Skip to main content
17. ágúst 2021

Háskóli Íslands heldur stöðu sinni á Shanghai-listanum í harðri samkeppni

Háskóli Íslands heldur stöðu sinni á Shanghai-listanum í harðri samkeppni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í 500.-600. sæti á nýjum lista samtakanna ShanghaiRanking Consultancy yfir bestu háskóla heims 2021 og heldur þannig stöðu sinni í harðri samkeppni í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Þetta er fimmta árið í röð sem Háskólinn kemst á þennan virta og eftirsóknarverða lista og sem fyrr er hann þar einn íslenskra háskóla.

Shanghai-listinn er vafalítið þekktastur allra lista yfir bestu háskóla heims en hann ber formlega heitið Academic Ranking of World Universities (ARWU). Shanghai-listinn er annar af tveimur virtustu og áhrifamestu matslistunum en hinn er Times Higher Education World University Rankings. Háskóli Íslands hefur verið á þeim lista í áratug.

Shanghai-listinn hefur verið birtur í nærri tvo áratugi og grundvallast á úttekt og samanburði á yfir 2.000 háskólum víða um heim. Þar er horft til mælikvarða eins og birtinga vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir einstakra starfsmanna og á vegum hvers skóla, frammistöðu háskóla út frá starfsmannafjölda og fjölda starfsmanna sem hjóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt innan einstakra fræðagreina. 

Á nýjum lista yfir 1.000 fremstu háskóla heims sem ShanghaiRanking Consultancy birti á sunnudaginn var raðast Háskólinn í sæti 500-600 en þar var hann einnig í fyrra. Það er fjarri því sjálfsagt að háskólar haldi stöðu sinni á listanum enda fjölgar þeim háskólum ört sem leggja mikla áherslu á hágæðarannsókna- og vísindastarf og samkeppni í alþjóðlegu vísindastarfi harðnar því með hverju árinu. 

„Samkeppni háskóla um að komast á Shanghai-listann er gríðarlega hörð. Frábært er að Háskóli Íslands haldi stöðu sinni á listanum, en ljóst er að við þurfum að halda áfram að efla starfið og fjárfesta í háskólamenntun hérlendis,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. „Þekkingin er gjaldmiðill framtíðarinnar og við þurfum að sækja fram af miklum þunga. Það að standa í stað þýðir að detta niður listann þar sem aðrir halda áfram að bæta í.“

Við þetta má bæta að fyrr í sumar birti ShanghaiRanking Consultancy lista yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum vísinda- og fræðasviðum og þar komst Háskóli Íslands á 14 lista. Skólinn er þar áfram í allra fremstu röð á sviði fjarkönnunar, í hópi þeirra 45 bestu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og í sæti 51-75 í hjúkrunarfræði.

Nýjan Shanghai-lista yfir bestu háskóla heims er að finna á vefsíðu samtakanna.

Háskólatorg