Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 14. desember 2017

10/2017

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2017, fimmtudaginn 14. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson, Ragna Árnadóttir, Ragna Sigurðardóttir og Þengill Björnsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Tómas Þorvaldsson boðaði forföll og varamaður hans einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Eiríkur Rögnvaldsson gerði athugasemd við lið 7g sem var samþykkt. Ekki voru gerðar aðrar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og formaður starfshóps um innleiðingu fimm ára fjárhagsáætlunargerðar Háskólans og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018 og fjárhagsáætlun Háskólans.
Fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar var kynnt í morgun og gerðu Guðmundur og Jenný Bára grein fyrir því í stórum dráttum. Guðmundur og Jenný Bára gerðu einnig stuttlega grein fyrir drögum að fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2018 sem endurskoðuð verður í ljósi fjárlagafrumvarpsins. Málið var rætt og að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi ályktun:

„Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir ánægju með þá viðbótarfjárveitingu sem veita á til skólans samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018. Með því er stigið áþreifanlegt skref í átt að sambærilegri fjármögnun Háskóla Íslands og háskóla á Norðurlöndum, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Óumdeilt er að menntun er lykill að velsæld og samkeppnishæfni þjóða. Rannsóknir eru drifkraftur nýsköpunar og framfara. Háskóli Íslands er öflug mennta- og rannsóknastofnun sem hefur á undanförnum árum náð eftirtektarverðum árangri í alþjóðlegum samanburði.

Stuðningur við Háskóla Íslands snertir allt samfélagið og er forsenda þess að hann geti rækt hlutverk sitt í þágu þjóðar og atvinnulífs og sótt fram af áræðni.“

b)    Mönnunaráætlun fyrir Háskóla Íslands til 5 ára í senn.
Daði Már greindi frá stöðu mála varðandi mönnunaráætlun fyrir Háskóla Íslands til 5 ára í senn, sbr. síðasta fund. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum. Málið verður aftur á dagskrá á næsta fundi háskólaráðs.

Jenný Bára og Daði Már viku af fundi.

3.    Innri endurskoðun. Úttekt á fjármálastjórn fræðasviða.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi og gerði grein fyrir drögum að skýrslu um fjármálastjórn fræðasviða. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt að vísa málinu til eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda.

Ingunn og Guðmundur viku af fundi.

4.    Skýrsla starfshóps rektors um akademískt misferli nemenda, dags. 3. nóvember 2017, ásamt tillögu sameiginlegrar stjórnsýslu um að bætt verði nýrri málsgrein við 4. mgr. 54. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri. Áslaug fór yfir helstu niðurstöður og tillögur í skýrslu starfshóps rektors um akademískt misferli nemenda við Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu þær Áslaug og Guðbjörg Linda spurningum.
– Samþykkt að fela formönnum kennslumálanefndar, vísindanefndar, gæðanefndar og gæðastjóra að fylgja tillögum starfshópsins eftir. Einnig samþykkt að við 4. mgr. 54. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 bætist svohljóðandi málsgrein: „Stúdent er óheimilt að leggja oftar en einu sinni fram til eininga ritgerð eða annað fræðilegt efni, í heild eða að stórum hluta, nema með leyfi þess kennara sem í hlut á. Tilvitnanir í eigin áður útgefin verk skulu lúta sömu reglum og gilda um tilvitnanir í verk annarra.“

Áslaug vék af fundi.

5.    Plastbarkamálið. Viðbrögð í kjölfar skýrslu nefndar, dags. 6. nóvember sl., sem skipuð var af rektor Háskóla Íslands og forstjóra Landspítala 27. október 2016.
Inn á fundinn kom Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur á rektorsskrifstofu. Fyrir liggur skýrsla óháðrar rannsóknarnefndar um svokallað plastbarkamál sem skipuð var af rektor Háskóla Íslands og forstjóra Landspítala hinn 27. október 2016, ásamt fylgiskjölum og glærum frá kynningu nefndarinnar í Norræna húsinu 6. nóvember 2017. Jafnframt lágu fyrir fundinum tvö minnisblöð um möguleg viðbrögð í ljósi niðurstaðna skýrslunnar og um aðkomu Háskólans að málinu. Rektor og Guðbjörg Linda gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Að lokinni umræðu var eftirfarandi samþykkt einróma:

Settur verði á fót starfshópur á vegum rektors til þess að fara yfir aðkomu Háskóla Íslands, sem stofnunar, að málinu. Í starfshópnum verði formaður vísindasiðanefndar Háskólans ásamt sviðsstjórum kennslusviðs og vísinda- og nýsköpunarsviðs og aðstoðarrektor vísinda sem stýri starfinu. Starfshópurinn ljúki störfum fyrir lok maí 2018.

Siðareglur Háskólans eru almenns eðlis og að grunni til frá 2003 og voru síðast uppfærðar af gefnu tilefni árið 2011. Velta má því upp til athugunar hvort tilefni sé til að uppfæra þær að einhverju marki, m.a. með tilliti til evrópskra siðareglna um heilindi í vísindarannsóknum. Þannig gæti verið til bóta ef í reglunum væru ítarlegri ákvæði sem t.d. beinlínis taka á þeirri aðstöðu ef aðili verður þess áskynja að eitthvað í vísindalegri grein standist ekki eða sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi þekkingu, gögn og upplýsingar. Jafnframt verði þá skoðað samhengið á milli hinna almennu siðareglna og vísindasiðareglna Háskólans sem settar voru 2014, en í þeim er ákvæði um höfunda og meðhöfunda, en vísindasiðanefnd veitir hins vegar aðeins umsagnir um rannsóknir.

Starfshópurinn fari yfir eftirtalin atriði:
1.    Hvernig staðið er að framsetningu kynningarefnis og fréttatilkynninga og settar fram leiðbeiningar þar um.
2.    Siðareglur og vísindasiðareglur.
3.    Sem lið í athugun sinni standi starfshópurinn fyrir málstofu um rannsóknir og siðferði á vormisseri 2018.
4.    Mótaðar verði tillögur um almennar aðgerðir, s.s. í formi fyrirlestra, kynningarefnis eða námskeiðs fyrir starfsmenn til að tryggt sé að starfsmönnum sé ávallt ljóst hvaða lög, reglur og siðareglur gilda um starfsfólk og starfsemi Háskólans.

Erla Guðrún vék af fundi.

6.    Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn kom Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Fyrir fundinum lá samantekt um ákvæði í drögum að samningi á milli Reykjavíkurborgar og Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. sem fjalla um þrjá byggingareiti í svonefndri „Randbyggð“ sunnan við Læknagarð og meðfram Hringbraut að norðanverðu. Gerði hann grein fyrir málinu og var það rætt.
– Á grundvelli samantektarinnar samþykkti háskólaráð efnislega samningsákvæðin sem liggja fyrir í drögum að samningi á milli Reykjavíkurborgar og Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.

7.    Bókfærð mál.
a)    Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar greinar.

– Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2018-2019 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2017-2018) sem og samsvarandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010:

I. Heilbrigðisvísindasvið

a.    Læknadeild
− Læknisfræði                   50      (48)
− Sjúkraþjálfunarfræði, BS           35      (35)
− Sjúkraþjálfun, MS               30      (30)
– Geislafræði                   12       (12)
– Talmeinafræði, MS              15       (15, 2016-2017)

b.    Hjúkrunarfræðideild
− Hjúkrunarfræði                 120    (120)
− Ljósmóðurfræði               10      (10)

c.    Tannlæknadeild
− Tannlæknisfræði                 8        (8)
− Tannsmiðanám                 5        (5)

d.    Sálfræðideild
− Hagnýt sálfræði, MS, klínísk,
   (áður cand. psych.)              20      (20)
− Hagnýt sálfræði, MS, megindleg,
   skóli og þroski, samfélag og heilsa      15      (15)

e.    Lyfjafræðideild
− MS nám í klínískri lyfjafræði            2         (2)

f.    Matvæla- og næringarfræðideild
− MS nám í klínískri næringarfræði        2         (-)

II. Félagsvísindasvið

a.    Stjórnmálafræðideild
− MA nám í blaða- og fréttamennsku       21      (21)

b.    Félags- og mannvísindadeild
− MA nám í náms- og starfsráðgjöf       40       (40)

c.    Félagsráðgjafardeild
− MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda 30      (30)

d.    Lagadeild
− Lögfræði                  100      (90)

e.    Viðskiptafræðideild
− MS nám í nýsköpun og viðskiptaþróun   14       (12)

b)    Tillaga Félagsvísindasviðs að nýrri námsleið, MA-nám í hagnýttri hagfræði í Hagfræðideild, ásamt tillögu að breytingu á reglum nr. 643/2011 um meistaranám við Félagsvísindasvið og reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

c)    Tillaga Félagsvísindasviðs að breytingum á MS námi í Viðskiptafræðideild, ásamt tillögu að breytingu á 94. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

d)    Tillaga Hugvísindasviðs að tveimur nýjum námsleiðum á meistarastigi í sýningargerð, miðlun og sýningarstjórnun í samstarfi tveggja deilda fræðasviðsins, ásamt breytingu á 113. og 115. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

e)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs að breytingu á 9. gr. reglna nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands (varðar nemendur sem lokið hafa námi í hjúkrunarfræði frá erlendum skólum og hafa fengið hjúkrunarleyfi í heimalandi).
– Samþykkt.

f)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs um að leggja niður prófgráðuna cand. psych. og fella námið undir kjörsviðið „klínísk sálfræði“ innan námsleiðarinnar MS í hagnýtri sálfræði, ásamt viðeigandi breytingum á 105. og 106. gr. reglna nr. 569/2009, 19. gr. reglna nr. 140/2014 og 6. gr. reglna nr. 153/2010. Fyrirvari er gerður um að viðeigandi breyting á reglugerð nr. 1130/2012, um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sálfræðileyfi verði samþykkt af hálfu heilbrigðisráðherra.
– Samþykkt.

g)    Tillaga starfsmannasviðs að verklagsreglum um ráðningarferli um akademísk störf við Háskóla Íslands.
Eiríkur Rögnvaldsson lagði til að bætt verði við verklagsreglurnar ákvæði um að í starfsauglýsingum verði vísað til málstefnu Háskóla Íslands.

– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Viðbrögð í kjölfar ábendinga innri endurskoðanda um skjalastjórnun, sbr. samþykkt háskólaráðs 8. desember 2016. Staða mála.
b)    Viðbrögð í kjölfar ábendinga innri endurskoðanda um meðferð erlendra styrkja, sbr. samþykkt háskólaráðs 8. desember 2016. Staða mála.
c)    Viðbrögð í kjölfar ábendinga innri endurskoðanda um nýráðningar akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, sbr. samþykkt háskólaráðs 2. mars sl. Staða mála.
d)    Staða Háskóla Íslands og einstakra fræðasviða háskólans á lista Times Higher Education World University Rankings. Sjá hér um verkfræði og tækni og um raunvísindi.
e)    Tilkynning frá Háskóla Íslands og Landspítalanum vegna birtingar skýrslu um plastbarkamálið, dags. 6. nóvember 2017.
f)    Aðild Háskóla Íslands að edX, samstarf hafið formlega 17. nóvember 2017.
g)    Fréttabréf Menntavísindasviðs, nóvember 2017.
h)    Glærur frá upplýsingafundi rektors 29. nóvember 2017.
i)    Árleg viðurkenning til starfsmanna Háskóla Íslands.
j)    „Mikilvægi menntunar í verðmætasköpun við framleiðslu matvæla.“ Grein rektors og forstjóra Matís í Fréttablaðinu 30. nóvember 2017.
k)    Yfirlýsing frá rektor vegna kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og annars kynbundins ofbeldis gegn konum í vísindum, dags. 1. desember 2017.
l)    Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, desember 2017.
m)    Viljayfirlýsing íslenskra háskóla og Íbúðalánasjóðs.
n)    Stýrihópur um jafnlaunavottun.
o)    Skýrsla Samtaka evrópskra háskóla (European University Association, EUA), Public Funding Observatory Report 2017, desember 2017.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.