Skip to main content

Grunnskólakennarafræði - Aukagrein

Grunnskólakennarafræði - Aukagrein

Menntavísindasvið

Grunnskólakennarafræði

Aukagrein – 60 einingar

Aukagreinin er fyrir nema í grunnnámi í öðrum deildum sem vilja kynnast kennslufræði grunnskóla og fá innsýn í þann fræðilega og hagnýta grunn sem kennarastarfið byggir á. Þeir sem ljúka 60 einingum í grunnskólakennarafræði sem aukagrein, geta sótt um meistaranám í kennslufræði yngri barna grunnskóla. 

Skipulag náms

X

Þroska- og námssálarfræði (KME301G)

Tilgangur þessa námskeiðs er að nemendur öðlist heildarsýn á þroska barna frá fæðingu og fram á unglingsár.

Inntak/viðfangsefni:
Fjallað verður um þær breytingar sem verða á þroska barna á mismunandi sviðum og aldursskeiðum og helstu kenningar sem notaðar hafa verið til að varpa ljósi á þessar breytingar. Fjallað verður um vitsmunaþroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningalegra tengsla, félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar. Námskenningum og vistfræðilegum kenningum (ecological approach) verður einnig gerð skil. Rætt verður um orsakir og eðli einstaklingsmunar, samfellu í þroska og sveigjanleika þroskaferlisins. Tengsl náms og þroska, áhugahvöt og áhrif uppeldis, menningar og félagslegra aðstæðna á þroska barna verða einnig til umfjöllunar. Áhersla verður lögð á gildi þroskasálfræðinnar í uppeldis- og skólastarfi.

Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðu/verkefnatímum. Í umræðu/verkefnatímum fá nemendur þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt.

X

Inngangur að kennslufræði grunnskóla (KME102G)

Um er að ræða inngangsnámskeið í kennslufræði, ætlað verðandi grunnskólakennurum. Hér eru hugmyndir, aðferðir og hugtök kynnt til sögunnar, sem fá svo ítarlegri umfjöllun og meðferð í síðari kennslufræðinámskeiðum (NK-námskeiðum). Meginmarkmið er að veita nemendum innsýn í kenningar og rannsóknir um nám og kennslu í skóla án aðgreiningar, auk þess að gefa mynd af störfum og starfsumhverfi grunnskólakennara. Áhersla er lögð á tengsl við starfsvettvang og að nemendur tengi viðfangsefni námskeiðsins eigin reynslu og viðhorfum og leggi grunn að eigin starfskenningu. Mikilvægar hugmyndir, hugtök og viðfangsefni: Námskenningar, menntarannsóknir, nám-nemandi-námsaðstæður, kennsluhættir og kennsluáætlanir, samskipti og samstarf, kennarinn sem fagmanneskja, starfskenning og starfsuhverfi kennara, lagarammi, reglugerðir og námskrár sem snerta skyldunám.

Vinnulag: Fyrirlestrar, málstofur, skapandi viðfangsefni og margvísleg verkefni unnin einstaklingslega eða í samvinnu við aðra. Tengsl við vettvang.

X

Íslenska í skólastarfi I (ÍET103G)

Í námskeiðinu verður fjallað um íslenska menningu og bókmenntir í víðum skilningi og þátt þeirra í almennri málnotkun sem og í málheimi ólíkra faggreina innan skólakerfisins.

Fengist verður við grundvallarhugtök í bókmenntafræði, orðræðugreiningu og menningarfræði og gefin dæmi um fjölbreyttar leiðir og miðla við kennslu sem stuðla að skilningi og áhuga grunnskólanema á eigin menningu og annarra.

Kennaranemar fá tækifæri til að lesa fagurbókmenntatexta úr fortíð og nútíð og setja í samhengi við eigin reynsluheim og kennslu ólíkra faggreina í framtíðinni.

Fjallað verður um fjölbreytta texta, jafnt fagurbókmenntir sem nytjatexta og afþreyingartexta, með það að markmiði að nemendur geri sér grein fyrir því að tungumálið er það verkfæri sem við notum í öllu okkar daglega lífi og námi þvert á námsgreinar. Í námskeiðinu verður leitast við að greina þau djúpu lög merkingar sem finna má í ólíkum textum og búa nemendum í hendur verkfæri til að greina texta í umhverfi sínu á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt.

Í fyrirlestrum kennara og verkefnum kennaranema verður sjónum beint að því hvernig samþætta má ólíkar námsgreinar grunnskólanna. Þannig verður einblínt á þann þátt kennarastarfsins sem felur í sér að kenna ólíkar námsgreinar á íslensku. Nemendum gefst því tækifæri til að ígrunda þátt tungumálsins í ólíkum greinum, t.d. samfélagsfræði, stærðfræði og raungreinum, erlendum tungumálum, og ekki síst í listgreinum, t.a.m. myndmennt og leiklist.

X

Stærðfræði I (SNU101G)

Á námskeiðinu kynnast kennaranemar meginmarkmiðum náms í stærðfræði í grunnskóla. Fjallað er um hvað felst í stærðfræðinámi og hvernig styðja má grunnskólanemendur við stærðfræðinám.

Nemendur læri hvernig fjölbreyttar leiðir í kennslu geta stuðlað að því að skilningur nemenda á stærðfræðilegum hugtökum styrkist.

Fjallað verður um hlutverk stærðfræðikennarans og hæfni sem hann þarf að búa yfir.

Nemar kynnast beitingu upplýsingatækni við nám og kennslu.

X

Kennslufræði grunnskóla (KME206G)

Námskeiðið miðar að því að kennaranemar öðlist þekkingu og leikni í almennri kennslufræði og hæfni til að kenna grunnskólanemendum.

  • Áhersla er á kennsluhætti og kennsluaðferðir í grunnskólum, námsumhverfi og bekkjarstjórnun, og leitað er svara við spurningunni um hvað einkenni árangursríka kennslu.
  • Athygli er beint að einkennum aldursstiga grunnskóla, yngsta- mið- og efsta stigi eða unglingastigi, og kynntar leiðir til að örva þroska og koma til móts við ólíkar þarfir nemenda í skóla án aðgreiningar.
  • Fjallað verður um samvinnu og samskipti nemenda, teymisvinnu og teymiskennslu kennara, en einnig tengsl heimila og skóla og þátttöku foreldra í námi barna sinna.
  • Kennaranemar fá þjálfun í framsögn og raddvernd, tjáningu og framkomu.
  • Með vettvangsnámi fær kennaranemi æfingu í að skipuleggja fjölbreytt nám, útfæra kennsluaðferðir, nýta upplýsingatækni og leggja mat á reynslu sína.
X

Læsi og lestrarkennsla (KME204G)

Á námskeiðinu verður stefnt að því að nemar öðlist góða þekkingu á grundvallaratriðum læsis, og þróun þess frá upphafi til loka grunnskóla. Fjallað verður um nám og kennslu í lestri og ritun, um áhrif tvítyngis á læsi, lestrarörðugleika og úrræði við þeim. Veitt verður innsýn í fræðilegar undirstöður lesskilnings og fjallað á hagnýtan hátt um kennsluaðferðir, lestrarhvatningu, val á lesefni, gagnrýninn lestur og lestur á rafrænum miðlum og neti.

Sýnd verða dæmi um kennslu og kennsluaðferðir í lestri, lesskilningi og ritun, og nemendur hvattir til að leita leiða til að auka færni nemenda sinna og lestrargleði. Skoðað verður hvaða lesefni er gefið út handa nemendum grunnskóla, og hvernig unnt er að nota það nemendum til gagns og gleði.

Í lok námskeiðs er þess vænst að nemendur hafi öðlast fræðilega og hagnýta þekkingu til að geta gefið framtíðarnemendum sínum þann stuðning sem þarf til að þeir taki stöðugum framförum í læsi, frá æsku til fullorðinsára.

X

Stærðfræði II (SNU204G)

Á námskeiðinu styrkja nemar tök sín á völdum þáttum úr stærðfræði, þar á meðal talnafræði og rúmfræði. Jafnframt er fjallað um talnaritun og reikning.

Áhersla er lögð á fjölbreytni og sjálfstæði í leit að lausnum á stærðfræðilegum þrautum. Nemendur kynnist því  hvernig fjölbreyttar leiðir í kennslu geta stuðlað að auknum skilningi nemenda á stærðfræðilegum hugtökum.

X

Íslenska í skólastarfi II (ÍET204G)

Í námskeiðinu verður íslenska og fjölbreyttar birtingarmyndir hennar í forgrunni, með sérstaka áherslu á notkun hennar innan skólastofunnar óháð faggrein, en einnig verður horft til þess hvað einkennir mál hverrar faggreinar og orðaforða hennar.  

 

Fjallað verður um mál kennaranema sjálfra og hvernig þeir lærðu það. Einnig verður komið inn á málnotkun kennaranema og hvernig þeir laga sig að aðstæðum, hvort sem er í óformlegu spjalli á samfélagsmiðlum eða í formlegri ritun, og það sett í samhengi við þau málsnið sem kennari þarf að nota þegar hann talar við nemendur við ólíkar aðstæður. Í tengslum við það fá kennaranemar þjálfun í að fjalla um eigin málnotkun og annarra með viðeigandi hugtökum.

 

Orðaforði málsins og þrískipting hans verður til sérstakrar umfjöllunar, þar sem lagt verður upp úr því að tengja við hugtakanotkun og málfar ólíkra námsgreina grunnskólans og kennslu þeirra, og þá ekki hvað síst með tilliti til ólíkrar getu grunnskólanema í tungumálinu, hvort sem um er að ræða nemendur með íslensku sem fyrsta eða annað mál.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Andri Rafn Ottesen
Guðjón Ingimundarson
Dóra Björk Ólafsdóttir
Andri Rafn Ottesen
Kennsla samfélagsgreina

Besta ákvörðun sem ég hef tekið var að fara í kennaranám og meistaranámið er þar engin undantekning. Námið er bæði gagnlegt og skemmtilegt og hefur gert mig að betri námsmanni og persónu. Meistaranámið gefur aukinn og dýpri skilning í eitt mest gefandi starf sem fyrirfinnst.

Guðjón Ingimundarson
Grunnskólakennsla með áherslu á íslensku

Að mennta sig sjálfan eða einhvern annan, er styrking í svo marga staði. Það er ákaflega gefandi að sjá unga fólkið bæta sig meir og meir, sama hvort það sé bóklega, verklega eða andlega. Að móta komandi kynslóðir fyrir okkar samfélag eru forréttindi. Sama hversu stór partur maður er af ferlinu. Námið opnar svo margar hurðir og eru kennarar við Háskóla Íslands alltaf reiðubúnir að sýna þér hvað liggur á bakvið þær.

Dóra Björk Ólafsdóttir
Grunnskólakennsla með áherslu á náttúrugreinar

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á náttúruvísindum og þótti því tilvalið að miðla mínum áhuga til komandi kynslóða. Námið býður upp góða starfsmöguleika og starfið er spennandi. Boðið er upp á fjölbreytta og skemmtilega áfanga og eru þeir góður grunnur fyrir kennarastarfið.

Hafðu samband

1. hæð, Stakkahlíð – Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.