Skip to main content
19. júní 2021

„Reynslan mun ekki síður  nýtast en prófgráðan sjálf“

„Reynslan mun ekki síður  nýtast en prófgráðan sjálf“ - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það þarf úthald og seiglu til að ná settu marki þegar flestar forsendur bresta fyrirvaralaust. Ekkert ykkar gat séð fyrir heimsfaraldur þegar þið hófuð nám við Háskóla Íslands.  Engu að síður tókst ykkur ætlunarverkið.  Í því er fólgin mikil reynsla og lærdómur sem þið takið með ykkur út í lífið og mun nýtast ykkur ekki síður en sjálf prófgráðan.“

Þetta sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í morgun þegar á annað þúsund kandídatar voru brautskráðir frá skólanum í fyrri athöfn dagsins í Laugardalshöll. Yfir 2.500 manns munu í heildina brautskrást úr grunn- og framhaldsnámi frá Háskólanum í dag sem er met. 

Jón Atli hrósaði nemendum Háskólans sérstaklega fyrir sveigjanleika og sagði að skólinn myndi nú gaumgæfa áhrif heimsfaraldursins á allt starfið. Í því sambandi sagði hann nauðsynlegt að skoða þætti á borð við líðan, námsárangur og tengslanet nemenda. Rektor sagði það afar jákvætt að þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefði brottfall nemenda ekki aukist í heimsfaraldrinum. 

Brautskráning á 110 ára afmæli skólans

Háskóli Íslands fagnar um þessar mundir 110 ára afmæli sínu og gerir það með því að brautskrá langmesta fjölda sem hann hefur gert í einu lagi frá stofnun hans árið 1911. 

Samanlagt verða 1621 kandídatar brautskráðir úr grunnnámi í dag og 927 úr framhaldsnámi. Alls munu því 2.548 kandídatar útskrifast frá Háskóla Íslands en til samanburðar voru kandídatarnir 2.050 í fyrra. Nær allir sem taka við prófskírteinum í dag hafa tekið hluta námsins stafrænt og próf sömuleiðis. Jón Atli lofaði þær stafrænu leiðir sem skólinn hefði hagnýtt sér til að halda starfi sínu gangandi í heimsfaraldri. Hann sagði það engu að síður áskorun að nýta stafrænu tæknina til að auka gæði náms, kennslu og rannsóknastarfs og um leið minnka álag á starfsfólk og nemendur skólans. 
„Þetta er í raun spurning sem ávallt fylgir nýrri tækni: Viljum við að tæknin þjóni okkur eða eigum við að þjóna tækninni? Grunngildi Háskóla Íslands breytast ekki þótt ný tækni komi til sögunnar.“   

Rektor Háskólans vék í ræðu sinni að því hlutverki sem Háskólinn hefði gegnt í þá rösku öld sem hann hefði starfað og sagði skólann allt frá stofnun hafa helgað sig þeirri hugsjón að efla og bæta íslenskt samfélag.  

„Þegar skólinn var stofnaður ríkti hér örbirgð á flest öllum sviðum. En mjór er mikils vísir. Háskóli Íslands hefur undanfarinn áratug raðast meðal bestu háskóla heims og frá upphafi hefur hann brautskráð um 55.000 nemendur sem hafa byggt hér upp samfélag sem á fáa sína líka.“  

Háskólinn hefur þróast mikið frá stofnun og gerir enn. Í hópi brautskráningarkandídata nú í morgun voru t.d. fyrstu nemendurnir sem ljúka meistaranámi í iðnaðarlíftækni, námsleið sem Háskóli Íslands býður í samstarfi við lyfjafyrirtækið Alvotech. Jafnframt tók fyrsti nemandinn sem lýkur meistaranámi í líftölfræði við brautskráningarskírteini sínu og sama má segja um fyrsta nemandann með meistarapróf í faraldsfræði. 

Ný stefna skólans með fókus á tengsl við samfélag

Háskóli Íslands kynnti í vikunni nýja framtíðarstefnu og vék rektor talinu að henni í ávarpi sínu til kandídata. „Nýja stefnan varðar leiðina fram á við og gerir okkur kleift að stilla saman strengi til að gera góðan háskóla enn betri, en yfirskrift stefnunnar er betri háskóli, betra samfélag.“

Jón Atli sagði jafnframt að stefnan markaði nýjar áherslur í leitinni að nýrri þekkingu um lífríki, samfélagið og okkur sjálf, sem yrðu aðalsmerki Háskóla Íslands á næstu árum. 

„Þekkingarleitin beinist nú að því að skilja hvernig við getum mætt ágengum áskorunum og ógnum, en ekki síður því hvernig við getum nýtt ókönnuð tækifæri til að tryggja farsæld mannkyns og lífríkis um ókomna tíð.“  

Í lok ræðu sinnar hvatti Jón Atli kandídatana áfram og sagði þeim ætlað að helga krafta sína leitinni að lausnum á sameiginlegum viðfangsefnum okkar. 

„Þið munið vaxa og eflast við hverja áskorun sem þið takist á við af heilum hug með það vegarnesti sem þið hafið fengið í Háskóla Íslands.“

Jón Atli Benediktsson og brautskráningarkandídat