir nemendur á menntavísindasviði HÍ. Nemendur á öðrum sviðum eru einnig velkomnir. Á námskeiðinu verður fjallað um fjölmarga þætti sem snúa að einelti, þar á meðal mismunandi birtingarmyndir, árangursríkar aðferðir við forvarnir og inngrip, samstarf við foreldra og forsjáraðila og árangursríka vinnu með þolendum, gerendum og áhorfendum. Námskeiðið fer fram á íslensku en lesefni er á íslensku og ensku.
Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, umræðu- og verkefnatímum, reynslusögum af vettvangi og kynningum nemenda.
Skyldumæting er í námskeiðið (lágmark 80%). Skyldumæting er fyrir fjarnema í staðlotur námskeiðsins. Missi þeir af staðlotu verða þeir að vinna það upp með því að mæta í aðra tíma í staðinn. Fjarnemum er frjálst að mæta í aðrar kennslustundir. Fjarnemar vinna virkniverkefni um kennslustundir sem þeir mæta ekki í.
Körfuknattleikur (ÍÞH054G)
Námskeiðið er ætlað nemendum sem hafa áhuga að læra um körfuknattleiksþjálfun með börnum og unglingum. Nemendur eiga að hafa grunnþekkingu á íþróttinni í gegnum námskeiðið knattleikir.
Markmið
Að nemandi:
- kynnist körfuknattleik betur og læri meðal annars hugmyndafræðina á bak við íþróttina
- kynnist æfingum sem henta fyrir börn og unglinga
- læri að byggja upp og stjórna æfingum
- læri grunnleikfræði, þ.e. sóknar- og varnarkerfi
- kafi dýpra í einhvern einn þátt sem viðkemur körfuknattleik
Viðfangsefni
Viðfangsefni eru m.a.:
- Hugmyndafræðin á bak við körfuknattleik
- Leikfræði
- Tækni
- Æfingar og uppbygging þeirra
- Mismunandi áhersluatriði í þjálfuninni eftir aldri og getu
Vinnulag
Kennslan er bæði verkleg (íþróttasal) og bókleg (fræðileg), ásamt verkefnavinnu nemenda (einstaklings sem og hópavinna). Að lokum er vettvangstenging í námskeiðinu.
Markaðsfræði og stjórnun (ÍÞH035G)
Markmið:
Að nemendur kynnist helstu þáttum og hugtökum sem snúa að íþróttamarkaðsfræði og hvernig hún er frábrugðin annarri hefðbundinni markaðsfræði. Meðan á námskeiðinu stendur ættu nemendur að öðlast betur skilning á:
- Séreiginleikum íþróttamarkaðsfræði
- Neytendum íþrótta
- Íþróttavörum/þjónustu
- Markaðsrannsóknum í íþróttum
- Kynningar- og auglýsingarmálum (bæði í gegnum íþróttir og fyrir íþróttir)
- Markaðsáætlanagerð
Kennslufyrirkomulag er sambland af fyrirlestrum, umræðutímum og fyrirlestrum nemenda, þar sem þeir kynna verkefni sín.
Mikilvægt er í þessu námskeiði að nemendur séu þátttakendur í tímunum þ.e. séu með í umræðum og úrlausnum á þeim verkefnum sem farið verður í.
Frjálsíþróttir (ÍÞH039G)
Viðfangsefni námskeiðsins er tæknigreining, vinnukröfugreining og þjálfun frjálsíþróttagreinanna.
Vinnulag: Kennsla verður í formi fræðilegra, verklegra og umræðutíma.
Viðburða- og verkefnastjórnun í íþróttum (ÍÞH056G)
Námskeiðinu er ætlað að efla færni nemenda í að undirbúa og skipuleggja viðburði á vettvangi íþrótta og heilsu á faglegan hátt með aðferðum og leiðum verkefnastjórnunar. Áhersla er á samvinnu og verkefnavinnu með markvissum hætti og nemendur ættu því að búa að aukinni færni fyrir önnur námskeið í háskólanámi, vinnumarkað og félagsstörf hvers konar. Námskeiðinu er ætlað að mæta síaukinni kröfu um færni í viðburða- og verkefnastjórn á vettvangi íþrótta og heilsu. Nemendur eru hvattir til virkrar þátttöku í umræðum sem og verkefnavinnu því þannig skapast gott lærdómssamfélag sem margfaldar árangur allra. Jafnframt er hvatt til uppbyggilegra samskipta og ábyrgðar á eigin námi og framgöngu í námskeiðinu.
Inntak
Á námskeiðinu verður farið yfir skipulagningu viðburðaverkefna. Áhersla er lögð á undirbúning, greiningar, áætlanir, framkvæmd og eftirvinnslu viðburða s.s. á sviði íþrótta og heilsu. Rýnt er í viðburði eins og fundi, ráðstefnur, hátíðir, íþróttamót, almenningsviðburði, átaksverkefni og fleira. Fjallað er um lög, reglur og öryggisatriði. Skoðuð eru tengsl íþrótta, frístunda, tómstunda og ferðaþjónustu, sem og uppeldislegt- og samfélagslegt gildi viðburða og efnahagsleg áhrif þeirra.
Vinnulag
Fyrirlestrar, umræður, verkefnavinna og heimsóknir. Í námskeiðinu vinna nemendur að undirbúningi, framkvæmd og mati á eigin viðburði og taka þátt í að rýna viðburði samnemenda auk lesefnisprófs.
Námskeiðið er kennt í staðnámi og mætingaskylda er í valda tíma.
Lágmarkseinkunn í hverjum námsþætti er 5,0.
Íþróttameiðsl, forvarnir og endurhæfing (ÍÞH055G)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum grundvallarþekkingu á algengum íþróttameiðslum, forvörnum og meðhöndlun þeirra. Nemendur fá grunnþjálfun í meðhöndlun meiðsla með verklegum æfingum. Sérstök áhersla verður lögð á forvarnir gegn ýmis konar meiðslum og kvillum hvort sem er í íþróttum eða heilsurækt.
Fangbrögð og jaðaríþróttir (ÍÞH029G)
Markmið námskeiðsins er að kynna glímu- og júdó og aðrar bardaga og sjálfsvarnaríþróttir. Jaðaríþróttir sem eru vinsælar hverju sinni verða kynntar og nemendum gefið tækifæri til að reyna hæfni sína.
Vinnulag: Námskeiðið er verklegt að mestu leiti.
Útivist - vetrarfjallamennska (ÍÞH031G)
Markmið námskeiðsins er að gera nemandann færan til að ferðast í brattlendi í vetraraðstæðum. Eftir námskeiðið á nemandinn að vera fær um að leiða hóp í léttari ferðum.
Undirmarkmið
- Að nemandinn geti metið aðstæður m.t.t. hættumerkja, sérstaklega snjóflóðahættu, og valið leið eftir því.
- Að nemandinn geti bjargað sjálfum sér og öðrum upp úr jökulsprungu.
- Að nemandinn öðlist þekkingu á því hvernig hagkvæmast er að ganga á mannbroddum og hvernig ísöxi er beitt.
- Að nemandinn þekki hvernig jöklar hreyfast og hvernig sprungur myndast.
- Að nemandinn tileinki sér þau hugtök sem notuð eru manna á milli í vetrarfjallamennsku.
Viðfangsefni: Farið verður í ferðatækni í brattlendi við vetraraðstæður, öryggismál s.s. ís- og snjótryggingar, snjóflóðabúnað (ýli, leitarstöng og skóflu) og ísaxarbremsu. Hvernig hentugt er að byggja snjóhús til næturdvalar. Hverju þarf að huga að þegar ferðast er í forsvari fyrir hóp.
Vinnulag: Fyrirlestrar og útivistarferðir.
Til að geta tekið þátt í námskeiðinu þurfa nemendur að verða sér úti um (kaupa/leigja/fá lánað) ákveðinn búnað sjálfir (útbúnaðarlista verður dreift í upphafi námskeiðs).
Kynbundið ofbeldi: forvarnir og fræðsla (TÓS009G)
Efni námskeiðsins er kynbundið ofbeldi, ólíkar birtingarmyndir þess og forvarnir. Áhersla er lögð á að auka skilning nemenda á kynbundu ofbeldi og birtingarmyndum þess í samfélaginu. Markmið námskeiðsins er tvíþætt, annars vegar að efla fræðilegan grunn nemenda og hins vegar að efla færni nemenda í vinna gegn kynbundnu ofbeldi í starfi. Markmiðið er að nemendur þekki birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og efli færni sína í að leiða umræðu, vinna með viðhorf og vinna að málum tengdum kynbundnu ofbeldi sem kunna að koma upp í starfi á vettvangi.
Kynbundið ofbeldi verður skoðað út frá helstu birtingarmyndum þess í samfélagi okkar. Farið verður í helstu fræðilegu hugtök kynjafræðinnar sem nýtast til þess að greina og skilja kynbundið ofbeldi eins og það birtist okkur í daglegu lífi. Farið verður yfir ólíka stöðu og möguleika karla og kvenna í samfélagi okkar og áhrif hugmynda um karlmennsku og kvenleika á viðhorf okkar og væntingar. Þá verða viðteknar hugmyndir samfélagsins um jafnrétti, ofbeldi og klám teknar til gagnrýninnar skoðunar.
Rík áhersla er lögð á að nemendur geti ígrundað eigin viðhorf og vinnu út frá kynjasjónarmiðum en nemendum gefst kostur á að tengja hugmyndir sínar, reynslu og þekkingu við starf á vettvangi.
Námskeiðið er kennt í tveimur staðlotum, auk vikulegra fyrirlestra og kennsluhlés sem nýtist í verkefnavinnu á vettvangi.
Knattspyrna I (ÍÞH006G)
Inntak
Námskeiðið er byggt upp á verklegum æfingum samkvæmt kröfum KSÍ og verklegri þátttöku nemenda. Í gegnum verklegar æfingar og fræðilega kennslu er ætlunin að nemandi öðlist almennan skilning á hugtökum í knattspyrnu og knattspyrnuþjálfun og geti nýtt sér þekkingu sína við að miðla öðrum með þjálfun í greininni. Stefnt er að því að þekking nemandans nái til þeirra atriða sem henta byrjendum í knattspyrnu, börnum og unglingum.
Markmið
Að nemandi:
- taki þátt í verklegum æfingum í knattspyrnu sem ná m.a. til tækni-, þrek- og leikfræðiþjálfunar
- nái tökum á grundvallaratriðum í knattspyrnutækni
- læri undirstöðuatriði liðssamvinnu og geti útfært þessi atriði í leikrænum æfingum, leikæfingum
- skilji hvað felst í leikfræði í knattspyrnu og sé fær um að brjóta leikfræðina niður í smærri einingar
- þekki helstu atriði sem snúa að þjálffræði í knattspyrnu
- læri að skipuleggja og þjálfa börn og unglinga og setja upp markvissa tímaseðla
Viðfangsefni
Knattspyrnutækni, leikfræði, undirstöðuatriði liðssamvinnu, þjálffræði, kennslufræði, knattspyrnulög, þjálfun/æfingakennsla, skipulag þjálfunar.
Vinnulag
Kennsla fer fram í formi verklegra kennslu, fyrirlestra, umræðna og verkefnavinnu.
Lífsleikni (TÓS404G)
Námskeiðinu er ætlað að efla færni nemenda í að vinna að velferð og hamingju fólks á öllum aldri, þó með áherslu á börn, unglinga og ungt fólk. Áhersla er lögð á starfsaðferðir og leiðir sem nýtast í eigin lífi sem fyrirmynd á vettvangi uppeldis og tómstundastarfs og í vinnu með öðrum. Rík áhersla er lögð á verkefnavinnu og samvinnu. Við lok námskeiðs ættu nemendur því að búa yfir aukinni færni sem nýtist í eigin lífi sem og í starfi á vettvangi. Námskeiðinu er ætlað að mæta aukinni áherslu á þá þætti í starfi með börnum og unglingum sem styðja við farsæld og gott líf á vettvangi skóla – og frístundastarfs.
Á námskeiðinu munum við fjalla um lífsleikni, hvernig við lifum lífinu, líðan og hvernig hægt er að hafa áhrif á líf okkar og annarra. Við munum leggja áherslu á hagnýtar leiðir sem byggja á fræðilegum grunni og tengjast sjálfsþekkingu og hæfni einstaklings til að lifa farsælu lífi. Fjallað verður um seiglu, tilfinningar, núvitund, streitu og líkamlega og andlega velferð og unnið verður með starfsaðferðir og kennsluaðferðir leiklistar auk annarra leiða.
Vinnulag:
Fyrirlestrar, umræður og verkefnavinna. Námskeiðið er að hluta til með vendikennslufyrirkomulagi þar sem stuttir fyrirlestrar um viðfangsefni hverrar viku verða aðgengilegir á vef og umræðu- og verkefnatímar eru í hverri viku. Í námskeiðinu vinna nemendur einstakingsverkefni, þeir prófa aðferðir í lífsleiknikennslu á eigin skinni sem og hópverkefni sem felast í að reyna aðferðir í kennslu/starfi með öðrum. Að auki rýna nemendur í eigin vinnu og samnemenda. Munnlegt próf er í lok námskeiðs. Skyldumæting er í einn umræðu- og verkefnatíma í hverri viku en að öðru leyti er fyrirkomulag fjarnáms kynnt sérstaklega í upphafi námskeiðs og tímaáætlun að hluta til unnin með nemendum. Þriggja vikna kennsluhlé er í námskeiðinu í mars vegna vettvangsnáms í tómstunda- og félagsmálafræði.
Spaðaíþróttir og golf (ÍÞH049G)
Lögð verður áhersla á að undirbúa nemendur til að taka að sér kennslu og þjálfun undirstöðuatriða í spaðaíþróttum og golfi. Áhersla verður lögð á leikræna nálgun tækniatriða og farið yfir leikskipulag þessara íþróttagreina. Skólagolf verður kynnt ásamt ýmsum öðrum leikrænum útfærslum í kennslu og þjálfun.
Vinnulag
Námskeiðið er að mestum hluta verklegt. Nemendur taka þátt í æfingum og léttum keppnislíkum leikjum og öðlast þannig færni í viðkomandi greinum samhliða því að þjálfast í kennslufræðilegri útfærslu æfinga og leikja.
Blak (ÍÞH040G)
Í þessu valnámskeiði kynnast nemendur blakíþróttinni og fræðast á fjölbreyttan hátt um hana. Áhersla er lögð á að nemendur séu meðvitaðir um þær kennsluaðferðir og þau kennslufræðilegu atriði sem eru mikilvæg í miðlun þessarar greinar. Farið verður yfir alla helstu þætti í blaki, þ.e. einstaklingstækni, leikreglur og leikskipulag. Námskeiðinu er einnig ætlað að bæta verklega kunnáttu nemenda í blaki og eru nemendur hvattir til að æfa og efla getu sína í frjálsum tímum utan hefðbundins skólatíma.
Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótun (ÍÞH036M)
Viðfangsefni námskeiðsins er heilsuhegðun í víðum skilningi. Fjallað verður um heilsuhegðun mismunandi aldurshópa og samband líffræðilegra þátta, heilsuhegðunar og félagslegra aðstæðna. Farið verður yfir hvernig hegðun einstaklinga, bjargráð og streita hafa áhrif á heilsufar. Hegðun í tengslum við fæðuval og neysluvenjur er sérstaklega skoðuð. Þá verður horft til þess hvernig má móta heilsusamlegar lífsvenjur frá æsku, svo sem hafa áhrif á fæðuval og vinna á matvendni. Samfélagsáhrif og þáttur fjölmiðla eru einnig könnuð. Námsefnið byggir á fræðbókum og vísindagreinum frá mismunandi áttum og ólíkum sviðum sem spanna viðfangsefnið og nálgast það á ólíkan hátt.
Námskeiðið er ætlað nemendum á efri stigum grunnnáms og á meistarastigi og er opið öllum.
Lokaverkefni (ÍÞH262L)
Markmiðið með lokaverkefni til bakkalárprófs er að nemendur vinni það á fullnægjandi hátt og í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til lokaverkefna á þessu stigi háskólanáms.
Nemendur vinna sjálfstætt að lokaverkefni sínu með ráðgjöf frá leiðsögukennara. Allir nemendur á Menntavísindasviði geta valið um þrjár tegundir verkefna.
- Hefðbundin rannsóknarritgerð (fræðileg ritgerð) þar sem aflað er gagna úr fræðilegum heimildum. Kafað er í rannsóknir og kenningar á viðkomandi fagsviði og mat lagt á þær.
- Rannsóknarskýrsla sem byggist á úrvinnslu úr fyrirliggjandi gögnum, til dæmis gögnum frá Menntamálastofnun eða gögnum sem safnað hefur verið í fyrri rannsóknum.
- Annars konar verkefni, til dæmis kennslu- og fræðsluefni af ýmsu tagi svo sem vefsíða, handbók, smáforrit (app), kennslubók eða bæklingur. Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að fylgja efninu úr hlaði með ítarlegri greinargerð þar sem lýst er markmiðum og tildrögum, viðfangsefnið sett í fræðilegt samhengi og greint frá niðurstöðum. Greinargerðin gildir minnst 40% af verkefninu í heild. Tveir nemendur geta unnið saman að slíku lokaverkefni með samþykki umsjónarmanns sé það nægilega umfangsmikið en skulu skrifa út frá því sína greinargerðina hver (hvor) nema annað sé ákveðið.
Gengið er út frá því að rannsóknarverkefni a) og b) séu einstaklingsverkefni. Ef valið er rannsóknarverkefni er almennt gert ráð fyrir að nemendur gangi inn í verkefni sem eru í gangi innan deilda.
Nánari leiðbeiningar um tilhögun, vinnulag og frágang við lokaverkefni er að finna í handbók lokaverkefna í grunnnámi á síðunni: https://ugla.hi.is/kerfi/view/page.php?sid=2941.
Nemendum ber að skrá upplýsingar um verkefni sín á sömu síðu.
Að öllu jöfnu er námskeiðið skráð á vormisseri en undirbúnings- og skipulagsvinna og eftir atvikum rannsóknarvinna hefst á haustmisseri, sem og val leiðsögukennara. Á vorönn vinna nemendur hins vegar sjálfstætt að lokaverkefninu í samráði við leiðsögukennara sinn. Þeir nemendur sem skila lokaverkefni á sumar- eða haustmisseri semja sérstaklega við umsjónarmann og leiðsögukennara um skilin.
Vetraríþróttir (ÍÞH032G)
Markmið
Markmið námskeiðsins er að búa nemendur undir kennslu í vetraríþróttum, auk þess að gefa þeim innsýn í þá miklu möguleika sem vetraríþróttaferðir geta gefið í skólastarfi. Einnig að nemendur öðlist grunnfærni í ólíkum íþróttagreinum vetraríþrótta auk þess að hvetja þá til aukinnar ástundunar á þessum vinsælu almennings- og keppnisíþróttagreinum.
Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður eftirfarandi tekið fyrir: hokkýskautar, svigskíði og snjóbretti.
Vinnulag
Kennsla er að stærstum hluta verkleg og krefst þess að nemendur vinni sjálfstætt og séu virkir þátttakendur í öllum tímum.
Nemendur þurfa að greiða fyrir skíðapassa og ferðir til og frá skíðasvæðum.
Hafðu samband
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.