
Hagnýt atferlisgreining
120 einingar - Meistarapróf gráða
Hagnýt atferlisgreining er vísindagrein sem fjallar um hegðun og samspil hennar við umhverfið og um það hvernig hegðun lærist. Viðfangsefni hennar eru grunnlögmál hegðunar og hvernig hægt er að beita þeim á markvissan hátt til að hafa jákvæð áhrif á nám og hegðun. Notaðar eru gagnreyndar aðferðir og áhersla lögð á að meta og mæla árangur af kennslu eða íhlutun.

Af hverju að velja nám í hagnýtri atferlisgreiningu?
Markmiðið er að mennta fagfólk með sérþekkingu og færni til að beita atferlisgreiningu á árangursríkan hátt í starfi. Megináhersla er lögð á að veita nemendum hagnýta þekkingu og starfsþjálfun sem býr þá undir störf með fjölbreyttum hópum og einstaklingum, þar á meðal börnum með hegðunarerfiðleika, námserfiðleika, einhverfu og/eða þroskafrávik. Að námi loknu munu nemendur meðal annars hafa góða þekkingu á hugmyndafræði og aðferðum atferlisgreiningar til að starfa bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra fagaðila.
Námið er þverfræðilegt og skipulagt í samstarfi Sálfræðideildar og Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.

Fyrir hvern er námið?
Námið er ætlað áhugasömum nemendum sem eru með grunnháskólagráðu í sálfræði eða á sviði menntunar-, uppeldis- eða kennslufræði. Í náminu eru kenndar lausnamiðaðar og árangursríkar aðferðir sem stuðla að bættri hegðun, líðan og námsframvindu hjá fjölbreyttum hópi. Nemendur læra markvissar og áhrifaríkar leiðir til að mæla og meta, fyrirbyggja og leysa ýmiskonar vanda sem tengist námi, hegðun og aðlögun.
Skilyrði til inngöngu í meistaranám í hagnýtri atferlisgreiningu er að hafa lokið bakkalárprófi á sviði sálfræði eða á sviði menntunar-, uppeldis- eða kennslufræði. Umsóknir nemenda með annars konar grunnpróf verða skoðaðar með tilliti til starfssviðs og reynslu viðkomandi. Komi til fjöldatakmörkunar í námið njóta þeir sem hafa starfsreynslu forgangs.