Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. september 2021

8/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2021, fimmtudaginn 2. september var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00. Fundað var í Setbergi.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Vigdísi Jakobsdóttur), Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Jessý Rún Jónsdóttir sig vanhæfa til að taka þátt í meðferð dagskrárliðar 8. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a.    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-júní 2021.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðu rekstraryfirliti Háskóla Íslands fyrir tímabilið janúar-júní 2021. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði.

b.    Fasteignir Háskóla Íslands ehf. Staða mála.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi félagið Fasteignir Háskóla Ísland ehf. Málið var rætt.

c.    Málefni Hótel Sögu.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi mögulega aðkomu Háskóla Íslands að nýtingu Hótel Sögu. Málið var rætt.

d.    Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands, sbr. 7. gr. starfsreglna ráðsins.
Guðmundur og Kristinn fóru yfir uppgjör framkvæmdaáætlunar Háskóla Íslands fyrir síðasta ár og drög að framkvæmdaáætlun til næstu 10 ára. Málið var rætt og svöruðu þeir Guðmundur og Kristinn spurningum ráðsmanna. Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2022 verður tekin til afgreiðslu á fundi ráðsins í árslok.

e.    Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands. Staða mála.
Inn á fundinn kom Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Kristinn og Björn Atli greindu frá stöðu mála varðandi afleiðingar og eftirmál vatnstjóns í byggingum Háskóla Íslands í janúar sl. Fram kom m.a. að enn er beðið matsskýrslu dómkvaddra matsmanna um umfang tjónsins til þess að tryggja megi sönnun og er því ekki unnt að hefja nauðsynlegar endurbætur á húsnæðinu eins og Háskóli Íslands hefur eindregið óskað eftir. Af þessum sökum hefur þurft að grípa til ýmissa neyðarráðstafana varðandi kennslu- og skrifstofuhúsnæði sem íþyngir mjög starfseminni. Málið var rætt og svöruðu Kristinn og Björn spurningum.
– Háskólaráð leggur ríka áherslu á að úrlausn málsins verði hraðað eins og framast má vera svo eðlileg starfsemi geti hafist á ný.

Guðmundur, Kristinn og Björn Atli viku af fundi.

3.    Minnisblað um viðbrögð við ábendingum nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu starfsári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins og fund ráðsins 3. júní sl.
Fyrir fundinum lá minnisblað rektorsskrifstofu um framkvæmd ábendinga nefndar háskólaráðs um störf ráðsins starfsárið 2020-2021, sbr. 10. gr. starfsreglna þess og fund ráðsins 3. júní sl. Þórður Kristinsson og rektor gerðu grein fyrir minnisblaðinu. Málið var rætt og tekið undir þær ábendingar sem settar eru fram í áliti nefndarinnar og tillögur í minnisblaðinu að viðbrögðum og viðeigandi breytingum á starfsreglum háskólaráðs. Málið verður til afgreiðslu á næsta fundi.

4.    Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2021-2022. Drög.
Rektor gerði grein fyrir framlögðum drögum að funda- og starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2021-2022, sbr. 7. gr. starfsreglna ráðsins. Málið var rætt. Fram komu nokkrar ábendingar sem tekið verður mið af við frágang áætlunarinnar á fundi ráðsins í október nk.

5.    COVID-19, áhrif á starfsemi Háskóla Íslands háskólaárið 2021-2022.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor og Róbert fóru yfir stöðu mála varðandi áhrif COVID-19 faraldursins á starfsemi Háskóla Íslands á þessu haustmisseri. Fram kom að Háskólinn hefur í gegnum allan faraldurinn fylgt þeim meginlínum um sóttvarnir sem heilbrigðisyfirvöld hafa lagt hverju sinni, en útfært þær nánar eftir því sem aðstæður krefjast. Jafnframt hefur verið lögð rík áhersla á einstaklingsbundndar sóttvarnir. Ennfremur hefur verið haldið uppi virku upplýsingastreymi til starfsfólks og nemenda, s.s. með sérstakri heimasíðu og vikulegum pistlum rektors. Nú er skólastarfið hafið að nýju og fer kennsla að mestu fram í byggingum Háskóla Íslands. Um þessar mundir gilda eftirfarandi meginreglur innan Háskóla Íslands:

•    Nándarmörk eru 1 metri.
•    Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að hafa 1 metra á milli einstaklinga.
•    Til að minnka smithættu er eindregið mælst til þess að fólk beri grímur á göngum skólans, en gangar eru hluti af ferðarými.
•    Þegar sest er inn í kennslustofu má taka niður grímuna þótt nánd sé minni en 1 metri.
•    200 manns mega að hámarki vera í sama rými.
•    Lögð er áhersla á einstaklingsbundnar sóttvarnir.
•    Mælst er til þess að þeir sem koma erlendis frá fari í skimun eða hraðpróf áður en þeir koma á háskólasvæðið.

Unnið er að innleiðingu QR-kóða fyrir staðsetningu nemenda í kennslurýmum til að auðvelda mögulega smitrakningu.

Málið var rætt og svöruðu rektor og Róbert spurningum.

Róbert vék af fundi.

Fundarhlé.

6.    Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ 26. Drög áætlunar um innleiðingu.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og fór yfir drög áætlunar um innleiðingu nýrrar heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26. Málið var rætt og svöruðu rektor og Steinunn spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Steinunn vék af fundi.

7.    Málefni Happdrættis Háskóla Íslands.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, varaforseti háskólaráðs og formaður starfshóps um álitaefni tengd tekjuöflun Happdrættis Háskóla Íslands, fór yfir málið og var það rætt.

8.    Kvörtun vegna skrásetningargjalda við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur. Fyrir fundinum lá kvörtun vegna skrásetningargjalds við Háskóla Íslands frá Jessý Rún Jónsdóttur, fulltrúa stúdenta í háskólaráði og hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs. Björn Atli reifaði málið og var það rætt. Ráðgert er að málið komi til afgreiðslu á fundi háskólaráðs í október nk.

Að umræðu lokinni lagði Isabel Alejandra Díaz, fulltrúi stúdenta, fram eftirfarandi bókun:

„Undirrituð telur að skýring og túlkun á hvað falli undir kennslu skv. a-lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 geti ekki aðeins byggt á sögulegri skýringu í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum sem nú eru fallin úr gildi.“

Jessý Rún vék af fundi undir þessum lið.

9.    Bókfærð mál.
a.    Endurskoðaðar reglur um varðveislu og ávöxtun Styrktarsjóða Háskóla Íslands.

– Samþykkt.

b.    Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands, dags. 30.6.2021. [Endurnýjun.]
– Staðfest.

c.    Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Matís ohf. um kennslu, rannsóknir og nýsköpun, dags. 26. ágúst 2021 [Endurnýjun]
– Staðfest.

d.    Tillaga að breytingu á bókstafslið e. í tölulið 3.1 í 3. gr. reglna nr. 605/2006 um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

e.    Breyting á erindisbréfi vísindanefndar og verklagsreglum um akademísk gestastörf við Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

f.    Breyting á reglum um tækjakaupasjóð.
– Samþykkt.

g.    Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Félagsstofnunar stúdenta.
– Samþykkt. Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Félagsstofnunar stúdenta næstu tvö ár er Baldur Þórhallsson, prófessor. Varamaður er Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs.

h.    Breyting á 12. gr. reglna nr. 319/2019 um inntökuskilyrði í grunnnám. 2. mgr. 12. gr. falli brott.
– Samþykkt.

i.    Auglýsing um fyrirkomulag kennslu, prófa og námsmats við Háskóla Íslands háskólaárið 2021-2022, sbr. fund háskólaráðs 10. sept. 2020.
– Samþykkt.

j.    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar, sbr. fund ráðsins 6. maí sl.
– Samþykkt. Jón Atli Benediktsson, rektor, er fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar um málefni norðurslóða. Varamaður er Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda.

k.    Tillaga frá vísindanefnd að breytingu á 75. gr. sameiginlegra reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

l.    Frá Stúdentaráði Háskóla Íslands: Tillaga að breytingu á 81. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Varðar stjórn Stúdentasjóðs.
– Samþykkt.

10.    Mál til fróðleiks.
a.    Dagatal Háskóla Íslands 2021-2022.
b.    Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á haustmisseri 2021.
c.    Ársreikningur Styrktarsjóða Háskóla Íslands 2020.
d.    Stjórn Endurmenntunar Háskóla Íslands.
e.    Samstarfssamningur Neyðarlínunnar 112 og Háskóla Íslands, dags. 24. júní 2021.
f.    Skýrsla Námsstjórnar um menntun framhaldsskólakennara fyrir háskólaárið 2020 til 2021.
g.    Viljayfirlýsing um nýsköpunar- og þróunarsetur á landsbyggðinni.
h.    Samningur Háskóla Íslands, Hólaskóla – Háskólans á Hólum og Háskólans á Akureyri um Rannsóknamiðstöð ferðamála, dags. 19. ágúst 2021.
i.    Skipan málnefndar Háskóla Íslands.
j.    Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll 19. júní 2021.
k.    49 akademískir starfsmenn hlutu framgang í starfi.
l.    Staða Háskóla Íslands á lista samtakanna ShanghaiRanking Consultancy.
m.    Nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi.
n.    Fréttabréf háskólavina, dags. 1. september 2021.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.