Skip to main content

Reglur nr. 643-2011

Reglur um meistaranám við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, nr. 643/2011

með síðari breytingum

I. KAFLI  Almennar reglur Félagsvísindasviðs.

1. gr.  Markmið námsins.

Á Félagsvísindasviði er unnt að stunda meistaranám á fræðasviðum þar sem deildir meta að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi. Um lærdómstitla fer samkvæmt X.-XIV. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Markmið námsins er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þjálfun til starfa á fjölbreytilegum vettvangi ásamt því að undirbúa nemendur undir doktorsnám.

2. gr.  Fastanefndir.

Í hverri deild, sem hefur heimild háskólaráðs til að brautskrá meistaranema skal starfa sérstök fastanefnd (vísindanefnd, rannsóknanámsnefnd, meistaranámsnefnd). Nefndin fer með málefni framhaldsnáms sem stundað er við deildina og er hlutverk hennar m.a. að hafa faglega umsjón með gæðum meistaranáms, fjalla um umsóknir, samþykkja breytingar á námsáætlunum og tilnefna prófdómara þegar við á, og önnur verkefni sem deild kann að fela henni. Deild getur falið námsbrautum að sjá um einstök verkefni fastanefndar.

3. gr.  Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur um meistaranám er að jafnaði til 15. apríl en erlendra umsækjenda til 1. febrúar. Leyfi deildir innritun framhaldsnema á vormisseri skal umsóknarfrestur vera til 15. október.

4. gr.  Umsókn.

Umsóknum skal skilað til Nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem er aðgengilegt á vef skólans. Deildir ákveða hvaða gögn skulu fylgja umsókn um meistaranám.

Eftir skráningu gagna í Nemendaskrá ber að fjalla um umsóknir í fastanefnd deildar. Að umfjöllun lokinni eru umsóknir sendar deild til afgreiðslu. Deild tilkynnir umsækjanda um afgreiðslu umsóknar. Afgreiðslu umsókna skal að jafnaði vera lokið og þeim svarað skriflega innan sex vikna frá lokum umsóknarfrests. Synji deild umsækjanda um inngöngu skal rökstyðja niðurstöðuna. Afgreiðsla deildar skal skráð í rafrænt kerfi Nemendaskrár. Sjá nánar 50. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Nemandi, sem deild hefur samþykkt í framhaldsnám, skal ganga frá greiðslu skrásetningargjalds komandi háskólaárs hjá Nemendaskrá. Skráning og greiðsla skrásetningargjalds er forsenda þess að nám geti hafist eða haldið áfram.

5. gr.  Inntökuskilyrði.

Umsækjendur um meistaranám skulu að jafnaði hafa lokið BA-, BS- eða B.Ed.-prófi frá Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi. Nánar er kveðið á um inntökuskilyrði í sérreglum deilda.

6. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

Meistaranám við Félagsvísindasvið er 90-120 einingar, sbr. X. kafla reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Meistaraverkefni skal að jafnaði vera 30-60 einingar. Að öllu jöfnu getur nemandi í meistaranámi ekki tekið meira en 12 einingar í lesnámskeiðum.

Hafi meistaranemi ekki lokið námi sínu fjórum árum eftir að hann hóf það getur hann sótt um eins árs framlengingu til deildar. Deildir geta sett nánari reglur um námsframvindu. Nemandi skal vera skráður og greiða skrásetningargjald allan námstímann.

7. gr.  Námskeið í grunnnámi sem hluti af meistaranámi.

Deild er heimilt ef sérstaklega stendur á að samþykkja námskeið í grunnnámi sem hluta af meistaranámi þó aldrei fleiri einingar en 12. Rökstyðja skal ítarlega slíkar ákvarðanir.

8. gr.  Leiðbeinandi.

Leiðbeinandi leiðbeinir nemanda í meistaraverkefni. Leiðbeinandi gegnir hlutverki og skyldum umsjónarkennara samkvæmt reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Aðalleiðbeinandi skal hafa a.m.k. meistarapróf og vera kennari viðkomandi deildar (aðjunkt, lektor, dósent eða prófessor). Heimilt er að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda enda hafi hann a.m.k. meistarapróf. Heimilt er að hafa meðleiðbeinanda í meistaraverkefni.

Skipa skal sérstaka meistaraprófsnefnd vegna verkefna sem eru stærri en 40 einingar í samræmi við 11. tölulið 69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Nefndin skal skipuð leiðbeinanda og öðrum nefndarmanni sem að jafnaði er kennari við viðkomandi deild. Í undantekningartilvikum er heimilt að skipa utanaðkomandi aðila nefndarmann enda hafi hann a.m.k. meistarapróf.

9. gr.  Prófdómarar og námsmat.

Forseti Félagsvísindasviðs skipar prófdómara að fenginni tillögu deildar. Prófdómari skal leggja mat á meistaraverkefni. Hver deild gefur út reglur eða viðmið um mat á meistaraverkefnum og fyrirkomulag námsmats. Prófdómari skal að jafnaði hafa lokið meistaraprófi eða sambærilegu prófi og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu. Prófdómari skal ekki vera kennari við Háskóla Íslands. Sé ekki völ á prófdómara hérlendis utan Háskóla Íslands, er fullnægi reglum hér á undan, er forseta fræðasviðs heimilt að skipa aðila innan Háskóla Íslands til starfans að fenginni tillögu háskóladeildar.

10. gr.  Skil og frágangur meistaraverkefnis.

Meistaraverkefni skal leggja fram í þremur til fimm eintökum til deildar. Deildir ákveða skilafrest verkefnis.

Við frágang meistaraverkefnis skal nemandi fylgja leiðbeiningum þeirrar deildar sem hann brautskráist frá.

Nemandi ber kostnað vegna útgáfu ritgerðar. Rafrænt eintak ber að vista í gagnasafni Skemmu. Deild sér um skil á meistaraverkefni til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns.

11. gr.  Skyldur nemanda.

Um réttindi og skyldur nemenda er vísað til reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og til siðareglna Háskóla Íslands.

12. gr.  Tengsl við aðra háskóla.

Heimilt er að veita meistaragráðu með öðrum háskóla í samræmi við reglur nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

II. KAFLI  Sérreglur deilda á Félagsvísindasviði.

13. gr.  [Sérreglur Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.]2

Umsækjendur um meistaranám skulu að jafnaði hafa lokið BA-, BS- eða B.Ed.-prófi frá Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi, með fyrstu einkunn.

Þar að auki gera eftirfarandi námsbrautir auknar kröfur um inntökuskilyrði:

Hafi umsækjandi um meistaranám í félagsfræði ekki lokið BA-prófi í greininni skal hann ljúka 30 einingum í félagsfræði á grunnstigi. Námsbraut tiltekur hvaða námskeiðum skal ljúka. Slíkt viðbótarnám er ekki hluti af eiginlegu meistaranámi.

Hafi umsækjandi um meistaranám í mannfræði ekki lokið BA-prófi í greininni skal hann ljúka 30 einingum í mannfræði á grunnstigi. Námsbraut tiltekur hvaða námskeiðum skal ljúka. Slíkt viðbótarnám er ekki hluti af eiginlegu meistaranámi.

Hafi umsækjandi um meistaranám í þjóðfræði ekki lokið BA-prófi í greininni skal hann ljúka 30 einingum í þjóðfræði á grunnstigi. Námsbraut tiltekur hvaða námskeiðum skal ljúka. Slíkt viðbótarnám er ekki hluti af eiginlegu meistaranámi.

Um umsækjendur um MA-nám í náms- og starfsráðgjöf gildir eftirfarandi: Fræðasvið félagsvísinda gerir árlega að tillögu [Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar,]3 ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í námsbraut í náms- og starfsráðgjöf. Reglur sem fylgt er við val stúdenta í þeim tilvikum skulu birtar í kennsluskrá. Skal beiðni fræðasviðsins þar að lútandi send háskólaráði fyrir lok nóvember ár hvert. Háskólaráð afgreiðir tillögu Félagsvísindasviðs eigi síðar en í janúar. Ef fjöldatakmörkun er ákveðin fer val stúdenta til náms fram í samræmi við ákvæði þessara reglna.

Nemendur sem hefja MA-nám í náms- og starfsráðgjöf skulu hafa lokið fyrsta háskólaprófi, BA-, B.Ed.-, BS- eða sambærilegu prófi, með fyrstu einkunn.

Umsækjendur sem lokið hafa námi, sem ekki er á einu af eftirtöldum þekkingarsviðum: sálfræði, menntun og menntakerfi, tengsl einstaklings og samfélags, eða hafa ekki lokið a.m.k. 10 einingum í megindlegri aðferðafræði, gætu þurft að ljúka einu til þremur námskeiðum (hámark 30 einingum) á fyrrgreindum sviðum. Ef nemandi þarf að bæta við sig námskeiðum skal það gert samhliða náminu. Það telst ekki vera hluti af eiginlegu meistaranámi. Nemandi getur valið að nýta 10 eininga val sitt í MA náminu í eitt viðbótarnámskeið.

Ef þeir sem sækja um að hefja MA-nám í náms- og starfsráðgjöf, og uppfylla inntökuskilyrði, eru fleiri en unnt er að taka inn skal val nemenda byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum:

 1. Einkunnum í háskóla.
 2. Starfsreynslu.
 3. Meðmælum frá vinnuveitanda ef umsækjandi hefur starfsreynslu, annars frá kennara  umsækjanda í háskóla.
 4. Persónulegum greinargerðum um forsendur og áhugasvið.
 5. Viðtölum ef þurfa þykir.

Að auki er heimilt að líta til dreifingar umsækjenda hvað varðar fyrstu prófgráðu, þannig að hlutfall nemenda verði sem jafnast með tilliti til greina sem þeir hafa lokið til BA-, B.Ed.- eða BS-prófs.

Inntökunefnd, skipuð þremur kennurum deildarinnar, fjallar um umsóknir nemenda og annast val þeirra samkvæmt 9. mgr. þessarar greinar. Telji inntökunefnd að umsækjandi uppfylli ekki inntökuskilyrði hafnar hún umsókn. Nánari ákvæði um inntökuskilyrði og inntöku nemenda er að finna í kennsluskrá og á vef Félagsvísindasviðs.

[...]1
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1078/2013.
2Breytt með 1. gr. reglna nr. 446/2018.

3Breytt með 2. gr. reglna nr. 446/2018.

14. gr.  Sérreglur Félagsráðgjafardeildar.

I. Inntökuskilyrði.
Umsækjendur um framhaldsnám skulu að jafnaði hafa lokið BA-, BS- eða B.Ed.-prófi frá Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn. Við einstakar námsleiðir eru gerðar nánari kröfur.

Umsækjendur um rannsóknartengt MA-nám í félagsráðgjöf skulu að jafnaði hafa lokið BA-prófi í félagsráðgjöf.

Um umsækjendur um MA-nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda gildir eftirfarandi:

Fræðasvið félagsvísinda gerir árlega að tillögu Félagsráðgjafardeildar, ef þörf krefur, rökstuddar tillögur til háskólaráðs um takmörkun á fjölda stúdenta í MA-nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda. Reglur sem fylgt er við val stúdenta í þeim tilvikum skulu birtar í kennsluskrá. Skal beiðni fræðasviðsins þar að lútandi send háskólaráði fyrir lok nóvember ár hvert. Háskólaráð afgreiðir tillögu Félagsvísindasviðs eigi síðar en í janúar. Ef fjöldatakmörkun er ákveðin fer val stúdenta til náms fram í samræmi við ákvæði þessara reglna.

Allir nemendur skulu uppfylla inntökuskilyrði sbr. 1.-3. tölulið 6. mgr. að mati inntökunefndar. Við val á nemendum skal byggja á sjónarmiðum sem fram koma í 1. og 3. tölulið 6. mgr.

Nemendur sem hefja MA-nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Hafa lokið BA-námi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands með fyrstu einkunn (7,25).
 2. Námið felur í sér starfsnám þar sem m.a. er unnið með börnum og er af þeim sökum gerð krafa um að umsækjendur leggi fram sakavottorð sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2008, um leikskóla, 3. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, 4. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldskóla, 3. mgr. 10. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007 og 36. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
 3. Geta gert grein fyrir hæfni sinni til náms. Við mat á hæfni skal byggja á eftirtöldum viðmiðum:
  a)    Persónulegri greinargerð um forsendur og áhugasvið.
  b)    Starfsreynslu, staðfest af vinnuveitenda.
  c)    Umsögn frá yfirmanni á stofnun á sviði félags - og heilbrigðisþjónustu ef við á.
  d)    Einkunnum í öðru háskólanámi.
  e)    Annarri starfsmenntun.
  f)    Persónulegum viðtölum þegar þurfa þykir að mati inntökunefndar.

Inntökunefnd, skipuð a.m.k. þremur fulltrúum deildarinnar, fjallar um umsóknir nemenda í MA-nám til starfsréttinda og annast val þeirra samkvæmt 6. mgr. þessarar greinar. Telji inntökunefnd að umsækjandi uppfylli ekki inntökuskilyrðin, sbr. 1.-3. tölulið 6. mgr., hafnar hún umsókn.

Nánari ákvæði um inntökuskilyrði og inntöku nemenda í annað framhaldsnám á vegum Félagsráðgjafardeildar er að finna í sérreglum deildar. Vísindanefnd, sem skipuð er í samræmi við reglur Félagsvísindasviðs um doktorsnám, fjallar um þær umsóknir.

II. Reglur sem varða meistaranám.
Meistaranám í Félagsráðgjafardeild skal fela í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og þátttöku í námskeiðum á framhaldsnámsstigi, auk starfsþjálfunar þegar það á við. Náminu lýkur með lokaverkefni og skal þess gætt að verkefnið tengist sérsviði því sem nemandi hefur valið. Stærð verkefnisins er 30 – 60 einingar. Heimilt er að skrifa meistararitgerð sem vísindagrein, að því gefnu að umfang verkefnisins sé að lágmarki 40 einingar og að ítarlegur fræðilegur bakgrunnur fylgi sem fylgiskjal. Ef skrifa á vísindagrein þarf samþykki leiðbeinanda. Vísindanefnd fjallar um slík erindi en vísar því til lokaafgreiðslu til deildarfundar.

Að öðru leyti gilda um meistaranám við Félagsráðgjafardeild frekari sérreglur sem deildin setur og eru í gildi á hverjum tíma.

15. gr.  Sérreglur Hagfræðideildar.

I. [Umsjón með námi.]2
Í Hagfræðideild starfar [kennslunefnd]2 sem hefur yfirumsjón með námi á MS-stigi innan deildarinnar. Hlutverk hennar er m.a. að fjalla um umsóknir, hafa eftirlit með gæðum kennslu, tilnefna prófdómara og sinna öðrum málum sem deild kann að fela henni.

II. [Skipan kennslunefndar.]2
[Í kennslunefnd sitja þrír fulltrúar, sem kosnir eru á deildarfundi. Skipað skal í kennslunefnd til tveggja ára í senn. Deildarforseti getur setið fundi nefndarinnar.]2

III. Inntökuskilyrði.
[Umsækjendur um framhaldsnám skulu að jafnaði hafa lokið BA- eða BS-prófi eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn. Umsækjendur með próf úr öðrum greinum en hagfræði geta, að undangengnu mati deildarinnar, fengið inngöngu í 60 eininga diplómanám eða MA-nám við Hagfræðideild. Við inngöngu í diplómanám ákveður kennslunefnd hvaða námskeið hver nemandi þarf að taka á grundvelli fyrra náms og reynslu. Nemendur sem ná góðum árangri í námskeiðum diplómanámsins geta sótt um inngöngu í meistaranám. Fái þeir inngöngu, kemur til greina að meta hluta námskeiða úr diplómanámi til meistaraprófs, þó aldrei þau námskeið diplómanáms sem nemanda er gert að taka vegna skorts á nauðsynlegum grunni í rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði, stærðfræði eða tölfræði. Gera skal grein fyrir matinu í samþykktarbréfi til umsækjanda. Kennslunefnd metur hvert tilvik í samræmi við verklagsreglur um mat á fyrra námi.]2

[Deildin getur sett frekari reglur um mat námskeiða.]1

IV. Einingafjöldi og tímalengd náms.
[Meistaranám er 90 eða 120 einingar. MA-nám í hagnýttri hagfræði er 120 einingar. Nemendur ljúka 90 einingum í námskeiðum og skrifa 30 eininga ritgerð. Í MS-námi ljúka nemendur námskeiðum að lágmarki til 60 eininga og skrifa  auk þess ritgerð til a.m.k. 30 eininga.

Til að ljúka tveimur meistaraprófum frá deildinni þarf nemandi að ljúka öllum skyldunámskeiðum á hvoru sviði. Einingafjöldi í námskeiðum skal samanlagt vera að lágmarki 90 einingar. Þá þarf nemandi að skrifa tvær sjálfstæðar ritgerðir.]2

V. Námskeið í grunnnámi sem hluti af meistaranámi.
Ekki er heimilt að nýta námskeið í grunnnámi sem námskeið í meistaranámi. Þegar sérstaklega stendur á er þó heimilt að meta námskeið sem skilgreint er á meistarastigi, en viðkomandi nemandi hefur tekið sem hluta af BS- eða BA-prófi sínu eða sambærilegum prófgráðum. [Kennslunefnd]2 ákveður hverju sinni hvort forsendur eru til þess að meta einstakt námskeið með þessum hætti og skal þá að jafnaði binda ákvörðun sína því skilyrði að nemandi bæti við sig tilteknu námskeiði á BS- og BA- eða meistarastigi til jafnmargra eininga og hann fær metnar með þessum hætti. Heimilt er að samnýta að einhverju leyti fyrirlestra fyrir bæði grunnnáms- og meistaranámskeið en námskröfur skulu vera aðrar fyrir meistaranemendur en grunnnámsnemendur.

VI. Umsjónarkennari og leiðbeinandi.
Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara úr hópi fastra kennara á viðkomandi sérsviði, sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Umsjónarmaður námsbrautar í meistaranámi kann þó að taka þetta hlutverk að sér gagnvart nemendum í viðkomandi námsbraut.

Leiðbeinandi hefur tilsjón með lokaverkefni nemanda. Heimilt er að hafa tvo eða fleiri leiðbeinendur og bera þeir þá sameiginleg ábyrgð á tilsögn nemanda. Aðalleiðbeinandi þarf þó ávallt að vera akademískur starfsmaður Hagfræðideildar.

VII. Kröfur til umsjónarkennara og leiðbeinenda.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi skulu ávallt vera lektor, dósent eða prófessor við Hagfræðideild. Verkefni nemanda skal vera á sérsviði leiðbeinandans. Leiðbeinendur skulu vera sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar á vettvangi þar sem gerðar eru strangar fræðilegar kröfur. Leiðbeinandi meistaranema skal hafa lokið meistaraprófi hið minnsta.

VIII. Meistaraprófsnefnd 60 eininga ritgerða.
[Kjósi nemandi í MS-námi, sem lýkur námskeiðum til 60 eininga, að skrifa 60 eininga ritgerð skal hann senda umsókn til kennslunefndar.]2 Nefndin tilnefnir einstakling til að sitja í meistaraprófsnefnd fyrir nemandann ásamt leiðbeinanda hans. Prófnefnd skal prófa nemanda munnlega úr efni ritgerðarinnar. Prófdómarar og meðlimir meistaraprófsnefndar skulu vera sérfróðir á viðkomandi fræðasviði og hafa lokið meistaraprófi hið minnsta.

IX. Prófdómarar í meistaranámi.
Prófdómari skal ávallt leggja mat á lokaverkefni meistaranema ásamt leiðbeinanda þegar um 30 eininga ritgerð er að ræða en ásamt meistaraprófsnefnd ef um 60 eininga ritgerð er að ræða. Séu tveir eða fleiri fastir kennarar í deildinni leiðbeinendur nemandans við gerð 30 eininga ritgerðar leggja þeir allir mat á ritgerðina auk prófdómara. Vægi mats prófdómara skal þó ávallt vera 50%. [Kennslunefnd]2 tilnefnir prófdómara. Hún getur falið umsjónarmanni námsbrautar í meistaranámi þetta hlutverk gagnvart nemendum viðkomandi námsbrautar.
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 95/2012.
2Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1257/2017.

16. gr.  Sérreglur Lagadeildar.

Meistaranám í Lagadeild er framhaldsnám í lögfræði og er jafngilt námi til embættis- eða kandídatsprófs. Námið er samtals 120 einingar og skiptist þannig að ljúka skal 90 einingum í kjörgreinum og að auki 30 einingum í formi lokaritgerðar. Sá sem hefur lokið meistaraprófi við Lagadeild ber próftitilinn magister juris (mag. jur.).

Inntökuskilyrði í meistaranám við Lagadeild (mag. jur.) er BA-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands eða sambærilegt nám sem lokið er með BA-prófi í lögfræði frá öðrum háskóla.

Rannsóknanámsnefnd, sbr. 2. gr., setur almennar reglur um námsefni og námskröfur í einstökum kjörgreinum í hinu almenna meistaranámi í deildinni og ber að leita umsagnar hennar áður en tekin er ákvörðun um að hefja kennslu í nýrri kjörgrein í því námi. Umsjónarkennari með námsgrein ber ábyrgð á gæðum kennslu og prófum í henni gagnvart Lagadeild í samræmi við reglur deildarinnar um hlutverk og verkefni umsjónarkennara frá 10. desember 2002.

Að öðru leyti gilda um meistaranám í Lagadeild frekari sérreglur sem deildin setur og eru í gildi á hverjum tíma.

17. gr.  Sérreglur Stjórnmálafræðideildar.

Umsækjendur um meistaranám í alþjóðasamskiptum, Evrópufræðum, kynjafræði og opinberri stjórnsýslu skulu að jafnaði hafa lokið BA-, BS- eða B.Ed.-prófi frá Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi, með fyrstu einkunn. Umsækjendur um meistaranám í stjórnmálafræði skulu hafa lokið BA-prófi í stjórnmálafræði eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn.

Umsækjendur um diplómanám skulu að jafnaði hafa lokið BA-, BS- eða B.Ed.-prófi frá Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi.

18. gr.  Sérreglur Viðskiptafræðideildar.

[Í Viðskiptafræðideild starfar meistaranámsnefnd sem hefur yfirumsjón með MS- og MA-námi innan deildarinnar.]1 Hlutverk hennar er m.a. að fjalla um umsóknir, hafa eftirlit með gæðum kennslu og sinna öðrum málum sem deild kann að fela henni. Stjórn Viðskiptafræðistofnunar hefur yfirumsjón með MBA-námi í umboði deildar.

Í meistaranámi í fjármálun fyrirtækja, viðskiptafræði, skattarétti og reikningskilum og reikningsskilum og endurskoðun [...]1 gildir að jafnaði að nemendur verða að hafa lokið BS-námi í viðskiptafræði eða sambærilegu námi með fyrstu einkunn (7,25).

Í meistaranámi í mannauðsstjórnun, markaðsfræði [...]1 og stjórnun og stefnumótun er að jafnaði krafist fyrstu einkunnar (7,25) úr fyrsta háskólaprófi til þess að fá inngöngu í námið. [Heimilt er að krefjast þess að einstakir nemendur sæki undirbúningsnám til að fá inngöngu í MS-nám.]1 Undirbúningsnámskeiðin eru ekki hluti af meistaranáminu. Nemendur fá ekki námskeið í grunnnámi metin til meistaraprófs. Aðalleiðbeinandi skal vera fastráðinn kennari við deildina. Heimilt er að hafa utanaðkomandi meðleiðbeinanda.

Viðskiptafræðideild er heimilt með samþykki háskólaráðs að veita prófgráðuna MBA að loknu 90 eininga námi á vegum deildarinnar, sbr. 96. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Við inntöku í MBA-nám skal nemandi hafa lokið fyrstu háskólagráðu eða samsvarandi og að jafnaði hafa þriggja ára starfsreynslu. Stjórn Viðskiptafræðistofnunar, sem skipuð er á deildarfundi, sér um framkvæmd námsins. Deildarfundur Viðskiptafræðideildar samþykkir nánari reglur um inntökuskilyrði, námsleiðir og námskröfur.

Meistaranám í Viðskiptafræðideild er ýmist 90 eða 120 einingar. [...]2 Nemendur í MA-námi í skattarétti og reiknings­skilum, sem boðið er upp á í samstarfi við Lagadeild, [skrifa 30 eininga ritgerð.]1

[Nemendur í MS-námi í reikningshaldi og endurskoðun geta skrifað ritgerð tveir saman, samtals 60 ECTS, sem skiptast jafnt á milli þeirra.]2

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 115/2022.
2Breytt með 2. gr. rgl. nr. 736/2022.

19. gr.  Reglustoð og gildistaka.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sbr. einnig 69. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar hafa verið samþykktar af Félags- og mannvísindadeild, Félags­ráð­gjafar­deild, Hagfræðideild, Lagadeild, Stjórnmálafræðideild og Viðskiptafræðideild og stjórn Félagsvísindasviðs að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast gildi 1. júlí 2011. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr.  260/2004, reglur nr. 891/2007 og reglur nr. 595/2006.

Háskóla Íslands, 22. júní 2011