Frá HÍ og LSH vegna birtingar skýrslu um plastbarkamálið | Háskóli Íslands Skip to main content
6. nóvember 2017

Frá HÍ og LSH vegna birtingar skýrslu um plastbarkamálið

Viðamikil skýrsla hinnar óháðu rannsóknarnefndar Háskóla Íslands og Landspítala um plastbarkamálið varpar skýru ljósi á alvarlegar aðstæður og fyrirkomulag við Karólínska sjúkrahúsið (KS) og Karólínsku stofnunina (KI) í Svíþjóð. Með uppbyggingu miðstöðvar fyrir háþróaðar öndunarvegarannsóknir, með áherslu á framsæknar aðgerðir, var lífi þriggja sjúklinga á KS stofnað í mikla hættu á kerfisbundinn hátt og eru þeir nú allir látnir.

Í kjölfar birtingar á niðurstöðu rannsókna óháðra aðila á málinu, sem KS annars vegar og KI hins vegar óskuðu eftir, var það mat rektors Háskóla Íslands og forstjóra Landspítala að nauðsynlegt væri að efna til sambærilegrar rannsóknar á þeim þætti málsins sem laut að Íslandi. Rannsóknarnefndinni var m.a. ætlað að veita rökstutt álit á því hvort ákvarðanir íslenskra heilbrigðisstarfsmanna á Landspítala í tengslum við málið hafi verið í samræmi við lög, reglur og verkferla. Þá var það hlutverk nefndarinnar að rannsaka lagalegan og siðferðilegan grundvöll fyrir þátttöku íslenskra lækna í ritun og birtingu greinar um efnið í vísindatímaritinu Lancet í nóvember 2011 og fyrir málþingi sem var haldið í Háskóla Íslands sumarið 2012.

Í skýrslunni kemur fram að tilteknir starfsmenn við Háskóla Íslands og Landspítala hafi dregist inn í málið á árinu 2011 þegar sjúklingur við Landspítala fór til rannsóknar í Svíþjóð vegna krabbameins í barka. Eftir komu til Svíþjóðar veitti sjúklingurinn sem um ræðir lækni við sænska sjúkrahúsið samþykki fyrir því að þar fengi hann læknismeðferð sem fólst í að í hann yrði græddur gervibarki. Sú aðgerð leiddi ekki til bata sjúklingsins og lést hann á KS í janúar 2014. Þá er talið að á þeim tíma sem aðgerðin var framkvæmd hafi ekki legið fyrir vísindalegur grundvöllur fyrir þeirri aðferð að græða í fólk gervibarka. Hugmynd um það hafi ekki aðeins stangast á við vísindi og reynslu heldur hafi jafnframt verið of snemmt að gera tilraunir með slíkt á mönnum.

Málið í heild sýnir mikilvægi þess að tilraunir í vísindum og lækningum sæti faglegri gagnrýni á hverjum tíma og að fylgt sé viðeigandi verkferlum og siða- og lagareglum. Fyrir Háskóla Íslands, Landspítala sem háskólasjúkrahús, íslenskt fræðasamfélag og þá starfsmenn sem um ræðir er mikilvægt að læra af þeim mistökum sem í ljós hafa komið að gerð voru í plastbarkamálinu.

Enda þótt þegar hafi ýmsum verkferlum og skipulagi verið breytt dregur skýrslan fram nýjar, mikilvægar upplýsingar. Landspítali og Háskóli Íslands líta málið alvarlegum augum. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar er mikilvægt innlegg í innri endurskoðun og greiningu á ábyrgð ásamt umbótum á verklagi og lögum og bættu siðferði. Verkefni og ábyrgð Landspítala og Háskóla Íslands og sérstaða þeirra í samfélaginu krefjast þess að stofnanirnar læri af mistökum sem gerð hafa verið í plastbarkamálinu, bæði í Svíþjóð og hér á landi, og upplýsi almenning um vinnu sína og áfanga í því efni. Stofnanirnar munu vinna saman að því markmiði og taka nú þegar til skoðunar hvernig bregðast eigi við efni skýrslunnar.

Reykjavík, mánudaginn 6. nóvember, 2017

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala

Páll Matthíasson og Jón Atli Benediktsson