Skip to main content
19. júní 2021

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll 

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ræða Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata 19. júní í Laugardalshöll

„Forsetar fræðasviða, deildarforsetar, kandídatar, starfsfólk Háskóla Íslands, góðir gestir nær og fjær. 

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin til þessarar uppskeruhátíðar Háskóla Íslands. Hún markar tímamót í starfi skólans því vonir standa til að hlutirnir færist nú aftur í eðlilegt horf eftir langa og stranga baráttu við skæðan heimsfaraldur. Því er einstaklega ánægjulegt að sjá ykkur öll samankomin hér í dag. Það boðar betri tíð.  

Þið megið svo sannarlega vera stolt, kæru kandídatar, af árangrinum sem þið hafið náð og staðfestur er með prófskírteinunum sem þið takið við hér á eftir. Þið hafið unnið af kappi og eljusemi við óvenjulegar aðstæður. Háskólanám er sannarlega krefjandi við bestu skilyrði, en þið hafið náð settu marki við einhverjar erfiðustu kringumstæður sem íslenskir háskólanemar hafa nokkru sinni glímt við.  Ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn og árangurinn.  

Við starfsfólk Háskólans höfum notið samfylgdarinnar við ykkur, höfum bundist ykkur traustum böndum og erum stolt af hverju og einu ykkar og ykkur öllum til samans. Við lítum svo á að við eigum hlut í ykkur eins og fjölskyldur ykkar og vinir sem samfagna með ykkur í dag.  

Það þarf úthald, seiglu og þrautseigju til að ná settu marki þegar flestar forsendur bresta fyrirvaralaust. Ekkert ykkar gat séð fyrir heimsfaraldur þegar þið hófuð nám við Háskóla Íslands. Engu að síður tókst ykkur ætlunarverkið. Í því er fólgin mikil reynsla og lærdómur sem þið takið með ykkur út í lífið og mun nýtast ykkur ekki síður en sjálf prófgráðan. Við vitum ekki hvaða áskoranir bíða handan við hornið eða hvernig veröldin velkist. En frammistaða ykkar undanfarið ár hefur ótvírætt sýnt að þið eruð í stakk búin til að takast á við framtíðina. Samfélagið mun horfa til ykkar, ekki bara sem vel menntaðra sérfræðinga heldur einnig sem leiðtoga sem munu leiða Ísland áfram næstu kynslóð.  Með aukinni þekkingu og færni kemur aukin ábyrgð sem ég er sannfærður um að þið munið axla með sóma. 

Leiðarljós Háskóla Íslands undanfarin misseri hefur verið að tryggja gæði náms ykkar og búa svo um hnútana að prófgráður ykkar standist alþjóðlegar kröfur. Þið hafið tekið fullan þátt í þessu verkefni með sveigjanleika, ástundun og seiglu. Á sama tíma höfum við sem rannsóknaháskóli gefið okkur tíma til að gaumgæfa áhrif heimsfaraldursins á starf skólans.  Í því sambandi hafa m.a. verið skoðaðir þættir á borð við líðan, námsárangur og tengslanet nemenda. Ein jákvæðasta niðurstaða þessara athugana er að brotthvarf nemenda hefur ekki aukist á þessum erfiðu tímum. Þetta er fyrst og fremst góður vitnisburður um seiglu ykkar, kæru kandídatar. Á hinn bóginn hefur félagslegt tengslanet nemenda veikst á tímum faraldursins og á það ekki síst við um fyrsta árs nema. Þetta þarf ekki að koma á óvart því samfélag nemenda og kennara hefur orðið fyrir ágjöf og munum við leita allra leiða til að bæta úr því. Ég vona einnig, kæru kandídatar, að þið munið kappkosta að styrkja ykkar eigin félagslegt tengslanet nú þegar samfélag okkar allra í heiminum opnast aftur. „Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur“, segir í ljóði Einars Benediktssonar.

Við höfum þurft að reiða okkur á stafræna tækni undanfarin misseri og höfum öll öðlast aukna færni á því sviði sem er mikilvægt í ljósi þeirrar stafrænu umbyltingar sem nú á sér stað á flestum sviðum. Áskorunin sem við nú stöndum frammi fyrir er þessi: Hvernig getum við nýtt stafrænu tæknina til að auka gæði náms, kennslu og rannsóknastarfs og um leið minnkað álag á starfsfólk og nemendur skólans? Þetta er í raun spurning sem ávallt fylgir nýrri tækni: Viljum við að tæknin þjóni okkur eða eigum við að þjóna tækninni? Grunngildi Háskóla Íslands breytast ekki þótt ný tækni komi til sögunnar.  Á sama tíma er ljóst að þróun stafrænnar miðlunar breytir alþjóðlegu umhverfi háskóla. Þannig mun samstarf háskóla þvert á landamæri aukast og samkeppni um nemendur harðna að sama skapi. Því vinnum við nú markvisst að því að nemendur við Háskóla Íslands geti í náinni framtíð víkkað sjóndeildarhring sinn með því að skrá sig í námskeið við evrópska háskóla fyrir tilstilli Aurora samstarfsnetsins, neti 11 öflugra háskóla sem Háskóli Íslands veitir forystu. Og nemendur í sumarskóla Háskóla Íslands geta skráð sig í einingabær netnámskeið sem byggjast á samstarfi við suma af virtustu háskólum heims í gegnum edX-samstarfsnetið sem Háskóli Íslands er aðili að. 

Háskóli Íslands fagnar þessa dagana 110 ára afmæli sínu. Í vetur höfum við lagt mikla vinnu í að móta nýja stefnu fyrir Háskóla Íslands fyrir næstu fimm ár, HÍ 26, sem samþykkt var í háskólaráði fyrr í þessum mánuði og kynnt á ársfundi Háskólans í byrjun vikunnar. Nýja framtíðarstefnan, sem unnin var í víðtæku samstarfi starfsfólks, nemenda og ytri hagsmunaaðila, mun varða leiðina fram á við og gera okkur kleift að stilla saman strengi til að gera góðan háskóla enn betri, en yfirskrift stefnunnar er „Betri háskóli, betra samfélag“.  

Markmið Háskóla Íslands hefur frá stofnun árið 1911 verið helgað þeirri hugsjón að efla og bæta íslenskt samfélag og má fullyrða að leitun er að háskóla sem hefur haft víðlíka áhrif á sitt samfélag. Þegar skólinn var stofnaður ríkti á Íslandi örbirgð á flestöllum sviðum. En mjór er mikils vísir. Háskóli Íslands hefur undanfarinn áratug raðast meðal bestu háskóla heims og frá upphafi hefur hann brautskráð um 55.000 nemendur sem hafa byggt hér upp samfélag sem á fáa sína líka. Við fögnum því í dag að þið, kæru kandídatar, bætist nú í þessa öflugu sveit vel menntaðra einstaklinga sem lætur í auknum mæli til sín taka á innlendum og erlendum vettvangi. Fyrir það ber að þakka og af því getum við öll verið stolt.  

Sagan nemur ekki staðar og um þessar mundir endurspeglast styrkur Háskóla Íslands ekki síst í sívaxandi alþjóðlegu samstarfi við virtar vísindastofnanir um allan heim.  Hér nýtur skólinn þess að hann mælist ár eftir ár í fremstu röð á virtum matslistum yfir bestu háskóla heims og þetta gerir okkur að eftirsóknarverðum samstarfsaðilum. Íslenskt samfélag nýtur góðs af straumi nýrra hugmynda og þekkingar sem berst hingað til lands í gegnum þátttöku vísindafólks skólans í alþjóðlegu fræðasamstarfi.  Um leið gefur þetta prófgráðum ykkar, kæru kandídatar, aukið verðgildi og opnar ykkur óþrjótandi tækifæri, hvort sem þið hyggið á frekara nám eða starf.  Veröldin öll er vettvangur ykkar og leikvöllur!

Leitin að nýrri þekkingu um lífríki, samfélagið og okkur sjálf, er aðalsmerki Háskóla Íslands. Þekkingarleitin beinist nú í auknum mæli að því að skilja hvernig við getum mætt ágengum áskorunum og ógnum, en ekki síður því hvernig við getum nýtt ókönnuð tækifæri til að tryggja farsæld mannkyns og lífríkis um ókomna tíð. Við Íslendingar erum upplýst þjóð og látum stjórnast af því sem sannara reynist og traust okkar á vísindum hefur eflst til muna á undanförnum misserum.  Er það ekki að ástæðulausu. Kjörorð Háskóla Íslands „Vísindin efla alla dáð“ úr ljóði Jónasar Hallgrímssonar munu verða leiðarljós okkar í að móta sjálfbært samfélag framtíðarinnar. Hér reynir á öll fræðasvið Háskólans frá verkfræði- , náttúru- og heilbrigðisvísindum til hug-, félags- og menntavísinda. Þótt það sé skiljanlegt til skemmri tíma litið, þá megum við ekki falla í þá freistni að leita í blindni í fyrra far heldur þurfum við að leita nýrra lausna til að mæta umhverfisógnum og loftslagsvá.  Við þurfum ekkert minna en nýtt hugarfar og nýjan mannskilning. Ég leyfi mér að vona að heimsfaraldurinn verði kveikjan að því að breyta hugsunarhætti okkar allra og að hann muni leiða okkur fyrir sjónir hvernig við getum náð markmiðum okkar og átt áfram fagurt líf í sátt og samlyndi við annað fólk, umhverfi okkar og lífríki. Þess vegna leggjum við höfuðáherslu á sjálfbærni í víðum skilningi í nýrri stefnu Háskóla Íslands. Nú er lag. Segja má að einn stærsti lærdómurinn af heimsfaraldrinum hafi einmitt verið sá að mannkyninu öllu tókst það sem áður var talið ómögulegt – að standa öll saman gegn aðsteðjandi ógn.

Kæru kandídatar. Ég hef gert hina óræðu framtíð að umræðuefni hér í dag en með allt sem þið hafið nú í höndum og afrekað er framtíðin ykkar og hún er björt. Nú gangið þið út í daginn í sumarsins algræna skrúði eins og skáldkonan Margrét Jónsdóttir orti. Þið munið helga krafta ykkar og starf leitinni að lausnum á sameiginlegum viðfangsefnum okkar. Þið munið vaxa og eflast við hverja áskorun sem þið takist á við af heilum hug með það vegarnesti sem þið hafið fengið í Háskóla Íslands. Ég óska ykkur gæfu og góðs gengis í öllu því sem þið takið ykkur á hendur í lífi og starfi á komandi árum. 

Til hamingju með daginn.“

Jón Atli Benediktsson