Skip to main content
15. apríl 2015

Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands

""

Líftæknifyrirtækið Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2015 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi fimmtudaginn 9. apríl. Fyrirtækið grundvallast á áratuga rannsóknum við Háskóla Íslands á meltingarensímum úr þorski og hagnýtingu þeirra í lækningavörur og snyrtivörur á markaði. 

Zymetech var stofnað árið 1999 og byggist á rannsóknum Ágústu Guðmundsdóttur, prófessors við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, og Jóns Braga Bjarnasonar heitins, prófessors í lífefnafræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. 

„Zymetech nýtir meltingarensím úr Norður-Atlantshafsþorski og hefur tekist að skapa verðmæta viðbótarafurð úr hráefni sem í gegnum tíðina hefur að langmestu leyti verið fargað. Þannig hefur fyrirtækið þróað afurð sem margfaldar virði þorsksins. Mikil rannsóknarvinna liggur að baki þeirri tækni sem tryggir virkni ensímanna og viðheldur stöðugleika þeirra. Byggt á þessari tækni hefur Zymetech þróað efnablönduna Penzyme®, sem er virka efnið í vörum fyrirtækisins,“ segir á vef Rannís um Zymetech.

Meðal vara fyrirtækisins eru ýmiss konar húð- og snyrtivörur auk Penzim húðáburðarins sem er sennilega þekktasta varan hér á landi. Nýverið setti Zymetech á markað lækningavöruna PreCold, munnúða sem ætlað er að vinna gegn kvefi. Klínískar rannsóknir hafa  sýnt að fækka má veikindadögum umtalsvert með því að nota munnúðann gegn einkennum kvefs. Enn fremur vinnur Zymetech að þróun lækningavara gegn bakteríusýkingum, húðkvillum á borð við útbrot, sprungna húð og til sáragræðinga. 

Ágústa Guðmundsdóttir hefur starfað sem rannsóknastjóri Zymetech samhliða störfum sínum við Háskóla Íslands og hefur ásamt öðru starfsfólki Zymetech byggt upp afar öflugt líftæknifyrirtæki. Zymetech hefur átt gott samstarf við Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahús, m.a. um öflun rannsóknastyrkja, menntun framhaldsnema og birtingu vísindagreina. Segir á vef Rannís að samstarfið sé „gott dæmi um hvernig háskólar og rannsóknarstofnanir geta stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi með stuðningi rannsóknarsjóða.“

Á Nýsköpunarþingi 9. apríl veitti Ágústa Nýsköpunarverðlaununum viðtöku. Þar þakkaði hún fjölmörgum aðilum sem skipt hafa miklu máli fyrir uppgang fyrirtækisins, þar á meðal samstarfsfólki sínu hjá Zymetech, sjóðum Rannís og AVS rannsóknasjóðnum. „Ég vil einnig þakka Háskóla Íslands og Landspítala -  háskólasjúkrahúsi fyrir gott samstarf. Sérstaklega nefni ég samstarfsaðila okkar Jóns Braga Bjarnasonar heitins í rannsóknum á Raunvísindastofnun og síðar mínum samstarfsmönnum í Lífvísindasetri Læknagarði,“ sagði Ágústa.

Hún benti enn fremur á að fyrir um fjórum árum hefðu aðstandendur Zymetech hafið undirbúning að vexti fyrirtækisins með styrkingu innviða, eflingu gæðamála, rannsókna og þróunar. „Við fengum til liðs við okkur öfluga einstaklinga með menntum og reynslu af alþjóðaviðskiptum og til að efla fyrirtækið enn frekar höfum við nýlega fengið til liðs við okkur öfluga stjórn og alþjóðlegt vísindaráð. Ný stefna var mótuð með áherslu á CE merktar skráðar lækningavörur, grundvallaðar á rannsóknum okkar,“ sagði Ágústa. Hún vakti enn fremur athygli á því að vörum Zymetech hefði verið vel tekið á þeim mörkuðum þar sem þær hafa verið seldar. ColdZyme væri nú til að mynda veltumesta kvefvaran í Svíþjóð. 

Ágústa fjallaði um tilurð og vöxt Zymetech og tengsl þess við grunnrannsóknir í háskólanum í erindi í Hátíðasal Háskóla Íslands í nóvember síðastliðnum. Erindið var liður í fyrirlestraröðinni Vísindi á mannamáli sem Háskóli Íslands stendur fyrir. Upptöku af erindi Ágústu má sjá hér að neðan.

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt árlega, en að þeim standa Rannís, Íslandsstofa, Nýsköpunarsjóður og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

Ágústa Guðmundsdóttir, rannsóknastjóri Zymetech og prófessor við Háskóla Íslands, tekur við Nýsköpunarverðlaunum Íslands úr hendi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.