Skip to main content
18. ágúst 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi verður að veruleika

Nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi verður að veruleika - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, og Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um að byggja upp nýsköpunar- og þróunarsetur hjá skólunum tveimur, en Háskóli Íslands og fleiri aðilar styðja verkefnið.

Í setrinu verður áhersla á nýsköpun, rannsóknir, fræðslu og frumkvöðlastarf á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og loftslagsmála, sem og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni almennt svo sem í ferðaþjónustu, nýtingu náttúrugæða og menningartengdri starfsemi.

Aðrir sem undirrituðu viljayfirlýsinguna verkefninu til stuðnings eru Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Páll Sævar Brynjarsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Breiðar þróunarfélags, Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands, Ólafur Sveinsson, stjórnarformaður Hugheima nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs, og Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. 

Markmiðið er að skapa umhverfi fyrir samvinnu, þróun og miðlun ólíkrar þekkingar á sviði rannsókna, nýsköpunar og sjálfbærni. Sérstaklega verður horft til landbúnaðar, matvælaframleiðslu, ferðamála og loftslagsmála með það að markmiði að styrkja samkeppnisstöðu íslensks samfélags, efla atvinnu- og byggðaþróun og auka lífsgæði í landinu. Í þessu felst að styðja við tækniþróun, rannsóknir, alþjóðlegt samstarf og greiningar á þessu sviði auk þess sem horft er til þess að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir þróun viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna. 

Landbúnaður er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs og mikil sóknarfæri í greininni, meðal annars vegna:

  • framþróunar í tækni og þekkingar á sviði hefðbundins landbúnaðar, jarðræktar og nýrra greina; 
  • tengingar við umhverfisáhrif og loftslagsbreytingar; 
  • auðlinda landsins á sviði þekkingar, hreinnar orku og annarra náttúruauðlinda; og
  • fólksfjölgunar á heimsvísu og breyttra neysluvenja.

Með Nýsköpunar- og þróunarsetrinu er markmiðum stjórnvalda mætt um að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu í sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf, hagaðila og áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni.

Jón Atli Benediktsson, Margrét Jónsdóttr Njarðvík, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir